Fréttablaðið - 05.12.2007, Blaðsíða 38
30 5. desember 2007 MIÐVIKUDAGUR
menning@frettabladid.is
Það er ekki á hverjum degi
sem óperusöngkona flytur
aríur ætlaðar ólíkum rödd-
um á einum og sömu tón-
leikunum. Þetta gerist þó á
morgun þegar Ingveldur Ýr
Jónsdóttir, sem er vel þekkt
sem messósópran, kemur
fram í fyrsta skipti sem
sópran á hádegistónleikum í
Hafnarborg.
„Ég hef alltaf verið á mörkunum á
milli þess að vera sópran og
messósópran. Þegar ég var í námi
sveiflaðist ég dálítið á milli þess að
syngja verk fyrir þessar tvær radd-
ir því ég hafði svo vítt raddsvið. Það
fór á endanum svo að ég hálfpart-
inn fann mig í messósópran röddinni
og hef því ætíð starfað sem slík.
Undanfarið hef ég þó verið að leika
mér að því að syngja sópranrödd og
nú er svo komið að ég hef ákveðið
að koma opinberlega fram sem
sópran,“ segir Ingveldur Ýr.
Ingveldur segir söngraddar-
skipti sín ekki vera neitt einsdæmi
enda eru margar söngkonur annað-
hvort á mörkum raddanna tveggja
eða með breið raddsvið sem ná yfir
þær báðar. Helsta breytingin sem
raddskiptin fela í sér er að tölu-
verður munur er á hlutverkum
fyrir raddirnar tvær innan tónbók-
menntanna. „Messósópranhlut-
verk eru gjarnan mikil karakter-
hlutverk sem reyna ekki aðeins á
sönginn heldur einnig leikhæfileik-
ana. Messósópranpersónur eru
stundum dálítið utangarðs, til
dæmis nornir eða vondar kvenper-
sónur, þó að það séu að sjálfsögðu
til margvísleg hlutverk fyrir þessa
rödd. Sópranhlutverk eru aftur á
móti oftast kvenhetjur. Með radd-
skiptunum má því segja að ég bæti
við mig kvenhetjuhlutverkunum.“
Tónleikarnir eru liður í hádegis-
tónleikadagskrá Hafnarborgar,
menningar- og listastofnun Hafnar-
fjarðar, en þar hafa farið fram
mánaðarlegir hádegistónleikar
síðan árið 2003. Listrænn stjórn-
andi tónleikaraðarinnar er píanó-
leikarinn Antónía Hevesi og velur
hún þá listamenn sem koma fram á
tónleikunum. Á efnisskránni á
morgun verða auðvitað sópranaríur
en einnig aríur fyrir messósópran-
rödd. Aríurnar eru eftir ekki
ómerkari tónskáld en Bizet,
Mozart, Verdi og Puccini.
Tónleikarnir hefjast kl. 12, eng-
inn aðgangseyrir er að þeim og eru
þeir öllum opnir á meðan húsrúm
leyfir. Tónleikarnir standa yfir í
um hálfa klukkustund og eru hugs-
aðir sem tækifæri fyrir fólk í
Hafnarfirði til að njóta góðrar tón-
listar í hádegishléinu sínu.
vigdis@frettabladid.is
Daglegt líf almennings hefur
tæknivæðst á ógnarhraða síðast-
liðin eitt hundrað ár. Um aldamótin
síðustu mætti segja að viss
kúvending hafi orðið í ásýnd
tækjaheimsins þegar stafræn
tækni ruddi sér til rúms og náði á
skömmum tíma yfirhöndinni á
fjöldamörgum sviðum hins vél-
ræna. Samfara tækniþróun
breytist ímynd tækninnar og hug-
myndir okkar um hana. Tækni,
hug myndir og ímyndir eru einmitt
viðfangsefni myndlistarsýningar
sem verður opnuð á morgun kl. 18
í danska netgalleríinu Net-
filmmakers.
Sýningin nefnist Ímynd tækn-
innar og eru listamennirnir sem
eiga á henni verk þau Anna María,
Finnur Arnar Arnarsson og Hrafn-
kell Sigurðsson. Listamennirnir
sýna ný myndbandsverk sem eru
sérstaklega gerð fyrir netið. Sýn-
ingarstýra er Úlfhildur Dagsdóttir
bókmenntafræðingur.
Opnunin verður í turnherbergi
Nikolaj-listasafnsins, sem er stað-
sett í gamalli kirkju í miðbæ Kaup-
mannahafnar, og þar munu lista-
mennirnir kynna og frumsýna
verk sín.
Netfilmmakers er gallerí sem
er eingöngu rekið á netinu og er í
umsjá Annettu Finnsdóttur. Gall-
eríið er hugsað sem rafrænt rými
fyrir myndlistarfólk og kvik-
myndagerðarfólk, og er opið öllum
á netinu, alltaf, án gjalds. Fyrir
utan að skoða þær sýningar sem
eru í gangi hverju sinni geta gest-
ir einnig horft á verk af fyrri sýn-
ingum í safni gallerísins.
Nýjar sýningar eru opnaðar á
þriggja mánaða fresti og eru allar
sýningarnar tematengdar. Hug-
myndin er sú að kanna möguleika
listsköpunar á netinu og í rafræn-
um rýmum, jafnframt því að
kanna form og mörk myndbands-
verka og kvikmyndalistar. Net-
filmmakers má finna á vefslóðinni
www.netfilmmakers.dk - vþ
Ímynd tækni á netinu
Þrír áhugaverðir fyrirlestrar eru í boði í Þjóðminja-
safninu í dag og á morgun. Aðalfundur Hins
íslenzka fornleifafélags verður haldinn í dag klukk-
an 16 í fyrirlestrarsal safnsins og mun þá Gunnar
Bollason, sagnfræðingur og verkefnisstjóri hjá
Fornleifavernd ríkisins, flytja fyrirlestur um eldri
minningarmörk, legsteina og steinsmíði á Íslandi.
Hið íslenzka fornleifafélag, sem stofnað var 1879,
sinnir bæði rannsóknum á fornleifum og öðrum
menningarminjum.
Á fimmtudag, sem vill svo til að er afmælis-
dagur dr. Kristjáns Eldjárn, fyrrum þjóðminja-
varðar, verða svo þær Æsa Sigurjónsdóttir
listfræðingur og Sigrún Sigurðardóttir, sagn-
fræðingur og menningarfræðingur, með mál-
stofu þar sem þær kynna rannsóknarverkefni
sín en þær vinna báðar við ljósmyndarann-
sóknir í rannsóknarstöðu Kristjáns Eldjárn.
Viðburðurinn hefst kl. 14.30.
Fyrirlestur Æsu heitir Myndir úr köldu stríði
og fjallar um rannsóknir hennar á ljósmyndum
kalda stríðsins og myndir Werners Bischof frá
Íslandi, en myndir þessar komu nýlega í leitirnar.
Myndirnar voru hluti af umfangsmiklu verkefni
sem var skipulagt af ECA-stofnuninni í París til að
skipuleggja Marshall-aðstoðina í Evrópu.
Fyrirlestur Sigrúnar heitir Afturgöngur og ræðir
hún um heimildagildi ljósmynda, sannleika, blekk-
ingu og félagslegt raunsæi í ljósmyndum, einkum
af börnum og unglingum við vinnu á sjó. Sigrún
segir ljósmyndina vera heimild um atburð
sem átti sér stað á ákveðnum tíma, en að við
þurfum þó að taka sannleiksgildi myndarinnar
með fyrirvara. Þannig eru ljósmyndir, að mati
Sigrúnar, eins og vofur eða afturgöngur að
því leyti að þær eru hvorki raunverulegar né
óraunverulegar, en þó hvort tveggja í senn.
Allir eru velkomnir á viðburðina báða dagana
og ekkert kostar inn. - vþ
Mark Wallinger, 48 ára gamall
breskur myndlistarmaður, vann
hin virtu bresku Turner-myndlist-
arverðlaun í ár. Auk heiðursins
hlýtur listamaðurinn rúmar þrjár
milljónir króna í verðlaunafé.
Wallinger fékk verðlaunin fyrir
innsetninguna State Britain sem
var til sýnis í Tate Britain-safninu
í London fyrr á árinu. Í innsetn-
ingunni endurskapaði Wallinger
mótmæli sem maður að nafni
Brian Haw hélt úti um fimm ára
skeið gegn þátttöku Breta í stríð-
inu gegn hryðjuverkum. Haw kom
sér fyrir á grasbala á móti þing-
húsinu í London og setti þar upp
ótal mótmælaskilti sem hann skap-
aði sjálfur. Mótmælin stóðu frá
árunum 2001 til
2006, en þá
fjarlægði
lögreglan í
London skilt-
in og Haw
sjálfan í krafti
nýrra laga sem
banna mótmæli í
eins kílómetra
radíus frá
þinghúsinu.
Wallin-
ger hafði
sér
til fulltingis þrettán aðstoðarmenn
við að skapa verkið, en þrátt fyrir
liðsaukann tók vinnan hálft ár.
Dómnefnd hrósaði verkinu fyrir
nánd þess, kraft og sagnfræðilegt
mikilvægi.
Wallinger var að vonum
ánægður með heiðurinn. Hann
sagði við það tilefni að hann ætti
verðlaunin fyllilega skilin þar sem
State Britain hefði einfaldlega
verið besta breska samtímalista-
verkið sem sýnt hefði verið á árinu
og að hann sæi enga ástæðu til að
gera sér upp hógværð.
Aðspurður hvort hann hefði í
hyggju að deila verðlaunafénu
með Haw sagði Wallinger að það
kæmi engum við hvernig hann
kysi að ráðstafa fénu. - vþ
Mótmæli vinna
Turner-verðlaunin
VIÐ ÆFINGAR Ingveldur og Antónía æfa fyrir tónleikana á morgun. FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
Raddskipti í hádeginu
MARÍA MEY HÖGGVIN Í STEIN
Fagurt minningarmark.
Þrír fyrirlestrar
LISTAMAÐURINN Engin hógværð.
MYNDBANDSVERKIÐ SLEEPER Í þessu
verki röltir Wallinger um listasafn um
nótt íklæddur bjarndýrsbúningi.
Kl. 17.15
Hildur Helgadóttir les upp úr bók
sinni, Í felulitum, á Amtsbóka-
safninu á Akureyri í dag kl. 17.15.
Í bókinni fjallar Hildur um dvöl
sína í Bosníu á vegum íslenska
utanríkisráðuneytisins. Viðburð-
urinn er ókeypis og öllum opinn.
> Ekki missa af...
Ljósmyndasýningunni Flickr-
flakk og heljarstökk sem
stendur nú yfir í Ljósmynda-
safni Reykjavíkur, Tryggvagötu
15. Sýningin beinir sjónum
sínum að íslenskum ljósmynd-
urum og ljósmyndaáhuga-
mönnum sem lifa og hrærast í
ljósmyndasamfélaginu Flickr á
netinu. Hvorki meira né minna
en 94 ljósmyndarar eiga um
220 ljósmyndir á sýningunni.
ÚLFHILDUR DAGSDÓTTIR Sýningarstýra
Ímyndar tækninnar.