Morgunblaðið - 12.06.2006, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 12.06.2006, Blaðsíða 10
10 MÁNUDAGUR 12. JÚNÍ 2006 MORGUNBLAÐIÐ FRÉTTIR Ragnhildur Helgadóttir hafði starfað ítæp fjögur ár við lagadeild Háskól-ans í Reykjavík þegar hún tók viðstöðu prófessors í lok apríl sl. Hún lauk lögfræðinámi árið 1997 og doktorsnámi árið 2004 og ef til vill má segja að lögfræðin og stjórnskipunarrétturinn séu henni í blóð borin, en alnafna hennar og amma var meðal fyrstu kvenna til að ljúka laganámi og gegna ráð- herraembætti hér á landi og afi hennar, Þór Vilhjálmsson, gegndi á ferli sínum bæði stöðu prófessors í lögfræði og dómara við bæði Hæstarétt og Mannréttindadómstól Evrópu. Ekki ber á öðru en Ragnhildur hafi í nógu að snúast þessa dagana. Hún vinnur ásamt fleir- um að stóru rannsóknarverkefni á sviði al- mannatryggingarréttar, sem nefnist Almanna- tryggingar: Hlutverk og samspil við önnur bótaúrræði, þar sem lagaramminn og stjórn- sýslan í kringum almannatryggingarnar eru skoðuð sem og tengsl almannatrygginga við önnur bótakerfi. Verkefninu lýkur með útgáfu fyrstu íslensku fræðibókarinnar um almanna- tryggingar. Þar að auki stýrir hún ritnefnd um sögu þingræðis á Íslandi en í henni sitja auk Ragn- hildar dr. Þorsteinn Magnússon og Helgi Skúli Kjartansson, prófessor í sagnfræði. Það er því við hæfi að byrja á að spyrja Ragnhildi út í stöðu þingræðisins hér á landi og hvort eitt- hvað sé til í því, sem stundum er sagt, að þing- ið eigi undir högg að sækja vegna þess hve vald ráðherranna sé sterkt? „Eitt af því sem er svo skemmtilegt í þessari ritnefnd, að þar er auk mín stjórnmálafræð- ingur og sagnfræðingur og við höfum öll í ljósi okkar fræðigreina mismunandi sýn á hvað felst í þingræði og hvernig á að skoða það. Í stjórnskipunarréttinum er fyrst og fremst tal- ið felast í þingræðinu að það geti enginn verið í ríkisstjórn nema með stuðningi eða hlutleysi þingsins, með öðrum orðum að ráðherrar verði að víkja fyrir vantrausti. Það höfum við klár- lega. Nemendur mínir segja stundum að flokksaginn hér sé svo sterkur að þetta hafi snúist við þannig að þetta sé ekki spurning um að þingið geti rekið ráðherra heldur að ráð- herra stjórni þinginu. En út frá hinni stjórn- skipunarréttarlegu skilgreiningu um að ráð- herrar og ríkisstjórn verði að hafa stuðning eða hlutleysi þingsins, þá uppfyllum við skil- yrði þingræðis.“ Dregið úr starfi stjórnarskrárnefndar Í ársbyrjun 2005 var skipuð stjórn- arskrárnefnd til að endurskoða stjórn- arskrána, einkum fyrsta og annan kafla henn- ar. Hver er þín sýn á það starf sem nefndin vinnur? „Mér finnst hafa sést minna til nefndarinnar að undanförnu, hvort það er vegna þess að vinnan er á því stigi eða hvort starfið er að fjara út, veit ég ekki,“ segir Ragnhildur. Þegar hún er spurð nánar út í viðfangsefni nefnd- arinnar, t.d. hvort hún telji að synjunarvald forseta Íslands eigi að halda sér í óbreyttri mynd eða hvort breyta eigi skilyrðum þess að þjóðaratkvæðagreiðslur geti farið fram, segir hún að þessar spurningar séu fyrst og fremst pólitískar. Hins vegar sé mikil þörf á að breyta ferlinu varðandi breytingar á stjórnarskránni. Núver- andi fyrirkomulag felur í sér að þegar stjórn- arskrárbreyting er samþykkt á þingi, er þing rofið og boðað til kosninga og nýkjörið þing verður svo að samþykkja breytingarnar til þess að þær gangi í gegn. Ragnhildur bendir á að almennar þingkosningar snúist um allt ann- að en þessar breytingar og lítið fari fyrir þessu ferli, þótt því hafi oft verið beitt undanfarin ár. „Ég held að það hafi verið einar kosningar frá 1991 þar sem ekki var gerð breyting á stjórnarskránni, þ.e. síðustu þingkosningar ár- ið 2003. Mér finnst að það ætti að gera aðkomu þjóðarinnar að slíkum breytingum beinni,“ segir Ragnhildur og bætir því við að hún þekki engin dæmi þess að þeir sem kjósi í þingkosn- ingum kjósi um stjórnarskrárbreytingar. „Ég þekki þó flest áhugafólk um stjórnskip- unarrétt á landinu!“ bætir hún við. Hún segir að til dæmis mætti hugsa sér að kjósendur kjósi með beinum hætti um þær breytingar sem liggja fyrir í stað þess að kjósa eingöngu um flokka. Ekki hægt að kveinka sér yfir að dómstólar beiti stjórnarskránni Mannréttindi eru hluti stjórnskipunarréttar og umræða um mannréttindi hefur aukist mjög á undanförnum árum. Hefur mannrétt- indahugtakið verið að þynnast út? „Ég er alltaf svolítið hrædd við það þegar fólk segir að eitthvað stækki og stækki og það sé verið að teygja hugtök út yfir allt. Sú um- ræða hefur komið upp varðandi mannréttinda- hugtakið, t.d. var í haust málþing þar sem danskur prófessor hélt því fram að það væri of mikil dómstólavæðing, þ.e. of mörgum póli- tískum spurningum væri svarað af dómstólum. Hann var sérstaklega að horfa í það að dóm- stólar á Norðurlöndum hafi beitt Mannrétt- indasáttmála Evrópu svo grimmt að þar hafi vantað lýðræðislega löghelgun. Á móti kemur að Alþingi lögfesti sáttmálann árið 1994 og við breyttum okkar stjórnarskrá árið 1995 að verulegu leyti að fyrirmynd Mannréttinda- sáttmálans. Ef eitthvað er lýðræðisleg lög- helgun þá er það þetta. Mér finnst að ekki sé hægt að kveinka sér yfir því að dómstólar beiti stjórnarskránni enda eru tvö þing nýbúin að samþykkja þessa breytingu. Alþingi hefur fengið mörg tækifæri til að taka afstöðu til hennar,“ segir Ragnhildur en tekur fram að hún hafi frekar fengist við þann hluta stjórn- skipunarréttarins sem snýr að formgerð rík- isvaldsins og hver séu hlutverk ólíkra greina þess og hvernig þau takmarki hvert annað. Dómstólar leita ekki í aukin áhrif Annað atriði sem deilt hefur verið um hér á landi og víðar, er hvort dómstólar hafi með framsæknum túlkunum gengið inn á svið lög- gjafans og búið til lög. Eru dómstólar að taka aukinn þátt í lagasetningu? „Þarna reynir á samspil ólíkra þátta rík- isvaldsins. Ég hef haft þá tilhneigingu að fara mjög varlega í að svara þeirri spurningu ját- andi hvort dómstólar séu að ganga inn á svið löggjafans. Við verðum að hafa í huga að dómstólarnir velja sér ekki málin sjálfir. Þeir velja sér ekki heldur þau gögn sem þeir byggja sínar nið- urstöður á. Mér finnst eðlilegt eftir að stjórn- arskránni var breytt, að það sé meira dæmt en áður, þegar kaflinn var mun styttri. Það þarf ekki að vera vegna þess að dómstólar séu að sækja í aukin völd, eins og sumir nemenda minna halda stundum fram. Það efast ég stór- kostlega um því þeir hafa ekki tækifæri til þess, þeir verða að dæma í þeim málum sem fyrir þau eru lögð og eftir lögum. Því hefur líka verið haldið fram að löggjaf- inn setji mjög almenn lög og ætli dómstólum og þeim sem framkvæma þau að þróa þau í framkvæmd, ef svo má segja. Þá er önnur leið til að gera sama hlutinn að setja lög sem segja nánast ekkert efnislega, en hafa reglugerð- arheimildir til ráðherra og þá er allt sem máli skiptir sett þar. Heimild löggjafarvaldsins til að framselja vald til ráðherra er ekki ótak- mörkuð en hún er ansi víð.“ Áhrif bandarískra kenninga Ragnhildur skrifaði doktorsritgerð sína um áhrif bandarískra kenninga á endurskoð- unarvald dómstóla á Norðurlöndum og komst að þeirri niðurstöðu að þær kenningar hafi haft áhrif á norræn ríki, sem voru allt að hundrað árum á undan öðrum evrópskum ríkj- um að viðurkenna endurskoðunarvald dóm- stóla um stjórnskipulegt gildi laga. Hins vegar verði ákveðin skil upp úr 1960 samhliða því að Mannréttindadómstóll Evrópu fer að fá mál til meðferðar sem og tilkoma þýskra stjórnlaga- dómstólsins. „Þá eru komnar nærtækari fyr- irmyndir,“ segir hún. Aðspurð hvort einhver ástæða sé fyrir land eins og Ísland til að taka upp stjórnlagadóm- stól, telur Ragnhildur svo ekki vera enda séu í það heila ekki mörg mál þar sem reynir á stjórnarskrána. „Það þyrfti að vísa þessum málum þangað með tilheyrandi töfum á máls- meðferð og svo höfum ekki endalaust fólk og peninga til að halda úti fimm eða sjö manna dómstól sem væri eingöngu í þessum málum,“ segir Ragnhildur og bætir við að slíkt fyr- irkomulag væri þungt í vöfum. Hún tekur þó fram að stjórnlagadómstólar hafi bæði kosti og galla. Gróska í háskólum Ragnhildur segir að mikil gróska sé í há- skólaumhverfi á Íslandi, bæði varðandi þróun minni skólanna sem og stefnumótunarvinnu í Háskóla Íslands. „Ég held að rannsóknir séu að verða mun viðameiri þáttur og ég held að þær verði að vera það,“ segir hún og bætir við að öflugt rannsóknarstarf sé meðal annars for- senda þess að fá fólk sem hefur verið að gera spennandi hluti úti heim aftur. Þá séu kröf- urnar til rannsókna að breytast, meiri áhersla sé lögð á mælanlegan árangur og tölfræði, sem sé jákvæð þróun þó hún megi ekki verða alls- ráðandi. „Það getur til dæmis verið vel rétt- lætanlegt að birta ekki neinar greinar í þrjú ár meðan verið er að vinna að bók,“ segir Ragn- hildur. En er rannsóknarstarfið kraftmikið í jafn- ungum skóla og Háskólanum í Reykjavík? „Ég held að það hafi verið tekin rétt ákvörð- un í upphafi að ráða alla fastráðna kennara hingað inn með allt upp í 40-50% rannsókn- arskyldu, því öðruvísi en að ætla tíma í þetta gerist ansi lítið. Að mörgu leyti er ég ofsalega ánægð með okkur en að sumu leyti er því ekki að neita að við erum að kenna námskeið í fyrsta sinn á hverri einustu önn og það er til mjög mikils mælst að kennarar kenni nám- skeið í fyrsta sinn og birti mikið af greinum samhliða en margir okkar kennara bíta á jaxl- inn og gera það. Eftir þessum hefðbundna mælikvarða eru ótrúlega margir að standa sig vel.“ Erum ekki eyland Hvernig eru möguleikar fræðimanna í lög- fræði til að koma að greinum í alþjóðleg tíma- rit? Þetta er skemmtileg og flókin spurning sem ég hef velt mikið fyrir mér. Vandinn er sá að lögfræðin er alls ekki eins sérstök og af er lát- ið. Fullt af lögum er byggt á EES-gerðum, fullt af lögum sem eru ekki byggð á þeim er samnorrænt og fullt af þeim lausnum sem leit- að hefur verið, kvótakerfið til dæmis, á fullt er- indi eitthvað annað. Það er engin ástæða til að vera mjög einangruð. Er ég hins vegar að skrifa um almannatryggingar á íslensku? Já, að sjálfsögðu vegna þess að það er spurning um hver markhópurinn er og hverjir maður vill að geti lesið. Þetta er réttaröryggismál að allir geti lesið, t.d. um almannatryggingarétt,“ segir hún og bætir við að ekki gangi að gera skilyrðislausa kröfu til fræðimanna í lögfræði um birtingu greina í erlendum tímaritum. „En við erum með opin augun og eyrun fyrir því að við erum samt ekki eyland að þessu leyti.“ Hún segir að aukið doktorsnám hér sé mikil lyftistöng fyrir lögfræðina hér á landi. „Það munar svo mikið um hverja manneskju sem er að vinna í rannsóknum á tilteknu sviði og náist upp hópur af fólki sem hefur áhuga á svipuðum málum er það rannsóknunum til framdráttar,“ segir Ragnhildur. „Lögfræðin er alls ekki eins sérstök og af er látið“ Ragnhildur Helgadóttir tók nýverið við stöðu prófessors í stjórnskipunarrétti við HR. Árni Helgason ræddi við hana um hvað væri á döfinni, um breytingar á stjórnarskránni og hvort íslensk lögfræði ætti erindi við aðrar þjóðir. Morgunblaðið/ÞÖK Ragnhildur Helgadóttir segir mikla þörf á að breyta ferlinu varðandi stjórnarskrárbreytingar.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.