Morgunblaðið - 03.11.2005, Page 38
38 FIMMTUDAGUR 3. NÓVEMBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ
UMRÆÐAN
SJÖTTA október sl. var haldinn
stofnfundur samtakanna Flugkef.
Samtökin Flugkef eru þverpólitísk
samtök í Reykjanesbæ sem ætla að
beita sér fyrir því að verði miðstöð
innanlandsflugs flutt úr Vatnsmýr-
inni verði það til Keflavíkur. Mark-
mið félagsins er að sýna fram á að
flutningur miðstöðvar innanlands-
flugsins til Keflavíkur, samhliða
samgöngubótum milli Keflavík-
urflugvallar og miðborgar Reykja-
víkur, sé hagkvæmur kostur fyrir
alla landsmenn og vel sé hægt að ná
þjóðarsátt um málið.
Sparast allt að 1.700
milljónir á hverju ári?
Á stofnfundi samtakanna kom
fram að verði ákveðið að byggja
nýjan flugvöll í næsta nágrenni
Reykjavíkur fyrir 8–12 milljarða
gæti það kostað ríkissjóð allt að
1.700 milljónir á hverju ári að reka
slíkan flugvöll fyrir utan nauðsynleg
samgöngumannvirki. Þessir út-
reikningar eru ekki byggðir á ná-
kvæmri kostnaðaráætlun heldur er
þetta nálgun og ber að höndla það
sem slíkt. Það má hins vegar vera
ljóst að það er skylda samgöngu-
yfirvalda að taka tillit til þessa
þegar verið er að meta valkosti við
staðsetningu miðstöðvar innan-
landsflugs.
Tækifæri til uppbyggingar
á landsbyggðinni
Tækifæri landsbyggðarinnar við
flutning miðstöðvar innanlandsflugs
til Keflavíkur eru fjölmörg. Ef við
gefum okkur það að það reynist rétt
að hægt sé að spara 1.700 milljónir
á ári með flutningi innanlandsflugs
til Keflavíkur. Er þá ekki rétt að
spyrja hvernig beri að ráðstafa
þessu fé. Að mínu mati kæmi vel til
greina að fjárfesta í samgöngu-
bótum eða aukinni fjarskiptaþjón-
ustu á landsbyggðinni. Auk þess fel-
ast fjölmörg önnur tækifæri í
flutningnum. Allt árið 2005 er gert
ráð fyrir að opinber gjöld sem flug-
farþegar um Keflavíkurflugvöll
greiði muni nema rúmum 2 millj-
örðum króna. Þessi gjöld eru hluti
af verði flugfarmiðans sem allir
ferðamenn greiða ætli þeir sér að
ferðast um Keflavíkurflugvöll. Stór
hluti þessarar fjárhæðar rennur til
Flugmálastjórnar Íslands eða tæpar
800 milljónir sem eru einkum not-
aðar til reksturs flugvalla fyrir inn-
anlandsflug og viðhalds alþjóðlegra
varaflugvalla á Íslandi. Ætla má að
flytjist innanlandsflug til Keflavíkur
muni skapast tækifæri til að lækka
þessi gjöld og þ.m. lækka flugfar-
miða.
Þetta hlýtur að vera eitt af því
sem taka verður með í reikninginn
þegar málið er skoðað í heild sinni
af samgönguyfirvöldum. Með lækk-
uðu verði skapast tækifæri til að
fjölga ferðamönnum til landsins og
bjóða þeim þá beint flug út á land
án viðkomu í Reykjavík. Þannig má
gera ráð fyrir að rekstur innan-
landsflugs verði traustari auk þess
sem ferðaþjónusta á landsbyggðinni
nyti góðs af. Þá er ljóst að þeir sem
búa á landsbyggðinni og ætla sér að
ferðast til útlanda munu einnig
njóta góðs af flutningnum, bæði
hvað varðar ferðatíma og kostnað.
Innanlandsflug til
Keflavíkur – ný tækifæri
fyrir landsbyggðina
Eysteinn Eyjólfsson, Eysteinn
Jónsson, Viktor B. Kjartansson
og Páll Ketilsson fjalla um
flugvallarmál
’Með lækkuðu verðiskapast tækifæri til að
fjölga ferðamönnum
til landsins og bjóða
þeim þá beint flug út á
land án viðkomu í
Reykjavík.‘
Frá vinstri: Eysteinn Eyjólfsson, Eysteinn Jónsson, Viktor B. Kjartansson
og Páll Ketilsson.
Eysteinn Eyjólfsson er formaður
Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ,
Eysteinn Jónsson er formaður Full-
trúaráðs Framsóknarfélaganna í
Reykjanesbæ .Viktor er formaður
Fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í
Reykjanesbæ. Páll er formaður sam-
takanna Flugke. Þeir sitja allir í
stjórn samtakanna Flugkef .
Í TÍMARITI Morgunblaðsins
hinn 18. september sl. skrifar Stein-
unn Ólína ágætan pistil frá Banda-
ríkjunum þar sem hún segir m.a. frá
skóla dóttur sinnar og
þeim margbreytileika í
mannlífi sem þar fyr-
irfinnst. Steinunn segir
það vera „… brott-
rekstrarsök að gera
grín eða hæðast að öðr-
um vegna útlits, kyn-
þáttar, trúarbragða eða
kynhneigðar foreldra“.
Vöktu þessi orð
Steinunnar Ólínu at-
hygli mína í ljósi þeirrar
umræðu sem fram fór
hér á landi sl. vetur þeg-
ar félagið Siðmennt
gerði athugasemdir við óeðlileg
tengsl stærsta trúfélagsins í landinu
og skóla. Í þeirri umræðu komu
fram fjölmörg dæmi sem sýna að í
mörgum skólum er það beinlínis
óæskilegt að skera sig úr fjöldanum,
ekki síst þegar um trúmál er að
ræða. Sem kennari í grunnskóla fæ
ég fjölda athugasemda frá nem-
endum og foreldrum sem leita til
mín og telja sig ekki njóta réttlætis í
skólunum vegna trúar- eða lífsskoð-
ana. Nemendum er t.d. víða gert að
taka þátt í trúarlífi eins og kirkju-
ferðum og bænahaldi á skólatíma og
oft án þess að fyrir liggi samþykki
foreldra.
Í aðalnámskrá grunnskóla kemur
skýrt fram að viðfangsefni nemenda
í skólum landsins skuli „… höfða
jafnt til drengja og stúlkna, nem-
enda í dreifibýli sem þéttbýli og fatl-
aðra og ófatlaðra óháð uppruna, trú
og litarhætti“. (Almennur hluti bls.
16.)
Síðastliðinn vetur
var sýnt fram á með
fjölmörgum dæmum
að á þessu er víða
nokkur misbrestur.
Hluta af þessum dæm-
um má finna á vef Sið-
menntar (www.Sid-
mennt.is).
Sem betur fer á sér
stað nokkur umræða
um mikilvægi þess að
virða margbreytileika
mannlífsins í skól-
unum og í nýjasta
hefti Skólavörðunnar,
blaði Kennarasambands Íslands,
skrifar Hanna Ragnarsdóttir lektor
við Kennaraháskóla Íslands grein
um mikilvægi þess að mæta fjöl-
breyttum nemendahópi þar sem
m.a. fyrirfinnast mismunandi trúar-
og lífsskoðanir. Reykjavíkurborg
hefur einnig mótað svokallaða fjöl-
menningarstefnu þar sem segir að
stofnunum borgarinnar sé gert að
laga sig að fjölmenningarlegu sam-
félagi.
Þrátt fyrir góðan vilja og fögur
orð fólks úr ýmsum áttum er svo
sannarlega á brattann að sækja svo
að jafnrétti verði náð og eftir þá um-
ræðu sem átti sér stað sl. vetur verð-
ur fróðlegt að sjá hver staðan í þess-
um málum verður í vetur í skólum
landsins.
Þegar rætt er um fjölmenningu
og fordóma í skólunum er iðulega
rætt um fordóma gagnvart mis-
munandi kynþáttum sem vissulega
er hið besta mál, en það gleymist
mjög oft hvort mögulegt sé að skól-
arnir séu jafnvel að ýta undir for-
dóma gagnvart þeim sem ekki trúa
á guð, ekki tilheyra stærsta trú-
félaginu í landinu og ekki ætla að
fermast eða ætla sér að fermast
borgaralega.
Íslenska þjóðkirkjan sækir það
mjög stíft að komast með boðskap
sinn inn í skóla og leikskóla enda
engin furða þar sem kirkjunnar
menn hafa sagt að ekki séu til störf
fyrir alla þá sem útskrifast sem
guðfræðingar eða djáknar og þessi
störf þurfi því meðal annars að búa
til innan skólanna. Þetta meinta at-
vinnuleysi guðfræðinga og djákna
bitnar því á okkur og börnunum
okkar sem ekki tilheyrum þjóð-
kirkjunni. Skilaboðin er þau að láta
skuli trú- og skoðanafrelsi, umburð-
arlyndi og heiðarleg samskipti lönd
og leið, það verður að koma í veg
fyrir atvinnuleysi guðfræðinga og
djákna.
Hvernig skóla ætlum við að bjóða
æsku landsins? Ætlum við að láta
það viðgangast að hluti nemenda sé
látinn bíða afskiptalaus frammi á
gangi eða inni á bókasöfnum á með-
an meirihlutinn er í dagskrá hjá
trúfélagi eða trúboðssinnuðum
kennurum? Ætlum við að láta það
viðgangast að nemendum sé sagt að
það sé skylda að mæta til kirkju í
desember eins og alþekkt er burt-
séð frá trúarskoðunum einstakling-
anna? Ætlum við að láta ofsatrúaða
kennara skikka börnin okkar til
þess að fara með bænir án þess að
hafa til þess nokkurt leyfi forráða-
manna? Verður fjölmenning-
arstefna Reykjavíkurborgar enn
eitt árið marklaust plagg? Þessum
spurningum verða skólastjórn-
endur og yfirvöld menntamála að
svara. Við sem eigum börn í skól-
unum eigum heimtingu á að fá skýr
svör við því hvernig þessum málum
verður háttað í skólum landsins og
hvort enn eitt árið ætli yfirvöld
menntamála að dansa með í um-
burðarlausu trúboði eða umbera og
virða fjölbreytt mannlíf í skólunum.
Skólastarf, trú og
fjölbreytt mannlíf
Jóhann Björnsson
fjallar um trúarbrögð
og fjölmenningarstefnu
’Verður fjölmenningar-stefna Reykjavíkur-
borgar enn eitt árið
marklaust plagg?‘
Jóhann Björnsson
Höfundur er kennari og
stjórnarmaður í Siðmennt.
SAMKVÆMT 19. grein laga
um fæðingar- og foreldraorlof
(nr. 95 frá árinu 2000) eiga „for-
eldrar sem hafa verið í fullu námi
í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12
mánuðum fyrir fæðingu barns …
sjálfstæðan rétt til
fæðingarstyrks í allt
að þrjá mánuði,
hvort um sig“. Upp-
hæð fæðingarstyrks
til námsmanna er
rúmlega 90 þúsund
krónur á mánuði.
Allt virðist þetta
nú gott og blessað
og vafalaust njóta
margir námsmenn
góðs af. En samt fá
sumir ekki helming-
inn af þessu fé þótt
þeir eignist barn og
hafi verið í fullu
námi í meira en hálft
ár þar á undan.
Þessu veldur und-
arlegt ákvæði í
reglugerð með lög-
unum (nr. 1056 frá
árinu 2004) þar sem
segir: „Fullt nám í
skilningi laga um
fæðingar- og for-
eldraorlof og reglu-
gerðar þessarar telst
vera 75–100% sam-
fellt nám í við-
urkenndri mennta-
stofnun…Leggja
skal fram staðfest-
ingu frá viðkomandi
skóla um að foreldri hafi verið
skráð í 75–100% nám og hafi sýnt
viðunandi námsárangur.“
Tryggingastofnun ríkisins hef-
ur túlkað orðalagið „viðunandi
námsárangur“ svo að nemandi í
framhaldsskóla þurfi að standast
próf í að minnsta kosti 13 ein-
ingum á önn. Algengt er að nem-
endur í fullu námi í framhalds-
skóla taki sex þriggja eininga
áfanga á hverri önn, eða alls 18
einingar. Nemandi sem á von á
barni, stundar fullt nám og fellur
í tveim áföngum og stenst próf í
fjórum, fær því aðeins lágmarks-
fæðingarstyrk sem er rúmlega 40
þúsund krónur á mánuði. Standist
hin verðandi móðir eða faðir hins
vegar próf í fimm áföngum fær
hún eða hann hins vegar rúmar
90 þúsund krónur á mánuði.
Hvernig ætli fólki líði þegar það
mætir í próf vitandi að fall kostar
svona mikla peninga?
Þegar ég frétti
fyrst af þessu fyr-
irkomulagi trúði ég
því varla að þetta
gæti verið svo ég
hringdi í Trygg-
ingastofnun ríkisins
og lét fulltrúa sem
þar urðu fyrir svörum
segja mér þrisvar. Og
þetta er víst svona.
Ef mamman eða
pabbinn á erfitt með
nám virðist álitin
minni þörf á „að
tryggja barni sam-
vistir bæði við föður
og móður“ eins og
þetta er orðað svo fal-
lega í markmiðsgrein
laganna frá 2000.
Fólk á vinnumark-
aði fær greiðslur úr
fæðingarorlofssjóði
hvort sem það stend-
ur sig vel eða illa í
vinnu en námsmaður
sem innritast í ögn
erfiðari áfanga en
hann ræður við tapar
helft framlagsins ef
hann fellur. Kannski
eins gott fyrir þá sem
eiga von á barni og
eru ekki nema svona í
meðallagi klárir á bókina að
passa sig að velja bara létta
áfanga.
Það er svo sem vitað mál að lög
um fæðingar- og foreldraorlof eru
ekki beinlínis í anda jafnréttis því
þau tryggja ríku fólki miklu
hærri greiðslur en fátæku. En er
misréttið ekki meira en góðu hófi
gegnir eigi smábörn að gjalda
fyrir með þessum hætti ef
foreldrar þeirra falla á skóla-
prófum?
Fæðingarstyrkur
(sumra) náms-
manna
Atli Harðarson fjallar um
fæðingarstyrk námsmanna
Atli Harðarson
’Kannski einsgott fyrir þá
sem eiga von á
barni og eru
ekki nema
svona í meðal-
lagi klárir á
bókina að passa
sig að velja
bara létta
áfanga.‘
Höfundur er aðstoðarskólameistari
Fjölbrautaskóla Vesturlands.
Vöggusæn
gur
vöggusett
PÓSTSENDUM
Skólavörðustíg 21 ● sími 551 4050 ● Reykjavík
Silfur servíettuhringur
Holtasóley
Gull- og Silfursmiðjan Erna
Skipholti 3 • sími 552 0775 • www.erna.is
Servíettuhringur verður, ef guð lofar,
smíðaður eftir nýrri teikningu fyrir hver jól.
Hann leysir af hólmi jólasveinaskeiðina, en
allar 13 skeiðarnar verða fáanlegar áfram.
Kr. 4.900