Fréttablaðið - 13.08.2004, Blaðsíða 29

Fréttablaðið - 13.08.2004, Blaðsíða 29
AF NETINU Það er engin tilviljun að leiðtogar jafnaðarmanna á Norðurlöndum leggi nú aukna áherslu á að öll ríkin fimm muni í framtíðinni starfa saman innan Evrópusam- bandsins sem fullgildir meðlimir, eins og kom fram á fundi leiðtog- anna í Reykjavík um liðna helgi. Ljóst má vera að svæðisbundið ríkjasamstarf innan stofnana ESB mun stóraukast í kjölfar stækkunar ESB. Það hefur enn- fremur torveldað norrænu sam- starfi undanfarin ár að þrjú ríkj- anna, Danmörk, Finnland og Sví- þjóð eru fullgildir aðilar að ESB en Noregur og Ísland eru laus- bundnari í Evrópusamvinnunni í gegnum samninginn um evrópska efnahagssvæðið, sem felur í sér einskonar aukaaðild að ESB. Leið- togarnir telja að norræna víddin verði sterkari séu ríkin öll saman innan ESB og að Norðurlöndin muni þá geta haft mótandi áhrif á stefnu Evrópusambandsins í þeim málaflokkum þar sem hags- munir og viðhorf landanna fara saman, svo sem í umhverfis-, jafnréttis- og atvinnumálum svo eitthvað sé nefnt. Þetta er mun mikilvægara nú en áður. Í kjölfar stækkunar Evrópusambandsins til tíu nýrra ríkja, meðal annars til fyrrum kommúnistaríkja Austur- Evrópu, má gera ráð fyrir að samstarf ríkjanna innan ESB muni breytast til mikilla muna. Fram að þessu hafa aðildarríki ESB forðast flokkadrætti ein- stakra svæða innan sambands- ins og markvisst reynt að koma í veg fyrir að innan þess myndist svæðabandalög, þótt auðvitað hafi ávallt verið eitthvað um slíkt. Stækkun ESB mun gjör- breyta þessu mynstri. Líklegt má telja að ríki á einstaka svæð- um muni í síauknum mæli taka sig saman og vinna að framgangi ákveðinna mála innan ESB. Eftir stækkun er Evrópusambandið einfaldlega orðið hinn eiginlegi samstarfsvettvangur Evrópu- ríkja, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Þau ríki sem kjósa að standa fyrir utan þann samstarfsvettvang eru einfald- lega ekki fullgildir þátttakendur í evrópsku samstarfi. Þessi þróun um aukið svæðis- bundið samstarf innan ESB er þegar hafin. Austur-Evrópuríkin hafa boðað nána samvinnu innan ESB og suðrænu ríkin hafa jafn- framt aukið samstarfið sín á milli. Þá eru kjarnaríkin á meg- inlandinu einnig farin að verja sína sameiginilegu hagsmuni innan ESB í meiri mæli en áður. Eftir stækkun munu Norður- löndin einnig þurfa að leggja stóraukna áherslu á norrænt samstarf innan stofnana ESB og sjá því trausta bandamenn í Nor- egi og Íslandi, komi löndin til liðs við bandalagið. Því má gera ráð fyrir að leiðtogar Norður- landanna í ESB muni leggja sig í framkróka við að tryggja ákjós- anlega aðildarsamninga fyrir Ís- land og Noreg, til að mynda í sjávarútvegi eins og fram hefur komið. ■ EIRÍKUR BERGMANN EINARSSON STJÓRNMÁLAFRÆÐINGUR UMRÆÐAN EVRÓPUSAMBANDIÐ Norræna víddin í Evrópusamstarfinu Draumur rættist Árið 1988 var ég staddur í samkvæmi þar sem nýútskrifaður viðskiptafræðing- ur frá bandarískum háskóla hélt því fram að ein helsta meinsemdin í íslensku at- vinnu- og viðskiptalífi væri alltof lítill launamunur. Ekki væri óalgengt í Banda- ríkjunum að munur á launum þeirra hæst- og lægstsettu innan sama fyrir- tækis væri þrítugfaldur og slíkt fyrir- komulag væri til þess fallið að skapa drif- kraft og hvatningu til að „vinna sig upp“. Ég minnist þess að hafa iðað í skinninu af löngun til að svara þessu þvaðri en sat sem fastast úti í horni og sagði ekki orð í feimni minni og uppburðarleysi. Á leið- inni heim hugsaði ég með mér að það gerði kannski ekkert til þótt einhverjir hefðu svona skoðanir því þær væru svo órafjarri almannahag og heilbrigðri rétt- lætiskennd að þær næðu aldrei fram að ganga. Núna, aðeins hálfum öðrum ára- tug síðar, hefur draumur þessa manns ræst. Ásgrímur Angantýsson á vg.is/postur Ekki sála á útivistarsvæði Myndin [sem birt er á vefsíðunni] er tek- in kl. 12.00 [miðvikudaginn 11. ágúst] af Búrfelli og á henni sést yfir í Heiðmörk- ina. Þótt það sjáist ekki vel á þessari mynd getur Vefþjóðviljinn fullyrt að á þessari mynd er ekki sála. Í dag var þó slegið hitamet í Reykjavík, margir eru í sumarleyfum eða hafa einfaldlega skrópað í vinnunni til að vera úti. Hvenær má eiga von á að útivistarsvæði á höfuðborgarsvæðinu séu nýtt ef ekki í dag? Þeir sem fara reglulega um Heið- mörkina og fleiri slík svæði vita að þau eru lítið nýtt, kannski ekki jafn lítið og strætisvagnarnir, en miðað við allt talið í sveitarstjórnarmönnum um að fjölga þurfi útivistarsvæðum mætti halda að þau væru flest stappfull. Því fer hins veg- ar fjarri. Þeir sem vilja þétta byggð á höf- uðborgarsvæðinu þurfa því ekki að vera hræddir við að svonefnd „græn svæði“ séu tekin undir byggð. En þannig vill þó til að þeir sem helst vilja þétta byggð eru líklegastir til að stofna „grasrótarhóp“ til að mótmæla því að grænu svæðin svo- nefndu, ýmis óræktartún og ónýtt svæði, séu tekin undir byggð. Vefþjóðviljinn á andriki.is Lítið gleðiefni Það hvernig Halldór [Ásgrímsson] kom fram á ráðherrafundinum í Sveinbjarnar- gerði og tjáði sig varðandi skattamálin er mjög lítið gleðiefni fyrir mig og okkur sem erum í ungliðahreyfingu Sjálfstæð- isflokksins. Það er okkur algjörlega ómögulegt að skrifa upp á þessa skoðun sem hann studdi á fundinum og hefur gert að sínum. Nú þegar styttist í ráð- herrahrókeringar og uppstokkun innan ríkisstjórnarinnar er vel við hæfi að minna verðandi forsætisráðherra á að töfin sem verið hefur á efndum skatta- loforða stjórnarflokkanna vegna ákvarð- ana hans og flokks hans er með öllu óásættanleg. Þessi bið var og er enn með öllu óásættanleg. En það er auðvit- að ekki of seint að bregðast við. Ekki er hægt að sætta sig við neitt annað en að gengið verði frá öllum hliðum málsins strax í haust og fyrir liggi skýrar útlínur að ákvörðun um skattalækkanir og þær verði kynntar strax við upphaf þinghalds í október. Það er jú ekki eftir neinu að bíða. Stefán Friðrik Stefánsson á frelsi.is 21FÖSTUDAGUR 13. ágúst 2004

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.