Fréttablaðið - 25.06.2008, Blaðsíða 18
18 25. júní 2008 MIÐVIKUDAGUR
greinar@frettabladid.is
FRÁ DEGI TIL DAGS
Þegar ég heyrði fregnirnar um Suðurlandsskjálftann mikla,
fór ég strax að glugga í frönsk
blöð til að sjá hvernig þau segðu
frá þessum atburði. En ég hafði
ekki erindi sem erfiði. Svo var
ekki að sjá að nokkurt blað fjallaði
um skjálftann, og hafi hann
einhvers staðar verið nefndur
hefur það verið í slíkri mýflugu-
mynd að það fannst ekki. En þetta
ætti ekki að koma á óvart, frönsk
blöð hafa frá öðru að segja. Þau
tala um Sarkozy. Ef Sarkozy gerir
eitthvað, segja þau frá því, ef
Sarkozy gerir ekkert, segja þau
frá því, og ef fregnir berast um að
nú sé kominn fram á sjónarsviðið
nýr Sarkozy, hógvær og hlédræg-
ur, velta þau því fyrir sér hve lengi
hann muni geta setið á strák
sínum.
Það sem kveikti kitlandi
spenning fréttamanna nú síðast
(þegar þessi orð eru rituð) var hið
stórmerka mál: „Sarkozy og
konurnar“. Hér var að vísu ekki
um að ræða hjónabandsmál
forsetans sem áður fylltu síður
dagblaða, heldur var nú komið inn
á annað svið. Sarkozy hefur
nefnilega gert fleiri konur að
ráðherrum en nokkur fyrirrennari
hans, jafnvel sósíalistar sem láta
gjarnan hvína í nösum út af
jafnréttismálum, komust ekki með
tærnar þar sem hann hefur
hælana. Af fimmtán ráðherrum í
fyrstu stjórn hans voru sjö
kvenkyns, og þótt hlutfallið hafi
eilítið lækkað í þeirri stjórn sem
mynduð var eftir bæjarstjórnar-
kosningarnar eru þar nú þrettán
konur ráðherrar og aðstoðarráð-
herrar af þrjátíu og átta stjórnar-
limum.
En talan sjálf er ekki allt og sumt,
Sarkozy, sem er í eðli sínu
táldráttarmaður að sögn nákunn-
ugra, hefur líka haft sinn sérstaka
hátt á að velja þær konur sem
hann hefur sett í ráðherrastóla. Á
tímum fyrirrennara hans fengu
konur ekki þessa upphefð fyrr en
þær voru búnar að sýna svo ekki
varð um villst að í stjórnmálum
voru þær ekki eftirbátar eins eða
neins, þær voru búnar að hasla sér
völl í flokk og kjördæmi og, eins
og sumir hafa sagt, orðnar
samdauna og samlitaðar hinu
vaska liði karlkyns stjórnmála-
manna. Sarkozy var fyrstur til að
skilja, að í nútímavæddu þjóðfé-
lagi dugir þetta ekki lengur, og því
hefur hann valið konur í ráðherra-
stóla eins og þaulvanur sjónvarps-
maður velur menn í talþætti.
Og þá er fyrst að telja það sem
skiptir kannske ekki minnstu máli
í þessu samhengi: þær eru mjög
fjölbreyttar að litarhætti, meðal
þeirra er að finna alsvarta konu,
eina rauðhærða eða tvær, aðrar
dökkhærðar, aðrar ljóshærðar, enn
eina með þeim háralit sem
Frakkar kenna við „pipar og salt“,
og loks er þarna að finna það sem
er að sögn sjaldgæfast af öllu,
„feneyska ljósku“. Því hrökk upp
úr einum fréttamanninum: „Þetta
er ekki ríkisstjórn, þetta er
regnboginn sjálfur.“ Þegar
Sarkozy lét taka af sér mynd með
þessum ráðherrum og blóminn
fagur kvenna klár allt í kringum
hann, á hann að hafa sagt: „Er
þetta ekki fríður veiðifengur?“
En undir þessum fögru skinnum
búa einnig mismunandi og
allsterkir persónuleikar, meðal
þeirra er ein múhameðstrúar, af
arabískum uppruna og komin úr
innflytjendahverfi utan Parísar,
ein rammkaþólsk og félagslega
sinnuð, ein alþýðlegur gaullisti, ein
borgaralegur aristókrati af því
tagi sem kennt er við Versali, ein
ósveigjanleg menntakona, og þar
fram eftir götunum. Sarkozy hefur
því ekki hikað við að fela þeim
málefni sem hingað til hafa oftar
en ekki fallið í skaut karlkyns
ráðherrum, svo sem innanríkis-
mál, fjármál og dómsmál, til
viðbótar við þau mál, eins og
umhverfismál og heilbrigðismál,
sem nokkur hefð hefur skapast
fyrir að konur hafi með höndum.
En eins og myndi vel hæfa í
talþætti í sjónvarpi hafa þessar
konur sínar ákveðnu skoðanir,
stundum nokkuð mismunandi, og
munninn fyrir neðan nefið til að
láta þær í ljós. Og þá kemur
vandinn. Öllum þeim sem hafa
umgengist Sarkozy ber saman um
að hann geti alls ekki sagt „nei“
við konur, því síður sagt þeim fyrir
verkum eða sett ofan í við þær. Því
táldráttarmaðurinn er eins og oft
hefur verið sýnt fram á bundinn
og háður þeim sem hann táldregur.
Ef einhver karlkyns ráðherra talar
af sér á almannafæri, á Sarkozy til
að hóta þeim hinum sama hörðum
kárínum, en ef eitthvað slíkt
hendir kvenkyns ráðherra, segir
hann ekkert, nema þegar hann
kemur viðkomandi hástöfum til
varnar. Og ef þessum hörkukonum
lendir saman, laumast hann
þegjandi á braut eins og lafhrædd-
ur kögursveinn, og lætur þær um
að gera upp málin sín á milli.
Þetta taka Frakkar að því er
virðist ekki ýkja alvarlega og
finnst það jafnvel spaugilegt á
stundum, enda gera þessar konur
allavega færri axarsköft en
Sarkozy sjálfur. En á þessu er þó
önnur hlið sem menn hafa meiri
áhyggjur af. Ef Sarkozy á erfitt
með að segja „non“ við konu, hefur
hann hins vegar andspænis sér á
öðrum og breiðari vettvangi konu
sem er ósmeyk við að segja „nein“,
„non“ eða „njet“ við hvern sem er,
og það er Angela Merkel. Og þá
getur gamanið farið að kárna.
Blóminn fagur
EINAR MÁR JÓNSSON
Í DAG |
UMRÆÐAN
Jón Steindór Valdimarsson skrifar um
nýtingu náttúruauðlinda
Ísland er land tækifæranna. Við sitjum að miklum náttúruauðlindum, sem
leggur okkur ríkar skyldur á herðar.
Náttúrufegurð, jarðhiti, vatnsafl og
fiskimið eru gæði sem við þurfum í senn
að nýta og njóta. Nauðsynlegt er að byggja
upp fjölbreytt og blómlegt atvinnulíf með
skynsamlegri nýtingu allra gæða Íslands og eigin
hugvits. Sameiginlegur hagur okkar allra er að ná
sem víðtækustu samkomulagi um hvernig standa
skuli að verki, hvaða almennu leikreglum beri að
fylgja.
Ekkert er við því að segja að mismunandi skoðan-
ir séu á því hvort og hvar einstök fyrirtæki byggja
eða stækka og ekki heldur þó einum hugnist tiltekin
starfsemi betur en önnur. Mikilvægast er að unnið
sé eftir hlutlægum lögum og reglum. Ótækt er að
þurfa að sæta því, oft eftir áralangan og kostnaðar-
saman undirbúning, að pólitískir, efnahagslegir eða
tilfinningalegir vindar ráði að lokum hvort heimilt
er að ráðast í framkvæmdir. Frumkvæði og
framkvæmdavilja á ekki að reisa aðrar en
hlutlægar almennar skorður. Almanna-
valdið á að forðast alla sértæka stýringu í
þeim efnum. Því fjölbreyttara atvinnulíf,
því betra.
Samtök iðnaðarins eru talsmenn þess að
við nýtum náttúruna af fullri virðingu og
gætum þess að spilla henni ekki að óþörfu.
Tækifæri okkar til orkuframleiðslu með
vatnsafli og jarðhita eigum við að nýta til
iðnaðar. Þetta er grundvallaratriði.
Vissulega er um það deilt hvar skuli draga
mörk milli nýtingar og verndar. SI hafa þess vegna
talað fyrir því að brýnt sé að ljúka gerð verndar- og
nýtingaráætlunar um náttúruauðlindir. Því miður
hefur ekki verið settur nægur kraftur í það
verkefni undanfarin ár og það veldur okkur
vaxandi vandræðum og óþörfum deilum.
Stjórnmálamönnum og stjórnvöldum ber skylda
til að vinda bráðan bug að því að ljúka því að setja
gagnsætt og hlutlægt regluverk um samspil
nýtingar og verndar í framtíðarlandinu okkar.
Landi tækifæranna.
Höfundur er framkvæmdastjóri
Samtaka iðnaðarins.
Mótum framtíðarlandið okkar
Sarkozy og konurnar
Ótímabær ályktun
Siv Friðleifsdóttir alþingismaður ritar
grein í 24 stundir þar sem hún vitnar
í frétt Stöðvar 2 um að tíðni hjarta-
þræðinga hafi dregist saman um
21 prósent frá því að reykingar voru
bannaðar á veitinga- og skemmti-
stöðum. Af því dregur hún þá ályktun
að þau sem lögðu fram – og
studdu – frumvarp um reyk-
ingabann hafi stytt biðlista
verulega og bætt lífsgæði
hjartasjúklinga til muna.
Eins trúuð og Siv kann
að vera á gagn og
gæði reykinga-
bannsins er fylgni
ekki það sama
og orsakasam-
hengi. Þar til
vísindalegar rannsóknir um tengsl
reykingabanns á skemmtistöðum og
fjölda hjartaþræðinga liggja fyrir, eru
ályktanir í þessa átt ótímabærar.
Kattliðug króna
Geir H. Haarde sagði á fundi
fjárfesta í London í gær að eigin
gjaldmiðill veitti Íslendingum
meiri sveigjanleika en í
myntsamstarfi. Þetta er
kallað að horfa á björtu
hliðarnar; hér er engin
kreppa, bara krónan að
sýna hvað hún er liðug.
Og hver hefði trúað
hvað hægt er að
beygja hana
mikið á bak
aftur?
Á fjöllum
Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs-
og landbúnaðarráðherra, fékk nóg af
dagsins amstri fyrir helgi og dreif sig í
fjallgöngu um helgina – upp á Heklu
nánar tiltekið, þar sem væsti ekki
um hann. „Það var kalt á toppnum,“
skrifar ráðherrann á heimasíðu sína
eftir að hann kom af fjöllum, en
„notalegt að leggjast niður, hvíla
lúin beinin, drekka kaffi og
borða flatkökur með hangikjeti
og kæfu“. Það eru í sjálfu sér
skiljanleg viðbrögð, þegar krón-
an er í lægstu lægðum, að
ráðherrar flýi upp á
hæstu tinda.
bergsteinn@frettabla-
did.is
JÓN STEINDÓR
VALDIMARSSON
Í
sland á þess kost að verða fyrsta þróaða ríki heims sem
venur sig af notkun jarðefnaeldsneytis. Sú mikla hækkun
sem orðið hefur á olíuverði og ekki sér fyrir endann á felur
í sér tækifæri til að hraða því að Íslendingar nálgist þetta
takmark. Ef rétt er á málum haldið.
Ísland er nú þegar óháð jarðefnaeldsneyti til rafmagnsfram-
leiðslu og húshitunar. Samgöngutæki landsmanna eyða hins
vegar miklu magni af olíu og bensíni með tilheyrandi útblæstri
gróðurhúsalofttegunda. Íslenzki bílaflotinn er sá eyðslufrekasti
í Evrópu. Olíuverðshækkunin nú og sá samdráttur í kaupmætti
landsmanna sem fylgir gengisfalli krónunnar ætti að vera til
þess fallin að vekja neyzluglaða Íslendinga til vitundar um að
þetta þarf ekki að vera svona. Það er hægt að halda í þau lífs-
gæði sem einkabíllinn veitir án þess að brenna öllu þessu dýra
innfluta eldsneyti.
Nú keppast stærstu bílaframleiðendur heims um að markaðs-
setja vistvænni bíla. Sú útfærsla þeirra sem áhugaverðust er
fyrir íslenzkar aðstæður eru svonefndir tengil-tvinnbílar (plug-
in hybrids á ensku), sem eru knúnir bæði af litlum brunahreyfli
(sem gengur fyrir bensíni, dísilolíu eða lífrænu eldsneyti) og raf-
mótorum og eru útbúnir stórum rafgeymi sem hægt er að hlaða
úr heimainnstungu. Þessi tækni gerir það mögulegt að keyra
bílinn að mestu leyti á innlendu, endurnýjanlegu, útblástursfríu,
ódýru rafmagni. En þar sem um borð í bílnum er líka hefðbund-
inn brunahreyfill og eldsneytistankur er drægi hans engu minna
en venjulegs bensínbíls.
Í þjóðhátíðarræðu sinni í síðustu viku sagði forsætisráðherra
að „við verðum nú sem þjóð að bregðast við hinum gríðarlegu
hækkunum á innfluttu eldsneyti“. Hann nefndi að „skynsamlegt
gæti einnig verið að breyta fyrirkomulagi gjaldtöku af ökutækj-
um og eldsneyti í þessu skyni en einnig til að draga úr losun
gróðurhúsalofttegunda“.
Að Geir skyldi setja breytta gjaldtöku af ökutækjum og elds-
neyti í þennan viðtengingarhátt skýtur nokkuð skökku við þegar
haft er í huga að hálfum mánuði áður en hann lét þessi orð falla
var birt niðurstaða úr meira en árs vinnu stjórnskipaðs starfs-
hóps, sem hafði það hlutverk að útfæra tillögur að breyttri gjald-
töku af ökutækjum og eldsneyti með það fyrir augum að ýta undir
notkun vistvænni farartækja og eldsneytiskosta. Starf nefndar-
innar miðaðist við að unnt væri að setja lög á grundvelli tillagna
hennar sem tekið gætu gildi um næstu áramót, þegar tímabundn-
ar reglugerðir um afslátt af gjaldtöku af vissum útfærslum vist-
vænni bíla og eldsneytis renna úr gildi. Af orðum forsætisráð-
herrans að dæma virðist hann ekki telja brýnt að staðið sé við
þessa tímaáætlun. Hvar er metnaðurinn til að Ísland grípi tæki-
færið til heimsforystu í að venja sig af olíufíkninni?
Hækkun olíuverðs og orku- og umhverfisstefna:
Hvar er
metnaðurinn?
AUÐUNN ARNÓRSSON SKRIFAR
ÚTGÁFUFÉLAG: 365
RITSTJÓRAR: Jón Kaldal og Þorsteinn Pálsson AÐSTOÐARRITSTJÓRI: Steinunn Stefánsdóttir FRÉTTASTJÓRAR: Arndís
Þorgeirsdóttir, Kristján Hjálmarsson, Trausti Hafliðason og Höskuldur Daði Magnússon (dægurmál). FULLTRÚI RITSTJÓRA:
Páll Baldvin Baldvinsson. VIÐSKIPTARITSTJÓRAR: Björn Ingi Hrafnsson og Óli Kr. Ármannsson. Fréttablaðið kemur út í
103.000 eintökum og er dreift ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og þéttbýlissvæðum á suðvesturhorninu.
Einnig er hægt að fá blaðið í völdum verslunum á landsbyggðinni. Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í
stafrænu formi og í gagnabönkum án endurgjalds. issn 1670-3871
Laugaveg 54,
sími: 552 5201