Fréttablaðið - 31.03.2005, Blaðsíða 14
Hjól atvinnulífsins snúast nú
hratt og vel, og samt lætur verð-
bólgan – góðkunningi íslenzks
efnahagslífs frá gamalli tíð – ekki
enn á sér kræla, ekki verulega.
Gríðarlegar lántökur erlendis
voru hér áður fyrr næsta óskeikul
ávísun á þenslu og verðbólgu, en
svo er þó ekki lengur. Svo er
einkum fyrir að þakka frívæðingu
efnahagslífsins undangengin ár,
gerbreytingu, sem hefur m.a.
liðkað til um innflutning vinnuafls
frá útlöndum. Framkvæmdirnar
við Kárahnjúka leiða því ekki til
þess nú, að húsbyggjendur þurfi
að bíða vikum saman eða mánuð-
um eftir óstundvísum iðnaðar-
mönnum, það er liðin tíð.
Tölurnar segja söguna: síðan
1986 hafa rösklega 25 þúsund er-
lendir ríkisborgarar flutzt til Ís-
lands skv. upplýsingum Hagstofu
Íslands, á meðan rösklega 15 þús-
und erlendir þegnar hafa flutzt á
brott héðan. Fjöldi aðfluttra út-
lendinga umfram brottflutta
hefur því verið um tíu þúsund
þessi ár. Á sama tíma hafa 48 þús-
und íslenzkir ríkisborgarar flutzt
úr landi, og 41 þúsund hafa flutzt
heim, svo að fjöldi brottfluttra
Íslendinga umfram aðflutta hefur
verið um sjö þúsund. Hlutdeild
innflutts vinnuafls í mann-
aflanum hefur því aukizt hröðum
skrefum að undanförnu. Þessi
þróun hefur breytt ásjónu lands-
ins með því að fjölga þjóðunum,
sem byggja landið, og hún hefur
um leið létt þrýstingi af vinnu-
markaði og hamlað verðbólgu
með því móti. Hlutfall útlendinga
(þ.e. íbúa fæddra erlendis) í
mannfjöldanum hér heima
hækkaði úr 3% 1986 í tæp 7%
2003. Þetta hlutfall hækkaði sömu
ár úr 2% í 5% í Danmörku til sam-
anburðar og stóð í stað í Svíþjóð
(5% bæði árin). Sviss er annar
handleggur: þar standa allar
gáttir opnar, svo að útlendingum
fjölgaði úr 14% af mannfjöldan-
um 1986 í 20% 2003.
Hér höfum við hluta skýringar-
innar á því, hvers vegna gamla
lögmálið um lausbeizlað inn-
streymi lánsfjár og aukna verð-
bólgu er dottið úr sambandi. En
hvaða afleiðingar hefur skulda-
söfnun Íslendinga erlendis að
öðru leyti? Lítum sem snöggvast
yfir landslagið. Mikill viðskipta-
halli hefur einkennt efnahagslíf
landsins nær allan lýðveldis-
tímann. Þetta var eðlilegt framan
af. Gróandi þjóðarbúskapur þarf
á miklum innflutningi að halda til
ýmissa þarfa, jafnvel umfram út-
flutning, og þá þarf að brúa bilið
með erlendum lántökum eða með
því að bjóða útlendingum innlend
fyrirtæki til kaups. Við tókum
fyrri kostinn – ólíkt Eistum, til
dæmis – og höfum gengið miklu
lengra í lántökum en góðu hófi
gegnir. Skuldir Íslendinga við út-
lönd eru nú orðnar of miklar og
skuldabyrðin of þung, enda þótt
vextir séu nú lágir í útlöndum. Þar
að auki höfum við ekki farið alls
kostar vel með allt lánsféð, nema
hvað, heldur varið því til neyzlu
og óarðbærrar fjárfestingar í
stórum stíl, sumpartinn að undir-
lagi fjölskiptinna stjórnmála-
manna. Erlendar skuldir þjóðar-
innar hafa rokið upp úr öllu valdi
síðustu ár: skuldirnar jukust úr
60%-70% af landsframleiðslu
1993-1999 upp í 200% í árslok
2004 (þetta er ekki prentvilla).
Það er því engin furða, að kaup-
máttur almennings hafi tekið
kipp. Erlendar eignir hafa að vísu
aukizt nokkuð á móti skuldunum,
en ekki nóg: hrein staða þjóðar-
búsins hefur veikzt til muna. Nú
ríður á því sem aldrei fyrr, að
fjárfestingin, sem lánsféð er
notað til, beri arð, þ.e. arð umfram
vexti.
Vextir á erlendum fjármála-
mörkuðum hafa verið lágir und-
angengin ár og hafa nú tekið að
hækka aftur, ekki sízt vegna
ótæpilegs ríkishallarekstrar í
Bandaríkjunum. Næstum 90% af
erlendum skuldum Íslendinga eru
skráðar í erlendri mynt, og vaxta-
greiðslur af þeim munu hækka
um nálega 1% af landsframleiðslu
fyrir hvert prósentustig þeirrar
vaxtahækkunar, sem hafin er.
Hækkun heimsvaxta um eitt pró-
sentustig eykur m.ö.o. viðskipta-
hallann hér heima um 1% af
landsframleiðslu að öðru jöfnu,
eins og Ásgeir Jónsson lektor
hefur bent á. Gengi krónunnar
myndi þá trúlega falla, kannski
með brauki og bramli, og skulda-
byrðin myndi þyngjast enn
frekar. Á móti kæmu meiri út-
flutningur og minni innflutningur,
þar eð gengisfall ýtir undir út-
flutning og hamlar innflutningi
með því að hækka verð á erlendri
vöru og þjónustu. Heildaráhrif
vaxtahækkunar erlendis og með-
fylgjandi gengisfalls krónunnar á
erlenda stöðu þjóðarbúsins munu
fara eftir því, hversu mikið geng-
ið lækkar, þegar heimsvextirnir
hækka; vandi er um slíkt að spá. ■
Traustvekjandi er að vita að yfirvöld heilbrigðismála og sótt-varna hér á landi eru ásamt öðrum viðkomandi stjórnvöldumá varðbergi gagnvart hættum á því að nýjar tegundir skæðra
sjúkdóma berist inn í landið eins og fréttir fjölmiðla í vikunni stað-
festa. Í þessu efni gildir sú einfalda lífsregla að of seint er að
byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í.
„Þetta er bara flensa, þetta er að ganga,“ segjum við gjarnan
yfir háveturinn, þegar pestirnar sækja okkur heim. Við erum
orðin vön einkennunum og vitum að yfirleitt standa þau stutt við.
En inflúensa greinist í ýmsar tegundir og sumar þeirra geta verið
skæðari og hættulegri en aðrar. Sérstakar áhyggjur hafa menn nú
af svokallaðri fuglaflensu og ýmsum afbrigðum hennar sem orðið
hefur vart í nokkrum Asíulöndum. Ekki er víst að við henni sé til
óbrigðul bólusetning. Drjúgur hluti þeirra sem hafa sýkst hefur
látist.
Heilbrigðisstjórnir útiloka ekki að þessi tegund flensu eða eitt-
hvert afsprengi hennar geti farið sem faraldur um heiminn og lagt
mikinn fjölda fólks að velli. Í því efni er ekki aðeins verið að tala
um þúsundir manna, heldur hugsanlega hundruð þúsunda eða
milljónir. Sums staðar er kveðið fast að orði um líkur á þessum far-
aldri og fullyrt að málið snúist ekki um það hvort hann komi upp,
heldur hvenær.
Síðasti skæði inflúensufaraldurinn sem gekk yfir heimsbyggð-
ina var spánska veikin svokallaða veturinn 1918 til 1919. Fórnar-
lömb hennar eru talin á bilinu 25 til 40 milljónir manna. Þótt Ísland
væri þá einangraðra land en nú og strjálbýlla fór veikin sem eldur
í sinu um byggðir landsins. Gagnstætt því sem ætla mætti herjaði
hún mest á fólk á besta aldri. Þjóðlífið lamaðist. Mest kvað að veik-
inni í Reykjavík þar sem tveir þriðju borgarbúa lögðust um hríð
veikir. Skýrslur benda til þess að á fimmta hundrað manns hafi
látist. Það var veruleg blóðtaka fyrir okkar fámenna þjóðfélag.
Fuglaflensan mun fyrst hafa verið greind fyrir einni öld á Ítalíu.
Uppspretta hennar er hjá farfuglum, sérstaklega villiendum. Berst
veiran úr þeim í hænsnfugla (kjúklinga og kalkúna) sem drepast þá
yfirleitt. Fyrsta smit í mönnum uppgötvaðist í Hong Kong fyrir
átta árum, en þá sýktust átján manns af einni tegund veirunnar og
lést þriðjungur þeirra. Síðan hafa nokkur tilvik greinst áfram í
Asíu og nokkrir látist. Ískyggilegastar þykja þær fregnir að hugs-
anlega geti veiran borist á milli manna í stað þess að vera bundin
við neyslu á sýktu fuglakjöti.
Ekki er nú um stundir bráð hætta á ferðum að mati sóttvarna
yfirvalda, en hitt blasir við að berist veikin til okkar heimshluta
mun hún að líkindum breiðast hraðar út en sambærilegir faraldrar
fyrr á tímum. Þess vegna er skynsamlegt að skipuleggja af ná-
kvæmni og kaldri yfirvegun hvernig við verður brugðist. Gott er
að vita að þar eru í forystu menn með góða dómgreind og sem
kunna til verka. ■
31. mars 2005 FIMMTUDAGUR
SJÓNARMIÐ
GUÐMUNDUR MAGNÚSSON
Mikilvægt er að undirbúa vel viðbrögð
við skæðum sjúkdómsfaröldrum.
Ekki bara flensa
FRÁ DEGI TIL DAGS
Ekki er nú um stundir bráð hætta á ferðum að
mati sóttvarnayfirvalda, en hitt blasir við að berist
veikin til okkar heimshluta mun hún að líkindum breiðast
hraðar út en sambærilegir faraldrar fyrr á tímum. Þess
vegna er skynsamlegt að skipuleggja af nákvæmni og
kaldri yfirvegun hvernig við verður brugðist.
,,
Í DAG
FRAMFÖR ÍSLANDS
ÞORVALDUR
GYLFASON
Gamla lögmálið um
lausbeizlað inn-
streymi lánsfjár og aukna
verðbólgu er dottið úr sam-
bandi.
,,
GNOÐARVOGI 44
Opið frá 10-18:15
Nýjar
stórlúðusneiðar
Verð aðeins 890 kr/kg
Áður 1590 kr/kg
Glæsilegt
úrval fiskrétta
Lausbeizlað lánsfé
Ný vefsíða
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur opn-
að vefsíðu á slóðinni ingibjorgsolrun.is.
Er hún helguð formannsframboði
hennar í Samfylkingunni. Á síðunni er
að finna leiðbeiningar um hvernig
ganga eigi í Samfylkinguna til að
styðja framboðið og tugir manna
vitna um ágæti hennar og for-
ystuhæfileika. Er lofið ekki skorið
við nögl. „Forystukona af guðs
náð“ – hvorki meira né minna! –
segir til dæmis Elín G. Ólafsdóttir.
„Hún er öðrum líklegri til að
greina að kjarna og
hismi í hverju máli og
hún mun einnig
kunna að forgangs-
raða, með sann-
girni og hlutlægni að leiðarljósi“, segir
Þorbjörn Broddason.
Ekki gasprandi
„Hún er ekki gasprandi út í loftið í fjöl-
miðlum, hún hugsar sitt og
kemur málum fram á hóg-
væran og alúðlegan hátt.
Hún er ekki valdasjúkur
hrokagikkur“, segir Guð-
mundur Ólafsson hagfræð-
ingur. Undir þetta tekur einn
af pistlahöfundum Fréttablaðs-
ins, Guðmundur Andri Thors-
son: „Hún talar við kjós-
endur eins og viti
borið og virðingar-
vert fólk“, segir
hann.
Gáfulegar greinar
Líklega er nokkuð til í því að Ingibjörg
Sólrún hafi meiri áhuga á hugmyndum
og málefnum en títt er um stjórnmála-
menn. Á nýju vefsíðunni birtir hún
langar og gáfulegar greinar í stað þess
að blogga um daginn og veginn eins
og keppinautur hennar og svili, Össur
Skarphéðinsson, gerir á sínu bloggi.
Þetta er í lagi gagnvart menntafólki,
sem fjölmennt er í Samfylkingunni, en
spurningin er hvort of mikil áhersla á
þessu sviði geti orðið henni til trafala
gagnvart breiðum hópi kjósenda sem
taka afstöðu í stjórnmálum á grundvelli
tilfinninga og skyndidóma, vilja hreinar
línur, brauð og leiki og leiðist spakleg
tal.
gm@frettabladid.is
ÚTGÁFUFÉLAG: 365 – prentmiðlar RITSTJÓRI: Kári Jónasson FRÉTTARITSTJÓRAR: Sigurjón M. Egilsson og Sigmundur Ernir Rúnarsson AÐSTOÐARRITSTJÓRI: Jón Kaldal FULLTRÚI RITSTJÓRA:
Guðmundur Magnússon RITSTJÓRNARFULLTRÚI: Steinunn Stefánsdóttir AUGLÝSINGASTJÓRI: Þórmundur Bergsson RITSTJÓRN OG AUGLÝSINGAR: Skaftahlíð 24, 105 Reykjavík AÐAL-
SÍMI: 550 5000 SÍMBRÉF Á FRÉTTADEILD: 550 5006 NETFÖNG: ritstjorn@frettabladid.is og auglysingar@frettabladid.is VEFFANG: visir.is UMBROT: 365 – prentmiðlar PRENTVINNSLA:
Ísafoldarprentsmiðja ehf. DREIFING: Pósthúsið ehf. dreifing@posthusid.is Fréttablaðinu er dreift ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Akureyri. Einnig er hægt að
fá blaðið í völdum verslunum á landsbyggðinni. Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu formi og í gagnabönkum án endurgjalds. ISSN 1670-3871
LESTU GREININA Á VISIR.IS
OG SEGÐU SKOÐUN ÞÍNA