Fréttablaðið - 05.06.2007, Síða 20
Mannfólkið er þannig gert að það vill
yfirleitt meiri gæði frekar en minni.
Þetta á við um heilsu líkt og önnur
gæði. Vandi liggur hins vegar í því
að auðlindir samfélagsins eru ekki
óþrjótandi. Hagfræði er vísindagrein
sem fjallar um leiðir til að ráðstafa
takmörkuðum auðlindum samfélaga.
Orðið HAGfræði er lýsandi, þar
sem hagfræðingar fjalla um hvernig
hagsæld samfélagsins sé hámörkuð.
Til þess að nálgast ólíkar aðstæður í
samfélaginu takast hagfræðingar á við
viðfangsefni sín innan marka margra
undirgreina. Heilsuhagfræði fjallar
t.d. um ýmsa þætti er varða heilsu.
Grunnspurningar hagfræðinnar —
hvað skal framleiða, í hvaða magni,
fyrir hvern og af hverjum — til þess að
hámarka hagsæld samfélagsins, eru
ekki síður mikilvægar varðandi heilsu
en aðra þætti.
Heilsa er flestu fólki mikilvæg en
er þó ekki það eina sem gefur því
velferð. Ekki er hægt að gera ráð
fyrir því að markmiðið sé einungis að
samfélagsþegnarnir séu sem hraustastir
og ekki er alltaf víst að áunnin heilsa
sé fórnanna virði. Merki þessa sjáum
við oft í hegðun fólks sem kýs sjálft
að fórna heilbrigðum lífsháttum
fyrir önnur gæði. Dæmi um þetta er
óhollt mataræði, hættuleg störf eða
lítil líkamshreyfing sem meðal annars
kemur fram í ofnotkun á ökutækjum.
Sá einstaklingur sem fer fótgangandi
til vinnu sinnar, svo dæmi sé tekið,
er fyrir þær sakir í betra líkamlegu
ástandi og getur vænst lengri og
betri lífdaga. En af hverju ganga
ekki allir til vinnu sinnar? Ástæðan
hlýtur að vera sú að önnur markmið
ráði ferðinni; til greina kemur t.d að
einstaklingurinn sækist frekar eftir
þeim auknu tekjum og meiri neyslu
sem fleiri vinnustundir geti skilað,
þar sem um ræðir gæði sem greiða
þarf fyrir. Einstaklingurinn fórnar þá
heilbrigði fyrir ýmis önnur lífsgæði.
Tími er hér dæmi um takmarkaða
auðlind og einstaklingurinn er sjálfur
ekki tilbúinn til þess að fórna þeim
tækifærum sem tíminn getur skapað
honum á öðrum vettvangi fyrir
heilsuna.
Heilsa er treyst með heilbrigðis-
þjónustu, sem er eitt viðfangsefni
heilsuhagfræðinga. Hröð tækniþróun
í heilbrigðisþjónustu hefur aukið val-
möguleika og meðferðarúrræði. Ólíkt
flestri framleiðslu þá hefur þessi aukni
tækjakostur og nýjar lyfjameðferðir
aukið útgjöld til heilbrigðismála. Nú
er svo komið að í vestrænum löndum
fara um 10% af vergri þjóðarfram-
leiðslu til málaflokksins. Þetta kallar
á nýjar áherslur við stefnumótun og
ákvarðanatöku í heilbrigðismálum.
Þess er nú almennt krafist að heil-
brigðisþjónusta sé ekki einungis
árangurs rík, heldur að sem mest fáist
fyrir þau verðmæti sem til hennar er
varið. Þetta er einmitt ástæða þess
að heilsuhagfræði er mikilvæg við
ákvarðanatöku í heilbrigðiskerfinu. Hér
má t.d. nefna til sögunnar rannsóknir
á fjármögnun heilbrigðiskerfisins og
heilbrigðistrygginga, rannsóknir á
eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu,
rannsóknir kostnaðar- og ábata-
greiningu lyfjameðferða, rannsóknir
á markaðsaðstæðum og markaðs-
brestum er varða heilsu, hagkvæm-
asta magni bólusetninga fyrir sam-
félagið, muninn á einkareknum
og ríkisreknum heilbrigðiskerfum,
stærðar hagkvæmni sjúkrahúsa, áhrif-
um breyttrar aldurssamsetningar þjóða
á heilbrigðisútgjöld og svona mætti
lengi telja.
Heilsa fólks veltur þó ekki einungis á
gæðum helbrigðisþjónustu. Þess vegna
skoða heilsuhagfræðingar einnig aðra
þætti á borð við samfélagslega áhrifa-
valda heilbrigðis. Um þessar mundir
beinist mikið af rannsóknum heilsu-
hagfræðinga að offitu, orsökum hennar
og afleiðingum, t.d. á vinnumarkað,
lífeyrisjóðsmál og tryggingamál. Ýmis
áhættuhegðun hefur einnig verið
heilsuhagfræðingum hugleikin á
umliðnum árum. Mikilvægt er t.d.
hvað varðar forvarnir í fíkniefnamálum
að kunna góð skil á því hvernig ein-
staklingar bregðast við breyttu um-
hverfi og hvers konar opinberar ráð-
stafanir eru líklegastar til þess að hafa
áhrif á hegðun einstaklinga.
Heilsuhagfræði er sannarlega fræði-
grein sem tengist tæknilegum út-
færslum vísindanna sem eru áhuga-
verðar í sjálfum sér. Í sama mund
hefur sú þekking sem þannig er
sköpuð afdrifaríkar afleiðingar fyrir
ákvarðanatöku á fjölmörgum sviðum
mannlífsins. Stjórnendur heilbrigðis-
kerfanna og þeir sem móta almenna
stefnu í heilbrigðismálum reiða sig
á slíkar rannsóknir. Mikilvægt er að
rannsóknir á sviði heilsuhagfræði
liggi fyrir áður en spítalar eru sam-
einaðir, aðgerðir eru ákveðnar á til-
teknum sviðum lífvísinda, ráðist er
í stefnumótun um reykingabönn og
svona mætti lengi telja. Auk þess
hafa fyrirtæki sprottið upp hérlendis
sem málið varðar. Hér mætti nefna
Össur hf. og lyfjafyrirtæki, en við
blasir hvernig heilsuhagfræði í heild
sinni og þættir hennar, s.s. þróunar-
hagfræði, lyfjahagfræði og hagfræði
hugmyndaréttinda geta nýst innan
slíkra fyrirtækja.
Engum blöðum er um það að fletta að
viðfangsefnin eru fjölbreytt og krefjast
ólíkra úrlausna. Ef bjarga á ákveðn-
um fjölda lífára má gera það með
ýmsum hætti: Ættum við að moka
tröppurnar hjá öldruðum í hvert
skipti sem snjóar, setja vegrið á helstu
umferðaræðar eða skima eftir legháls-
krabbameini, svo nokkur dæmi séu
tekin? Heilsuhagfræðin hefur leiðir til
að svara hvaða aðferð skilar mestum
árangri miðað við fyrirliggjandi
verðmæti.
Viðfangsefnin eru óþrjótandi og enn er
langt í land með að heilsuhagfræðinni
sé sinnt af því afli sem nauðsynlegt
er í jafn viðamiklu heilbrigðiskerfi og
rekið er hér á landi. Heilsuhagfræði
er ung grein á Íslandi og hefur
almennt fengið litla umfjöllun þar
sem sérfræðinga vantar enn. Faginu
mun þó vaxa fiskur um hrygg, nú
þegar er hægt að læra heilsuhagfræði
til meistaragráðu við Háskóla Íslands
og sækja námskeið í heilsuhagfræði
í gegnum Endurmenntun Háskóla
Íslands. Viðfangsefni í heilbrigðisþjón-
ustu krefjast slíkrar sérmenntunar.
Rannsóknir á sviðinu hérlendis eru
einnig að aukast samhliða aukinni
þekkingu á fræðasviðinu. Hagfræði-
stofnun Háskóla Íslands hefur stundað
nokkuð af slíkum rannsóknum og fer
heilsuhagfræðiverkefnum sem stofn-
unin tekur að sér fjölgandi. Von er
til þess að rannsóknir í lyfjahagfræði
eflist einnig mjög á næstunni, þar
sem nú hefur verið sett á laggirnar
Rannsóknarstofnun um lyfjamál við
Háskóla Íslands. Þar verður meðal
annars lögð áhersla á rannsóknir um
lyfjastefnu og heilsuhagfræði.
Tinna Laufey Ásgeirsdóttir er doktor
í heilsuhagfræði og starfar við
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.
Hagfræði heilsa og
heilbrigðismál
Dr. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir
Lífsstílssjúkdómar
Frumtök hafa látið framleiða fimm
stuttmyndir sem fjalla almennt um
lífstílssjúkdóma og gildi forvarna í
baráttunni gegn þeim. Fyrsta myndin
fjallar almennt um lífstílssjúkdóma,
þá er ein um gildi hreyfingar, ein
um gildi holls mataræðis og góðrar
næringar, ein um streitu og loks ein
um reykingar.
Ýmis heilsufarsvandamál steðja að
mannkyninu. Matarskortur, náttúru-
hamfarir og spillt stjórnvöld eru
meginástæðan fyrir gríðarlegum heil-
brigðisvandmálum í þriðja heiminum.
Þúsundir barna þjást af hungri og
sjúkdómum. Flest þeirrra deyja, þús-
undir verða munaðarlaus og njóta ekki
heilbrigðisþjónustu né menntunar.
Þeir Jarðarbúar sem betur mega sín eiga
hins vegar við önnur vandamál að stríða.
Alvarlegust þessara vandamála eru þau
sem hafa skapast vegna góðs efnahags,
enda er iðulega í þessu sambandi talað
um velmegunarsjúkdóma eða lífsstíls-
sjúkdóma. Þessir sjúkdómar stafa að
mestu leyti af röngu mataræði eða ofáti,
hreyfingarleysi, streitu og reykingum.
Þrátt fyrir allt, geta Íslendingar
vænst þess að vera við góða heilsu
og tiltölulega lausir við sjúkdóma
allt til 71 árs aldurs, - eða lengst allra
Evrópubúa.
Með því að temja okkur heilbrigða
lífshætti og lífsviðhorf, aukum við
líkurnar til mikilla muna á því að
lifa heilbrigðu og góðu lífi alla æfi.
Með heilbrigðu líferni spörum við
þjóðfélaginu verulegar fjárhæðir;
fjárhæðir sem mætti nýta í ýmislegt
annað, eins og eflingu menntakerfisins
og betri þjónustu við aldraða.