Morgunblaðið - 03.04.2006, Page 22
22 MÁNUDAGUR 3. APRÍL 2006 MORGUNBLAÐIÐ
UMRÆÐAN
FYRRUM lærifeður mínir og sam-
starfsmenn við lagadeild Háskóla Ís-
lands, Sigurður Líndal og Björn Þ.
Guðmundsson, sjá ástæðu til að svara
grein minni í Morgunblaðinu 30.
mars sl. Sigurður segir í grein sinni
31. mars að hann nái ekki samheng-
inu milli forsendna og niðurstöðu
minnar í málinu, en
grein Björns 1. apríl
hefur einvörðungu að
geyma ókurteisi og
dylgjur í minn garð og
Háskólans í Reykjavík
sem ekki eru svara-
verðar. Ekki verður þó
hjá því komist að leið-
rétta þann misskilning
Björns að umræðan um
niðurstöðu héraðsdóms
hafi átt sér stað eftir að
málinu var áfrýjað til
Hæstaréttar. Björn tel-
ur það sérlega ámæl-
isvert að fjalla um héraðsdóma sem
hefur verið áfrýjað. Hið rétta er að
umræðan átti sér stað áður en mál-
inu var áfrýjað. Umræðan fór fram
eftir uppkvaðningu héraðsdóms þann
15. mars og fram að fundi Háskólans í
Reykjavík þann 20. mars. Ákvörðun
um áfrýjun var svo tekin 22. mars sl.
Þetta er dæmi um ónákvæmni og
rangfærslur í umfjöllun Björns.
Forsendur
lögfræðilegrar rökræðu
Í svargrein sinni leggur Sigurður
aftur á móti áherslu á nauðsyn þess
að mál séu rædd á réttum forsendum.
Þetta er einmitt veikleiki rökræðu
Sigurðar þegar hann deilir á skoðanir
mínar. Sigurður var ekki á fundinum
sem hann er að fjalla um, frekar er
Björn, og hefur því takmarkaðar for-
sendur til að fjalla um erindi frum-
mælenda. Hann byggir eingöngu á
frásögn Morgunblaðsins þann 21.
mars sl. af fundinum og virðist auk
þess leggja sig fram um að draga
rangar ályktanir af þeirri umfjöllun.
Það var ekki ætlun mín að fjalla frek-
ar efnislega um túlkun Héraðsdóms
Reykjavíkur á hugtakinu lán í skiln-
ingi 43. gr. laga nr. 144/1994 um árs-
reikninga (nú 53. laga nr. 3/2006) en
ítrekaðar rangfærslur Sigurðar kalla
á leiðréttingu.
Missagnir leiðréttar
Kjarni erindis míns á fundinum í
Háskólanum í Reykjavík, sem bar yf-
irskriftina „Hvenær er lán lán?“ og
Sigurður hefur kallað „áróðursfund“
var sá að ekki ætti að
þurfa að velkjast í vafa
um að hugtakið lán í
skilningi umdeilds
ákvæðis ársreikn-
ingalaga tæki til bæði
óformlegra lánveitinga
og heimilla við-
skiptalána samkvæmt
104. gr. hlutafélagalaga.
Ef sú túlkun er rétt ber
ekki nauðsyn til skýrari
reglna um það atriði.
Það er rangt að nið-
urstaða mín á fundinum
hafi verið sú að lögin
væru ekki nægilega skýr en samt
sem áður líklegt að Hæstiréttur
kvæði upp „áfellisdóm“. Hér eru mér
lögð orð í munn. Í umfjöllun Morg-
unblaðsins segir m.a. orðrétt: „Ás-
laug sagði 43. greinina mjög skýra að
því leyti að það eigi að tilgreina öll lán
í skýringum með ársreikningum.“ Ég
hef ennfremur sagt, eins og fram kom
í Morgunblaðinu, að ég leyfi mér að
efast um að Hæstiréttur muni kom-
ast að sömu niðurstöðu og héraðs-
dómur varðandi inntak ákvæðis 43.
gr. áðurgildandi ársreikningalaga
þ.e. um hugtakið lán, og enn fremur
hugtakið viðskiptalán samkvæmt 104.
gr. hlutafélagalaga. Sú skýring bygg-
ist á orðanna hljóðan ákvæðis 43. gr.
en tilgangur þess styður einnig þá
skýringu. Það er viðurkennt lögskýr-
ingarsjónarmið í refsirétti að horfa til
tilgangs einstakra ákvæða eins og
lesa má m.a. nánar um í 8. þætti bók-
ar Jónatans Þórmundssonar, Afbrot
og refsiábyrgð I, frá árinu 1999, þar
sem fjallað er um skýringu refsilaga.
Loks hef ég bent á evrópuréttarlegan
bakgrunn reglunnar og sagt að ef
túlkun héraðsdóms er rétt, liggur fyr-
ir að ekki hefur verið staðið rétt að
innleiðingu 13. tl. 43. gr. 4. fé-
lagatilskipunarinnar, sem án efa er
ætlað að taka til hvers konar lána.
Eða eins og segir í umfjöllun Morg-
unblaðsins: „Ef þetta eru reglurnar
og þessi túlkun [dómsins] er rétt, leið-
ir það til vangaveltna um hvort við
höfum innleitt 4. félagatilskipunina
rétt.“
Framangreind rök liggja til grund-
vallar þeirri skoðun minni að ég tel
líkur á að niðurstaða Hæstaréttar um
túlkun hugtaksins lán verði önnur en
héraðsdóms. Sú niðurstaða ein og sér
þarf þó ekki að leiða til sakfellingar,
því eftir stæði að taka afstöðu til
hvort umdeildar færslur teldust lán á
grundvelli efnislegs mælikvarða og ef
svo væri saknæmis athafna eða at-
hafnaleysis hvers og eins sakborn-
ings, þ. á m. með hliðsjón af stöðu
þeirra hjá félaginu, og þar með
ábyrgðar. Þess vegna hef ég aldrei
fullyrt nokkuð um sekt sakborninga í
málinu heldur einvörðungu bent á að
forsendur og skýring dómsins á hug-
takinu lán séu umdeilanlegar.
Það hefði verið hægur vandi fyrir
Sigurð að hafa samband við mig og
leita eftir nánari skýringum á um-
mælum mínum um forsendur um-
rædds héraðsdóms. Með ánægju
hefði ég útskýrt nánar skoðanir mín-
ar og m.a. fúslega látið hann fá yfirlit
yfir erindið. Það stendur honum enn
til boða. Mér finnst undarlegt að Sig-
urður hafi fremur kosið að draga und-
arlegar ályktanir af skoðunum mín-
um samkvæmt blaðafrétt og fara
beinlínis rangt með ummæli mín í
henni, að því er best verður séð, til að
gera umfjöllun mína um dóminn tor-
tryggilega. Ekki minna skrýtinn er
málflutningur Björns um fræðilegt
fjas, framhleypni og fjölmiðlaflipp.
Mér er fyrirmunað að skilja hvað
ræður þessu framferði lærifeðra
minna.
Lærifeður leiðréttir
Áslaug Björgvinsdóttir svarar
greinum Sigurðar Líndals og
Björns Þ. Guðmundssonar
’Mér er fyrirmunað aðskilja hvað ræður þessu
framferði lærifeðra
minna.‘
Áslaug Björgvinsdóttir
Höfundur er dósent við lagadeild
Háskólans í Reykjavík.
STARFSMENN á hjúkrunar- og
dvalarheimilum eru nú orðnir lang-
þreyttir á bið eftir því að fá leiðrétt-
ingu launa sinna miðað
við aðrar stéttir sem
sinna umönnunar-
störfum á almennum
markaði og hjá borginni.
Í síðustu viku sáum við
okkur tilneydd til að
grípa til aðgerða inni á
vinnustöðum okkar til að
knýja á um launabreyt-
ingar. Þetta var neyð-
arúrræði okkar eftir að
við höfum beðið þolinmóð
í hálft ár eftir sann-
gjörnum leiðréttingum
launa. Krafa okkar er
einföld. Við krefjumst
sömu launa fyrir sömu
vinnu. Eins og staðan er
í dag munar á milli
20.000 og 30.000 krónum
í launum á okkur og við-
miðunarhópi hjá borg-
inni. Það er sérkennilegt
að sjá ráðamenn okkar,
þar á meðal ráðherra,
taka þátt í athöfnum þar
sem skóflustungur eru
teknar að nýjum heim-
ilum og húsnæði fyrir
aldraða en á sama tíma
segja þeir að ekki sé til
fé til að borga fólkinu sem vinnur á
hjúkrunarheimilunum mannsæmandi
laun. Hvernig er hægt að leggja
grunn að nýjum húsum meðan ekki
fæst fólk til að vinna á þeim heimilum
sem eru núna í fullri starfsemi?
Hjá okkur á Hrafnistu er mikið
vinnuálag og allt of oft eru of fáir á
vakt. Launakjörum er þannig háttað
að þótt við séum fjórar á vakt að
vinna verk sem sex starfsmenn unnu
áður, þá njótum við þess í engu í laun-
um en atvinnurekandinn sparar fé við
reksturinn sem síðan bitnar á heilsu
okkar og líðan. Það sjá
það allir að svona get-
ur þetta ekki gengið til
lengdar. Það verður
að laga kaupið svo
hægt sé að manna
vinnustaðina sóma-
samlega.
Það er dapurlegt að
hlusta á ráðamenn
þjóðarinnar sem nú
vísa hver á annan þeg-
ar þeir ættu fyrst og
fremst að takast á við
ábyrgð sína með því
að skoða málin af
sanngirni og taka nýj-
ar ákvarðarnir um
fjárframlög inn á þetta
svið. Mér finnst þessir
menn stundum gleyma
því að þeir hafa vald
sitt frá fólkinu. Það er-
um við sem kjósum þá
til áhrifa og það erum
við sem erum vinnu-
veitendur þeirra.
Ég verð að taka það
fram að það er mjög
erfitt að þurfa að grípa
til aðgerða sem bitna
að einhverju leyti á
öldruðu fólki sem þarfnast oft mik-
illar umönnunar. Það er líka gleðilegt
að það hefur komið fram hjá íbúum
hjúkrunarheimilanna að þeir hafa
fullan skilning á því að fólkið sem er
að hugsa um þá þurfi að vera á góðum
launum því annars fæst ekki gott fólk
í störfin.
Við höfum á undanförnum mán-
uðum horft upp á allt of margt dug-
legt og samviskusamt fólk sem horfið
hefur til annarra starfa svo sem á
pítsustöðum og sjoppum þegar það
hefur fengið fyrsta launaseðilinn.
Gott dæmi um þetta eru sumarafleys-
ingarnar í fyrra. Unga fólkið sem
fékk fyrsta launaseðilinn labbaði
sumt út af vinnustaðnum og sást ekki
meir. Það má enginn góður vinnu-
staður sem reiðir sig á ábyrgt og gott
starfsfólk við þessu. Gamla fólkið vill
ákveðna festu, sjá sömu andlitin og
sömu handbrögðin. Það vill sjá sama
fólkið vinna sömu verkin í dag og
vann þau í gær. Stöðugt rót á starfs-
mönnum kallar á óöryggi og vanlíðan.
Ég trúi því ekki að það vefjist fyrir
ráðamönnum, sem geta byggt heilt
hátæknisjúkrahús fyrir milljarða og
eru með á döfinni að reisa nýja tón-
listarhöll og nýjar byggingar fyrir
aldraða, að jafna launamun, sem get-
ur ekki skipt ríkiskassann nokkru
máli. Í staðinn fær þjóðfélagið öryggi
fyrir aldraða sem þeir eiga skilið.
Eitt er ljóst. Við erum ekki hætt.
Aðgerðir okkar munu halda áfram
þar til ráðamenn fá skilning á því að
þeir bera ábyrgðina.
Aðgerðir okkar halda áfram
Álfheiður Bjarnadóttir og
Rannveig H. Gunnlaugsdóttir
fjalla um vanda öldrunarheim-
ilanna og kröfur starfsfólksins
um mannsæmandi laun
’Við erum ekki hætt. Að-gerðir okkar munu halda
áfram þar til ráðamenn fá
skilning á því að þeir bera
ábyrgðina.‘
Rannveig H.
Gunnlaugsdóttir
Höfundar er starfsmenn við umönnun
á Hrafnistu í Reykjavík.
Álfheiður
Bjarnadóttir
STAKSTEINUM þykir stjórn-
arandstaðan hugmyndalaus og sakn-
ar þess tíma er hún var klofin í
marga smáflokka. Okkur finnst
þvert á móti höfundur
Staksteina með af-
brigðum hug-
myndaríkur. Ekki birt-
ist það síst í þrálátri
þáþrá hans eftir þeim
sælu dögum þegar
séntilmennirnir í fjöl-
skyldunum fjórtán
áttu Ísland. Ó hve sælt
var að vera fátækur
þá.
Hvað gerðist?
Áratugum saman
stýrðu vinir blaðsins,
„góða auðvaldið“, land-
inu og áttu það í krafti
pólitískrar miðstýr-
ingar. Í gegnum hana
réðu þeir hverjir nutu
lánstrausts landsins,
höfðu aðgang að fjár-
magni og þar með völd.
Almenningur átti ekki
til annarra að leita með
viðskipti sín á litlum og
lokuðum markaði og
var þannig örugg und-
irstaða velsældar fjöl-
skyldnanna fjórtán.
Þetta valdakerfi var
ofverndað og gekk því úr sér og at-
vinnulíf okkar staðnaði. Undir lok
síðustu aldar urðu síðan fyrir til-
verknað íslenskra jafnaðarmanna
fjármagnsflutningar frjálsir til og frá
landinu og þá tók að losna um of-
urtök þeirra sem átt höfðu Ísland.
Stóra breytingin varð þó ekki fyrr en
við sölu ríkisbankanna.
Það sem aldrei er sagt er að þá var
lánshæfi landsins selt einkaaðilum.
Það var hin gríðarlega dulda eign
sem í bönkunum lá því þó þeir væru
litlir fengu þeir bestu lánskjör því
þeir væru kerfisbankar á Íslandi sem
aldrei yrðu látnir fara á hausinn. Þar
með var verið að selja aðganginn að
fjármagninu, réttinn til að eiga Ís-
land. Þess vegna voru Halldór og
Davíð á kafi í hverjir fengju að eign-
ast. Þess vegna var svo óeðlilega að
þeirri sölu staðið og þokukennt
hverjir væru að kaupa af hverjum að
við í fjárlaganefndinni þurftum að
taka málið til sérstakrar rannsóknar.
Hún afhjúpaði hve þessu var hand-
stýrt.
Þetta lánshæfi Íslands hafa nú
nýju eigendurnir nýtt til fulls og
kannski meira en það. Eigendurnir
eru líka orðnir margir og allt í einu
hefur bara alls konar fólk aðgang að
fjármagni, jafnvel ribbaldar segja
Staksteinar. Og þeir sem hafa að-
ganginn að ódýru erlendu lánsfé til
að eiga Ísland með hafa enn íslensk-
an almenning hangandi í verð-
tryggðum skuldum með hæstu vöxt-
um í heimi og þurfa því engu að kvíða
um afkomu sína af góð-
um vaxtamun á fá-
keppnismarkaði.
Hvað ber að gera?
En þó virðingarvert
sé af Staksteinum að
taka siðferðilega af-
stöðu til mannlegrar
breytni í viðskiptalífinu
breytist heimurinn lítið
við að mótmæla því sem
orðið er. Áherslur hans
um styrkingu sam-
keppni og eftirlits geta
sumar orðið til bóta, þó
ekki verði séð að þær
breyti hinum nýja veru-
leika í neinum aðal-
atriðum. Við jafn-
aðarmenn höfum hins
vegar einfalda og skýra
hugmynd um hvað gera
þurfi. Við þurfum að
verða hluti af stærra
samfélagi, verða hluti af
myntbandalagi evr-
unnar og leggja niður
verðtryggðu íslensku
okurkrónuna. Þannig
sköpum við öllum al-
menningi aðgang að því
ódýra erlenda lánsfé sem forrétt-
indastéttirnar hafa til þessa haft
einkarétt á. Því eins og Staksteinar
auðvitað vita er það sá sem hefur að-
ganginn að lánsfénu sem á Ísland.
Með niðurlagningu krónunnar
verður líka rutt úr vegi stærstu við-
skiptahindruninni fyrir erlend fyr-
irtæki til að veita samkeppni hér á
landi, en sem kunnugt er þörfnumst
við samkeppni mjög. Ekki síst á
þetta við um samkeppni á fjár-
málamarkaði. Þá vaxa og dafna út-
flutningsgreinarnar af því að leggja
niður þá viðskiptahindrun sem smá-
myntin okkar er. Síðast en ekki síst
aukum við trúverðugleika íslensks
fjármálakerfis þannig til framtíðar,
drögum úr sveiflum og hættu á fjár-
málakreppu um leið og við sköpum
hinum öflugri fyrirtækjum það al-
þjóðlega umhverfi sem þau þurfa til
vaxtar. Því stöðugleika og trúverð-
ugleika endurheimtum við ekki með
umvöndunum heldur þeirri skyn-
samlegu langtíma aðgerð í efnahags-
og atvinnumálum að leggja niður ís-
lensku krónuna, sem orðin er al-
menningi alveg nógu dýrkeypt.
Hverjir eiga
Ísland?
Helgi Hjörvar svarar
Staksteinum Morgunblaðsins
’Við þurfum aðverða hluti af
stærra sam-
félagi, verða hluti
af myntbanda-
lagi evrunnar og
leggja niður
verðtryggðu
íslensku okur-
krónuna. ‘
Höfundur er alþingismaður
Samfylkingarinnar.
BRÉF TIL BLAÐSINS
Morgunblaðið Kringlunni 1 103 Reykjavík Bréf til blaðsins | mbl.is
UM MARGRA ára skeið hefur
ferðakostnaður íþróttafélaga á
landsbyggðinni verið til umræðu.
Flestir eru sammála um að sam-
keppnisstaðan sé ójöfn. Íþrótta-
félag út á landi þarf að afla mikilla
tekna til þess eins að taka þátt í
mótum á landsvísu, svo ekki sé
minnst á kostnað foreldra vegna
ferðalaga barna og unglinga. Það
gerir málið enn alvarlegra að
rekstrarumhverfið er mun erfiðara
í hinum dreifðu byggðum og fjár-
öflunarkostir færri. Landsbyggð-
arfélögin hafa leitað allra leiða til
sparnaðar og nú fara keppnislið
nær eingöngu akandi til keppni á
höfuðborgarsvæðið jafnvel í miðri
viku. Það eru mörg ár síðan fyrst
var farið að ræða um ferðajöfn-
unarsjóð en hægt hefur þokast.
Það er hins vegar mikið réttlætis-
og byggðamál að alþingi afgreiði
frá sér málið nú á vormánuðum og
leiðrétti að hluta þann herfilega að-
stöðumun sem ferðakostnaðurinn
sannarlega hefur í för með sér.
Ég hvet sérstaklega þingmenn
landsbyggðarinnar til dáða og
þakka þeim sem beitt sér hafa í
málinu.
JÓHANNES G. BJARNASON,
Grundargerði 1-d, 600 Akureyri.
Ferðakostnaður
íþróttafélaga
Frá Jóhannesi G. Bjarnasyni,
íþróttakennara og bæjarfulltrúa á
Akureyri: