Morgunblaðið - 21.11.2006, Síða 28
28 ÞRIÐJUDAGUR 21. NÓVEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
UMRÆÐAN
É
g varð fyrir barðinu
á mannanafnanefnd
um daginn. Að vísu
ekki þessari einu
sönnu, heldur eins-
konar prívatútgáfu af henni.
Þannig var að kollegi minn spurði
hvort Guðmundur væri Guð-
munds í eignarfalli, og ég sagði já.
Snemmhendis spratt þá upp í
kringum mig sjálfskipuð manna-
nafnanefnd, eins og hattífattar í
þrumuveðri, skók fingur og sagði:
Ónei. Guðmundur skal vera Guð-
mundar í eignarfalli.
Þannig vill til, að ég heiti Guð-
mundur, og þarna hafði ég þá ver-
ið staðinn að því að kunna ekki að
fallbeygja nafnið mitt. Eða nánar
tiltekið, að vera til í að leyfa að
það sé fallbeygt rangt. Sjálfskip-
aða mannanafnanefndin lagðist
alfarið gegn þeim rökum mínum
að það hlyti að mega hafa eign-
arfallsmyndina Guðmunds, úr því
að sú mynd er notuð í Guðmunds-
son. Til vara hafði ég þá afstöðu
að fólk mætti bara ráða því hvort
það hefði mig Guðmundar eða
Guðmunds í eignarfalli. Ég sagð-
ist ekkert myndu kippa mér upp
við það að vísað væri til mín sem
Kristjáns Guðmunds.
Nei, mannanafnanefndin sem
hafði skipað sig í málinu lagðist
enn gegn mér. Hvort sem mér lík-
aði betur eða verr mátti ég ekki
heita Guðmunds í eignarfalli. En
ég mætti vera Guðmundsson.
Af hverju? spurði ég.
Þetta er bara svona, sagði
nefndin.
Mér var farið að líða svolítið
eins og ég hefði verið staðinn að
einhverju dónalegu. Mér sárnaði,
og mér rann líka dálítið í skap og
varð einhvern veginn staðráðinn í
að heita Guðmunds í eignarfalli.
Þó ekki væri til annars en að gefa
skít í sjálfskipuð málfarsséní –
svoleiðis fólk er óþolandi. En um-
fram allt var ég staðráðinn í að
gefa mig ekki með að Guðmunds-
eignarfallsmyndin væri gild
vegna þess að það var engin rök
að hafa fyrir því hvers vegna hún
væri „röng“. Það var líka al-
gjörlega óljóst í hvaða skilningi
hún átti að vera röng. Frá hinni
sjálfskipuðu mannanafnanefnd
kom engin útskýring, einungis
fullyrðing. Og nefndin vísaði í
þykkar bækur máli sínu til stuðn-
ings.
Það er skítt að komast að því að
nafnið manns skuli vera óleyfi-
legt. Vegna þess hve nátengt
nafnið er sjálfsmyndinni og sál-
inni er vegið nærri því sem manni
er allra helgast þegar vegið er að
nafninu manns.
Í þeirri von að lesandinn hafi
ekki þegar afskrifað þessa sögu
sem kverúlantahátt og sé hættur
að lesa langar mig að víkka aðeins
út erindið með þessum pistli. Það
er auðvitað ekki annað en að taka
undir með þeim fjölmörgu sem
lýst hafa eindreginni ánægju sinni
með og stuðningi við þá tillögu
Björns Inga Hrafnssonar og fleiri
að leggja niður mannanafnanefnd.
Það er að segja þessa einu sönnu.
Hún hefur svo sem aldrei káfað
neitt upp á mig, en ég fékk þarna
um daginn að reyna á eigin nafni
hvað það er fráleitt að opinber
nefnd hafi eitthvað með svona of-
urpersónuleg mál að gera.
Nú má enginn halda að ég sé að
mæla með því að horfið verði frá
öllum réttritunarreglum. Ég er
hér einungis að tala um manna-
nöfn. Nöfn eru nefnilega engin
venjuleg nafnorð. Þegar barni er
gefið nafn er eins og líf þess sé
sett í ákveðnar skorður eða sam-
hengi sem barnið losnar aldrei
fyllilega við upp frá því.
Ég þekki mann sem oftar en
einu sinni bölvaði nafninu sínu, og
hélt því fram að foreldrar sínir
hefðu gert sér mikinn óleik með
því að gefa sér það. Að vísu hafði
ég hann lúmskt grunaðan um að
hafa þarna fundið leið til að kenna
öðrum um þær ófarir sem honum
jafnan þótti líf sitt vera, en hver
veit, kannski hafði honum alltaf
fundist nafnið sitt einhvern veg-
inn asnalegt, og aldrei getað losn-
að undan þeirri tilfinningu að þar
með væri hann sjálfur einhvern
veginn asnalegur.
Nöfn eru því svo ofboðslega
persónuleg, að um þau hlýtur að
gilda það sama og svefnherbergi
þjóðarinnar: Ríkið á þangað ekk-
ert erindi. Og alveg sérstaklega
ekki vegna þess að vald hins op-
inbera yfir því hvaða nöfn megi
nota og hver ekki getur ef nánar
er að gáð aldrei verið byggt á öðru
en máltilfinningu þeirra sem
skipa mannanafnanefnd hverju
sinni.
En það eru til fleiri og öðru vísi
rök fyrir því að mannanafnanefnd
eigi ekki rétt á sér. Verði hún lögð
niður mun það auka líkur á vax-
andi fjölbreytni í nafnaflórunni.
Ég geri mér grein fyrir því að inn-
flytjendum er ekki lengur skylt að
farga nafni sínu, en hvernig er
það ef innflytjendur eignast hér
barn, mega þeir nefna það „út-
lensku“ nafni? Það hlýtur eig-
inlega að vera, annað væri gróft
brot á mannréttindum. En ef inn-
flytjendur mega skíra börn sín
„útlenskum“ nöfnum, af hverju
mega þá ekki innfæddir gera það
líka?
Ef nafnaflóran á Íslandi verður
fjölbreyttari en hún er mun það
einnig auka umburðarlyndi í sam-
félaginu, og veitir ekki af einmitt
núna. Það er ágæt æfing í um-
burðarlyndi og tillitssemi að þurfa
að spyrja viðmælanda sinn hvern-
ig hann beri fram nafnið sitt eða
stafi það, og gera sér grein fyrir
því að maður getur ekki undir
nokkrum kringumstæðum dregið
svarið í efa. Jafnvel ekki þótt
manni sýnist viðmælandinn hafa
„ranga“ eignarfallsmynd á nafn-
inu.
Ég er alveg viss um að mikill
meirihluti þjóðarinnar er því sam-
mála að mannanafnanefnd skuli
aflögð, og lög um mannanöfn
numin úr gildi. Samt er eins víst
að tillögur þar um fáist ekki sam-
þykktar á Alþingi. Og þó, nú
verða meira og minna kyn-
slóðaskipti á þinginu, og það er
einmitt með slíkum skiptum sem
djúpstæðar en úr sér gengnar
hefðir rofna. Mannanafnanefnd er
einmitt slík hefð.
Guðmunds
í eignarfalli
»Nöfn eru nefnilega engin venjuleg nafnorð.Þegar barni er gefið nafn er eins og líf þess
sé sett í ákveðnar skorður eða samhengi sem
barnið losnar aldrei fyllilega við upp frá því.
BLOGG: kga.blog.is
VIÐHORF
Kristján G. Arngrímsson
kga@mbl.is
VIÐ erum þessa dagana að feta
nýja braut í þjóðfélagsumræðu. Við-
fangsefnið er búseta útlendinga og
afkomenda þeirra hér á landi. Um-
ræðuefnið er þarft, enda hafa nokkr-
ar breytingar átt sér stað og eðlilegt
að ýmsir vilji tjá sig. At-
vinnulífið hefur kallað á
erlent vinnuafl á und-
anförnum misserum í
stórum stíl og nú þarf
að huga að nauðsyn-
legum aðbúnaði og að-
lögun.
Aðlögun er
lykilatriðið
Samfylkingin og
Vinstri grænir í borg-
arstjórn hafa lagt fram
framkvæmdaáætlun í
innflytjendamálum.
Þar kemur m.a. fram að
aðlögun og barátta gegn fordómum
og aðgreiningu sé mikilvægt sam-
félagslegt verkefni sem við verðum
að takast á við. Reykjavíkurborg hef-
ur sinnt þessum málum, m.a. með
stuðningi við Alþjóðahús, aðgerðum í
skólamálum og samþykkt mannrétt-
indastefnu. Þar má þó ekki láta stað-
ar numið.
Jöfn tækifæri fyrir öll börn
Það sem við viljum m.a. gera er að
efla íslenskukennslu fyrir innflytj-
endur og börn þeirra. Þetta er eitt
mikilvægasta verkefnið. Nú hefur
talsverður fjöldi barna í leikskólum
og skólum annað móðurmál en ís-
lensku. Á fáeinum misserum hefur
fjölgun í þessum hópi verið talsverð.
Þetta kallar á viðbrögð og hefur víða
verið brugðist við með sérstökum að-
gerðum, en þörf er á meiru. Það þarf
ennfremur að styrkja
þjónustumiðstöðvar í
hverfum borgarinnar til
þess að sinna innflytj-
endum, m.a. með nám-
skeiðum og það þarf
jafnframt að leita leiða
áfram til að börn af er-
lendum uppruna njóti
tómstunda- og íþrótta-
starfs til jafns við önnur
börn. Þetta þarf að gera
til að koma í veg fyrir
aðgreiningu sem gæti
orðið skaðleg samfélag-
inu síðar meir. Nú þeg-
ar hafa íþróttafélög og
skólafólk undirbúið aðgerðir eða til-
lögur í þessum efnum.
Erlent vinnuafl bjargar málum
Það er vert að hafa í huga að at-
vinnulífið hér á landi hefur kallað er-
lenda starfsmenn hingað til starfa.
Ólíkt því sem er víða í nágrannalönd-
unum eru innflytjendur hér flestir
fullgildir þátttakendur í atvinnulífinu
og taka þannig þátt í verðmæta-
sköpun og leggja sitt til opinberra
sjóða. Flestir eiga sitt húsnæði eða
leigja á frjálsum markaði. En þegar
fjölgun innflytjenda er jafn mikil og
raun ber vitni segir það sig sjálft að
álagið eykst í leikskólum, skólum og á
ýmsum vinnustöðum vegna tungu-
málaörðugleika. Þess vegna er ís-
lenskan hér lykilatriði því hún er
besta tækið til tjáskipta. Við verðum
að bæta þar úr. Ella er hætt við að við
tökum afleiðingunum eftir einhver ár
eða áratugi með aukinni aðgreiningu
á milli hópa og vanda sem því getur
fylgt.
Sameiginlegt átak
Hér verða margir að leggja hönd á
plóg. Við í Samfylkingu og VG mun-
um á vettvangi borgarstjórnar leggja
fram nýjar tillögur á næstunni á
grunni áðurnefndrar fram-
kvæmdaáætlunar. Ríkisstjórnin virð-
ist vera að rumska, verkefnið er
brýnt og við hvetjum fleiri til að
leggja okkur lið.
Íslenska er aðalmálið
Stefán Jóhann Stefánsson
fjallar um aðlögun innflytjenda » Við í Samfylkingu ogVG munum á vett-
vangi borgarstjórnar
leggja fram nýjar til-
lögur á næstunni á
grunni áðurnefndrar
framkvæmdaáætlunar.
Stefán Jóhann
Stefánsson
Höfundur er varaborgarfulltrúi
Samfylkingar.
ÁGÆTI borgarstjóri og aðrir
fulltrúar borgarinnar.
Ég sit heima í Miðtúni og yfir
trjátoppana í görðum
góðra nágranna sé ég
efstu hæð „gömlu“
Hátúnsblokkarinnar.
Nú þegar sól er lágt á
lofti skyggir blokkin á
sól dálitla stund fyrri-
part dags. Það er þó
ekki hundrað í hætt-
unni enda ekki um eig-
inlegt skuggavarp að
ræða. Yfirvofandi
skuggavarp frá fyr-
irhuguðum byggingum
á Höfðatúnsreit trufl-
ar mig hins vegar
verulega.
Upphaflega hafði ég engar at-
hugasemdir um byggingar á Höfða-
túnsreitnum. Ég gat heldur ekki
séð á myndum verktakans við
byggingasvæðið að við myndum
bíða nokkurn skaða af framkvæmd-
inni. Ykkur að segja sýndist mér að
byggingahæðin yrði svipuð og við
sjáum í Borgartúni og Sóltúni,
þ.e.a.s. að heildarmyndin yrði
áþekk því: Vel viðunandi og hverfið
frekar huggulegt! Með nýrri tillögu
um byggingamagn og byggingahæð
blasir hins vegar við skerðing á lífs-
gæðum fyrir íbúa í nærumhverfinu:
Þeir munu hætta að sjá til sólar
snemma dags um hásumar en
standa í staðinn í skugga risavaxins
steinsteypuferlíkis … segi enn og
aftur steinsteypuferlíkis. Byggingar
á Höfðatúnsreitnum sem nú eru
fyrirhugaðar eru ekki í nokkrum
takti við aðrar byggingar í hverfinu.
Mér er nánast orða vant … en
reyni þó: Fyrirhugað skipulag tek-
ur í engu mið af því að í Túnunum
sé íbúabyggð sem ætlað er að
standa áfram. Ferlið ber þess
merki að þar hafi ráðið för eldhugar
sem í hita leiksins sjást ekki fyrir
og fagleg vinnubrögð með nauðsyn-
legum greiningum sem styðja fag-
lega niðurstöðu, virðast hafi farið
fyrir lítið. Ég hef til þessa ekki
reynt gerræðislegar ákvarðanir
stjórnsýslunnar á eigin skinni og
vona að svo verði ekki þó ég óttist
að ég hafi ekkert um þær að segja:
Ég geti bara selt mína eign og flutt
burtu. Þá er reyndar óleystur sá
vandi að ég verð að
gera ráð fyrir „góðu“
fjárhagslegu tapi, hver
borgar mér slíkan
skaða ef til kemur?
Byggingaverktakinn
sem fær að byggja
eins og honum sýnist
eða borgin sem selur
honum reitinn?
Í grein í Mbl., 12.
nóv. sl., „Borgarlands-
lag í upphafi ald-
arinnar – Staða og
þróun arkitektúrs á
höfuðborgarsvæðinu á
fyrstu fimm árum ald-
arinnar“ lítur greinarhöfundur,
Gísli Sigurðsson, á málið ásamt
nokkrum arkitektum og skipulags-
fræðingum. Þar eru nokkrir punkt-
ar sem vöktu athygli mína og nefni
ég hér brot af því sem Pétur Ár-
mannsson, arkitekt og for-
stöðumaður byggingarlistadeildar á
Kjarvalsstöðum, segir um Skugga-
hverfið í 101: „… það kæmi vel út
að flétta saman háhýsi og ívið lægri
byggingar.“ … og í framhaldinu:
„Þetta svæði hentaði vel til slíkrar
endursköpunar, en almennt yrði að
fara varlega þegar eldri hús væru
látin víkja.“ Undir lok greinarinnar
er svo haft eftir Vífli Magnússyni,
arkitekt, að við Borgartún mætti
sjá allvel hönnuð hús.
Ég tek undir skoðun Péturs en ef
horft er til bygginga á Höfðatúns-
reitnum í þessu samhengi er hugs-
anlegt að taka svona til orða um
byggingar á reitnum sjálfum … en
það er takmörkuð athugun því mál-
ið er mun víðtækara: Það þarf jafn-
framt að horfa yfir götuna og skoða
hvernig fléttan verður við bygg-
ingar í gömlu Túnunum … sem
enginn er tilbúinn til að segja að
eigi að hverfa. Ég get einnig verið
samsinna Vífli Magnússyni um að
arkitektúr við Borgartún sé víða
fínn og virðist falla vel að nánasta
umhverfi en ef því er snúið upp á
Höfðatúnið þá spyr ég: Hvers virði
er fagurfræði bygginga á Höfða-
túnsreitnum ef þær falla ekki að
umhverfinu, ekki síst Túnahverfinu
og styðja það og styrkja, í stað þess
að kaffæra það?
Byggt á stefnumörkun borg-
arinnar um að leiðarljósið sé að leit-
ast m.a. við „… að Reykjavík verði
vistvæn og fögur borg, umgjörð
góðs mannlífs og öflugrar atvinnu-
starfsemi …“ (tekið af heimasíðu
borgarinnar), finnst mér að íbúar
Túnahverfis eigi fullan rétt á að
fram fari heildstæð og gagnger
skoðun á áhrifum fyrirhugaðra
bygginga á Höfðatúnsreitnum á
næsta nágrenni. Markmiðið gæti
verið að byggingamagn á reitnum
verði í því umfangi að gamla byggð-
in í Túnunum og íbúar þar líði ekki
fyrir, heldur fái nýtt og betra líf!
Þétting byggðar getur nefnilega vel
haft jákvæð og uppbyggileg áhrif
en slíkt væri í samræmi við stefnu-
mörkun Reykjavíkurborgar og ykk-
ur til sóma.
Ég biðst afsökunar, þyki ykkur
ég fara offari, en mér er nánast
allri lokið vegna fyrirhugaðs bygg-
ingamagns á Höfðatúnsreitnum og
þeirra neikvæðu áhrifa sem það
getur haft fyrir íbúabyggð í gamla
Túnahverfinu. Ég læt þó öðrum eft-
ir að gera þeim frekari skil og lýk
hér máli mínu.
Með vinsemd og í trausti þess að
þið látið heilindi gagnvart núver-
andi og verðandi íbúum í Túna-
hverfi verða leiðbeinandi fyrir end-
anlega ákvörðun um byggingamagn
á Höfðatúnsreit.
Í skugga risavaxins
steinsteypuferlíkis
Sigríður Hrefna Jónsdóttir
skrifar opið bréf til borgaryf-
irvalda út af fyrirhuguðum
byggingum á Höfðatúnsreit
» Fyrirhugað skipulagtekur í engu mið af
því að í Túnunum sé
íbúabyggð sem ætlað er
að standa áfram.
Sigríður Hrefna
Jónsdóttir
Höfundur er íbúi við Miðtún
í Reykajvík.