Fréttablaðið - 23.12.2006, Page 52
Hugrún R. Hjaltadóttir, kynja-
fræðingur og sérfræðingur hjá
Jafnréttisstofu, er mikið jóla-
barn og byrjar alltaf að skreyta
hjá sér í byrjun desember.
Jólaskreytingar eru mikilvægur
hluti jólahaldsins hjá Hugrúnu og
hún á sér eitt uppáhalds jóla-
skraut. „Jólakaðallinn minn sem
er svona kaðall með heimaprjón-
uðum jólasveinum að klifra upp
er uppáhaldið mitt af öllu jóla-
skrautinu,“ segir hún.
Kaðalinn fékk Hugrún frá
ömmu sinni en hún og systir henn-
ar, sem er nýlátin, prjónuðu svona
kaðla handa öllum í fjölskyldu
Hugrúnar. „Ég fékk minn ekki
fyrr en ég flutti að heiman og mér
fannst það rosaleg viðurkenning
að fá hann. Það var svona merki
um að ég væri orðin fullorðin og
ætti eigið heimili til þess að
skreyta,“ segir hún og hlær.
Hugrún segist ekki vera alveg
viss um hvort amma hennar eða
frænka hafi prjónað kaðalinn
hennar. „Stundum er verið að
reyna að finna út úr því hvor
þeirra hafi prjónað hvaða kaðal
og sagt að amma hafi prjónað
þennan því Stína frænka hafi
prjónað miklu fínna. En það er
eiginlega ekki hægt að segja neitt
um það. Mér finnst það heldur
ekki skipta neinu máli því mér
þykir vænt um hann óháð því
hvor þeirra prjónaði hann.“
Jólakaðallinn hefur vakið tölu-
verða athygli þeirra sem koma í
heimsókn til Hugrúnar fyrir jólin.
„Ég er búin að hengja hann upp
öll jól síðan ég flutti að heiman,
nema ein jól þegar ég bjó í útlönd-
um, og það eru margir sem tala
um hvað hann sé fallegur,“ segir
hún.
Hugrún segir að hún setji kað-
alinn alltaf upp í byrjun desem-
ber með öðru jólaskrauti. „Ég
skreyti alltaf hjá mér fyrsta
desember. Það er bara eins og það
sé hluti af stjórnarskránni að allir
eigi að skreyta fyrsta des. og ég
tek auðvitað þátt í því eins og vel
þjálfaður samfélagsþegn. Mér
finnst samt alltaf gaman að bæta
einhverju við á þorláksmessu og
ég skreyti aldrei jólatréð fyrr en
þá.“
Viðurkenning að fá
jólasveinakaðalinn
EKKI FARA Í JÓLAKÖTTINN!