Morgunblaðið - 27.01.2006, Blaðsíða 60
RÉTT eftir klukkan tvö í gær losn-
aði farmur vöruflutningabifreiðar
þegar honum var ekið í gegnum
hringtorg á Suðurlandsvegi við
Breiðholtsbraut. Ökumaðurinn
náði að komast hjá því að farm-
urinn, sem var nokkur tonn af
timbri, dytti af og yfir veginn. Illa
gekk að koma farminum aftur á
sinn stað og fór svo að meirihluti
hans hafnaði í jörðinni.
Nær öruggt er að rekja megi
óhappið til ónógra festinga en í 7.
gr. reglugerðar um hleðslu, frá-
gang og merkingu farms, segir að
„til varnar hliðarskriði skulu vera
styttur, annaðhvort utan með eða í
miðju, eða skjólborð sem skulu ná
a.m.k. hæð efri brúnar farms.
Hver farmeining skal ná a.m.k. yf-
ir tvær styttur. Hámarksbil milli
styttna má vera 3,3 m. Einnig skal
binda farminn tryggilega.“
Engar styttur voru hins vegar
notaðar og því mildi að ekki hafi
verr farið en þetta er í annað skipti
á þremur dögum þar sem farmur
vörubifreiðar losnar og skapar
hættu vegna slælegra vinnubragða
við festingu. Á þriðjudag slapp
ungur maður naumlega við stór-
slys í Ártúnsbrekku þegar 12
tonna kranaballest valt af vörubíls-
palli og skall utan í bifreið hans.
Ágúst Mogensen, forstöðumað-
ur Rannsóknarnefndar umferð-
arslysa, segir nefndarmenn hafa
fundað eftir slysið í Ártúnsbrekku
en ljóst þykir að taka verði málin
til skoðunar. „Það er alveg ljóst að
við verðum að skoða þessi mál. Að
minnsta kosti er það þannig að
þetta vekur okkur til umhugsunar,
við ætlum að fara yfir þetta og
reyna að bregðast við.“
Illa festur farmur losnaði
af timburflutningabíl
Morgunblaðið/Júlíus
Eins og sést var farmurinn kominn ískyggilega langt út fyrir pallinn. Engin slys urðu á fólki við óhappið.
ÁSKRIFT-AFGREIÐSLA 569 1122 FÖSTUDAGUR 27. JANÚAR 2006 VERÐ Í LAUSASÖLU 220 KR. MEÐ VSK.
Ferskur, íslenskur Fetaostur í salatið!
Opið 8-24 alladaga
í Lágmúla og Smáratorgi
DÆLUR
FYRIR SJÁVARÚTVEGINN
Sími 568 6625
INGIBJÖRG Zoëga átti leið um höfnina í Þorlákshöfn á mánudag og
rakst þá á fálka sem hafði komið sér fyrir á gámi og virti umhverfi sitt
fyrir sér í mestu makindum. Fálkinn reyndist afar gæfur og hreyfði
engum mótbárum þegar Ingibjörg smellti af honum myndum.
„Fyrst tók ég myndir út úr bílnum en gekk svo að fuglinum. Mað-
urinn minn var með mér og sagði mér að fuglinn myndi eflaust fljúga
á brott um leið og ég nálgaðist hann, en það gerði hann ekki. Mað-
urinn minn klappaði fálkanum meira að segja. Fálkinn flaug svo á
brott eftir að við fórum,“ segir Ingibjörg um hinn mannblendna fugl.
Hún kveðst hafa sent Náttúrufræðistofnun myndir af fálkanum og
þeir hafi sagt sér að um ungan fugl væri að ræða. „Þeir sögðu mjög
óvanalegt að fólk kæmist svo nálægt fuglum og því gæti verið eitthvað
að,“ segir Ingibjörg og bætir við að hugsanlegt sé að fuglinn hafi feng-
ið á sig grút. Hann hafi þó virst heilbrigður.
Morgunblaðið/Ingibjörg Zoëga
Friðgeir Bjarkason, eiginmaður Ingi-
bjargar, gekk alveg upp að fálkanum.
Mannblendinn fálki
GUNNAR Rafn Sigurbjörnsson, formaður
launanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga,
segir niðurstöðu að vænta frá launanefndinni á
morgun, en upphaflega var nefndinni gefinn tími
til 10. febrúar næstkomandi. Nefndin mun hittast
á fundi í fyrramálið kl. 10 til að ræða vinnu liðinna
daga og í framhaldinu mun hún að öllum líkind-
um setja fram tillögur sínar.
„Við erum búnir að nota þessa daga til að
ganga frá þessari vinnu,“ segir Gunnar Rafn.
„Menn hafa verið að vinna sína heimavinnu, afla
gagna og móta þá vinnu sem við þurfum að vinna.
Við höfum farið vandlega yfir alla umræðuna og
allar grunnupplýsingar, en við höfum notað tím-
ann mjög vel og ég vonast til þess að við klárum
þetta á laugardeginum í góðri samvinnu og sátt.“
Viðunandi fyrir leikskólakennara
Björg Bjarnadóttir, formaður Félags leik-
skólakennara, segist telja tillögur sem Gunnar
Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs, hefur kynnt um
hækkanir til leikskólakennara vera viðunandi
fyrir þá. Þær hljóði upp á um tæplega 23 þúsund
króna mánaðarhækkun byrjunarlauna. „Ég skil
það þannig að hann hafi tilkynnt þessa tillögu í
trausti þess að stjórn launanefndar setji fram
þessa leið,“ segir Björg.
„Ég held að það sé vel viðunandi, miðað við þá
stöðu sem leikskólakennarar eru í, ef þetta verð-
ur raunin eða ef sambærileg niðurstaða næst,“
segir Björg, en samningar leikskólakennara eru
lausir 30. september næstkomandi.
„Ég vona að sú tillaga sem kemur fram á laug-
ardag [morgun], hvort sem hún verður í anda
þess sem Gunnar kynnti eða önnur, leiði til þess
að það komist á friður í leikskólunum. Þetta
gengur ekki miklu lengur svona, það er allt á
suðupunkti og víða er varla starfsfriður,“ segir
Björg.
Von á nýjum tillögum frá
launanefndinni á morgun
Eftir Svavar Knút Kristinsson og
Elvu Björk Sverrisdóttur
ANDSTÆÐINGAR hvalveiða leita nýrra
herbragða í baráttu sinni. Fyrir nokkru
hafði fulltrúi eins hugmyndahóps hval-
friðunarsinna samband við Vigni Árna-
son, sem rekur verkfræðifyrirtæki í
Þýskalandi.
„Ég var spurður hvort ég vildi vinna
að því að þróa tæki sem á að nota til að
spilla fyrir hvalveiðum,“ sagði Vignir í
samtali við Morgunblaðið. Vignir hefur
sérhæft sig í hönnun og þróun tækni- og
vélbúnaðar sem m.a. er notaður við ýmsa
sérhæfða iðnaðarframleiðslu. Samkvæmt
lýsingu þess sem leitaði til Vignis fyrir
hönd hugmyndahópsins er ætlunin að
fara með þennan búnað á slöngubátum
og skjóta honum í veidda hvali, meðan
þeir eru enn á skutli hvalveiðibáta. Tæk-
ið á að dæla beiskju- og litarefni í hval-
skrokkinn og gera hann þannig óhæfan
til neyslu. Þannig yrðu hvalveiðar til
manneldis gagnslausar. Það fylgdi beiðn-
inni að tækið ætti að nota gegn hval-
veiðum Japana.
„Það var kunningi minn sem benti á
mig, að ég gæti þróað þetta tæki, en ég
vil það ekki,“ sagði Vignir „En það er
enginn vandi að þróa svona græju.“
Vignir sagðist alla jafna ekki ræða op-
inberlega um verkbeiðnir sem honum
berast vegna hönnunar og framleiðslu
tækjabúnaðar. Í þessu tilviki hefði ekki
verið óskað trúnaðar og hann strax til-
kynnt að hann vildi ekki sinna þessu.
Þetta stríddi gegn samvisku hans. „Það
gæti verið vit í þessu þar sem um er að
ræða veiðar á hvalastofnum sem sann-
arlega eru í útrýmingarhættu. En ég
treysti þessu fólki ekki fyrir þessu tæki,
því það væri hægt að nota það hvar sem
er í heiminum. Hvalurinn er orðinn
skjaldarmerki fjáröflunar Grænfriðunga
og fleiri. Menn eru farnir að misnota
þetta. Það er ekki gerður greinarmunur
á hvölum, þeir eru heilagir hvar sem er í
heiminum. Svo hlæja menn að heilögum
kúm!“
Morgunblaðið/Ómar
Hvalfriðunarsinnar
leituðu til íslensks
hönnuðar í Þýskalandi
Vildu þróa
tækni til að
spilla hvalkjöti
FJÓRIR togarar og um 5.000 tonna
kvóti af þorski og ýsu við Noreg og
Svalbarða, óslægt, bætast við hjá
UK Fisheries, við kaup félagsins á
útgerðarfyrirtækinu J. Marr í Hull.
UK Fisheries er að jöfnum hlut í
eigu Onward Fishing Co., dóttur-
félags Samherja, og Parlevliet Van
Der Plas í Hollandi.
Sameina tvær útgerðir
Með þessum kaupum eru samein-
aðar tvær síðustu útgerðir úthafs-
togara í Hull, J. Marr og Boyd, sem
var í eigu UK Fisheries. J. Marr ger-
ir út tvo ísfisktogara og tvo togara
sem heilfrysta aðgerðan bolfisk um
borð. UK Fisheries á frystitogarann
Arctic Warrior og Onward Fishing á
frystitogarann Normu Mary. Því
kemur Samherji nú að útgerð allra
úthafstogara Breta, sem eiga afla-
heimildir í Barentshafi og víðar þar
sem Evrópusambandið hefur veiði-
heimildir, ásamt hinum hollenzku
starfsbræðrum sínum. Auk þess
ráða fyrirtækin yfir stórum hluta út-
hafsveiðiheimilda Þjóðverja.
Framkvæmdastjóri útgerðarsviðs
J. Marr, Nigel Atkins, verður stjórn-
arformaður UK Fisheries, en Har-
aldur Grétarsson er yfirmaður starf-
semi Samherja og dótturfyrirtækja í
Bretlandi, Póllandi og Þýzkalandi.
„Við erum í góðri samvinnu við
marga aðila í Bretlandi, Þýzkalandi
og Hollandi og ríkir þar sátt og sam-
lyndi. Starfsemi Samherja á þessum
slóðum hefur gengið vel. Við lítum á
þessi kaup sem góða fjárfestingu,“
segir Haraldur.
Koma að
útgerð allra
úthafstog-
ara Breta
Eftir Hjört Gíslason
hjgi@mbl.is