Morgunblaðið - 18.03.2006, Síða 4
4 LAUGARDAGUR 18. MARS 2006 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
VERJANDI sakbornings sem hlaut
fimm ára fangelsisdóm fyrir mann-
drápstilraun í héraðsdómi í fyrra
mun leggja fyrir Hæstarétt afar
gagnrýna skýrslu um rannsókn-
araðferðir lögreglu, sem unnin var
af einkaaðilum. Mun þetta vera í
fyrsta skipti sem skýrsla frá einka-
stofu um sakamálarannsókn lög-
reglu er lögð fyrir dómstóla hér á
landi. Umræddir einkaaðilar eru
fyrrverandi lögreglumenn sem reka
öryggisfyrirtækið Meton ehf. og
hefur stofa þeirra ekki áður gefið út
opinbera yfirlýsingu um rannsókn-
araðferðir lögreglu. Skýrsla þeirra
var unnin að beiðni Sveins Andra
Sveinssonar, verjanda sakbornings-
ins. Fimm ára fangelsisdómi
ákærða hefur verið áfrýjað til
Hæstaréttar og er reiknað með að
málið verið flutt í vor.
Sjálft sakamálið nær aftur til árs-
ins 2004 þegar maðurinn var hand-
tekinn síðla júlímánaðar fyrir alvar-
lega árás á leigubílstjóra við
Vesturgötu í Reykjavík. Hann var
ásamt þremur öðrum farþegum í
bílnum í aðdraganda verknaðarins.
Var hann ákærður og sakaður um
tilraun til manndráps með því að
skera bílstjórann á háls í gegnum
bílgluggann. Skurðurinn var um 18
cm langur og munaði aðeins nokkr-
um millimetrum að barkakýlið færi
í sundur. Í febrúar 2005 var ákærði
sýknaður af ákærunni í héraðsdómi
og sagði meirihluti dómsins að
rannsókn lögreglunnar í Reykjavík
hefði verið „stórlega ábótavant“ og
að óupplýst væri hver hefði veitt
leigubílstjóranum áverkann. Þessari
niðurstöðu var áfrýjað til Hæsta-
réttar sem ómerkti dóminn og vís-
aði honum aftur heim í hérað. Öðru
sinni gekk því héraðsdómur í des-
ember 2005 en nú var sakfellt og
niðurstaðan fimm ára fangelsi. Taldi
dómurinn það væri hafið yfir skyn-
samlegan vafa að ákærði hefði gerst
sekur um brotið.
Gáfu sér ákveðna
niðurstöðu í byrjun
Að sögn Sveins Andra Sveins-
sonar var í síðari héraðsdóminum
horft fram hjá þeirri gagnrýni sem í
fyrri dóminum var lögð til grund-
vallar sýknudóminum. „Ég leitaði til
sérfróðra aðila sem starfa ekki á
vegum hins opinbera, þ.e. fyrrver-
andi rannsóknarlögreglumanna sem
hafa hátt í 100 ára samanlagða
reynslu af lögreglustörfum. Ég
dreg þá ályktun að rannsókn máls-
ins hafi verið með þeim hætti að
menn hafi gefið sér ákveðna nið-
urstöðu strax í byrjun; að ákærði
hefði framið brotið, og að allar
rannsóknaraðgerðir lögreglu hafi
miðast við að staðfesta þessa fyrstu
frumkenningu. Þetta er hættuleg-
asta gildra sem lögreglumenn falla
í, þ.e. að draga ályktanir of
snemma.“ Sveinn segir að viðhafa
hefði mátt eins vinnubrögð lögreglu
og í manndrápsmáli á Hverfisgötu í
ágúst 2005. „Þrátt fyrir játningu
eins manns í því máli tók lögreglan
ákvörðun um að handtaka alla þá
sem voru í húsnæðinu þannig að
þeir fengu réttarstöðu grunaðs
manns og voru yfirheyrðir sem slík-
ir. Það var ekki fyrr en lögreglan
hafði fengið algera vissu fyrir því að
sá sem gaf sig fram væri gerandinn
að hinum var sleppt. Þetta hefði líka
átt að gerast í [Vesturgötu]málinu.
En þar trúði lögreglan strax fram-
burði eins vitnis þrátt fyrir að við-
komandi hefði langan sakaferil að
baki. Það voru mjög afdrifarík mis-
tök.“
Í niðurstöðu skýrslu Metons segir
m.a. að svo sé að sjá að lögreglan
hafi frá upphafi útilokað aðra en
sakborninginn sem geranda og öll
rannsóknin hafi beinst að því að
finna gögn sem sönnuðu það. Ekki
hafi verið aflað sakavottorða ann-
arra en þessa eina manns. Ekki hafi
verið leitað á öðrum stöðum en þeim
sem hann hefði hugsanlega getað
losað sig við vopn á. Þá hefðu blóð-
blettir á skyrtu hans einungis verið
rannsakaðir með tilliti til hans og
leigubílstjórans, en ekki hinna
þriggja. Tæknirannsókn á leigubíln-
um hafi þá verið ábótavant þar sem
ekki var reynt að gera grein fyrir
hreyfingarrými sem ákærði á að
hafa haft við verknaðinn og heldur
ekki leitað skýringa á því hví nánast
engin för fundust á bílnum.
Skýrsluhöfundar varpa þeirri
spurningu fram hvort einhverjir
aðrir gætu hafa framið verknaðinn
og segja að ekki verði séð hvernig
maður sem standi utan við bílinn
geti valdið áverkanum þar sem
skurðurinn nái að eyra bílstjórans
vinstra megin og hurðarpósturinn
komi greinilega í veg fyrir að egg-
vopn sé dregið svo aftarlega. Áverk-
inn sé þannig að það liggi betur fyr-
ir farþega í framsæti að veita hann
en einhverjum sem standi fyrir utan
bílinn. Vísað er til dómsvitnisburðar
læknis sem treysti sér ekki til að
taka afgerandi afstöðu til þess hvort
sjá mætti að skurðurinn hefði verið
dreginn frá eyra að barka eða öfugt.
Segir í skýrslunni að allt eins hafi
það getað verið framsætisfarþeginn
sem skar bílstjórann. Velta skýrslu-
höfundar fyrir sér hvort jafndrukk-
inn maður og ákærði var gæti hafa
framið verknaðinn inn um bílglugga
án þess að styðja sig við hurð, hurð-
arkarm eða bílþakið, en ekki fund-
ust nein för á bílnum utan ósam-
anburðarhæfs lófafars.
Samkvæmt heimildum Morg-
unblaðsins er Gunnleifur Kjart-
ansson, fyrrverandi yfirmaður á
rannsóknardeild lögreglunnar í
Reykjavík, einn skýrsluhöfunda.
Hann var í lögreglunni á þeim tíma
sem rannsóknin stóð yfir en var í
fríi og kom því ekki að rannsókn-
inni. Hefði hann að öðrum kosti
ekki fengið að vinna umrædda
skýrslu að sögn Eiríks Becks, for-
svarsmanns Metons. Eiríkur er
sjálfur fyrrverandi lögreglumaður
og segir skýrsluna um vinnubrögð
fyrrum starfsbræðra sinna ekki
gagnrýni á þá sjálfa heldur mun
frekar þær aðstæður sem þeir séu
látnir vinna við. „Lögreglumenn-
irnir eru mjög hæfir en þeir fá hins
vegar ekki að sinna vinnunni sinni
vegna tíma- og fjárskorts,“ segir
hann.
Starfsemi Metons ehf. tekur m.a.
til þriggja þátta; forvarna, rann-
sókna og öryggisráðgjafar. Unnið
er að eflingu hvers konar forvarna
er varða öryggismál, svo sem með
gerð hættumats og viðbragðsáætl-
ana. Vinnur fyrirtækið einnig að
uppljóstrun brota sem framin eru
innan fyrirtækja og að öryggismati
á þáttum er varða innbrot, þjófnaði
og bruna, svo dæmi séu tekin.
HÉR á landi er ekki löng hefð fyrir einkaspæjara-
stofum en á heimasíðu Metons má sjá að þar starfa
rannsóknarmenn sem áður voru í lögreglunni en hafa
nú snúið sér að einkageiranum. „Starfsmenn Meton
ehf. hafa áratuga reynslu sem lögreglumenn og rann-
sóknarlögreglumenn bæði tækni- og almennra rann-
sókna og þeir bjóða nú almenningi þekkingu sína og
reynslu á almennum markaði,“ segir á heimasíðunni.
Fyrrverandi lögreglumenn í einkageiranum
Verjandi sakbornings aflar sérfræðiálits fyrir Hæstarétt vegna manndrápstilraunar
Leggur fram skýrslu einka-
spæjara um rannsóknina
Morgunblaðið/Kristinn
Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson
orsi@mbl.is
ERLENDIR fjölmiðlar héldu
áfram að fjalla um ákvörðun
Bandaríkjamanna um að kalla varn-
arlið sitt heim frá Íslandi.
Í netútgáfu norska dagblaðsins
Aftenposten er umfjöllun um málið
með þeirri fyrirsögn að hranaleg
framkoma Bandaríkjamanna hafi
valdið Íslendingum vonbrigðum.
Haft er eftir Halldóri Ásgrímssyni
forsætisráðherra að Íslendingar
hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum
með að einhliða hafi verið ákveðið
af hálfu Bandaríkjamanna að stíga
þetta skref.
Sérstaklega er Halldór sagður
ósáttur við að Bandaríkjamenn hafi
kynnt ákvörðun sína án þess að
segja nokkuð til um hvernig komið
yrði til móts við þarfir Íslendinga
um sýnilegar varnir.
„Þetta er ekki til að styrkja sam-
bandið milli landanna tveggja.
Þetta er ekki eitthvað sem vinir og
bandamenn gera hvor öðrum,“ seg-
ir Halldór.
Haft er eftir honum að brottför
Bandaríkjamanna hefði þýðingu
fyrir Norðmenn og Danmörku og
undirstrikaði Halldór að Keflavík
væri hluti af varnarlínunni á Norð-
ur-Atlantshafi.
Aftenposten segir að sá mögu-
leiki hafi nú þegar komið upp í um-
ræðum á Íslandi að leitað verði til
Noregs og annarra NATO-landa
um að taka þátt í loftvörnum lands-
ins.
Ákvörðunin sögð
valda spennu
Washington Post segir einnig frá
málinu og getur þess að ákvörðun
Bandaríkjamann hafi nú þegar
skapað spennu í samskiptum
ríkjanna. Sagt er frá því að banda-
rísk stjórnvöld greiði árlega um 260
milljónir dollara (jafnvirði um 17,8
milljarða íslenskra króna) til varn-
arstöðvarinnar hér á landi en að
viðræður hafi staðið yfir um að ís-
lensk stjónvöld tækju á sig meira af
þeim kostnaði.
Haft er eftir Helga Ágústssyni,
sendiherra Íslands í Bandaríkjun-
um, að Íslendingar séu mjög von-
sviknir vegna ákvörðunarinnar. Ís-
lensk stjórnvöld hafi talið
viðræðurnar ganga vel þangað til
þeim var kynnt ákvörðun Banda-
ríkjamanna.
Framkoma Bandaríkja-
manna sögð valda Ís-
lendingum vonbrigðum
Erlendir fjölmiðlar fjalla um varnarliðið
Eftir Árna Helgason
arnihelgason@mbl.is