Morgunblaðið - 19.09.2006, Side 14
14 ÞRIÐJUDAGUR 19. SEPTEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
ERLENT
Eftir Ásgeir Sverrisson
asv@mbl.is
FERENC Gyurcsany, forsætisráð-
herra Ungverjalands, hefur staðfest
að hljóðupptaka sem birt var á
sunnudag sé ósvikin. Upptakan
geymir ræðu sem forsætisráð-
herrann flutti í maímánuði þar sem
hann lýsti yfir því að ríkisstjórnin
hefði logið að almenningi um stöðu
efnahagsmála.
Ríkisútvarp Ungverjalands birti á
sunnudag stuttan kafla úr ræðunni
en lengri kafla má nú nálgast á ung-
verskum vefsíðum. Ekki er vitað
hver fékk ungverska útvarpinu upp-
tökuna og sérfróða greinir á um hver
tilgangurinn með birtingu hennar
kunni að vera.
Ræðuna flutti Gyurcsany á fundi
þingmanna Sósíalistaflokksins 26.
maí. Þá var liðinn mánuður frá því að
stjórn hans hélt velli í þingkosning-
um í Ungverjalandi. Sá sigur þótti
sögulegur því ríkisstjórn hafði aldrei
áður haldið meirihluta sínum í kosn-
ingum þar í landi frá því að komm-
únisminn leið undir lok.
Í ræðunni lagði forsætisráð-
herrann þunga áherslu á nauðsyn
þess að efnahagsumbótum yrði kom-
ið á í Ungverjalandi. Og hann kvað
ljóst að þær myndu reynast þjóðinni
erfiðar. „Valkostir okkar eru ekki
margir. Þeir eru ekki fyrir hendi
vegna þess að við klúðruðum þessu.
Og þetta var ekki smávægilegt klúð-
ur. Ekkert Evrópuríki hefur hagað
sér jafn heimskulega og við. Ljóst er
að við lugum síðustu 18 mánuðina,
tvö árin. Við getum ekki bent á neina
ákvörðun sem ríkisstjórnin getur
verið stolt af nema þá að okkur tókst
að halda velli. Ekkert. Ef við ætlum
okkur að gera kjósendum grein fyrir
afrekum okkar síðustu fjögur árin,
hvað getum við þá talið upp?“
Ræðu sína skreytti forsætisráð-
herrann með margvíslegum og
kröftugum blótsyrðum. Lýsti hann
yfir því að efnahagur Ungverjalands
hefði aðeins haldið velli sökum „guð-
legrar forsjónar, ofgnóttar fjár-
magns í hinu alþjóðlega hagkerfi“ og
margvíslegra „bragða“ sem stjórn-
málamenn hefðu gripið til. „Við lug-
um að fólkinu að morgni dags, við
lugum síðdegis og við lugum þegar
húmaði að kveldi,“ sagði hann.
Gyurcsany staðfesti á sunnudag
að upptakan væri ósvikin. Sagði
hann í sjónvarpsviðtali að lygarnar
sem hann vísaði til væru ósannindi
stjórnmálamanna sem leituðust við
að sannfæra ungversku þjóðina um
að hún gæti lifað í vellystingum án
þess að leggja neitt á sig. „Árum
saman fengum við fólk til að trúa því
að það þyrfti í raun ekki að gera
neitt, að við myndum færa því ham-
ingjuna eins og gjöf. Tímabært er að
þessum lygum verði nú hætt,“ sagði
Gyurcsany. Hann tók fram að hann
hygðist ekki segja af sér embætti en
kröfur í þá veru komu fram strax á
sunnudagskvöld. Raunar hefur
Gyurcsany nú birt útskrift af ræð-
unni á vefsíðu sinni.
„Mistök“ að lækka skatta
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem
forsætisráðherrann viðurkennir
vafasama framkomu ráðamanna í
aðdraganda kosninga. Í aprílmánuði
sagði hann að ríkisstjórnin hefði
veitt rangar upplýsingar um hallann
á rekstri ríkissjóðs í því skyni að
auka sigurlíkur sínar. Þá greindi
Gyurcsany ennfremur frá því að
stjórnin hefði gerst sek um „mistök“
er hún lækkaði skatta.
Ríkisstjórnin glímir við erfiðan
fjárlagahalla og hefur nú verið boðað
að ríkisstarfsmönnum verði fækkað
og skattheimta aukin. Þá er í ráði að
innleiða gjöld í háskólum og í heil-
brigðiskerfinu.
Sérfræðinga um ungversk stjórn-
mál greinir á um hvaða tilgangur
kunni að búa að baki þeirri ákvörðun
að birta ræðu forsætisráðherrans.
Sumir telja augljóst að með þessu
hafi hugsanlegir keppinautar hans
viljað koma höggi á Gyurcsany og
spilla fyrir möguleikum hans á að
verða kjörinn leiðtogi Sósíalista-
flokksins í kosningum sem fram fara
í febrúarmánuði. Aðrir telja for-
sætisráðherrann hafa ákveðið að
ræðunni yrði „lekið“ í fjölmiðla í því
skyni að sannfæra þjóðina um nauð-
syn þess að gripið verði til efnahags-
aðgerða.
Logið allan sólarhringinn
AP
Bellibragð Ferenc Gyurcsany forsætisráðherra fagnar ásamt eiginkonu
sinni sigri í þingkosningunum sem fram fóru í Ungverjalandi 9. apríl.
Í HNOTSKURN
»Stjórn Sósíalistaflokksinshélt velli í kosningum í
Ungverjalandi í aprílmánuði.
»Ferenc Gyurcsany, 45 áramilljónamæringur, tók við
embætti forsætisráðherra í
ágústmánuði 2004.
»Gyurcsany hefur nú við-urkennt að réttum upplýs-
ingum um stöðu efnahagsmála
hafi ekki verið miðlað til kjós-
enda í aðdraganda kosning-
anna.
Forsætisráðherra
Ungverjalands
viðurkennir lygar
Eftir Ásgeir Sverrisson
asv@mbl.is
JACQUES Chirac Frakklandsfor-
seti hvatti í gær til þess að fram
færu frekari viðræður við ráðamenn
í Íran um kjarnorkuáform stjórn-
valda þar. Lagði forsetinn áherslu á
að ekki bæri að vísa kjarnorkudeil-
unni til öryggisráðs Sameinuðu
þjóðanna á meðan slíkar viðræður
færu fram. Afstaða forsetans geng-
ur gegn stefnu Bandaríkjastjórnar í
máli þessu og spá ýmsir því nú að ný
deila Frakka og Bandaríkjamanna
kunni að vera í uppsiglingu.
Frakklandsforseti sagði í útvarps-
viðtali að ríkin sex sem átt hafa við-
ræður við ráðamenn í Teheran ættu
að sameinast um að vísa málinu ekki
til öryggisráðsins að sinni. Leita
ætti eftir frekari viðræðum. Á móti
bæri Írönum að lýsa yfir því að ekki
yrði unnið að auðgun úrans á meðan
slík samtöl færu fram. Ríkin sex sem
Chirac vísaði til eru þau fimm sem
eiga fastafulltrúa í öryggisráði Sam-
einuðu þjóðanna og Þýskaland.
Chirac fór ekki dult með þá skoð-
un sína að hann teldi að refsiaðgerð-
ir gagnvart Írönum væru ekki
heppilegur leikur í stöðunni. „Ég
trúi ekki á að lausn finnist án við-
ræðna,“ sagði forsetinn m.a. Kvaðst
hann telja að enn bæri að reyna
samningaleiðina.
„Ég er ekki svartsýnismaður. Ég
tel Írana vera stórmerkilega þjóð og
að við getum náð samkomulagi.“
Forsetinn tók fram að með þessu
vildi hann ekki útiloka að gripið yrði
til refsiaðgerða gegn Írönum á vett-
vangi Sameinuðu þjóðanna. Hann
kvaðst hins vegar engin dæmi þess
þekkja að slíkar ráðstafanir hefðu
skilað tilætluðum árangri.
Chirac hélt í gær til New York í
Bandaríkjunum til að sitja upphafs-
fund allsherjarþings Sameinuðu
þjóðanna. Þar mun hann m.a. eiga
fund með George W. Bush Banda-
ríkjaforseta sem hvatt hefur til þess
að alþjóðasamfélagið taki af fullri
hörku á kjarnorkuáformum klerka-
stjórnarinnar í Íran. Bandaríkja-
menn vilja að öryggisráðið hóti Írön-
um refsiaðgerðum falli stjórnvöld
ekki frá kjarnorkuáætluninni og
hætti auðgun úrans. Kínverjar,
Rússar – og nú einnig Frakkar –
sem hafa neitunarvald í öryggis-
ráðinu hafa ekki viljað fylgja þessari
forskrift Bandaríkjaforseta.
Íranar segja að kjarnorkuáætlun-
in sé borgaraleg í eðli sínu og fallin
til þess eins að framleiða orku.
Bandaríkjamenn og fleiri þjóðir
halda því á hinn bóginn fram að
stjórnvöld í Íran hafi ákveðið að
koma sér upp gereyðingarvopnum.
Víst þykir að kjarnorkudeilan og
ástandið í Írak verði ofarlega á
baugi á þingi allsherjarþingsins í
New York.
Mohammed ElBaradei, forstjóri
Alþjóðakjarnorkustofnunarinnar,
kveðst enn vongóður um að unnt
verði að efna til samningaviðræðna
Írana og fulltrúa ríkjanna sex. Hann
hefur hins vegar bent á að 31. ágúst
hafi runnið út frestur sá sem Írönum
hafði verið gefinn til að hætta auðg-
un úrans. Ráðamenn í Íran segja
ekki koma til álita að verða við þeirri
kröfu. Ríkin sex hafa hins vegar sett
sem skilyrði fyrir viðræðum og
margvíslegum ívilnunum á sviði við-
skipta að stjórnvöld í Teheran lýsi
yfir því með afdráttarlausum hætti
að auðgun úrans hafi verið hætt.
Chirac andvígur
aðgerðum gegn Íran
Hvetur til
viðræðna um
kjarnorkudeiluna
Reuters
Bjartsýnismaður Jacques Chirac Frakklandsforseti hefur nú tekið undir
málflutning Rússa og Kínverja sem hafa efasemdir um ágæti þess að vísa
umdeildum kjarnorkuáformum stjórnvalda í Íran til öryggisráðs SÞ.
Róm. AFP. | Afsökunarbeiðni Bene-
dikts XVI páfa frá því á sunnudag
virtist í gær ekki ætla að nægja til að
sefa reiði í garð hans í fjölmörgum
múslímaríkjum. Íslamskir leiðtogar
sem og vestrænir hafa hvatt til still-
ingar vegna orða sem páfi lét falla í
heimsókn sinni til Þýskalands í lið-
inni viku og túlkuð hafa verið á þann
veg að þar hafi hann tengt saman ísl-
amstrú og ofbeldisverk.
Hundruð manna komu saman í
Basra í suðurhluta Íraks í gær til að
mótmæla orðum páfa. Brúða í líki
páfa var brennd sem og fánar Þýska-
lands og Bandaríkjanna. Kröfðust
mótmælendurnir þess að páfi yrði
leiddur fyrir alþjóðlegan dómstól
sökum orða sinna. Ýmsir vopnaðir
hópar múslíma í Írak höfðu í gær í
hótunum við Páfagarð.
Al-Qaeda-hryðjuverkanetið birti í
gær á vefsíðu yfirlýsingu þess efnis
að blásið yrði til heilags stríðs, jihad,
gegn „þjónum krossins“ og Vestur-
löndum. Var því heitið að krossinn
yrði „malaður mélinu smærra“.
„Trúleysingjar og harðstjórar“
Vesturlanda yrðu sigraðir.
Talsmaður klerkastjórnarinnar í
Íran sagði í gær nauðsynlegt hafa
verið af hálfu páfa að biðjast afsök-
unar. Hann hefði á hinn bóginn ekki
verið nógsamlega
skýrmæltur í yf-
irlýsingu sinni.
Hvatti talsmaður-
inn páfa til að við-
urkenna að hann
hefði gerst sekur
um mistök. Ali
Khameini, æðsti
maður klerka-
stjórnarinnar,
sagði orð páfa
„nýjustu hlekkina“ í samsæri Ísraela
og Bandaríkjamanna sem leituðust
við að blása í glæður trúarlegra
átaka.
Sendiherrum Páfagarðs í íslömsk-
um ríkjum hefur verið falið að kynna
afstöðu Benedikts páfa til íslamstrú-
ar. Fullyrða talsmenn Páfagarðs að
orð páfa í Þýskalandi hafi verið rifin
úr réttu samhengi. Í ræðunni í
Þýskalandi vísaði páfi í samræðu
keisara austrómverska ríkisins á 14.
öld og persnesks menntamanns. Í
þeirri samræðu er haft eftir keisar-
anum að Múhameð spámaður hafi
aðeins kynnt til sögu „illa hluti og
ómennska á borð við þá skipun að
boða trúna með brugðnum brandi“. Í
ræðu sinni tók páfi fram að um til-
vitnun væri að ræða en ekki hans
eigin orð.
Boða heilagt stríð
gegn „krossinum“
Benedikt páfi sætir
harðri gagnrýni.
Peking. AFP. | Stjórnvöld í Kína hafa
ákveðið að leggja fram aukinn liðs-
styrk til friðargæslu í Líbanon. Alls
munu 1.000 friðargæsluliðar starfa
þar.
Þetta kom fram í máli Wen Jiabao,
forsætisráðherra Kína, í gær. Boðaði
hann einnig að Kínverjar hygðust
auka efnahagsaðstoð við Líbana.
Nú eru 2.000 friðargæsluliðar í
Líbanon undir merkjum Sameinuðu
þjóðanna. Um 240 þeirra koma frá
Kína. Samkvæmt ályktun öryggis-
ráðs Sameinuðu þjóðanna verða
15.000 hermenn sendir til landsins í
því skyni að koma í veg fyrir frekari
átök.
Kínverjar hafa fram til þessa lítt
látið til sín taka á vettvangi friðar-
gæslu. Þykir ákvörðunin sem opin-
beruð var í gær til marks um aukinn
metnað kínverskra ráðamanna á
sviði alþjóðamála. Kína er nú fjórða
stærsta hagkerfi í heimi hér og ráða-
menn í Evrópu og Bandaríkjunum
hafa ítrekað hvatt stjórnvöld til að
leggja sitt af mörkum í samræmi við
stærð og efnahagsgetu ríkisins.
Eitt þúsund Kínverjar
verða sendir til Líbanons