Tíminn - 31.10.1982, Blaðsíða 5

Tíminn - 31.10.1982, Blaðsíða 5
SUNNUDAGUR 31. OKTÓBER 1982 5 „HÁSKÓLINN VERÐUR AD DRAGA SAMAN SEGLIN EF FJÁRVEITING HÆKKAR EKKI” — segir dr. Halldór I. Elíasson vararektor ■ Dr. Halldór Ingi Elíasson prófessor, vararektor Háskóla íslands. ■ „Sá vandi sem nú er mest aðkallandi er skortur á rekstrarfé. Hið sama varð uppi á teningnum á síðasta ári. Við fengum þá aukafjárveitingu um haustið, en hún var ekki nema um helmingur af því sem við þurftum. Það er þannig komin upp ný staða fyrir okkur í Háskólanum sem við þekkjum ekki frá fyrri árum. Okkar starfsemi hefur byggst á fjárveitingum frá Alþingi, enda er okkur varla annað fært því ekki förum við að reka kennsluna með lánum. Ef ekki koma til nægilegar aukafjárveiting- ar nú í vetur, þá er ljóst að við verðum að draga saman seglin; hve mikill samdrátturinn yrði byggist á endanlegri upphæð fjárveitingarinnar." Þannig farast dr. Halldór Inga Elíassyni prófessor orð í samtali við Helgar-Tímann um málefni Háskóla íslands. Halldórgegnirstörfum háskóla- rektors í fjarveru dr. Guðmundar K. Magnússonar. Hcfur það veríð rætt hvar helst yrði skorið niður? „Nei það hefur ekki komið til tals, en það yrði ábyggilega mjög erfið umræða. Við erum enn ekki vissir um að það sé vilji Alþingis að starfsemi Háskólans verði skorin niður. Ef hins vegar bilið milli þess sem við þurfum og þess sem við fáum á fjárlögum heldur áfram að breikka þá er ljóst að við verðum að endurmeta þá skoðun." Kæmi til greina að hætta að taka við nýjum stúdentum í Háskólann? „Það kæmi vissulega til greina, að minnsta kosti að loka fyrir inntöku í þær deildir þar sem ástandið er verst og aðsókn mest. Við getum ekki látið fjárhagsskortinn bitna meir en þegar er orðið á þeim stúdentum sem nú eru í skólanum.“ Við spyrjum út í þær fjöldatakmark- anir sem nú eru við lýði í Háskólanum. Halldór segir að takmarkanir séu í læknadeild, tannlæknadeild og náms- braut í sjúkraþjálfun. Námið í tann- læknadeild kvað hann það kostnaðar- samt að ekki væri raunhæft að fara fram á meira fjármagn til þess. Hvað snertir læknadeild og sjúkraþjálfun þá beri að hafa í huga að þar þurfi Háskólinn að byggja á þjónustu heilbrigðiskerfisins og það sé ekki síst þar sem þröskuldurinn er. Við spyrjum hvort fjöldatakmarkanir ráðist af einhverju öðru en fjárskorti skólans, hvort um sé að ræða þrýsting frá stjórnvöldum eða atvinnustéttum. Halldór kvaðst ekki hafa orðið var við slíkan þrýsting. „En ef stjórnvöld marka þá stefnu að tengja aðgang að Háskólan- um við einhverjar atvinnuhorfur í landinu þá mundu svo sem margir skilja það. En hins vegar meðan engin slík stefna hefur verið mörkuð verður háskólinn að rækja sínar skyldur. Okkur hafa engin erindi borist frá starfsstéttum utan skólans um aðgangstakmarkanir, en við höfum aftur á móti orðið varir við slíka umræðu." Er kannski ofvöxtur hlaupinn í starfsemi skólans? „Ja, þá er spurningin út frá hverju er gengið þegar slíku er slegið fram. Það hljóp sannarlega mikill vöxtur í Háskól- ann upp úr 1970 og síðustu árin hefur stúdentum fjölgað mjög mikið. Núver- andi fjárveitingar nægja ekki til að sinna allri þessari eftirspurn. í þeim skilningi er ofvöxtur í skólanum. Ef hins vegar er átt við hvort þjóðfélagið hafi við allan þennan fjölda háskólamenntaðs fólks að gera þá er það erfið spurning sem ég held að ég treysti mér ekki til að svara. “ Hefur Háskólinn ekki markað neina stefnu í þessu máli? „Nei, það hefur hann ekki gert. Ef einhverjir hefðu reynt að marka slíka stefnu fyrir svo sem tíu eða tuttugu árum þá hefðu þeir reynst falsspámenn í dag. Atvinnutækifæri fyrir menntað fólk hafa orðið miklu fleiri en menn héldu þá.“ Talinu var vikið að áhrifum hins nýja framhaldsskólakerfis á starfsemi Há- skólans. Halldór kvað það rétt að fjölgun stúdenta hefði orðið mest í þeim hóp sem verst hefði verið undirbúinn og orðið hefði að fjölga æfinga- og kennslutímum í sumum námsgreinum af þeim sökum. Hvaða undirtektir hefur fjárvcitingar- beiðni ykkar fengið í mcnntamálaráðu- neytinu? „Mér hefur virst að menntamála- ráðuneytið hafi undanfarin ár haft tiltölulega lítinn áhuga á okkar fjármál- um. Ráðuneytið hefur að vísu stutt þær fjárbeiðnir sem við höfum lagt fram, en það hefur ekki getað komið í veg fyrir niðurskurð þeirra í hagsýslustofnun. Við gerðum okkur á sínum tíma vonir um að samstarfsnefnd skólans, mennta- málaráðuneytis og hagsýslustofnunar gæti komið einhverju góðu til leiðar, en síðustu tvö árin hefur hagsýslustofnun hliðrað sér hjá þessu samstarfi og viljað meðhöndla Háskólann á sama hátt og aðrar stofnanir ríkisins." Halldór var spurður álits á þeim ummælum Ingvars Gíslasonar mennta- málaráðherra í blaðaviðtali á dögunum að stjórnvöld virtust standa frammi fyrir ofvexti í Háskólanum og bregðast mætti við því með fjöldatakmörkunum í einhverjum skilningi - að þrengja aðgang og gera meiri kröfur til stúdenta. „Ég varð aðallega hissa á þessum ummælum vegna þess að ég hafði ekki orðið var við ákveðnar skoðanir í menntamálaráðuneytinu nokkuð lengi. Ennfremur sýndist mér ummælin stinga nokkuð í stúf við þá stefnu við vitum að hefur verið ríkjandi í menntamálaráðu- neytinu, sérstaklega hvað varðar fram- haldsskólana. Þar hefur nemendum mjög ákveðið verið fjölgað og þegar sú ákvörðun var tekin var öllum ljóst að þetta mundi leiða til verulegrar fjölgun- ar í Háskólanum. Ég hélt því að ráðuneytið ætlaði sér að gera Háskólan- um það kleift að taka við þessum nemendum. Annað hefur a.m.k. ekki komið í Ijós. Ef ráðuneytið er hins vegar að sjá það núna að í því efni hefur of mikil bjartsýni ráðið ferðinni og að takmarka þurfi aðgang að skólanum vegna þess að Alþingi sé ekki reiðubúið til að láta af hendi nægilegar fjárveiting- ar þá verður Háskólinn væntanlega að taka því. Ég á ekki von á því að við gerum uppreisn gegn þeirri ákvörðun. En það þarf sem sé að liggja fyrir hver stefnan er, hvort óskir stjórnvalda eru í þessa átt eða ekki.“ Attu von á því að beiðni ykkar um frekarí fjárveitingar fái einhverjar undir- tektir í ríkisstjórn og á Alþingi? „Ég get ekki gert mér grein fyrir því hverjar undirtektir verða. Þær hljóta að verða einhverjar þannig að ekki komi til lokunar Háskólans næsta vetur. Hins vegar er ég ekki nægilega bjartsýnn til að trúa því að ekki þurfi að grípa til neinna takmarkana á fjölda nemenda. Ég er hræddur um að slíkar takmarkanir verði að koma til“, sagði Halldór Ingi Elíasson að lokum. GM FÆRRI STUNDA HÁSKÓLANÁM HÉR EN í NÁLÆGUM EVRÓPULÖNDUM — segir dr. Halldór Guðjónsson, kennslustjóri Háskólans ■ Dr. Halldór Guðjónsson kennslustjóri Háskólans. ■ Sá hópur íslendinga sem stundar háskólanám er ekki fjölmennari, heldur ívið fámennari, en í nágrannalöndum okkar. Þetta kom fram í spjalli Helgar-Tímans við dr. Halldór Guð- jónsson kennslustjóra Háskólans. „Á meginlandi Evrópu miða menn yfirleitt við það að um 30% af hverjum árgangi leiti í einhvers konar framhalds- nám á háskólastigi. í Bandaríkjunum er þessi hópur um 40% og menn búast við sömu þróun í Evrópu. Við íslendingar erum aftur á móti með á milli 25 og 30% af hverjum árgangi í háskólanámi“ sagði Halldór. „Annar samanburður sem vert er að nefna“, bætti hann við, „er að sá hluti vergra þjóðartekna sem fer til háskóla- starfsemi hér á landi er mjög lágur miðað við önnur Evrópulönd. Við erum með einna lægst hlutfall af aðildar- ríkjum Evrópuráðsins. Þetta hlutfall held ég að sé óeðlilega lítið." Halldór Guðjónsson kvaðst ekki eiga von á því að frekari fjölgun yrði á næstu árum í Háskólanum þegar tekið væri tillit til þess að árgöngum færi fækkandi. „Annars vitum við næsta lítið um það hvað dregur fólk að skólanum. í fljótu bragði virðist mér þrjár skýringar nærtækar. í fyrsta lagi sækjast menn eftir erfiðu námi sjálfs þess vegna. í öðru lagi veita framhaldsskólarnir í fæstum til- vikum fullnaðarpróf og menn sækja það því í Háskólann. í þriðja lagi ber að hafa í huga að sú starfsgrein sem hvað örast hefur þanist út á síðustu árum er hvers kyns þjónusta og margt háskólanám þykir búa menn vel undir það.“ Hvaða áhrif hefur Ijölgunin undanfar- in ár á starfsemi Háskólans? „Þetta hefur aukið þrýsting á Há- skólann um að fjölga námsleiðum svo að hæfileikar fleiri og fleiri manna fái að njóta sín. En þetta hefur líka orðið til þess að háskólastúdentar eru orðnir sundurleitari en þeir voru áður. Það hefur aftur gert kennslu og samskipti í skólanum torveldari um margt. Menn hafa ólíkan undirbúning, ólík sjónarmið og fátt sameiginlegt eins og fremur var á dögum menntaskólanna gömlu. Þetta hefur líka verið að gerast í öðrum löndum. Rektor háskólans í Lousanne komst ágætlega að orði um þetta þegar hann sagði að fílabeinsturninn væri óðum að breytast í Babelsturn. Ég held að þessi þróun sé hættulegri fyrir okkur en aðrar þjóðir vegna fámennisins, það gæti nánast orðið einn maður um hvert áhugamál hér og menn hættu að geta talast við.“ Hvað má vera til ráða? „Sjálfur held ég að tveir möguleikar komi til greina, þ.e. að við sækjum fyrirmyndir til Frakklands eða Banda- ríkjanna. í Frakklandi er það þannig að fyrstu tvö námsárin í háskólum eru sameiginleg með mjög sfo'rum hópum og sérhæfing kemur síðan til. Svipaða sögu er að segja frá Bandaríkjunum nema hvað undirbúningsmenntun er miklu lengri en á nokkuð sama sviði. Slík breyting hér mundi að sjálfsögðu lengja háskölanámið en gæti samt komið að gagni. Einhver hópur nemenda mundi hverfa úr skólanum og starfa að loknu bessu almenna námi sem nýtist vel í ört vaxandi þjónustugreinum." Halldór Guðjónsson sagði að þegar framhaldsskólakerfið núverandi var skipulagt hefði sáralítið samráð verið haft við Háskólann. „Ég held að það sem Háskólinn hafði á sínum tíma að segja um framhaldsskólafrumvarpið hafi varla verið tekið til greina og það er að koma okkur í koll núna. Við vorum t.d. ekki varaðir við því áliti í greinargerð með lögunum um fram- haldsskólanna að gert er ráð fyrir því að af öllum brautum framhaldsskóla eigi að vera möguleiki á háskólanámi. Há- skólinn er eini skólinn á háskólastigi sem lögum samkvæmt er skyldaður til að taka við öllum þeim nemendum sem til hans leita og það skapar umtalsverðan vanda." Að lokum spurðum við kennslu- stjórann um húsnæðisvandræði Há- skólans. Hann kvað þau vera öllu alvarlegri í daglegu starfi skólans en fjárhagsvandann. „Við búum nemend- um og kennurum fullkomlega óviðun- andi aðstæður til náms og kennslu. Þrengsli og loftleysi í stofum eru eitt vandamálið. Ein birtingarmynd þessa húsnæðisvanda eru göt í stundatöflum nemenda og kennara, eyður sem nýtast ekki og tapaðar vinnustundir eru eðlilega tapaðir fjármunir.“

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.