Réttur - 01.08.1961, Blaðsíða 36
260
R E T T U R
ist oftar en honum sú ótvíræða virðing að halda undir kist-
ur samborgara sinna síðasta spölinn, það er að segja þeirra
sem njóta slíkra mannvirðinga framyfir andlátið að vera
bornir af kjólklæddum líkmönnum með pípuhatta. I fylgd
hinna sést hann aldrei og ekki heldur sem óbreyttur fylgdar-
maður við neina jarðarför, hann er ævinlega annað hvort
líkmaður eða einn af nánustu aðstandendum, því eins og
gefur að skilja hefur hann, sem betur fer, ekki ennþá haft
tækifæri til að vera aðalpersónan við neina jarðarför. En
þeir sem gerst þekkja til hans, munu varla efast um að hann
komist frá því með sóma einsog öðru, þegar þar að kemur.
Fyrir stundarkorni var byrjuð þessi gisna og dapur-
lega hringing, sem er undanfari svarta vagnsins. Þeir sem
voru í næsta nágrenni við kirkjuna og höfðu tíma til, voru
farnar að líta öðruhvoru útum gluggana og gá að manna-
ferðum. Kirkja þessi er flesta daga miðpunktur umhverfis
síns dálitla stund. Kunnugir vita að þar eru helztu tízkusýn-
ingar hæjarins árið um kring og þar er hægt að fá nokkra
staðfestingu á því brennandi spursmáli, þó um síðir sé, hve
samborgararnir hafa raunverulega verið hátt skrifaðir í
bæjarlífinu. Það telur enginn eftir sér að eyða nokkrum
mínútum við gluggana í næstu húsum, þegar eitthvað er
þarna að sjá.
En þótt byrjað sé að hringja er ekki mikið um að vera
ennþá. Það spáir reyndar góðu að bílaraðirnar sunnan við
kirkjuna eru strax orðnar venju fremur þéttar, eða einsog
þegar bezt lætur. Söngkórinn kemur líka alltaf tímanlega
og leggur bílum sínum þarna sunnanmegin. Oðruhvoru koma
nokkrar hræður flögrandi fyrir vindinum tvær og tvær og
hraða sér inn, það er afarmislitur hópur og öngvir pelsar.
Síðan koma nokkrir unglingar í hettuúlpum, þeir þrengja
sér í óskipulegum hóp inní kirkjuna, og fullorðnar stakar
konur, ein og ein eða tvær saman, sem engan eiga að til að