Morgunblaðið - 16.10.2006, Síða 22
áhugamál
22 MÁNUDAGUR 16. OKTÓBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
Eftir Jóhönnu Ingvarsdóttur
join@mbl.is
Þ
ær hafa ekki lengur tölu
á öllum verðlaunapen-
ingunum og bikurunum
sem þær hafa landað á
öllum sundmótunum
sem þær hafa tekið þátt í, en lík-
lega er tala verðlaunapeninga kom-
in vel á annað þúsundið auk fjöl-
margra eignarbikara. Áhugamál
systranna fjögurra snýst um sund
og aftur sund enda má segja að
mestöllum frítímanum sé varið í
lauginni.
Foreldrar með dómararéttindi
Systurnar fjórar eru allar miklar
vinkonur enda deila þær sama
áhugamálinu og hafa allar náð því
að vera afrekskonur í sundi. For-
eldrarnir, Gústaf Adólf Hjaltason
og Guðrún Gerða Sigurþórsdóttir,
eru dyggir stuðningsmenn og eru
oftar en ekki á sundlaugarbakk-
anum að hvetja stelpurnar sínar
áfram eða eru í hlutverki dómara á
mótum, en bæði eru þau með dóm-
araréttindi. Gústaf er yfirdómari og
hefur verið formaður sundfélagsins
Ægis undanfarin þrjú ár, en félagið
er fjölmennasta sundfélag landsins
með 220 syndandi félagsmenn.
Foreldrarnir þvertaka fyrir það
að vera sjálf með sundfit, en séu
þeim mun duglegri í félagsstússinu
í kringum sundið. „Við erum á öll-
um mótum enda þarf 50–60 manna
lið í kringum hvern hluta í stór-
móti, þar af 25–27 dómara. Í tilefni
af 80 ára afmæli sundfélagsins Æg-
is á næsta ári er áformað að halda
stórmót hér í janúar og kemur þá
fjöldi erlendra gesta hingað til
lands til að taka þátt í því.“
Heimavinnandi bílstjóri
Sundæfingar hafa fylgt fjölskyld-
unni undanfarin tólf ár, en upphafið
má rekja til þess að móðirin Guð-
rún Gerða fór með elstu stelpurnar
á æfingu í Breiðholtslaug, bara til
að prófa svona í fyrstu atrennu.
„Þeim fór að ganga vel mjög fljótt
og síðan hafa þær ekki stoppað. Ég
vildi ekki setja þær í boltaíþróttir
sem skemmdu hné, axlir og oln-
boga og því varð sundið fyrir val-
inu. Ég var nefnilega sjálf í hand-
boltanum í gamla daga á árunum
1969–1979, spilaði með Ármanni og
var í landsliðinu og vildi forða þeim
frá þeim meiðslum sem margir
glíma við í boltaíþróttunum í ljósi
eigin reynslu,“ segir Guðrún Gerða.
Óhætt er að segja að það þurfi
að vera gott skipulag á heimili fjöl-
skyldunnar í Seljahverfinu í Breið-
holti og því hefur móðirin verið að
heita má heimavinnandi húsmóðir
eftir að börnin komu til sögunnar.
„Fyrir utan hæfileikana, þá er sú
staðreynd að móðir stelpnanna hef-
ur verið heima fyrir þær lykillinn
að velgengninni,“ segir pabbinn
Gústaf Adólf og eiginkonan Guðrún
Gerða tekur undir það að einhver
hafi þurft að vera til staðar til að
halda utan um allt saman því
reynslan sýni að þau börn, sem fá
stuðning og athygli heima fyrir, ná
árangri og flosna síður upp. Drjúg-
ur tími hefur svo farið í að keyra
og sækja á æfingar. „Á tímabili
þurfti að keyra í þrjár sundlaugar
sama daginn, en nú hefur aðeins
hægst á strætó-vaktinni hjá mér
þar sem tvær þær eldri eru komnar
með bílpróf. Svo þarf auðvitað að
huga að kjarngóðum mat því nær-
ingin skiptir miklu máli í öllu þessi
ferli,“ segir Guðrún og bætir við að
loksins þegar fjölskyldumeðlimir
nái að hittast við matarborðið eftir
kvöldsundæfingarnar vilji umræðu-
efnið nú ansi oft snúast um sundið
eða félagsstúss á vegum Ægis.
„Við erum alveg svakalega stolt
af sundstelpunum okkar,“ segir
Gústaf Adólf. Elsta dóttirin, Krist-
rún, sem er 21 árs nemi við Kenn-
araháskóla Íslands, var að æfa
sund til 14 ára aldurs, en hefur síð-
an verið að þjálfa sundfólk hjá Ægi.
„Ég er mjög sátt við það sem ég er
að gera þótt ég fái stundum sund-
fiðring á stórmótum, en þjálfunin
er það skemmtilegasta sem ég
geri.“
Ásbjörg, sem er 20 ára, útskrif-
ast sem stúdent frá Fjölbrautaskól-
anum í Breiðholti í vor. Jóhanna
Gerða, sem er 16, var að byrja í FB
nú í haust og örverpið Eygló Ósk
er í sjötta bekk Ölduselsskóla.
Systurnar gæta þess að fara
snemma í háttinn, ekki seinna en
klukkan tíu á kvöldin, því klukkan
á heimilinu hringir stundvíslega kl.
4.20 hjá Ásbjörgu og Jóhönnu
Gerðu því tveggja tíma morg-
unsundæfingar byrja stundvíslega
kl. 5.30. Þær æfa sund níu sinnum í
viku, tvo tíma í senn, og fara auk
þess fjórum sinnum í viku í þrekæf-
ingar í World Class. Eygló Ósk er
enn ekki byrjuð á morgunæfingum,
en er fimm sinnum í viku á sundæf-
ingum og vikulega í frjálsum íþrótt-
um. „Þetta er alltaf jafn skemmti-
legt,“ segir Ásbjörg. „En stundum
koma tímabil sem maður fær svolít-
ið ógeð,“ bætir Jóhanna Gerða við.
Systurnar þrjár, sem enn eru að
æfa af kappi, setja stefnuna hátt og
tala um að gaman væri að komast á
ólympíuleika, en þegar spurt er
hvað þær ætli að taka sér fyrir
hendur á fullorðinsárum vilja þær
allar þjálfa sundfólk þegar keppn-
isferlinum lýkur. Ásbjörg hefur auk
þess hug á að læra líffræði. Jó-
hanna segist enn vera óákveðin og
kennarastarfið heillar Eygló svolít-
ið.
Systurnar eiga einn eldri bróður,
Sigurþór Hjalta, sem þær segja að
kunni varla bringusund. „Hann tók
einu sinni þátt í fjölskyldusundi.
Það var hræðileg uppákoma,“ segja
þær og flissa.
Meistarar og mikil efni
„Systurnar eru mjög efnilegar og
fjölhæfar stelpur og margfaldir
meistarar bæði hérlendis og erlend-
is,“ segir Eyleifur Jóhannesson, yf-
irsundþjálfari hjá Ægi. „Sú yngsta,
Eygló Ósk, er eitt albesta efnið,
sem fram hefur komið á Íslandi til
þessa. Hún er margfaldur aldurs-
flokkameistari, setti mótsmet á al-
þjóðlegu stórmóti í Esbjerg í Dan-
mörku í vor og kom þaðan heim
með fjórar medalíur. Við ölum hana
upp sem fjórsundskonu. Það þarf
bara að halda henni svolítið niðri án
þess að henni leiðist þar sem hún
er með miklu meiri getu en jafn-
aldrarnir.“
Til að ná árangri í sundi á heims-
mælikvarða þarf metnaðarfulla ein-
staklinga, sem eru tilbúnir í mikið
úthald. „Við æfum í tuttugu
klukkutíma á hverri viku og setjum
markið á að synda 50 km, sem ger-
ir fimm til átta km á hverri æfingu.
Einkenni ofþjálfunar koma ekki
fram vegna of mikilla æfinga held-
ur fara þau miklu fremur að gera
vart við sig ef menn sofa ekki nóg
eða borða ekki rétt. Sundfólk þarf
að vera á mjög kolvetnaríku fæði.
Menn kæmust því ekki langt í laug-
inni á danska kúrnum,“ segir Ey-
leifur að lokum.
Morgunblaðið/Sverrir
Fjölskyldan Foreldrarnir Gústaf Adólf Hjaltason og Guðrún Gerða Sigurþórsdóttir fylgja dætrum sínum Jóhönnu Gerðu, Ásbjörgu, Kristrúnu og Eygló Ósk vel eftir með því að hvetja og styðja.
Stolt af sundstelpunum sínum
Morgunblaðið/Sverrir
Sundsystur Þær deila allar sama áhugamálinu og eru miklar vinkonur.
Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Verðlaun Eygló Ósk og verðlaunapeningarnir sem þær systur hafa hlotið.