Morgunblaðið - 18.03.2006, Side 11
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 18. MARS 2006 11
FRÉTTIR
HELGI Magnússon, fram-
kvæmdastjóri eignarhaldsfélags
Hörpu, var kjörinn næsti formað-
ur Samtaka iðnaðarins á aðal-
fundi samtakanna í gær. Tekur
hann við af Vilmundi Jósefssyni
sem verið hefur formaður síðustu
sex árin og hefur þar með setið
hámarkstíma samkvæmt sam-
þykktum samtakanna. Þorsteinn
Víglundsson, Anna María Jóns-
dóttir og Ingvar Kristinsson voru
kjörin til stjórnarsetu næstu tvö
árin. Fyrir í stjórn Samtaka iðn-
aðarins eru Aðalheiður Héðins-
dóttir, Hörður Arnarson, Loftur
Árnason og Sigurður Bragi Guð-
mundsson.
Morgunblaðið/Ómar
Helgi Magnússon, nýkjörinn formaður Samtaka iðnaðarins, og Valgerður
Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra á iðnþingi í gær en ráðherra
var þar meðal ræðumanna. Á þinginu var talsvert fjallað um Evrópumál.
Helgi Magnússon formað-
ur Samtaka iðnaðarins
HALLDÓR Ásgrímsson forsætis-
ráðherra sagði í ræðu sinni á iðn-
þingi í gær að hugsanlega yrði að
endurskoða einhverjar ákvarðanir
um opinberar framkvæmdir til að
tryggja stöðugleika í efnahagsmál-
um. Ræddi hann þetta í tengslum við
umræðu um stóriðjuframkvæmdir,
sagði engar ákvarðanir enn hafa ver-
ið teknar um frekari stóriðju en ef til
þeirra kæmi yrðu þær vandlega
tímasettar með tilliti til áhrifa á
efnahagslífið og aðrar atvinnugrein-
ar.
Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar-
og viðskiptaráðherra, flutti einnig
ræðu á iðnþingi, svo og Vilmundur
Jósefsson, fráfarandi formaður
Samtaka iðnaðarins, og Hans Skov
Christensen, framkvæmdastjóri
Dansk Industri.
Sameina þarf
rannsóknastarfsemi
Valgerður Sverrisdóttir, gerði
grein fyrir stefnumótunarstarfi
ráðuneytisins varðandi eflingu ís-
lensks atvinnulífs í samræmi við yf-
irskrift iðnþings: Framtíðarsýn fyrir
atvinnulífið – nýsköpun í hnattvædd-
um heimi. Valgerður sagði brýnt að
leggja nýjar áherslur í rannsóknum
og tækniþróun. Hún nefndi einnig að
ná mætti samlegðaráhrifum með því
að tengja saman rannsóknir sem nú
væru dreifðar, t.d. að sameina mat-
vælarannsóknir hjá fjórum opinber-
um stofnunum. Ráðherra sagði starf
Vísinda- og tækniráðs hafa borið
góðan árangur og sagði álitlegt að
útvíkka starfsemi ráðsins. Í stað
þess að hún væri einskorðuð við vís-
indi og tækniþróun yrði þar fjallað
um atvinnuþróun og nýsköpun í víðu
samhengi.
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra
gerði að umtalsefni tímabundinn
vanda af völdum mikilla umsvifa í
þjóðfélaginu. Hún sagði rétt að fjár-
festing í virkjunum og álverum ætti
talsverðan þátt í tímabundinni aukn-
ingu þjóðarútgjalda og viðskipta-
halla við útlönd. Hátt gengi og aukin
verðbólga yrði hins vegar aðeins að
hluta rakin til slíkra framkvæmda.
„Gríðarlegt innstreymi fjármagns
vegna útrásar og útlána bankanna í
kjölfar kerfisbreytinga á fjármála-
markaði, m.a. greiðari aðgangi að
lánsfé til húsbygginga og einka-
neyslu, svo og skuldabréfaútgáfa er-
lendra aðila í íslenskum krónum,
hafa haft mun meiri áhrif,“ sagði
Valgerður Sverrisdóttir.
Ekki andstæðir pólar
Halldór Ásgrímsson forsætisráð-
herra gerði einnig nýsköpun að um-
talsefni og minnti á að í kjölfar sölu
Landssímans hefði ríkisstjórnin
ákveðið að leggja 2,5 milljarða til
hennar á næstu árum. Sagði hann
áætlað að 1,5 milljarðar rynnu í sjóð
sem lífeyrissjóðir, fjármálafyrirtæki
og aðrir legðu einnig verulegt fjár-
magn í. Vonast hann til að stofnfé
slíks sjóðs verði 6-10 milljarðar og að
hlutur ríkisins yrði 20-25%.
Forsætisráðherra sagði villandi
að tala um stóriðju og hátæknigrein-
ar sem andstæða póla. Stóriðjufyr-
irtæki væru háþróuð og tæknivædd
og menn yrðu að komast uppúr þeim
hjólförum að framleiðsla og þjónusta
gætu ekki haldist í hendur. Sagði
hann hefðbundnar framleiðslugrein-
ar hafa lagt grunninn að stórauknum
hagvexti sem síðan gæfi þjónustu-
fyrirtækjum tækifæri til vaxtar og
útrásar. Þá sagði ráðherra sjálfgefið
að hlutur þjónustu- og hátækni-
greina mundi aukast næstu árin, það
væri fýsilegt og að því væri stefnt.
Halldór Ásgrímsson sagði einnig
að öflug fjármálafyrirtæki væru for-
senda útrásar. Sagði hann stöðu ís-
lensku bankanna trausta og eigin-
fjárhlutfall fjármálafyrirtækja hefði
aldrei verið hærra og ljóst að þau
gætu mætt verulegum áföllum.
Forsætisráðherra sagðist enn
vera þeirrar skoðunar að Ísland yrði
fullgildur aðili að Evrópusamband-
inu árið 2015. Telur hann þróun
myntbandalagsins verða ráðandi í
ákvörðun Íslendinga og taki Bretar,
Danir og Svíar upp evru sagði hann
um þrjá fjórðu af vöruútflutningi
landsins vera í evrum. „Þá verðum
við að viðurkenna að sveiflur í gengi
íslensku krónunnar eru vandamál,
ekki síður nú en í hinu hnattvædda
hagkerfi, eins og nýleg dæmi
sanna.“
Framkvæmdir hugs-
anlega endurskoðaðar
Eftir Jóhannes Tómasson
joto@mbl.is
HRAFN Bragason hæstaréttardómari telur að
við skipan hæstaréttardómaranna Jóns Steinars
Gunnlaugssonar og Ólafs Barkar Þorvaldssonar
hafi lögbundnar umsagnir Hæstaréttar um um-
sækjendur ekki þjónað þeim tilgangi laga að
tryggja aðkomu Hæstaréttar að vali á dómurum
við réttinn. Þetta kom fram í erindi hans á fundi
Lögmannafélags Íslands. Ráðherrar í umrædd
skipti, þ.e. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og
Geir Haarde settur dómsmálaráðherra, hefðu við
veitingu embættanna vísað til hliðar umsögnum
dómstólsins. Tekið skal fram að í erindi Hrafns
voru engin nöfn nefnd en sem dæmi nefndi hann
umsækjanda með lögmannsreynslu sem fékk
stöðuna 2004 og umsækjanda með kunnáttu í Evr-
ópurétti árinu áður.
Hrafn rakti álit umboðsmanns Alþingis um að
undirbúningur að stöðuveitingu Ólafs Barkar árið
2003 hefði verið ófullnægjandi og sagði Hrafn að
veruleg líkindi væru á því að umboðsmaður hefði
komist að sömu niðurstöðu í tilviki Jóns Steinars
árið 2004. Hins vegar hefði enginn umsækjenda í
það skiptið kvartað til umboðsmanns.
Viðurkenning á röngu veitingavaldi
Hrafn rifjaði einnig upp þegar gengið var
framhjá Hjördísi Hákonardóttur umsækjanda
þegar Ólafur Börkur var valinn og skaðabótakröfu
hennar á hendur ríkinu fyrir vikið. Sættir tókust
milli aðila eins og kunnugt er, en Hrafn upplýsti að
ríkið mundi að verulegu leyti hafa komið til móts
við kröfur hennar. „Má e.t.v. ætla að í því felist
einhver viðurkenning á því að ekki hafi verið rétt
farið með veitingarvald í greint sinn,“ sagði Hrafn
í umfjöllun sinni við spurningunni um hvort ráð-
herrum hefðu verið mislagðar hendur við beitingu
valdheimilda sinna. Hann taldi erfitt að líta
framhjá því sem úrskeiðis hefur farið við skip-
unarferli hæstaréttardómara hérlendis. Því gæti
verið nauðsynlegt að skoða breytingar á skipunar-
ferlinu. Ræddi hann þrjár leiðir að breyttu skip-
unarferli til að skapa frið um veitingu þessara
mikilvægu embætta. Taldi hann einföldustu
breytinguna felast í því að binda í lög að farið
skyldi eftir umsögnum Hæstaréttar um dómara-
efni. Rökin væru þau að dómstólarnir yrðu þannig
óháðari stjórnvöldum. Í öðru lagi hefði sú hug-
mynd nokkuð verið rædd að leggja tillögur fyrir
Alþingi um skipan í dómarastöður, að bandarískri
fyrirmynd. Aðkoma löggjafarvaldsins væri þó til
þess fallin að draga úr hinum sjálfstæða og óháða
svip dómstóla. Í þriðja lagi sagði hann að huga
mætti að því að stækka hlutverk þeirrar dóm-
nefndar sem fjallar um hæfi héraðsdómara.
Hrafn Bragason hæstaréttardómari gagnrýnir skipan hæstaréttardómara
Erfitt að líta framhjá því sem farið
hefur úrskeiðis hjá ráðherrum
SÖGUSLÓÐIR Vesturbæjar verða
til skoðunar í laugardagsgöngu sem
farin verður frá félagsmiðstöðinni
Aflagranda 40 á kl. 10.30 í dag undir
leiðsögn Guðjóns Friðrikssonar
sagnfræðings og höfundar bókanna
„Indæla Reykjavík“. Þetta er fyrri
laugardagsgangan af tveim, en sú
seinni verður í apríl. Gengið verður
um gamla Bráðræðisholtið, með
sjónum inn í gamla bæinn og til baka
að félagsmiðstöðinni, þar sem þátt-
takendur geta keypt sér hádegismat
á vægu verði.
Laugardagsgöngurnar eru hluti
af átakinu „Fyrir hvert annað,“ sem
hófst á dögunum í Vesturbænum, en
einkunnarorð þess eru „Gagn-
kvæmni og ábyrgð í verki,“ að leið-
arljósi. Það er starfsfólk Þjónustu-
miðstöðvarinnar Vesturgarðs, sem
vinnur að átakinu, en því er ætlað að
stuðla að betri þjónustu og faglegra
starfi.
Meginmarkmið verkefnisins er að
auka þátttöku viðskiptavina þjón-
ustumiðstöðvarinnar í þjónustunni
og auka grenndarkennd með því að
setja starf Þjónustumiðstöðvar
Vesturbæjar í samfélagslegt sam-
hengi og stuðla þannig að auknum
félagsauð. Með því að beita þessum
markmiðum á verkefni miðstöðv-
arinnar, kveður Óskar Dýrmundur
Ólafsson, framkvæmdastjóri Vest-
urgarðs, mögulegt að finna þær leið-
ir sem bæta þjónustuna og efla þar
með Vesturbæinn sem heild. „Við
þurfum að setja einstaklinginn í for-
grunn, þar sem hans þarfir eru virt-
ar og skildar, en ekki síður þurfum
við á samstarfi við almenning að
halda, það þarf að bæta þann sam-
félagsskilning að við þurfum að
standa saman,“ segir Óskar og bætir
við að undan þessum hugmyndum
hafi hugmyndin að „Fyrir hvort ann-
að,“ sprottið. „Við þurfum að ná upp
samræðu við almenning. Þetta er
samstarfsverkefni samfélagsins,
ekki þjónusta sem er veitt yfir borð-
ið eins og í verslun, heldur er þetta
þátttaka í þjónustunni. Reykjavík-
urborg er að endurhugsa þjón-
ustuna og við erum að fara inn í
ákveðið þjónustusamfélag.“
Hluti af verkefninu verður hvatn-
ing til grenndargæslu, auk þess sem
kynningarbæklingi á starfsemi þjón-
ustumiðstöðvarinnar verður dreift á
öll heimili í Vesturbænum. Þá hafa
tveir rýnihópar tekið til starfa, en
þeim er ætlað að koma með gagn-
rýni og tillögur á það starf sem unn-
ið er á vegum Vesturgarðs. Annars
vegar er um að ræða notendahóp
eldri borgara, sem nýtir þjónustuna
í Aflagranda og hins vegar hóp sem
tekur almennt fyrir þá þjónustu sem
veitt er í Vesturbænum.
Gönguferð skipulögð um Vesturbæinn á vegum Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar
Vilja þétta samfélagið og
bæta þjónustu við íbúana
Starfsmenn Vesturgarðs og aðrir Vesturbæingar lögðu í gönguferð á dög-
unum í tilefni upphafs verkefnisins „Fyrir hvert annað“ en í dag verður
aftur farið um bæinn í skemmtilegri og fræðandi gönguferð.
AKRAFELL og Helgafell, áætlun-
arskip Samskipa, urðu fyrir töfum
vegna aftakaveðurs í Norðursjó.
Tafirnar valda því að Akrafell kemur
til Reykjavíkur seinni part þriðju-
dags í stað sunnudags og Helgafell á
miðvikudagskvöld í stað miðviku-
dagsmorguns.
Tafir af þessu tagi eru fremur
sjaldgæfar en geta orðið nokkrum
sinnum á hverjum vetri, að sögn
Pálmars Óla Magnússonar, fram-
kvæmdastjóra millilandasviðs Sam-
skipa. Stærri skipin eru fljótari að
vinna upp tafir sem þessar og því
hefur óveðrið minni áhrif á áætlun
Helgafells, sem er stærra skip en
Akrafell.
Aftaka-
veður tafði
áætlun
Samskipa