Fréttablaðið - 12.03.2005, Síða 12
Það hefur verið sagt að sagan
endurtaki sig, en í seinna sinnið
taki hún á sig mynd farsans. Síð-
ustu atburðir virðast staðfesta
þetta. Í fjölmiðlamálinu síðastliðið
sumar geystist Davíð fram á svið-
ið í gervi Riddarans hugumstóra
og réðst gegn vindmyllum Baugs-
veldisins, en Halldór lék hlutverk
hins staðfasta fylgisveins, Sancho
Panza, og lét sem hann tryði því að
vindmyllurnar væru óvígur óvina-
her.
Halldór var óbrigðull í stuðn-
ingi sínum. Fimm breytingatil-
raunir voru gerðar á frumvarpinu
og eftir hverja þeirra steig Hjálm-
ar Árnason fram og lýsti því yfir
að allur þingflokkur framsóknar-
flokksins (mínus tveir) væri sátt-
ur við frumvarpið eftir breyting-
arnar. Loks urðu þeir svarabræð-
ur þó að gefast upp og nema frum-
varpið úr gildi.
Nú er komið að sjálfstæðis-
flokknum að launa stuðninginn.
Sex mánuðir eru liðnir síðan Kári
Jónasson hvarf úr sæti frétta-
stjóra ríkisútvarpsins og greini-
legt að mikið hefur verið bruggað
á bak við tjöldin um hvernig skuli
svo um hnúta búið, að traustur
stjórnarliði fengi þetta starf.
Hvað eftir annað hafa kannanir
leitt í ljós, að almenningur í land-
inu ber mikið traust til fréttastofa
ríkisútvarpsins (oftast á bilinu 75-
80%). En forystumenn stjórnar-
flokkanna hafa ekki farið dult með
að þeir hafa verið hundóánægðir
með fréttaflutning af gerðum rík-
isstjórnarinnar og stjórnarflokk-
anna og kveinað opinberlega yfir
umfjöllun í fréttum og frétta-
tengdum þáttum. Sérstaklega að
fréttamenn skuli ekki gleypa hrá-
ar fréttatilkynningar frá spuna-
meisturum flokkanna, heldur
reyna að gagnrýna og leggja sjálf-
stætt mat á innihald þeirra. Iðu-
lega hafa þeir kennt fjölmiðlum
um slælegt gengi stjórnarflokk-
anna og ríkisstjórnarinnar.
Það er ekkert nýtt að stjórnar-
liðar reyni að nota ítök sín í póli-
tískt skipuðu útvarpsráði til að
hafa áhrif á mannaráðningar,
einkum ráðningar yfirmanna, og
koma sínum mönnum þar fyrir,
eða að minnsta kosti að koma í veg
að menn komist þar að eða endist í
starfi sem þeir hafa sérstaka van-
þóknun á (þ.e.a.s. fréttamenn, sem
álíta það skyldu sína að vera gagn-
rýnir í fréttaflutningi). Ríkis-
stjórnir sem sitja lengi geta smám
saman hert tök sín á ríkisútvarp-
inu og það er einmitt það sem er
að gerast nú. Sjálfstæðisflokkur-
inn er á sínu fjórða kjörtímabili
við völd og framsókn á því þriðja
og nýbúin að fá forsætisráðherra-
embættið langþráða. Samt
vænkast ekki hagur Strympu og
klíkan kringum forsætisráðherr-
ann kennir fjölmiðlunum um.
Framsókn telur sig „eiga“ emb-
ætti fréttastjóra útvarps. DV á
fimmtudaginn upplýsti að Finnur
Ingólfsson hefði verið að hringja í
frændur og vini og bjóða þeim
stöðuna. Pétur Gunnarsson skrif-
stofustjóri framsóknarflokksins
og varamaður Páls Magnússonar í
útvarpsráði upplýsti að hann hefði
farið yfir gögn málsins og fundið
út (merkilegt nokk!) að Auðun
Georg Ólafsson var sá umsækj-
enda sem passaði best við auglýs-
inguna. Það er gamalkunnugt trikk
í stjórnsýslu allra landa, ef skylt er
að auglýsa stöðu sem ætluð er
ákveðnum gæðingi, að klæðskera-
sníða auglýsinguna að eiginleikum
gæðingsins. Eitthvað tókst þó illa
til í þessu tilfelli, þar sem einmitt
þetta fór framhjá Boga Ágústs-
syni, starfsmannastjóranum og
sérfræðingi ráðningarfyrirtækis-
ins, og þeim láðist að mæla með
þessum skjólstæðingi valdsins.
En nú fékk Framsókn endur-
goldinn sinn óbrigðula stuðning
við fjölmiðlafrumvarpið og sjálf-
stæðismenn viðurkenndu eignar-
rétt framsóknar á stöðunni. Meira
að segja Mogganum er brugðið við
svo opinskáa misbeitingu valds og
átelur stjórnarflokkana harðlega.
Þessi atburður getur varla
talist heppilegur inngangur að
frumvarpi Þorgerðar Katrínar að
nýjum lögum fyrir ríkisútvarpið.
Þvert á móti færir hann fullar
sönnur á það sem við andstæð-
ingar fjölmiðlafrumvarpsins sál-
aða héldum fram, að íslenska rík-
isstjórni stefnir leynt og ljóst að
því að ná sams konar tökum á
fjölmiðlum þessa lands og Silvio
Berlusconi, góðvinur utanríkis-
ráðherrans, hefur náð á Ítalíu.
Munurinn er sá einn að
Berlusconi eignaðist fyrst fjöl-
miðla, stofnaði síðan flokk, náði
svo völdum í skjóli fjölmiðla
sinna og þar einnig tökum á ríkis-
fjölmiðlunum. Hér á landi byrja
menn með því að ná fullum tök-
um á ríkisfjölmiðlunum, setja
síðan lög á þá fjölmiðla sem þeir
hafa vanþóknun á (Baugsmiðlar í
dag, eitthvað annað á morgun).
Aðalatriði er að þagga niður í
gagnrýninni og sjá til þess að
leiðtogarnir miklu séu vegsamað-
ir og tryggðir í sessi. En stundum
dugar það ekki til. Valdhroka-
gikkirnir, sem ólust upp undir
pilsföldum Margrétar Thatchers,
fengu að reyna annað. Hér gæti
farið á sama veg. ■
Í slendingur er nú í fyrsta skipti í hópi 500 ríkustu einstaklingaveraldar, en Björgólfur Thor Björgólfsson vermir sæti 488 álista tímaritsins Forbes. Það er glæsilegur árangur.
Auðæfi Björgólfs Thors hafa ekki orðið til á löngum tíma og eru
afrakstur markvissrar vinnu og útsjónarsemi í viðskiptum. Auðæfi
hans eru af tímaritinu metin á 1,4 milljarða Bandaríkjadala, ríflega
80 milljarða króna. Ef eignir Björgólfs Thors eru settar í samhengi
við íslenskt samfélag er auður hans tíu prósent af landsframleiðslu
þjóðarinnar og um átta prósent af öllum eignum íslenskra lífeyris-
sjóða. Ef öllu afli þessara eigna væri beitt hér á landi væru áhrifin
umtalsverð.
Björgólfur Thor skilgreinir sig sem kaupsýslumann og alþjóð-
legan fjárfesti sem leitast við að hámarka arðsemi fjárfestinga
sinna. Hann hefur komið fram sem talsmaður þess að menn skilji á
milli viðskipta annars vegar og pólitíkur hins vegar. Rökin eru
einföld; pólitík er vondur bisness. Hann fer því fremstur í flokki
nýrrar kynslóðar sem kaupir og selur eignir sínar án þess að hugsa
um stjórnmálaskoðanir viðskiptavinanna.
Innkoma þessarar kynslóðar í íslenskt viðskiptalíf hefur haft
góð áhrif á efnahagslíf þjóðarinnar. Hinu verður þó ekki neitað að
þeir sem lesa í allar hræringar samfélagsins með gleraugum
stjórnmálanna eiga erfitt með að meðtaka breyttan heim. Þannig
reyna stjórnmálaflokkar enn að merkja sér menn í viðskiptalífinu
og telja til tryggðarvina. Staðreyndin er hins vegar sú að þau ítök
hafa verið á svo hröðu undanhaldi að ekkert er að verða eftir af
þeim. Eftir sitja þeir ringlaðir sem lifa enn í heimi samofinna hags-
muna stjórnmála og viðskipta.
Það er ekki bara rof milli stjórnmála og viðskipta sem einkenn-
ir breytta tíma. Íslenskir kaupsýslumenn líta heldur ekki til landa-
mæra þegar þeir ákveða hvar þeir fjárfesta. Þeim ákvörðunum
ráða þekking, sambönd og væntingar um arðsemi. Björgólfur Thor
hefur sjálfur varað við orðinu útrás um alþjóðavæðingu viðskipta.
Heimavöllur alþjóðlegra fjárfesta sé heimurinn, en ekki tiltekið
land.
Nú, þegar Forbes beinir sjónum sínum að Björgólfi Thor og auð-
legð hans, er íslenskt viðskiptalíf á fullri ferð að leita tækifæra um
allan heim. Björgólfur Thor hefur þegar náð glæsilegum árangri
og fleiri munu feta í fótsporin. Ánægjulegt er einnig að fylgjast
með því að ný kynslóð skilgreinir það sem hlutverk sitt að leggja
samfélaginu lið. Þannig var afhending Björgólfs Thors á Háskóla-
sjóði Eimskipafélagsins til Háskóla Íslands táknræn fyrir meðvit-
und um að menntun og menning þjóðarinnar skiptir máli fyrir
lifandi samfélag og gróskumikla framtíð.
Fleiri munu vonandi fylgja í kjölfarið og birtast á framtíðarlist-
um Forbes. Djarft hugarfar, dugnaður, útsjónarsemi og þekking
eru lyklarnir að því að komast á slíkan lista. Að komast á listann er
ekki markmið í sjálfu sér en birtingarmynd þess undraverða
árangurs sem náðst hefur á skömmum tíma. ■
12. mars 2005 LAUGARDAGUR
SJÓNARMIÐ
HAFLIÐI HELGASON
Björgólfur Thor Björgólfsson á lista ríkustu manna.
Glæsilegur
árangur
FRÁ DEGI TIL DAGS
Það er ekki bara rof milli stjórnmála og viðskipta
sem einkennir breytta tíma. Íslenskir kaupsýslu-
mann líta heldur ekki til landamæra þegar þeir ákveða
hvar þeir fjárfesta. Þeim ákvörðunum ráða þekking, sam-
bönd og væntingar um arðsemi.
,, Í DAGRÁÐNING FRÉTTASTJÓRA
ÓLAFUR
HANNIBALSSON
Nú fékk framsókn
endurgoldinn sinn
óbrigðula stuðning við fjöl-
miðlafrumvarpið ogt sjálf-
stæðismenn viðurkenndu
eignarrétt framsóknar á
stöðunni.
,,
Útvarp valdsins
Þekkir sig í sporum Auðuns
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir mennta-
málaráðherra var þungorð í garð frétta-
manna Ríkisútvarpsins í fjölmiðlum í gær
og sagðist líta viðbrögð þeirra við ráðn-
ingu Auðuns Georgs Ólafssonar alvarleg-
um augum. Í þessu samhengi er ekki úr
vegi að rifja upp að Þorgerður á mjög
auðvelt með að setja sig í spor Auðuns
því sterkur pólitískur fnykur þótti af ráðn-
ingu hennar sjálfrar til stjórnunarstarfa á
Ríkisútvarpinu árið 1997.
Reynslulaus í stjórnunar-
stöðu
Þorgerður Katrín var
ráðin yfirmaður sam-
félags- og dægur-
máladeildar Ríkis-
útvarpsins þrátt
fyrir að hafa enga reynslu af fjölmiðlum
og var tekin fram yfir þrautreynt fagfólk,
sem hafði sótt um stöðuna, líkt og er til-
fellið nú með nýráðinn fréttastjóra. Þor-
gerður sór af sér öll pólitísk tengsl enda
hafði hún á þessum tíma ekki komið ná-
lægt flokksstarfi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Öllum ætti hins vegar að vera kunnugt
um flokksskírteini hennar núorðið en
hún skellti sér í prófkjör fyrir Sjálfstæðis-
flokkinn 1998, vann þar góðan sigur og
sigldi í kjölfarið inn á þing eftir kosning-
arnar 1999.
Í ormagryfju
Þorgerður ræddi tíma sinn hjá Ríkis-
útvarpinu í viðtali við tímaritið Ský sum-
arið 2002 og sagði þá meðal annars að
hún hefði ekki séð fyrir „í hverslags
ormagryfju“ hún var að fara þegar
hún hóf störf hjá stofnuninni. „Mér voru
sannarlega ekki gefin nein grið fyrstu
mánuðina og var hreinlega hunsuð af
sumum samstarfsmönnum mínum. En
það gekk yfir,“ sagði Þorgerður í viðtal-
inu. Og það er væntanlega einmitt það
sem helmingaskiptaflokkarnir í ríkisstjórn
treysta á að gerist líka núna: að stormur-
inn í kringum ráðningu Auðuns „gangi
yfir“ og málið verði gleymt
næst þegar kemur að
kosningnum. Sem er
sjálfsagt hárrétt mat hjá
þeim, að minnsta kosti
ef einhvern lærdóm er
hægt að draga af því
minnisleysi kjósenda sem
einkennir íslenska
stjórnmálasögu.
jonkaldal@frettabladid.is
ÚTGÁFUFÉLAG: 365 – prentmiðlar RITSTJÓRI: Kári Jónasson FRÉTTARITSTJÓRAR: Sigurjón M. Egilsson og Sigmundur Ernir Rúnarsson AÐSTOÐARRITSTJÓRI: Jón Kaldal FULLTRÚI RITSTJÓRA:
Guðmundur Magnússon RITSTJÓRNARFULLTRÚI: Steinunn Stefánsdóttir AUGLÝSINGASTJÓRI: Þórmundur Bergsson RITSTJÓRN OG AUGLÝSINGAR: Skaftahlíð 24, 105 Reykjavík AÐAL-
SÍMI: 550 5000 SÍMBRÉF Á FRÉTTADEILD: 550 5006 NETFÖNG: ritstjorn@frettabladid.is og auglysingar@frettabladid.is VEFFANG: visir.is UMBROT: 365 – prentmiðlar PRENTVINNSLA:
Ísafoldarprentsmiðja ehf. DREIFING: Pósthúsið ehf. dreifing@posthusid.is Fréttablaðinu er dreift ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Akureyri. Einnig er hægt að
fá blaðið í völdum verslunum á landsbyggðinni. Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu formi og í gagnabönkum án endurgjalds. ISSN 1670-3871
LESTU GREININA Á VISIR.IS
OG SEGÐU SKOÐUN ÞÍNA