Fréttablaðið - 05.12.2004, Síða 12

Fréttablaðið - 05.12.2004, Síða 12
N ú stendur yfir sextán daga átak gegn kynbundnu of-beldi á vegum UNIFEM á Íslandi og sextán annarrastofnana og samtaka. Átakið sem stendur víða um heim, hefst 25. nóvember ár hvert, á alþjóðlegum degi gegn ofbeldi á konum, og lýkur 10. desember, á mannréttindadeginum. Ofbeldi almennt virðist vera vaxandi vandamál. Samt sem áður er full ástæða til að beina sjónum sérstaklega að kyn- bundnu ofbeldi eða ofbeldi gegn konum. Konur verða fyrir of- beldi kynferðis síns vegna í öllum heimshlutum, á öllum aldri og í öllum stéttum. Á heimasíðu UNIFEM á Íslandi kemur fram að talið sé að ein af hverjum þremur konum verði fyrir ofbeldi vegna kynferðis síns einhvern tíma ævinnar. Umfangi ofbeldis gegn konum er líkt við faraldur og sumir telja að ofbeldi gegn konum sé eitthvert umfangsmesta mannréttindindabrot sem viðgengst í heiminum í dag. Ofbeldi gegn konum hefur í gegnum aldirnar og allt fram á okkar daga verið lítt sýnilegt. Til þess liggja áreiðanlega marg- ar ástæður. Ein er sú að lengi vel og enn þann dag í dag í stór- um hluta heimsins er staða kvenna afar veik og þar af leiðandi rödd þeirra líka. Sömuleiðis má ætla að ógn sem frá gerendum ofbeldis stafar og sú niðurlæging sem felst í því að hafa verið beitt ofbeldi hafi þarna áhrif. Kvennahreyfingar víða um lönd hafa þó verið ötular að vekja athygli á ofbeldi gegn konum um nokkurra áratuga skeið. Ef ekki væri fyrir baráttu þeirra ættum við líklega ekki hér á landi Kvennaathvarf, neyðarmóttöku fyrir konur sem hafa orðið fyrir nauðgun eða Stígamót. Tilkoma þessara úr- ræða fyrir fórnarlömb heimilisofbeldis, nauðgana og sifja- spella, sem flest eru konur, er vissulega stórt framfaraspor frá þeim tíma þegar þolendur ofbeldis af þessu tagi mættu alls staðar lokuðum dyrum. Þrátt fyrir það virðast því miður fáar vísbendingar um að framundan séu þeir tímar að ekki gerist þörf á því að minna með reglulegum hætti á hversu stórt vandamál ofbeldi gegn konum er um allan heim. Ýmislegt virðist þvert á móti benda til að um einhvers konar bakslag geti verið að ræða þrátt fyrir öll þau framfaraskref sem hafa verið stigin. Að minnsta kosti blómstrar kynlífsiðnaðurinn sem aldrei fyrr með öllu því of- beldi og niðurlægingu sem honum fylgir og mansal er stundað í miklu umfangi, meira að segja til næstu nágrannalanda okkar sem þó hafa að mörgu leyti náð lengra í jafnrétti kynjanna en flest önnur lönd. Fréttir af ótrúlega ósmekklegum árshátíðarsöng í elsta menntaskóla landsins, uppfullum af kvenfyrirlitningu og of- beldisórum í garð stúlkna vekur ekki heldur bjartsýni fremur en furðulegir fréttasneplar sem gefnir eru út að minnsta kosti í sumum framhaldsskólum þar sem þykir sjálfsagt og líka fynd- ið að halda á lofti niðurlægjandi orðfæri um stúlkur. Við eigum því enn mikið verk fyrir höndum, ekki síst uppalendur, því fátt er mikilvægara en að leiðbeina börnum og ungmennum á þann veg að kynin sýni hvort öðru skilning og fulla virðingu. Aðeins þannig er hægt að draga úr kynbundnu ofbeldi. ■ 5. desember 2004 SUNNUDAGUR SJÓNARMIÐ STEINUNN STEFÁNSDÓTTIR Fátt bendir til að framundan séu þeir tímar að ekki gerist þörf á að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi. Framfarir en líka bakslag FRÁ DEGI TIL DAGS Nafngift við hæfi Ein nýjasta gata höfuðborgarinnar hefur fengið nafn, en hún liðast um rætur Öskjuhlíðarinnar. Einhvern veg- inn virðist nafngiftin svo eðlileg og sjálfsögð, þegar hafðir eru í huga frægustu síðari tíma atburðir í hlíð- inni a tarna, að menn kippa sér lítið sem ekkert upp við hana. Nýja gatan heitir sumsé Leynimýri, sem er af- bragðsnafn og fagurt – og minnir vitaskuld á samráðsfundina í Öskju- hlíðinni um árið þegar frakkaklæddir menn hurfu inn í skógarrjóðrið og véluðu þar um verð á neysluvörum. Til að halda öllu til haga verður þó að segja söguna eins og hún er; nafnið er sótt í bæinn Leynimýri sem þarna stóð um árabil í fyrndinni. En síðari tíma skýring á nafngiftinni hljómar auðvitað betur ... Erfið götuheiti Leigubílstjórar hafa á orði að oft geti reynst erfitt að aka fólki upp í nýjasta hverfi Reykjavíkur sem er óðum að rísa í Grafarholti. Engin regla virðist vera á götuheitum í hverfinu en nöfn þeirra bera alls konar endingar, svo sem Þús- öld, Jónsgeisli, Kirkjustétt, Maríubaugur og Krosstorg. Og áfram mætti telja, enda hverfið eitt allsherjar kraðak af nafngiftum. Verst finnst leigubílstjórum að aka drukknu fólki upp í hverfið enda mörg götunöfnin æði erfið í munni langdrukkinna, svo sem Andrés- brunnur og Þórðarsveigur. Á fyrstu vik- um íbúðabyggðar í hverfinu munu leigubílstjórar jafnvel hafa efast um andlega heilsu farþega sinna þegar þeir báðu þá að fara með sig Græn- landsleið eða jafnvel alla leið upp í Vínlandsleið. En þetta venst, náttúrlega ... Hringavitleysa Og talandi um leigubílstjóra; nýjasta martröð þeirra ku vera hverfið sem teygir sig suður yfir ásana í Hafnarfirði. Hvergi á landinu mun vera að finna jafn mörg hringtorg og á þessum litla bletti landsins, svo mörg reyndar að aðkomumenn eiga í stökustu vand- ræðum með að rata út úr hverfinu, hafi þeir á annað borð komist inn í það. Hverfið mun ganga undir heitinu Hringavitleysa meðal heimamanna ... gm@frettabladid.is Stundum hefur því verið haldið á lofti að Íslendingar séu miklu fremur samsafn einstaklinga – fremur en þjóð. Þessa sér nokkuð víða stað í samfélaginu; ekki síst úti í um- ferðinni þar sem enginn maður vill vera á eftir öðrum manni í bíl, fyrir nú utan að enginn vill vera með öðrum manni í bíl. Á hverjum morgni setjast menn því einir upp í heimilisbifreiðina og aka sína leið í vinnuna og þrá það helst að bíða fremstir í röðinni við næstu umferðarljós. Fram að næstu ljós- um aka menn svo helst á vinstri akreininni og láta sig litlu varða þótt andstuttir öku- menn flauti fyrir aftan þá. Enda taka menn ekki svo mikið eftir umhverfi sínu þegar þeir eru niðursokkn- ir í farsímann með aðra hönd á stýri – og hugann við hlutabréfin. Á Íslandi hefur þurft að koma upp vélrénu biðnúm- erakerfi í öllum helstu þjónustufyrirtækjum og stofnunum enda hefur reynst ómögulegt að fá ís- lenska þjóð til að standa sjálfviljuga í einni röð. Hvarvetna þar sem reynt hefur verið að raða þjóðinni í beina línu; þótt ekki sé nema fyrir framan skíða- lyftur eða knattspyrnuleik- vanga, hefur allt meira og minna riðlast af sjálfu sér: Bein lína verður ávallt að einhverju kraðaki þar sem olnbogarnir eru óspart not- aðir til að verða sér úti um svolítinn sekúndugróða á lífsleiðinni. Einu sinni var röðin komin að mér þar sem ég stóð fyrir framan kjötborð í matvörubúð og horfði löngunar- augum á lokkandi svínalundir. Ég benti á síðasta bitann í borðinu en hafði varla sleppt orðinu fyrr en roskin kona hreyfði mótbárum; hún hefði sko örugglega verið á undan mér í röðinni og dæmigert væri hvernig karlmenn otuðu sér alltaf fram fyrir konur af al- kunnri frekju sinni. Ég stóð nokk- uð hvumsa í sömu sporunum, orð- laus – og afgreiðslumaðurinn stirnaði svolítið upp handan kjöt- borðsins. Auðvitað gaf ég eftir – og keypti kótilettur í staðinn; nokkuð feitar og svo sem engin svínasteik – og ég man hvað af- greiðslumaðurinn bað mig marg- faldlega afsökunar eftir að kerl- ingin var rokin á braut með svínið mitt í sellófani. Hann sagði mér að biðnúmerakerfið hefði verið bilað í ríflega viku – og ástandið væri alveg lygilega þreytandi; það lægi nánast við handalögmál- um framan við kjötborðið af því allir grunuðu hverjir aðra um að vera að lauma sér fram fyrir í röðinni. Já, íslensk þjóð er samsafn ein- staklinga. Hún getur ekki einu sinni stað- ið upp á afturlappirnar og sungið þjóðsöng sinn án þess að fara al- varlega út af laginu. Og man eng- an veginn textann. Hún á ákaflega erfitt með átta sig á því hvort hún er eyland eða Evrópuþjóð, hvort hún vilji standa í stríði eða friði, virkja eða vernda. Og hún getur ekki einu sinni safnað peningum fyrir þá sem minna mega sín án þess að allt fari í handaskolum. Svona þjóð hefur byggt upp einhverja stærstu smáborg jarð- arkringlunnar af því henni finnst gott að hafa svolítið pláss í kringum sig; helst þannig að ná- grannarnir haldi sig í tíu faðma fjarlægð. Sjarmi erlendra stór- borga – með þéttri og þröngri götumynd – hefur því aldrei orðið að veruleika í íslenskri höfuð- borg. Á Íslandi eru allar götur breiðstræti; jafnvel íbúðagötur eru skipulagðar þannig að gatan sjálf, gangbrautir beggja vegna og garðabreiðurnar framan við húsin spanna tugi metra svo hríð- arbyljirnir hellist öugglega yfir byggð. Hvergi í heiminum er jafn mikil þörf á skjóli og á Íslandi, en samt finnst þjóðinni betra að byggja eins dreift í stórborginni sinni og hugsast getur. Og eiga fyrir vikið svo sem hálftíma ferð fyrir höndum á leið í vinnuna sína á morgnana í einkabílnum sínum. Ég skrifaði frétt fyrir all mörgum árum um nágrannaerjur í Kópavogi. Þar var tekist á um aspir á lóðamörkunum. Ég talaði við báða málsaðila; jafnt íbúann í húsi númer 17 og 19. Þeir höfðu ekki talast við í tólf ár, eða allt frá því eigandi hússins númer 17 hafði látið malbika risastórt bíla- stæði sitt í óþökk þess númer 19 sem óttaðist að tjara bærist yfir í garðinn sinn. Og svo liðu árin og litlu aspirnar á milli þeirra urðu að alltumlykjandi himnalengjum. Hvorugur vildi viðurkenna að hafa gróðursett þær og hvorugur gaf nokkuð eftir. Og af því aspirnar háu voru öðrum manninum skjól en hinum skuggi var á engan hátt hægt að ná sátt- um fyrr en sýslumaður var fenginn í verkefnið. Eftir að hafa skrifað fréttina fékk ég fjölda sím- tala frá óðamála fólki sem sagði nágranna sína vera að eyðileggja fyrir þeim gönguleiðir eða lagnir vegna ofurstórra aspa í garðinum. Gott ef einn við- mælenda minna sagðist ekki vera kominn með áverkavottorð frá heimilis- lækni sínum vegna greinar af öspum nágrannans sem hafði stungist í auga hans á meðan hann var að hirða garðinn sinn. Og annar sagði mér frá þeim ömur- legu raunum sínum þegar rætur af trjánum nágranna síns hefðu laumað sér undir bílskúrinn hans og brotið í sundur skolpleiðslur með óheyrilegum kostnaði í för með sér. Enn einn vildi sýna mér bílaplanið sitt; asparrætur í nágrannagarðinum hefðu losað um alla hellusteinana um miðbik stæðisins svo þar gæfi nú að líta ógurlegt landris í stað líðandi sléttunnar. Ég endaði með því að skrifa greinaflokk um nágrannaerjur í íbúðabyggðum á Íslandi. Það var fínn flokkur – og ein- hvernveginn var af svo nógu að taka að ég hefði hæglega getað endað sem sérfræðingur á þessu sviði. Sumsé, sérsvið; nágrannaerjur. Á Íslandi rífast menn um flest. En þó einkanlega um fyrirferð nágrannans. Formaður Húseig- endafélagsins segir mér að furðu- legustu lýðræðissamkomur heims séu fundir í húsfélögum. Ég trúi honum alveg, enda vilja Íslend- ingar helst vera einir – og annað fólk er yfirleitt fyrir þeim. Það á við um raðir og allar kvaðir. ■ Af sundurgerð þjóðarinnar TÍÐARANDINN SIGMUNDUR ERNIR RÚNARSSON FR ÉT TA B LA Ð IÐ /T EI KN IN G : H EL G I S IG U RÐ SS O N ÚTGÁFUFÉLAG: Frétt ehf. RITSTJÓRI: Kári Jónasson FRÉTTARITSTJÓRAR: Sigurjón M. Egilsson og Sigmundur Ernir Rúnarsson AÐSTOÐARRITSTJÓRI: Jón Kaldal FULLTRÚI RITSTJÓRA: Guðmundur Magnússon RITSTJÓRNARFULLTRÚI: Steinunn Stefánsdóttir AUGLÝSINGASTJÓRI: Þórmundur Bergsson RITSTJÓRN, AUGLÝSINGAR OG DREIFING: Skaftahlíð 24, 105 Reykjavík AÐALSÍMI: 550 5000 SÍMBRÉF Á FRÉTTADEILD: 550 5006 NETFÖNG: ritstjorn@frettabladid.is og auglysingar@frettabladid.is VEFFANG: visir.is SETNING OG UMBROT: Frétt ehf. PRENTVINNSLA: Ísafoldarprentsmiðja ehf. Fréttablaðinu er dreift ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Akureyri. Einnig er hægt að fá blaðið í völdum verslunum á landsbyggðinni. Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu formi og í gagnabönkum án endurgjalds. ISSN 1670-3871

x

Fréttablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.