Fréttablaðið - 14.05.2008, Blaðsíða 18

Fréttablaðið - 14.05.2008, Blaðsíða 18
18 14. maí 2008 MIÐVIKUDAGUR greinar@frettabladid.is FRÁ DEGI TIL DAGS Um þessar mundir minnast Frakkar þess með pomp og pragt að fjörutíu ár eru liðin frá þeim atburðum sem kenndir eru við „maí 68“; hefur allt verið á öðrum endanum þess vegna í nokkrar vikur og allar horfur eru á því að svo verði enn um stund, a.m.k. þangað til yfirstandandi maímánuður er allur. Reyndar kom í ljós í rækilegri könnun sem kennarar og sálfræðingar gerðu að mikill meirihluti nemenda í skólum landsins gat alls ekki svarað spurningunni: „hvenær var maí 68?“ Kannske finnst ýmsum ástæðulaust að krefjast svo mikillar söguþekkingar af ungvið- inu, en hvað sem því líður er von til að slík fáfræði verði brátt úr sögunni. Fyrir skömmu las ég í blaði að áttatíu og átta bækur væru nú komnar út um þessa atburði eða þá á leiðinni, og munu þá ekki vera taldar ýmsar endurútgáfur; flest málsmetandi blöð og tímarit gefa út sérhefti, sýndar eru sjónvarps- myndir, gamlar og nýjar, sérstakar dagskrár eru fluttar í útvarpsstöðv- um og þar fram eftir götunum. Ekki verður nú annað séð en mikill einhugur ríki um þessa atburði fjörutíu árum síðar. Þegar Frakkar voru spurðir að því í skoðanakönnun hvoru megin þeir hefðu verið í götubardögunum í maí 68 sögðu sjötíu og sjö af hundraði að þeir hefðu verið með stúdentum en fjórtán af hundraði að þeir hefðu verið með lögregl- unni. Tveir menn sem voru sitt hvoru megin við götuvígin, Daniel Cohn-Bendit leiðtogi stúdenta og Maurice Grimaud fyrrverandi lögreglustjóri Parísar, nú hátt á tíræðisaldri, hittust nýlega í sjónvarpssal og ræddu málin í mesta bróðerni. En það hefur komið fram að lögreglustjórinn var hálft í hvoru á bandi stúdenta, þótt það færi ekki hátt á sínum tíma. Þannig rísa nú hátíðahöldin fjöllunum hærra. En í frönskum veislum sem standa lengi er gjarnan siður, að þegar allt stendur sem hæst gera menn smáhlé og steypa í sig svo sem einu glasi af lútsterku brennivíni. Oftast er til þess haft eplabrennivín frá Normandí nálægt áttatíu prósent, og eftir því er þessi siður kallaður, hann heitir sem sé „Normannagat“. Þess vegna var við því að búast að í hátíðahöldunum út af maí 68 stöldruðu menn einhvern tíma við og tækju upp þennan sama sið, og það gerðist. Snemma í maí rann nefnilega upp fyrir mönnum að nú átti Nikulás Sarkozy eins árs afmæli á forsetastól, það var sem sé ár liðið síðan hann vann sinn mikla sigur í forsetakosningum og tók við embætti með stóryrtum yfirlýsingum. Og menn gerðu smáhlé og innbyrtu þetta beiska brennivín, þetta forsetabrugg. Eins og búast mátti við í Normannagati var það ekki laust við grettur. Eitt vikublaðið birti mynd af fúlum Sarkozy með áletruninni: „Andskotinn, fjögur ár enn...“, en annað blað reiknaði út hvað fjögur ár væru margir dagar, svo menn gætu farið að telja dag frá degi hve langt væri eftir. En menn bentu einnig á það að forsetinn, eða „Napóleon Narciss- us“ eins og sumir kalla hann, hafi að vissu leyti haldið sín kosninga- loforð: hann lofaði því sem hann kallaði „rupture“ á frönsku, en það er „rof“ á íslensku og felast í því alger þáttaskil eða kúvending í pólitíkinni, og ekki er annað hægt að segja en það hafi orðið mikil rof, á mörgum sviðum. Það urðu rof í stjórnarstefnu og -stíl. Sarkozy hélt upp á kosninga- sigurinn með mikilli veislu í dýrasta og fínasta veitingastað Parísar, fór svo að hvíla sig í lystisnekkju sem einn vinur hans, miljarðamæringur eins og nú er sagt, lét honum í té. Þegar hann tók við völdum var það eitt hans fyrsta verk að gera breytingar á reglum um skattheimtu sem höfðu í för með sér miklar skattaívilnanir fyrir auðugasta hluta þjóðarinnar. Þá varð ljóst að Sarkozy ætlaði ekki síst að vera forseti millanna, sem ýmsum fannst að hefðu orðið útundan í forsetatíð fyrirrennar- anna. Það urðu rof í persónulegum stíl. Með sínum sviptingasömu hjónabandsmálum komst Sarkozy þangað sem enginn fyrirrennari hans hafði komist, sem sé á forsíðu ákveðinna vikublaða, „Closer“ og annarra slíkra. Um þennan nýja stíl hafa franskir blaðamenn notað hljóðgerfinginn „bling bling“, hvað sem það á svo sem að merkja. Svo urðu mikil rof milli forsetans og kjósenda. Á stuttum tíma hafa vinsældir hans hrapað niður svo nú er ekki meira en þriðjungur landsmanna sáttur við hann, og vita menn ekki dæmi til slíks hruns áður. En þetta er ekki allt of sumt. Fyrir skömmu urðu aftur rof og nú milli „gamla“ og „nýja“ Sarkozys. Því skyndilega birtist forsetinn í sjónvarpinu, viðurkenndi alls kyns mistök, einkum hvað snerti tjáningu og stíl, og lofaði bót og betrun. Hann lét ekki sitja við orðin tóm, því nú er hann orðinn alvarlegur, jafnvel hlédrægur og orðvar mjög. Telja sumir að Carla Bruni passi vel upp á hann. Þá ættu menn sem sé að vera ánægðir og geta snúið sér aftur að maí 68 veisluhöldunum. En það gildir ekki um alla. Skopteiknarar og háðfugl- ar alls kyns sitja nú uppi með sárt ennið og kveina hástöfum: „Gefið okkur gamla Sarko aftur“. Normannagat EINAR MÁR JÓNSSON Í DAG | Afmæli A ðalhagfræðingur Seðlabankans átti í síðustu viku í krafti stöðu sinnar samtal við þekkt þýskt dagblað. Þar kom fram sú afdráttarlausa skoðun að með evru mætti ná betri stöðugleika í þjóðarbúskap Íslendinga. Þessi ummæli sæta ekki sérlegum tíðindum á heima- velli fyrir þá sök að í meira en tvö ár hefur sú skoðun aðalhag- fræðingsins legið fyrir með vel rökstuddum hætti að ávinningur- inn af sjálfstæðri mynt væri minni en enginn og hún yki fremur sveiflur en að draga úr þeim. Þeirri niðurstöðu fylgdi fyrirvari um álit Seðlabankans sjálfs. Í þýska dagblaðinu var enginn slíkur fyrirvari. Eigi að síður má vera að hann hafi átt að fylgja. Á hinn bóginn var tekið fram að upptaka evru væri ógerleg af pólitískum ástæðum. Það er rétt með því að ríkisstjórnin er því andvíg. Forsætisráðherra hefur þar á móti lýst yfir því að senn sé tímabært að gera fræðilega úttekt á peningamálunum. Hlutverk Seðlabankans er sannarlega ekki að leggja pólitískar línur af þessu tagi. Á hinn bóginn er það skylda bankans í sam- ræmi við sjálfstæði hans að gera fólkinu í landinu grein fyrir hag- fræðilegu mati sínu á því hvernig stjórnun peningamála verður best háttað bæði í bráð og lengd. Það á að vera þekkt. Ríkisstjórnir þurfa að sjálfsögðu ekki að fara að hverju því áliti sem Seðlabankinn lætur í ljós. Ef þannig stendur á er það hlut- verk ríkisstjórna að gera þjóðinni grein fyrir þeim ástæðum sem hugsanlega útiloka hagfræðiálit Seðlabankans. Pólitískar ákvarð- anir eru eftir það teknar á upplýstum grundvelli. Í síðustu viku birti Seðlabankinn ársrit sitt um stöðugleika í íslenskum fjármálum. Það er ágæt stöðulýsing. Þar er á hinn bóg- inn ekki að finna rökstuðning fyrir því að núverandi aðferðafræði við stjórn peningamála dugi til frambúðar. Þar er engin ráðagerð um endurbætur. Þar er heldur ekki að finna röksemdir með eða á móti þeim sjónarmiðum sem aðalhagfræðingur bankans hefur ítrekað lýst bæði heima og erlendis. Í þessu samhengi þarf enn fremur að hafa í huga að forstöðu- maður rannsóknar- og spádeildar hagfræðisviðs Seðlabankans kynnti fyrir nokkrum vikum viðamikla samanburðarrannsókn þar sem fræðilega er rökstutt að með upptöku evru megi ná betri árangri við að hemja verðbólgu. Könnunin var kynnt með fyrirvara um álit Seðlabankans. Í stöðugleikaskýrslunni er engin afstaða tekin til þessarar rannsóknarniðurstöðu. Þegar til þess er horft að helstu forstöðumenn hagfræðisviðs Seðlabankans hafa tjáð skoðanir sínar og skýrt rannsóknar- niðurstöður sínar bæði heima og erlendis með svo ákveðnum hætti verður ekki lengur hjá því komist að kalla eftir áliti bank- ans sjálfs. Í fyrsta lagi þarf að fá úr því skorið hvort sömu eða ólík sjónarmið ríki á hagfræðisviði Seðlabankans annars vegar og í bankastjórn hins vegar. Í öðru lagi þarf að liggja fyrir hvort mat bankans fer saman við stefnu ríkisstjórnarinnar. Ósamræmi þarf ekki að vera óeðlilegt en á að vera vitað. Engin ástæða er fyrir Seðlabankann að draga yfir það fjöður ef hann er sammála aðalhagfræðingunum. Telji bankinn hins vegar að þeir vaði í persónulegum vegvillum með mat sitt og rannsóknir á skipulagi peningamálanna verður það að koma fram með skýr- um hagfræðilegum gagnrökum. Þögnin dugar ekki lengur til að eyða þeirri óvissu. Hún er í besta falli vandræðaleg en í versta falli ótrúverðug. Hver er framtíðarstefnan í peningamálum? Vandræðaleg þögn ÞORSTEINN PÁLSSON SKRIFAR UMRÆÐAN Bjarni Harðarson skrifar um Evr- ópumál Fréttablaðið birti fyrir nokkru tölur sem sýna að 68% þjóðarinnar vill að þjóðin hefji UNDIRBÚNING aðildarvið- ræðna ESB. Aldrei hefur spurningin verið sett fram með svo óljósum hætti en alloft hefur þjóðin verið spurð að því hvort beinlínis eigi að hefja aðildarvið- ræður. 2002 vildi 91% landsmanna hefja slíkar viðræður en í sömu könnun reyndust ekki nema 52% hlynnt aðild. Undirbúningur aðildarviðræðna er mest fólginn í að reka niður verðbólgu og vaxtaokur. Sjálfur myndi ég fagna því ef stjórnvöld sneru sér að því. En ég vil ekki inn í ESB, enda er ekki hægt að ganga í ESB við núverandi aðstæður. Gott yfirlit yfir kannanir um ESB–aðild er að finna á heimasíðu Samtaka iðnaðar- ins. Af þeim má lesa að frá árinu 2003 hefur fylgi við það að hefja viðræður sveiflast frá 69% niður í 55% en í sömu könnunum hefur fylgi við aðild sveiflast frá 52% niður í 36%. Uppsláttur í Fréttablaðinu frá í febrúar um að 55% fylgi við aðildarviðræður sé met eða að fylgi við ESB aðild sé nú í hámarki stenst því ekki skoðun. Vitaskuld getur staðan í þessum málum breyst hratt í þeirri efnahagslægð sem nú ríður yfir. En þá aðeins sem tímabundin óánægja með slæma hagstjórn. Þó er athyglisvert að eini flokkurinn sem hefur aðild á stefnuskrá stórtapar fylgi í könnnunum. Umræðan um ESB einkennist um margt af samskonar draumsýnum og einkenndu fylgismenn sósíalismans. Því er til dæmis haldið fram í sama bláeyga sakleysinu að matarverð og vextir muni lækka um tugi prósenta ef við göngum í ESB. Af því bara. Því er líka haldið fram að ESB muni styrkja íslenska landsbyggðarmenn. Víst er mikið styrkjakerfi í ESB en þeir eru vitaskuld handa hinum fátæku. Ef við ætlum að keppa við Tyrki og Slava verðum við fyrst að verða almenni- lega fátæk. Svipuð er sú mýta að efnahagsvandinn hverfi ef við tökum upp evru. Spyrjum Íra, Ítali og Spánverja sem allir óska sér þess nú að hafa eigin mynt til að geta mætt kreppunni og forðað þannig atvinnumissi og gjaldþrotum. Höfundur er alþingismaður. Talnaleikir ESB-sinna BJARNI HARÐARSON ÚTGÁFUFÉLAG: 365 RITSTJÓRAR: Jón Kaldal og Þorsteinn Pálsson AÐSTOÐARRITSTJÓRI: Steinunn Stefánsdóttir FRÉTTASTJÓRAR: Arndís Þorgeirsdóttir, Kristján Hjálmarsson, Trausti Hafliðason og Höskuldur Daði Magnússon (dægurmál). FULLTRÚI RITSTJÓRA: Páll Baldvin Baldvinsson. VIÐSKIPTARITSTJÓRAR: Björgvin Guðmundsson og Björn Ingi Hrafnsson. Fréttablaðið kemur út í 103.000 eintökum og er dreift ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og þéttbýlissvæðum á suðvesturhorninu. Einnig er hægt að fá blaðið í völdum verslunum á landsbyggðinni. Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu formi og í gagnabönkum án endurgjalds. issn 1670-3871 Áunnin réttindi Geir H. Haarde segir að að í forsætis- ráðuneytinu hafi verið unnið að því um skeið að gera breytingar á lífeyrisréttindum æðstu embættis- manna. Hann segir hins vegar að ekki verði tekin nein réttindi af mönnum sem þeir hafi áunnið sér. Með því á forsætisráðherra við að breytingar á þessum lífeyrisréttindum verði ekki afturvirk. Eftirlaunafrumvarpið var umdeilt, því það gerði æðstu ráðamönnnum kleift að þiggja óskert eftirlaun þótt þeir stunduðu aðra vinnu. Alþingis- menn áunnu sér þessi réttindi með því einfaldelga að festa þau í lög. Og skáka nú í skjóli þess. Megi þeir bera sig eftir því Nú má vel vera að það standist ekki lög að gera afturvirkar breytingar á sjálftök... afsakið, áunnu réttindunum. En þó kemur eitt til greina. Að afnema afturvirkt rétt æðstu embættismanna til að þiggja full eftirlaun á meðan þeir stunda aðra vinnu. Þeim sem finnst á sér brotið væri guðvelkomið að höfða mál á hendur skattgreiðendum og fá greiddar fullar bætur. Verði þeim að góðu. Stuðaðir gagnrýnend- ur Óskar Þór Guðmundsson lögreglumaður skrifaði grein í Morgunblaðið á sunnudaginn um „Taser-valdbeitingartækið“, sem í daglegu tali nefnist rafbyssa. Óskar rekur kosti tækisins og nefnir að það straumurinn í rafbyssu sé í raun miklu minni en í venjulegri jólaseríu og hafi engin áhrif á hjartagangráð. Um efasemdaraddir segir Óskar að þeir sem hafi gagnrýnt rafbyssuna opinberlega séu „akkúrat þeir sem eru stundum í þeim aðstæðum að tækið yrði jafnvel notað gegn þeim“. Jóhanna K. Eyjólfsdóttir, framkvæmdastjóri Amnesty International á Íslandi, Þráinn Bertelsson rithöfundur og Jónas Kristjánsson, fyrr- verandi ritstjóri, hugsa sig sjálfsagt tvisvar áður en þau draga ágæti rafbyssa aftur í efa. bergsteinn@frettabladid.is
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.