Fréttablaðið - 02.03.2007, Page 44

Fréttablaðið - 02.03.2007, Page 44
BLS. 8 | sirkus | 2. marS 2007 Sparileg en þægileg „Föt Birtu eru í miklu uppáhaldi hjá mér og mér finnst gaman að fötum sem enginn annar á eins. Fötin eru glæsileg og svala minni glysgirni með glitrandi pallíettum og steinum. Þau eru líka þægileg og ég gat notað mikið af þeim yfir alla meðgönguna þótt þau séu sparileg. Ég hef oft komið fram í fötum frá henni auk þess sem ég gifti mig í kjól frá Birtu.“ Selma Björnsdóttir söngkona Fékk mikla athygli vegna kjólsins „Ég klæddist kjól frá Birtu þegar ég fór á kvikmynda- hátíðina Shooting Star árið 2003. Ég fékk mjög mikla athygli frá stelpunum frá hinum löndunum sem urðu alveg sjúkar þegar þær sáu kjólinn sem var svona prinsessu-pæjukjóll. Eftir það hef ég verið dugleg að kaupa kjóla og allskyns önnur föt frá henni og er mjög ánægð með þau.“ Nína Dögg Filippusdóttir leikkona Birta er í uppáhaldi „Birta er mitt uppáhald og ég hef gengið í fötum frá henni í mörg ár. Hún hannaði til dæmis brúðkaupskjólinn minn og gerði það alveg ótrú- lega vel svo ég treysti henni fyrir öllu. Hún er svo vandvirk í öllum smáatriðum og hugmyndarík og kemur með sniðugar lausnir. Þú færð ekki svona kjóla hvar sem er og því er gaman að geta farið ti hennar og fengið flotta kjóla.“ Elma Lísa Gunnarsdóttir leikkona É g hef haft áhuga á tísku frá því ég var lítil og var farin að sauma á mömmu úr gömlum gardínum þegar ég var tíu ára,“ segir Birta Björnsdóttir í júniform en hönnun Birtu hefur heldur betur slegið í gegn eftir að sjónvarpskonan Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir birtist í kjólum hennar í Söngva- keppni Sjónvarpsins. Kjólarnir, sem voru vinsælir fyrir, voru á allra vörum eftir keppnina svo lögin sjálf urðu hreinlega að lúta í lægra haldi. Svo mikið er að gera hjá Birtu þessa daga að hún hefur engan veginn undan að hanna föt á íslenskar konur sem æstar eru í þessa flottu kjóla. Kostir og gallar að vinna ein Birta og vinkona hennar, Andrea Magnúsdóttir, stofnuðu fatahönnun- armerkið júniform fyrir um fimm árum. Andrea hefur nú snúið sér að öðru og hefur Birta því séð um júniform einsömul í eitt og hálft ár. „Við Andrea byrjuðum í þessu með engin plön og meira til að leika okkur og hafa gaman af. Við vorum tvær ólærðar stelpur að leika okkur að sauma bómullarboli og lita efni. Síðan hefur þetta mikið þróast,“ segir Birta en þær stöllur seldu í nokkrar verslanir í Reykjavík til að byrja með. „Fljótlega urðum við leiðar á því að sauma heima enda voru efnin út um allt, saumavélarnar alltaf uppi á borðum og títuprjónar að festast í skóm kærastanna okkar. Þess vegna leituðum við okkur að húsnæði og fundum það hér á Hverfisgötunni. Í fyrstu ætluðum við aðeins að hafa hér vinnustofu en þar sem áhuginn var mikill breyttist húsnæðið fljótlega í verslun.“ Birta segist hafa verið hálf einmana eftir að Andrea yfirgaf hana enda vön að vinna með öðrum. „Í fyrstu fannst mér þetta alveg ómögulegt en það að vinna ein hefur líka sína kosti. Mér fannst óþægilegt að geta ekki rætt hönnun- ina og fengið „feedback“ frá henni en í dag er ég vön að vera ein og finnst það fínt þótt það hafi kannski verið skemmtilegra að hafa einhvern með sér í þessu. Ég er núna með góða stelpu í vinnu hjá mér og við vinnum mikið saman og gengur sú samvinna mjög vel.“ Gerði sér ekki grein fyrir sprengingunni Birta segist aldrei hafa getað trúað sprengingunni sem átti sér stað eftir að Ragnhildur Steinunn birtist í kjólum hennar. „Þetta er búið að vera ótrúlegt og tvisvar hef ég þurft að loka versluninni þar sem hún hefur einfaldlega verið tóm. Ragnhildur Steinunn er glæsileg kona en ég gerði mér ekki grein fyrir hversu mikil áhrif hún hefði. Ef ég hefði getað ímyndað mér viðbrögðin hefði ég undirbúið mig betur,“ segir Birta sem er farin alvarlega að leita sér að framleiðslu- aðilum á erlendri grundu. „Ég er að fá saumakonur og saumastofur til að sauma fyrir mig auk þess sem ég er alltaf að, en það er bara dropi í hafið miðað við eftirspurnina. Ólíkt öðrum merkjum er nánast hver flík einstök og mikill tími á bak við hana og því hentar það illa til fjöldaframleiðslu, þess vegna þarf ekki mikið til að tæma mína litlu búð.“ Kvenlegir og klæðilegir Það er engin furða að kjólar Birtu hafi vakið svo mikla athygli eins og raun ber vitni því um glæsilega og öðruvísi kjóla er að ræða. Birta segir nokkrar konur hafa beðið um eins kjóla og sáust í söngvakeppninni en slíkir kjólar eru aðeins gerðir í einu eintaki. „Ég hanna undir tveimur merkjum, júniform sem eru nokkur eintök af hverri flík og júnik þar sem engin flík er eins. Mér finnst skemmtilegast að leika mér með óvenjuleg snið, hanna út fyrir rammann og stöðugt vera að finna eitthvað nýtt. Ég reyni að halda fötunum kvenlegum og klæðilegum og hef voðalega gaman af því að vinna með óhefðbundin efni. Óneitanlega fer gífurlegur tími í það að finna þessi efni. Ég hef verið að versla þessi efni alls staðar að úr heiminum, stundum alla leið frá Japan, á mörkuðum, gömlum efnalagerum, mikið í gegnum netið og þegar fjölskyldan fer í frí erlendis hef ég augun alltaf opin.“ Hannar á fallegustu konur landsins Birta er lærður förðunarfræðingur en færði sig smám saman yfir í fatahönnunina eftir að hafa kennt og starfað sem skólastjóri í förðunar- skóla No name um árabil. Reglulega skoðar hún tískublöð en innblástur fær hún einnig úr umhverfinu, frá efnunum og hjá vinkonum sínum. Aðspurð um uppáhalds fatahönnuði fer það algjörlega eftir tímabilum. „Gríski hönnuðurinn Sophia Kokosalaki hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér.Á síðasta ári fannst mér Balenciaga standa upp úr og Ann Demeulemeester er að gera það gott í ár.“ Birta hefur hannað kjóla á margar fallegustu konur landsins auk þess sem Hollywood- stjarnan Julia Stiles féll fyrir hönnun hennar er hún kíkti í verslunina um árið. Stiles keypti kjól og peysu í júniform þegar hún var stödd hér á landi við tökur á kvikmyndinni Little Trip to Heaven. Birta hefur þó aldrei séð leikkonuna í fötunum í tímarit- um eða sjónvarpi en viðurkennir að það hefði verið skemmtilegt. Erfitt að sameina bisnessinn og móðurhlutverkið Birta og maðurinn hennar eignuðust sitt fyrsta barn fyrir tveimur árum en sonurinn heitir því fallega nafni Stormur Björn. Birta viðurkennir að það hafi verið talsverður höfuðverkur að sameina fyrirtækjareksturinn móðurhlutverk- inu og sér í lagi núna þegar svo mikið sé að gera. „Ég er alltaf með hugann við vinnuna og get oft ekki sofnað þar sem það er svo mikið að gerast í hausnum á mér. Það er skemmtilegt að hafa áhuga á vinnunni sinni en ég viðurkenni alveg að ég væri stundum til í að vinna við eitthvað sem ég þyrfti ekki að taka með mér heim á kvöldin. Sonurinn er svo ungur og auðvitað vil ég eyða sem mestum tíma með honum. Áreitið getur verið mikið og ég er oft heldur orkulaus þegar ég kem heim á kvöldin. Ég er þakklát velgengninni en álagið má ekki vera of mikið.“ Með ýmislegt á prjónunum Þrátt fyrir að Birta hafi gaman af því að reka sitt eigið fyrirtæki segist hún léleg við að taka sénsa. „Ég held að ég sé frekar léleg bisnesskona,“ segir hún hlæjandi en bætir við að henni þyki gaman að vera með puttana í þessu. „Í rauninni trúði ég aldrei að ég gæti lifað á hönnuninni og því er þetta algjör draumur,“ segir hún og bætir við að möguleikarnir og leiðirnar séu margar og fjölbreyttar. „Það væri gaman að koma vörunni á markað erlendis og það er ýmislegt á döfinni,“ segir hún leyndardómsfull á svipinn. Hannar minnst handa sjálfri sér Birta segir Íslendinga framarlega í tísku og að íslensk hönnun sé á uppleið. „Við erum mjög framarlega í tísku en landið er lítið og þótt margir reyni að vera öðruvísi endum við því miður oft á því að vera öll voðalega svipuð. Það er hins vegar mikil gróska í gangi og mikið af ungum hönnuðum að spretta upp,“ segir hún. Aðspurð hvort hún verði ekki að eiga suma kjólana sem hún saumi segist hún hálf dofin fyrir framleiðslunni. „Ég er stundum búin að vinna svo mikið með efnin og sniðin að mér finnst ég hafa verið hundrað sinnum í flíkinni þó ég hafi aldrei farið í hana. Samt verð ég þó að segja að það er gaman að geta hannað sínar flíkur sjálf og geng ég mest megnis í minni eigin hönnun,“ segir Birta glöð í bragði að lokum. indiana@frettabladid.is Grunnurinn laGður MEð GöMluM GardínuM Birta Björnsdóttir hefur haft áhuga á tísku frá unga aldri. Hönnun Birtu hefur lengi verið vinsæl á meðal íslenskra kvenna en eftir að sjónvarpstjarnan ragnhildur Steinunn Jónsdóttir klæddist kjólum Birtu í söngvakeppni sjónvarpsins hefur orðið sprenging. Birta segir að erfitt sé að sameina fyrirtækjarekstur og móðurhlutverkið en hún eignaðist sitt fyrsta barn, Storm Björn, fyrir tveimur árum. Birta telur íslendinga vera framarlega í fatahönnun en hún hefur hannað föt á fallegustu konur landsins sem og leikkonuna Juliu Stiles. SirKuSMynd/Valli.

x

Fréttablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.