Fréttablaðið - 01.02.2004, Blaðsíða 18

Fréttablaðið - 01.02.2004, Blaðsíða 18
18 25. janúar 2004 SUNNUDAGUR ■ Viðskipti Ráðandi félag í allri íslenskri ferðaþjónustu Flugleiðir er öflugasta félagið í ferðaþjónustu á Íslandi og hefur tekið miklum umskiptum á síðustu árum. Nýir eigendur standa frammi fyrir ákvörðunum um hvort félagið eigi að einbeita sér að kjarnastarfseminni. Greiningardeildir bankanna telja að tækifæri geti falist í að hluta félagið upp. VIÐSKIPTI Kaup Oddaflugs, félags í eigu Hannesar Smárasonar og Jóns Helga Guðmundssonar, hef- ur vakið mikla athygli enda eru Flugleiðir í senn eitt öflugasta og nafntogaðasta fyrirtæki landsins. Félagið er erfingi svo gott sem allrar flugsögu Íslendinga og má rekja sögu þess til stofnunar Flug- félags Akureyra þann 3. júní 1937. Það félag var flutt til Reykjavíkur árið 1940. Loftleiðir var stofnað árið 1944 og voru félögin tvö sam- einuð undir merkjum Flugleiða árið 1979 en höfðu þá verið rekin í sitthvoru lagi en með sama eign- arhaldi frá 1973. Á umliðnum áratugum hefur félagið smám saman orðið ráð- andi í öllu því sem við kemur ferðaþjónustu á Íslandi. Greiningardeildir sjá hag- ræðingarmöguleika Greiningardeildir flestra banka telja að kaupin hafi farið fram á hærra verði en núverandi rekstur stendur undir og hafa því í raun talið að félagið sé ofmetið á markaði eins og sakir standa. Augljóst er að kaupendurnir fall- ast ekki á það en sérfræðingar greiningardeildanna velta því fyr- ir sér hvort félagið geti staðið undir svo háu verði nema að veru- legar breytingar verði gerðar á rekstrinum – og það jafnvel hlut- að niður og selt í pörtum. Flugleiðir eru í raun regnhlíf- arfélag eftir að ákveðið var að stofna sérstök félög um ólíka þætti starfseminnar. Sú breyting tók gildi frá 1. janúar 2002. Þannig er millilandaflugið undir merkj- um Icelandair ehf., innanlands- flugið fer fram undir merkjum Flugfélags Íslands, hótelin eru rekin í nafni Flugleiðahótela og svo framvegis. Alls eru undirfélögin ellefu og segja má að ómögulegt sé að ferð- ast til og frá Íslandi án þess að félög Flugleiða hafi þar einhverja aðkomu. Félagið er stórt á sviði hótelrekstrar, það rekur alla flug- þjónustu á Keflavíkurflugvelli, hefur yfirburði á sviði hópferða- bílarekstrar, rekur stóra bílaleigu og svo mætti áfram telja. Kjarnastarfsemin skapar verðmætin Sérfræðingar í rekstri félags- ins benda á að þótt reksturinn sé mjög umfangsmikill fari stærstur hluti verðmætasköpunarinnar fram í gegnum kjarnastarfsemi félagsins – farþegaflugið. Margir telja að stærsta hagræðingar- tækifærið í rekstri Flugleiða sé að losa félagið út úr rekstri á öðrum sviðum; hluta félagið niður á áþekkan hátt og nýir eigendur Eimskips hafa gert, og þannig los- að um fé sem bundið var í þung- lamalegt stjórnkerfi stór- fyrirtækis. Flugleiðir hafa stigið stór skref í átt að straumlínulögun rekstrar- ins á síðustu árum og hefur árang- urinn verið sá að félagið hefur náð að skila hagnaði á síðustu tveimur árum. Þetta telja flestir vera um- talsverðan árangur í ljósi þess að flest sambærileg flugfélög í Evr- ópu og Bandaríkjunum hafa átt ákaflega erfitt uppdráttar á sama tímabili vegna ytri áfalla – svo sem hryðjuverka og stríðsátaka – en einnig vegna sífellt öflugri samkeppni við lággjaldaflug- félögin. Í ljósi þessa árangurs er talið líklegt að nýir eigendur ráðandi hlutar í félaginu hafi áhuga á því að halda eftir hluta af núverandi stjórn og þá sérstaklega Herði Sigurgestssyni núverandi stjórn- arformanni. Hann hefur mikla þekkingu á rekstri flugfélaga og hefur prófgráðu frá Wharton, ein- um virtasta viðskiptaskóla heims, en þar lagði hann einkum stund á nám í rekstri flugfélaga. Endurskipulagning skilar ár- angri Segja má að Flugleiðir hafi not- ið góðs af því að hafa þegar lagt grunninn af mikilli endurskipu- lagningu þegar hryðjuverkin í Bandaríkjanum 11. september 2001 áttu sér stað. Áhrif árásar- innar voru geigvænleg á flest flugfélög en áhrifin á Flugleiðir voru fyrst og fremst þau að áður ákveðnum aðgerðum var hrint í framkvæmd af meiri krafti en ella hefði orðið. Meðal þeirra breytinga sem þá voru gerðar var að dregið var úr áherslu á flutn- inga fólks yfir Atlantshafið en áhersla á flutninga til og frá Ís- landi var aukin. Þessi áherslu- breyting hefur haft verulega já- kvæð áhrif á framlegð millilanda- flugsins. Gengisþróun hagstæð Ytri aðstæður í flugrekstri hafa ekki verið jákvæðar á undanförn- um misserum sökum óvissu vegna hryðjuverka og hás eldsneytis- verðs. Aðrir þættir í ytra um- hverfi Flugleiða hafa hins vegar verið mjög jákvæðir og munar þá einna mest um afskaplega hag- stæða gengisþróun hjá félaginu, einkum vegna styrkingu evru gagnvart Bandaríkjadal. Félagið hefur hlutfallslega mun meiri út- gjöld en tekjur í Bandaríkja- dölum. Þetta hefur þau áhrif á rekstur félagsins að greiðslubyrði vegna lána og ýmis útgjöld hafa lækkað. Önnur ytri stærð sem hefur þróast á jákvæðan hátt fyrir Flugleiðir er að leiguverð á flug- vélum hefur lækkað en það er nú hluti af stefnumörkun félagsins að draga úr fjárbindingu í véla- kosti en taka þær fremur til leigu. Þá hafa vextir víðast hvar í heiminum verið með lægsta móti á undanförnum árum. Allt eru þetta þættir sem hafa haft já- kvæð áhrif á reksturinn. Aukin samkeppni Útlit í rekstri Flugleiða er talið ágætt á næstu árum þótt mjög auk- in samkeppni í flugi til Lundúna og Kaupmannahafnar, með tilkomu Iceland Express, hafi haft veruleg áhrif á verðlagningu félagsins til allra áfangastaða í Evrópu. Félagið hefur mætt samkeppninni með aukinni þjónustu og mun í sumar bjóða upp á sex nýja áfangastaði auk þess sem félagið mun bæta Orlando inn í sumaráætlun sína. thkjart@frettabladid.is Meistarar í aflraunum Dalvegi 6-8 · 201 Kópavogur Sími 535 3500 · Fax 535 3509 www.kraftvelar.is MIKLAR BREYTINGAR Í REKSTRI Flugleiðir hafa farið í gegnum mikla endurskipulagningu á síðustu árum og telja sérfræðingar að hún hafi skilað sér í mjög bættri rekstrarafkomu. Þó telja flestir að tækifæri sé til hagræðingar með því að félagið einbeiti sér að kjarnastarfsemi sinni. UNDIRFÉLÖG FLUGLEIÐA HF. Icelandair (millilandaflug með farþega) Flugfélag Íslands (innanlandsflug með farþega) Loftleiðir - Icelandic (leiguflug) Flugleiðir - Frakt ehf. (fraktflutningar) Bílaleiga Flugleiða (Hertz) Ferðaskrifstofa Íslands (Úrval-Útsýn) Kynnisferðir (hóp- og áætlunarferða- þjónusta) Flugleiðahótel (hótelrekstur) Fjárvakur - fjármálaþjónusta (stoð- og fjármálastarfsemi) Flugþjónustan á Keflavíkurflugvelli (þjónusta vegna flugfélaga og farþega í Keflavík) Tækniþjónustan á Keflavíkurflugvelli (Við- hald á flugflota Icelandair)

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.