Morgunblaðið - 16.10.2006, Blaðsíða 6
6 MÁNUDAGUR 16. OKTÓBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur
elva@mbl.is
UM 90% þeirra kvenna sem leituðu
til Kvennaathvarfsins í fyrra nefndu
andlegt ofbeldi sem eina af ástæð-
um komu sinnar þangað. Sigþrúður
Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra
athvarfsins, segir að ætla megi að
langflestar þeirra kvenna sem koma
í athvarfið hafi verið beittar andlegu
ofbeldi þótt margar þeirra hafi líka
orðið fyrir líkamlegu ofbeldi, enda
fylgi andlegt ofbeldi óhjákvæmilega
líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi.
„En kona sem er beitt líkamlegu of-
beldi nefnir það gjarnan sem
ástæðu komu, því það er erfiðara að
skilgreina hvað andlegt ofbeldi er,“
segir Sigþrúður. Hafi kona verið
slegin eða sparkað í hana nefni hún
það gjarnan sem fyrstu ástæðu
komu, jafnvel þótt vanlíðan vegna
andlegs ofbeldis sem hún hafi orðið
fyrir kunni að vera engu minni og
afleiðingarnar langvarandi.
Konurnar einangraðar
Sigþrúður segir að andlegt of-
beldi lýsi sér á margvíslegan hátt.
Það feli m.a. í sér að ofbeldismað-
urinn einangri konuna, stýri pen-
ingamálum hennar, hóti, niðurlægi
eða kúgi hana tilfinningalega. Sem
dæmi um þetta megi nefna að karl-
inn gagnrýni konuna endalaust fyrir
það sem hún gerir og fyrir það
hvernig hún er. Hann segi henni að
hún sé of feit eða of mjó, ljót eða
heimsk, að hún lagi óætan mat, sé
slæm móðir og eiginkona eða
ómöguleg í rúminu. Ofbeldið lýsir
sér einnig þannig að karlinn upp-
nefnir konuna, gerir lítið úr henni
fyrir framan annað fólk og rengir
hana þegar hún lýsir upplifunum
sem hún hefur orðið fyrir.
„Ofbeldi getur líka falist í ein-
angrun, í því að konan fái ekki leyfi
til þess að umgangast ættingja eða
vini og eiginmaðurinn velji hverja
hún má umgangast og hvort hún
fær að stunda vinnu eða skóla,“ seg-
ir Sigþrúður. Ofbeldismennirnir eru
oft mjög afbrýðisamir og konur sem
búa við andlegt ofbeldi þurfa oft að
gera grein fyrir því upp á mínútu
hvernig þær verja tíma sínum og
sæta gjarnan ásökunum um
framhjáhald. Hótanir eru líka al-
gengar, ofbeldismaðurinn hótar því
að láta taka börnin af konunni, láta
loka hana inni á geðdeild og algengt
er að hann hóti sjáfsvígi fari konan
frá honum. Þegar um erlendar kon-
ur er að ræða kunni karlinn að hóta
því að láta reka þær úr landi.
Telja sér trú um að
ástandið sé þeim að kenna
Aðspurð hvort það sé erfitt fyrir
konur sem búa við andlegt ofbeldi
að leita sér hjálpar segir Sigþrúður
svo vera. „Sérstaklega þegar of-
beldismanninum tekst það ætlunar-
verk sitt að brjóta konuna niður
andlega,“ segir hún. Jafnvel þó að
konan geri sér grein fyrir ástandinu
og ræði það við karlinn að hún vilji
ekki láta koma svona fram við sig og
segi honum að framkoma hans sé
ósanngjörn kann hann að svara því
til að ekki sé um ofbeldi að ræða,
einkum ef hann hefur ekki meitt
hana líkamlega. Ofbeldismaðurinn
sakar konuna ef til vill um að vera
móðursjúk eða geðveik og gerir lítið
úr upplifunum hennar.
Þetta hefur stundum þau áhrif á
konurnar að þær trúa ofbeldis-
manninum og segja sjálfum sér að
ástandið sé þeim að kenna. Þær
reyna þá gjarnan að „bæta sig“ og
þóknast ofbeldismanninum eftir
megni. Sigþrúður segir að konur
sem beittar eru andlegu ofbeldi hafi
oft lifað mjög lengi við þær aðstæð-
ur áður en þær leita sér hjálpar.
„Það tekur miklu lengri tíma að
greina andlegt ofbeldi en líkamlegt.
Kona veit hvenær hún er lamin, þótt
hún eigi stundum erfitt með að skil-
greina það sem ofbeldi, geti t.d. tal-
ið sér trú um að hún hafi átt það
skilið eða að það muni ekki gerast
aftur,“ segir hún.
Hið andlega ofbeldi sé mun
lúmskara. „Konan er jafnvel ekki al-
veg viss um að ofbeldismaðurinn sé
ekki að fara með rétt mál, hún sé
geðveik, móðursjúk og geri of mikið
úr hlutunum. Það getur tekið óra-
tíma að greina að þetta sé ofbeldis-
sambúð,“ segir Sigþrúður.
Fáar eldri konur leita hjálpar
Hún segir þær konur sem leita til
Kvennaathvarfsins vera á öllum
aldri og koma úr öllum stéttum, en
fjölmennasti aldurshópurinn sé 26–
40 ára.
Um þær konur sem leita sér að-
stoðar vegna ofbeldis segir Sigþrúð-
ur að áberandi sé hversu fáar eldri
konur komi í Kvennaathvarfið
vegna þess. „Við sjáum of lítið af
mjög fullorðnum konum. Það er
ekki svo langt síðan það var farið að
tala um hótanir og kúganir sem of-
beldi þannig að ég held að eldri kon-
ur eigi oft erfiðara með að horfast í
augu við að þær séu beittar ofbeldi,
sé það ekki líkamlegt, enda eru þær
ekki aldar upp við þá skilgreiningu
á ofbeldi,“ segir Sigþrúður.
Sjálfstyrkingarhópar
starfræktir
Sigþrúður segir að burtséð frá því
hvers konar ofbeldi konur hafi orðið
fyrir sé veitt ferns konar aðstoð í
Kvennaathvarfinu. Þar er boðið upp
á símaþjónustu á daginn en þá geti
konur hringt og leitað eftir stuðn-
ingi og upplýsingum. Þær geti kom-
ið í viðtöl í Kvennaathvarfið sér að
kostnaðarlausu og þær geti fengið
dvöl þar ef þær þurfi á því að halda.
Þá séu starfræktir sjálfstyrkingar-
hópar í athvarfinu fyrir konur. „Það
sem við í rauninni gerum er að
hjálpa konunum að horfast í augu
við aðstæður sínar og að ofbeldi sé
ekki réttlætanlegt, hvaða afsakanir
sem karlinn notar fyrir því. Við
reynum að fá þær til þess að kryfja
þessar afsakanir og hjálpa þeim við
að staðsetja sig í samböndum sínum
og í lífinu almennt og reyna að
hjálpa þeim við að finna og efla sín-
ar sterku hliðar,“ segir Sigþrúður.
Horft sé á málin út frá því að konan
sé sérfræðingur í sínum málum sjálf
í stað þess að beita forsjárhyggju.
Þegar konur komi til dvalar sé
reynt að búa þeim og börnum þeirra
öryggi og hlýlegt heimilislíf.
Morgunblaðið/Ásdís
Athvarf Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins.
Andlegt ofbeldi oft lúmskt
Margar konur sem leita til Kvennaathvarfsins hafa
orðið fyrir andlegu ofbeldi. Sigþrúður Guðmundsdótt-
ir, framkvæmdastýra athvarfsins, segir slíkt ofbeldi
geta falist í einangrun og margvíslegum hótunum.
!
" #
$%%&
$%%'
$%%(
*$%%($%%&
TÆPLEGA þrítug kona sem Morg-
unblaðið ræddi við var um nokk-
urra ára skeið beitt ofbeldi af fyrr-
verandi sambýlismanni sínum.
Fyrst var um að ræða andlegt of-
beldi, en síðar lagði maðurinn
hendur á hana og beitti hana einn-
ig kynferðislegu ofbeldi.
Konan kynntist manninum þegar
hún var 18 ára en hann var 10 ár-
um eldri en hún. „Ég var þá með
afskaplega lítið sjálfstraust og lé-
lega sjálfsmynd. Ég trúði öllu sem
hann sagði. Ég varð strax litla
dúkkan hans. Ég var ánægð með að
einhver vildi mig og þar með gerði
ég það sem þurfti að gera til þess
að halda honum góðum og hlustaði
á allt sem hann sagði,“ segir kon-
an.
Gerði athugasemdir
um klæðaburð
Hún segir ofbeldið hafa hafist
fljótlega eftir að þau fóru að vera
saman en það byrjaði með at-
hugasemdum um klæðaburð og
annað, maðurinn hafi m.a. sagt
hana ganga í ljótum fötum. Svo
hafi hann sett út á útlit hennar.
„Ég var með ljótt nef og ljótar tær
og smám saman varð ég ljótari og
ljótari. Einhvern tíma sagði hann
að ég væri virkilega ljót en hann
vildi samt vera með mér af því að
ég væri svo góð,“ segir konan.
Stjórnun mannsins á lífi hennar
hafi stigmagnast og eftir um hálfs
árs kynni hafi hann fyrst lagt hend-
ur á hana.
Spurð hver hafi verið viðbrögð
hennar við ofbeldinu segir konan
að þau hafi í raun verið lítil. „Ég
var með ofsalega lélega sjálfsmynd
og ég trúði honum bara. Ég trúði
að ég væri í lummó fötum og gaf
fötin. Ég trúði því að ég væri ljót
og ég trúði því að það væri eitthvað
að fjölskyldu minni og vinum og ég
ætti bara hann að,“ segir konan. Í
hvert sinn sem einhver kom í heim-
sókn setti maðurinn út á viðkom-
andi og sagði henni svo að hún ætti
engan að nema sig. „Ég vildi bara
halda í það sem ég átti, mér fannst
ég verða að gera það. Ég held samt
að allan tímann hafi ég vitað innst
inni að það var ekki rétt og að
mamma og pabbi elskuðu mig. En
ég var ekki nógu sterk til að standa
á móti því sem var að gerast þann-
ig að ég valdi að fylgja straumnum
og gera það sem þurfti til þess að
lifa þennan tíma af,“ segir konan.
Hún segist hafa orðið barnshaf-
andi þegar hún var búin að vera
með ofbeldismanninum í þrjú ár.
„Það var lítið, saklaust barn að
koma í heiminn og mér fannst ég
ekkert eiga að gefa þessu barni og
ég vissi að pabbinn var ekki upp á
marga fiska. Þá ákvað ég að ég
yrði að gera eitthvað, ég gæti ekki
boðið barninu upp á þennan heim.
Þá fór ég í meðferð inn á Teig fyrir
aðstandendur alkóhólista, en mað-
urinn er alkóhólisti. Ég safnaði
smám saman kjarki til þess að
komast út úr þessu og þá fór ég að
leita hjálpar hjá fjölskyldunni,“
segir hún.
Hún fór svo frá manninum þegar
sonur hennar var sex vikna, en þá
hafði samband þeirra staðið í um
fjögur ár. Þá hafði hún áður gert
tilraunir til þess að fara frá ofbeld-
ismanninum en skort kjark, auk
þess sem maðurinn hafi hótað
henni.
Líður mjög vel í dag
Konan segir að sex vikum eftir
að hún skildi við manninn hafi
hann nauðgað henni, en þá leitaði
hún til Stígamóta. „Inni á Stíga-
mótum fékk ég frábæra hjálp,“
segir hún. Hún nýtti sér svo ým-
islegt sem bauðst til hjálpar, meðal
annars fjölskylduráðgjöf, viðtöl við
sálfræðinga og fleira. „Það sem
skiptir aðalmáli í að vinna sig út úr
þessu er að tala um þetta, við rétta
aðila, og leggja allt á borðið. Það
sem hefur hjálpað mér mest er að
opna fyrir allt sem ég skammaðist
mín mest fyrir. Bara það að segja
upphátt í fyrsta sinn að honum
þætti ég vera með ljótt nef og ljót-
ar tær var hryllilega erfitt vegna
þess að ég trúði því og fannst ég
ekki geta sagt það upphátt,“ segir
konan. Smám saman hafi þetta svo
hætt að hljóma eins skelfilega „og
núna get ég sagt frá flestu sem hef-
ur gerst án þess að blikna“.
Fimm ár eru liðin frá því að kon-
an fór frá ofbeldismanninum og
segir hún að sér líði mjög vel í dag.
„Ég hef aldrei hætt á þessari leið.
Ég ákvað frá degi eitt að ég væri
búin að fá nóg og að ég ætlaði að
standa uppi sem sigurvegari eftir
þetta. Ég hef trúað því allan tím-
ann að ég geti það þótt maður detti
niður öðru hverju og finnist allt
ómögulegt og að maður sé að gef-
ast upp. Það kemur enn fyrir mig
en ég trúi því samt að ég sé sterk-
ari en hann. Ég er búin að láta
hann eyðileggja nógu mikið og ég
vil ekki láta hann eyðileggja
meira,“ segir konan.
„Ætla mér að
standa uppi sem
sigurvegari“
Morgunblaðið/Ásdís
Fjölgun Í ár eru komur í Kvennaathvarfið þegar orðnar 580, en í fyrra
voru þær alls 557 og 531 árið 2004.