Morgunblaðið - 24.05.2006, Blaðsíða 41
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 24. MAÍ 2006 41
MINNINGAR
✝ GunnhildurSnorradóttir
fæddist á Akureyri
25. janúar 1939.
Hún lést á Landspít-
ala – háskólasjúkra-
húsi við Hringbraut
þriðjudaginn 16.
maí síðastliðinn.
Foreldrar hennar
voru Margrét Sig-
ríður Aðalsteins-
dóttir og Snorri
Jónsson. Seinni
maður Margrétar
var Sigurður Magn-
ússon. Þau eru öll látin. Gunn-
hildur á eina systur, Pálínu
Agnesi, f. 24.1. 1937 og bróður
samfeðra, Jón Steinar, f. 8.11.
1944. Dóttir Gunnhildar og Guð-
mundar Þorsteinssonar er Mar-
grét Sigríður, f. 16.11. 1962, maki
Þórir Ingi Friðriksson, f. 18.11.
1967. Sonur þeirra er Róbert
Smári, f. 28.5. 1997. Fyrir átti
hún Alexöndru Sif Herleifsdótt-
ur, f. 2.10. 1989.
Gunnhildur giftist 18.12. 1965
Svavari Guðmundssyni, f. 26.3.
1935. Foreldrar hans voru Guð-
mundur Ingvar Guðmundsson og
Hrefna Magnúsdóttir, þau eru
bæði látin. Börn Gunnhildar og
Svavars eru: 1) Guðmundur, f.
2.3. 1966, maki Sukunya Panalap,
f. 19.9. 1978. Börn þeirra eru
Benjamín P., f. 2.4.
2003 og Nicole P., f.
4.11. 2004. Fyrir
átti hann Gunnhildi
Svövu, f. 5.5. 1994.
2) Erna Björk, f.
15.7. 1969, maki
Einar Ármannsson,
f. 11.8. 1964. Dætur
þeirra eru Hrefna
Rún og Rebekka
Rán, fæddar 25.11.
1997. Fyrir átti hún
Svavar Helga Ernu-
son, f. 4.1. 1990. 3)
María Björk, f. 30.9.
1970, börn hennar eru Daníel
Kristmar Snorri Pálsson, f. 8.2.
1993 og Kolbrún Ýr Pálsdóttir, f.
3.10. 1996.
Gunnhildur lauk gagnfræða-
prófi frá Gagnfræðaskóla Austur-
bæjar árið 1956 og hóf þá störf í
bókhaldsdeild Flugfélags Íslands.
Um nokkurra ára skeið vann hún
á Endurskoðunarskrifstofu
Sverris Más Sverrissonar. Árin
1977–1980 bjó Gunnhildur ásamt
fjölskyldu sinni í Malmö í Svíþjóð
og var hún þá m.a. deildarstjóri í
verslunarmiðstöð hverfisins. Eft-
ir heimkomuna vann hún á skrif-
stofu Bifreiðastjórafélagsins
Frama allt til dauðadags.
Útför Gunnhildar verður gerð
frá Fella- og Hólakirkju í dag og
hefst athöfnin klukkan 13.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð.
Þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir.)
Drottinn blessi minningu þína.
Svavar, börn, tengdabörn
og barnabörn.
Með miklum söknuði kveð ég
kæra vinkonu, Gunnhildi Snorra-
dóttur. Leiðir okkar lágu fyrst sam-
an 1964 er ég hóf störf í bókhaldinu
hjá Flugfélagi Íslands sem var til
húsa í Bændahöllinni, hún hafði
starfað þar í nokkur ár. Það tókst
með okkur kær vinátta sem haldist
hefur óslitið síðan.
Hún var einstæð móðir, hafði
eignast dótturina Margréti sem var
tveggja ára. Í þá daga var ekki al-
gengt að einstæðar mæður ættu bíl,
þær urðu að notast við strætisvagn-
inn. Því var það heilmikið ferðalag
fyrir Gunnhildi að fara með Margréti
í pössun á hverjum morgni. Úr
strætisvagninum gekk hún frá
Laugavegi upp á Njarðargötu og
þaðan í vinnu vestur í Bændahöll.
Þegar vinnu lauk var gengið til baka
sömu leið. Hún bjó með stjúpa sínum
á þessum árum, en móðir hennar var
látin. Hún lést langt um aldur fram
úr krabbameini þegar Gunnhildur
gekk með Margréti. Pálína systir
hennar bjó á Ísafirði og samgöngur
voru ekki eins greiðfærar og auð-
veldar og í dag. Snemma þurfti hún
því að taka út þroska og axla ábyrgð.
Aldrei þá, né síðar á lífsleiðinni
heyrði ég hana kvarta eða vorkenna
sér, það var ekki hennar háttur.
Gunnhildi kynnti ég fyrir frænda
mínum Svavari Guðmundssyni, en
við erum bræðrabörn. Þau gengu í
hjónaband í desember 1965, fóru
bara til prestsins án þess að láta
neinn vita. Vinkonan og frænkan var
sármóðguð að hafa ekki verið látin
vita. En svona fóru margir að í þá
daga.
Í mars fæddist sonurinn Guð-
mundur og dæturnar Erna Björk og
María Björk fæddust nokkrum árum
seinna. Öll fjögur vel gerð og mann-
vænleg, foreldrunum miklir gleði-
gjafar . Nú eru barnabörnin orðin tíu
sem syrgja ástríka ömmu sína.
Gunnhildur og Svavar voru að
mörgu leyti ólík hjón, en voru sam-
taka í að helga sig algjörlega heimili,
börnum og barnabörnum. Kímnigáf-
an var rík hjá þeim báðum og það var
mikið hlegið á heimilinu. Þar hef ég
átt margar ánægjulegar stundir í
gegnum árin, ég var alltaf sjálfsagð-
ur gestur, eða eiginlega ein af fjöl-
skyldunni þegar eitthvað var um að
vera.
Gunnhildur vann alltaf úti með
heimilinu. Þegar börnin voru lítil og
enga pössun að fá tók hún verkefnin
heim og vélritaði á kvöldin og fram á
nætur. Börnin uxu úr grasi og hún
fór aftur út á vinnumarkaðinn.
Gunnhildur starfaði lengst af hjá
Bifreiðastjórafélaginu Frama.
Hún vinkona mín var skapmikil og
ákveðin, en hæglát og mjög yfirveg-
uð. Hún var mjög orðheppin og lét
engan eiga neitt hjá sér ef því var að
skipta. Hún átti ríka kímnigáfu og
var ákaflega hláturmild. Þessir eig-
inleikar voru henni mikil hjálp þegar
hún greindist með krabbamein fyrir
ári og við tóku samfelldar lyfja- og
geislameðferðir. Samfara því stund-
aði hún vinnu nánast fram á síðasta
dag. Hún tók þessu af þvílíku æðru-
leysi, ræddi opinskátt um veikindin
og kvartaði aldrei. Hafði það alltaf
ágætt ef ég spurði um líðan hennar.
Hetjulegri baráttu er lokið. Ég
þakka kærri vinkonu 42 ára vináttu.
Erna Steinsdóttir.
Þó að kali heitur hver,
hylji dali jökull ber,
steinar tali og allt hvað er,
aldrei skal ég gleyma þér.
(Úr vísumVatnsenda-Rósu.)
Einu sinni fluttu tvær systur,
Gunna og Pála, ásamt móður sinni
og stjúpa frá Akureyri til Reykjavík-
ur. Til allrar hamingju fyrir okkur,
tvær systur í Mjóuhlíð 2, bjuggu þau
sér heimili að Mjóuhlíð 8. Þær voru
sex og átta ára gamlar og eins vorum
við. Þá hófst sú einstaka vinátta sem
staðið hefur í meira en sextíu ár. En
nú er ein okkar fallin í valinn.
– Þar er skarð fyrir skildi.
Þær systur misstu móður sína,
Margréti Aðalsteinsdóttur aðeins 47
ára gamla úr sama illvíga sjúkdómi
og nú hefur lagt Gunnu að velli. En
lífið er oft undarlegt. Gunna átti þá
von á sínu fyrsta barni og brátt var
ný Margrét komin í heiminn. Svo
kynntist hún Svavari, þau giftust og
eignuðust þrjú börn, Guðmund,
Ernu Björk og Maríu Björk. Öll
börnin eru einstaklega myndarleg
og dugmiklir einstaklingar.
Gunna var heilsteyptur persónu-
leiki og forkur dugleg. Hún vann
nær alla tíð úti, fyrst á skrifstofu
Flugfélags Íslands og svo á endur-
skoðunarskrifstofu við bókhald. Á
tímabili flutti fjölskyldan til Gauta-
borgar þar sem Gunna vann í stór-
markaðinum Tempo. Eftir heim-
komuna 1980 hóf Gunna störf hjá
Bifreiðastjórafélaginu Frama og
vann þar allt að því fram á síðasta
dag.
Hún var listræn, fór ung í Mynd-
listarskólann, málaði á postulín og
gat saumað hvað sem var, enda fól ég
henni að sauma fermingarkjólinn á
yngstu dóttur mína. Svo var kjóllinn
glæsilegur hjá henni að stúlkan hefði
getað gift sig í honum. Gunna gat
allt.
Við Gunna vorum jafngamlar og
vorum óaðskiljanlegar alla okkar
æsku, unglingsár og fram á fullorð-
insár, þótt samverustundunum
fækkaði þegar við höfðum stofnað
okkar eigin fjölskyldu. Spaugilegt
hefur verið að sjá okkur saman, hún
há og glæsileg en ég eins og lítið peð
við hliðina á henni. Það skipti okkur
engu. Endurminningarnar hrannast
upp, alltaf var líf og fjör.
Helst vil ég muna hið frábæra
skopskyn hennar: „Ég átti heima í
Mjóuhlíð, en svo fitnaði ég svo mikið
að ég varð að flytja í Breiðholtið.“ Og
þegar ég skírði eitt barna minna
Gunnar og annað Hildi sagði hún: „
Já, Bagga mín, ég er svo stór að þú
þarft að skíra tvö börn í höfuðið á
mér.“ Eflaust hefur vinátta mín við
Gunnu haft þau áhrif að mér fannst
þessi nöfn svo falleg.
Gunnu verður sárt saknað. Hug-
heilar kveðjur sendi ég Svavari, allri
fjölskyldunni og ekki síst Pálu sem
nú hefur misst einkasystur sína.
Höfum í huga að leiðarlokum að
gott er að minnast góðra stunda.
Björg Sigurvinsdóttir
(Bagga).
Hún Gunnhildur er farin, horfin
sjónum okkar í bili. Með örfáum orð-
um langar okkur að minnast hennar.
Í maí fyrir ári mætti Gunnhildur í
síðasta saumaklúbbinn fyrir sum-
arfrí, það varð líka síðasti sauma-
klubburinn hennar með okkur.
Gunnhildur kom inn í saumaklúbb-
inn okkar fyrir um 30 árum, og small
strax inn með sínu glaðværa viðmóti,
hún hafði einstaklega góða nærveru,
var orðheppin og hafði skemmtilega
frásagnarhæfileika, það var því oft
glatt á hjalla hjá okkur þótt ekki
væri nú mikið prjónað síðustu árin.
Við vinkonurnar viljum þakka
Gunnhildi fyrir allar ánægjulegu
samverustundirnar á liðnum árum.
Við vottum fjölskyldu hennar samúð
okkar á þessari erfiðu stundu.
Blessuð sé minning hennar.
Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins
degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist
eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast
þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir.)
Saumaklúbbsvinkonur.
Kveðja frá
körfuknattleiksdeild KR
Gunnhildur Snorradóttir var ein
af frumkvöðlunum í körfuknattleiks-
deild KR á 6. og 7. áratug síðustu
aldar, skömmu eftir stofnun hennar,
en deildin á einmitt 50 ára afmæli á
þessu ári. Fljótlega eftir stofnun
deildarinnar komu nokkrar stúlkur
að máli við stjórn deildarinnar og
vildu æfa körfuknattleik og var það
auðsótt mál og hófust æfingar
kvenna skömmu síðar. Áhugi og
kraftur ungra kvenna í körfuknatt-
leiksdeild KR var reyndar aðals-
merki deildarinnar fyrstu árin og
var Gunnhildur þar í forystu.
Aðstöðuleysi háði starfseminni
mikið og eitthvað var starfsemin laus
í reipunum til að byrja með, en það
leystist þó fljótlega og meiri festa
komst á starfið undir hennar stjórn
en Gunnhildur var formaður deild-
arinnar 1958–1959, aðeins tvítug að
aldri og er eina konan, sem gegnt
hefur því embætti. Hún sat einnig í
stjórn deildarinnar árið eftir undir
forsæti Helga Sigurðssonar og var
þá varaformaður, en segja má að þá
hafi starfsemi deildarinnar verið
komin á beinu brautina til þeirra af-
reka sem síðar hafa unnist.
Árangurinn á íþróttasviðinu lét
reyndar ekki á sér standa hjá kon-
unum í félaginu, því 1960 vannst
fyrsti Íslandsmeistaratitill KR í
körfuknattleik, er 2. flokkur kvenna
sigraði á Íslandsmótinu, og strax ár-
ið eftir fylgdi Íslandsmeistaratitill í
meistaraflokki kvenna, þegar KR
lagði Íslandsmeistara Ármanns með
yfirburðum en Gunnhildur lék í liði
KR og var fyrirliði.
Körfuknattleiksdeild KR þakkar
Gunnhildi fyrir framlag hennar til
körfuknattleiks hjá KR og sendir
fjölskyldu hennar innilegar samúð-
arkveðjur.
GUNNHILDUR
SNORRADÓTTIR
✝ Sölvi Eiríkssonfæddist í Egils-
seli í Fellum hinn
28. janúar 1932.
Hann lést á Fjórð-
ungssjúkrahúsinu í
Neskaupstað hinn
18. maí síðastliðinn.
Foreldrar hans voru
Eiríkur Pétursson
frá Egilsseli og Sig-
ríður Brynjólfsdótt-
ir frá Ási í Fellum.
Sölvi var yngstur
átta systkina en hin
eru Þorbjörg, Staf-
felli, látin, Ragnheiður, Egilsseli,
látin, Rósa, Miðdal í Kjós, Bryn-
dís, Stöðulfelli í Gnúpverjahreppi,
Pétur, Egilsseli, látinn, Björg-
heiður, Reykjavík, og Þórey,
Reykjavík.
Sölvi bjó fjárbúi alla tíð í Egils-
seli, fyrst með foreldrum sínum
og systkinum og síð-
an eftir lát foreldra
sinna með Pétri
bróður sínum og
Ragnheiði systur
sinni meðan þeirra
naut við. Hann
stundaði ýmsa
vinnu utan heimilis,
var á vertíð í Vest-
mannaeyjum og
vann við smíðar og
byggingarvinnu í
Fellum og ná-
grannasveitum.
Hann var um langt
skeið verkstjóri í sláturhúsi
Verzlunarfélags Austurlands við
Lagarfljótsbrú á meðan það starf-
aði, og í allmörg ár póstur í Út-
fellum.
Útför Sölva verður gerð frá
Egilsstaðakirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 14.
Halldór Laxness sagði eitt sinn í
frægum eftirmælum að „það væri
manni erfitt að gera grein fyrir vini
sínum“ og átti þar við stórvin sinn,
Jóhann Jónsson skáld. Við, fjöl-
skyldan á Miðfelli 1 í Fellabæ, verð-
um að vera ósammála nóbelsskáld-
inu. Við eigum nefnilega mjög
auðvelt með að gera grein fyrir vini
okkar, Sölva í Egilsseli, þó tilefnið
mætti vera betra. Sú vinátta sem við
öll nutum hjá honum og þeim Pétri
og Rænku var nefnilega óblandin og
heil. Vinátta og tryggð sem ekki er
auðfundin.
Allt frá því er Egill bróðir var
sendur þangað í sveit vorum við fjöl-
skyldan viðloðandi Egilsselsheimil-
ið. Við bræður vorum langt í frá einu
ungmennin sem nutum einstakrar
vináttu og leiðsagnar þessara öð-
linga, þau voru mörg sem það gerðu
og búa að því alla tíð. Það var ein-
kenni á framkomu þeirra systkina,
sem þó voru barnlaus, að þau kunnu
að koma fram við æskufólk. Þar var
ekkert kynslóðabil. Þau komu fram
við börn eins og jafningja og af virð-
ingu. Þar var ekki skammast eða
sveiað, heldur leiðbeint um verklag
og sagt fyrir þannig að maður lærði.
Þess vegna datt manni ekki í hug að
óhlýðnast. Og heldur fannst okkur
Agli við vera orðnir menn þegar við
kláruðum litla ölflösku með Pétri, á
leið í Ormarsstaðarétt í rússanum
hans Sölva.
Sölvi og þau Egilsselssystkin
máttu hins vegar þola margt brasið
á okkur bræðrum og feðgum, að-
allega með hesta- og skotveiðifikti.
Sölvi sagði fátt um hestamennsku
okkar, en ég veit að hann kunni að
meta góða hesta. Við vorum auðvit-
að jarðlausir þéttbýlingar. Ekki
fékk Sölvi mikið fyrir ómakið, nema
kannski þokkalegt koníak öðru
hverju.
Systkinin í Egilsseli lifðu fá-
brotnu og einföldu lífi á sínu ætt-
aróðali, en þó engan hátt einangr-
uðu. Þar var búið við gamla lagið að
hlú mest að sínu, bjargast við það
sem Guð gaf og fara vel með. Að
fénu frátöldu höfðu þau eina kú og
hænur, þar til minkurinn drap þær.
Sölvi lagaði mest sjálfur það sem bil-
aði, og það dugði. Hann var laghent-
ur og oft fenginn í viðhaldsvinnu hér
og þar.
Okkur bræðrum leiddist ekki þeg-
ar við vorum ásamt Sölva og Grétari
á Skipalæk að setja upp gistinguna í
Fellaskóla, og þegar Guðni í Másseli
bættist við hraut mörg snilldin af
vörum manna. Sölvi gekk að verkum
með fyrirhyggju og lagni og bölvaði
ekki verkfærum sínum eins og skap-
mönnum er títt, né féllust honum
hendur við illeysanleg verk. Það er
eitthvað öfugsnúið við það að gamall
bóndi falli frá að vori. Vorverkin haf-
in. Sauðburður í fullum gangi eða að
ljúka. Sölvi hefur lokið sínum verk-
um hér á jörð og leyst þau með
sóma. En hans bíður nú hvíldin
handan þessa heims, í eilífu vori.
Þórður Mar Þorsteinsson,
Laufey Egilsdóttir,
Þorsteinn Páll Gústafsson,
Bragi Hreinn Þorsteinsson.
Gamall vinur minn er fallinn frá.
Sölvi í Egilsseli er genginn, og fer
þar það þriðja og síðasta af systk-
inum þeim, sem fóstruðu mig barn
og ungling fjögur sumur. Oft og tíð-
um leitar hugurinn í Egilssel; ég
bast staðnum og fólkinu sterkum
böndum enda tóku þau mér opnum
örmum, eins og svo mörgum öðrum
börnum á undan mér.
Ég á ótal minningar frá þessum
tíma. Minningar um starfsamt fólk,
íslenskan mat, póstferðir, tíðar
gestakomur, hlýja baðstofu, ógrynni
bóka sem þeir bræður héldu að mér
og ég las í birtu sumarnátta, góðlát-
legar glósur bræðra um gapandi
geispa mína eftir slíkar nætur,
spennandi og hávaðasama andvöku-
nótt þegar Valli og Jói, sumardreng-
ir á undan mér, komu í heimsókn
klyfjaðir brennivíni, óteljandi
bagga, göngur og réttir, veður og
fréttir, sunnudagssteik, neftóbak,
sætan pípureyk, filterslausan camel,
harðahlaup á eftir kindum, mýr-
blauta lágskó, rússajeppa fullan af
fé, æinú, glaðan tón í rauli Rænku
og ótalmargt annað gæti ég talið.
Allt er það umvafið hlýju þeirri, sem
frá þeim stafaði.
Vissulega finn ég fyrir söknuði.
En efst í huga mér er þakklæti fyrir
allt sem Sölvi, Pétur og Rænka gáfu
mér frá fyrsta degi og alla tíð síðan;
vegvísi út í lífið og ævarandi vináttu.
Ég á Egilssel og allt sem því fylgir;
geymi það í hjarta mínu um aldur og
ævi og bý að því alla mína daga, uns
ég hverf enn til vina minna í Egils-
seli.
Egill Snær Þorsteinsson.
SÖLVI
EIRÍKSSON
Aðstoða við gerð
minningargreina
Flosi Magnússon
sími 561 5608
eða 896 5608
flosi@flosi.is