Morgunblaðið - 28.01.2007, Síða 6
6 SUNNUDAGUR 28. JANÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
TVÆR þyrlur Landhelgisgæslunn-
ar voru sendar eftir veikum skip-
verja um borð í frystitogaranum
Guðmundi í Nesi RE laust fyrir mið-
nætti á föstudag og var maðurinn
kominn inn á Landspítala – háskóla-
sjúkrahús um þremur og hálfri
klukkustund síðar.
Um klukkan 22 á föstudagskvöld
hafði skipstjóri frystitogarans Guð-
mundar í Nesi RE samband við
Landhelgisgæsluna vegna veiks
skipverja. Talið var að maðurinn
hefði fengið botnlangakast og um
klukkan 23:30 var ákveðið að sækja
hann. Togarinn var djúpt vestur af
Látrabjargi og því voru tvær þyrlur
sendar á staðinn, TF-LÍF sem sótti
manninn og TF-OBX sem fór með til
aðstoðar. Komið var með skipverj-
ann til Reykjavíkur um þremur og
hálfri klukkustund eftir að þyrlurnar
lögðu af stað og hann fluttur á spít-
ala.
Þyrlur
sóttu veik-
an sjómann
ÞAÐ tók slökkviliðið á höfuðborgar-
svæðinu um þrjá tíma að reykræsta
fiskimjölsverksmiðju HB Granda hf.
á Norðurgarði í fyrrinótt en
skemmdir urðu fyrst og fremst á
ofninum og vegna reyks.
Skömmu fyrir miðnætti á föstu-
dag var tilkynnt um eld í fiskimjöls-
verksmiðjunni og var allt tiltækt
slökkvilið kallað út. Eldur logaði í
mjölofni og breiddist reykur um allt
hús en að sögn slökkviliðsins urðu
ekki verulegar skemmdir nema á
ofninum og svo vegna reyks. Elds-
upptök eru ókunn.
Reykur en
lítið tjón
Morgunblaðið/Ómar
Bruni Talsverður reykur var frá
fiskimjölsverksmiðjunni.
FRAMSÓKNARFÉLAG Vest-
mannaeyja segir í ályktun að farið
verði að almennum leikreglum í
flokknum við uppröðun á lista. Í til-
kynningu frá félaginu segir að álykt-
unin sé gerð í „kjölfar þeirrar um-
ræðu sem orðið hefur í þessari viku
um að einhverjir óþekktir aðilar inn-
an Framsóknarflokksins hyggist
hagræða úrslitum prófkjörs fram-
sóknarmanna í Suðurkjördæmi“.
Í ályktunni leggur félagið ríka
áherslu á „að framboðslisti flokksins
fyrir alþingiskosningarnar í vor
verði skipaður því góða fólki sem
lagði á sig mikla vinnu og mikinn
kostnað við þátttöku í prófkjörinu.
Framsóknarfélag Vestmannaeyja
leggur ríka áherslu á að lýðræðisleg
kosning verði látin ráða og ákveði
frambjóðendur að taka ekki þau sæti
sem þeim ber á listanum skuli þeir
frambjóðendur sem á eftir koma
færast upp listann. Það er mikilvægt
að almennar leikreglur séu virtar
svo flokkurinn þurfi ekki enn á ný að
þola umræðu um spillingu, klíkuskap
og reykfyllt bakherbergi“.
Hafnar
klíkuskap
Eftir Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
NÝ OG VIÐAMIKIL bandarísk
rannsókn bendir til að sterk tengsl
séu á milli loftmengunar frá hrað-
brautum og langtíma lungnaskaða í
börnum. Engin sambærileg rann-
sókn hefur farið fram hér á landi en
Jónína Bjartmarz umhverfisráð-
herra mun í næstu viku kynna nið-
urstöður sérstakrar svifryksnefnd-
ar, sem falið var að kanna leiðir til að
draga úr loftmengun í þéttbýli.
Fyrir liggur að Evrópusamband-
ið, ESB, hyggst beita sér fyrir því að
dregið verði úr svifryksmengun í
borgum og gæti sú áhersla haft áhrif
hér á Íslandi á næstu árum í gegnum
ákvæði EES-samningsins.
Rannsóknin vestra, sem Umhverf-
isstofnun Bandaríkjanna, EPA, átti
aðild að auk fleiri aðila, náði til yfir
3.600 barna, á aldrinum frá um 10 til
18 ára, sem eru búsett í mið- og suð-
urhluta Kaliforníuríkis, og stóð yfir í
13 ár. Samkvæmt henni er lungna-
skaðinn samfara því að búa innan við
457 metra frá hraðbraut talinn sá
sami og af því að vera búsettur í þétt-
býliskjörnum þar sem mengunin
mælist hvað mest.
Þá leiddi samanburður á börnum
sem bjuggu innan þessara marka og
þeim sem voru búsett um 1.370
metrum frá umferðargötunum í ljós,
að þau sem tilheyrðu fyrri hópnum
önduðu frá sér um 3% minna lofti og
7% hægar en börnin í seinni hópn-
um. Var munurinn sagður óháður
heildarmengun á svæðunum.
Hefur áhrif allt æviskeiðið
Greint var frá niðurstöðunum í
breska læknaritinu Lancet á
fimmtudag og hafa þær þegar vakið
mikla athygli vestanhafs. „Sá sem
þjáist af lungnaskaða af völdum
mengunar sem barn mun líklega
ekki hafa heilbrigð lungu það sem
eftir lifir ævinnar,“ sagði W. James
Gauderman, einn helsti höfundur
rannsóknarinnar, í samtali við dag-
blaðið Los Angeles Times.
Skaðinn er einkum rakinn til ör-
smárra agna sem berast frá út-
blæstri bifreiða og hafa fyrri rann-
sóknir bent til tengsla á milli
fjölgunar asmatilfella og þess að búa
við fjölfarnar umferðaræðar, tengsl
sem reyndar eru umdeild. Að auki
hafa sérfræðingar talið sig sjá fylgni
á milli mengunar og lungnaþroska.
Sigurður Þór Sigurðarson,
lungnalæknir og sérfræðingur í
áhrifum umhverfis á heilsufar, hefur
veitt umhverfisráðuneytinu ráðgjöf í
þessum málaflokki. Hann segir
rannsóknina mjög athyglisverða.
„Hún mælir áhrif mengunar á
þroska lungnanna yfir langan tíma,
sem er besta og fullkomnasta aðferð
sem völ er á. Hún staðfestir það sem
var vitað, að lungun þroskast síður í
mengandi umhverfi.
Agnirnar, sérstaklega kolefnis-
agnir og brennisteins- og köfnunar-
efnissambönd, hafa áhrif á börn sem
hafa enga lungnasjúkdóma og það
má segja að það fari að verða
ábyrgðarhluti að ala upp ungmenni
við hraðbrautir, þar sem þau anda að
sér svifryki og rykögnum.“
Sigurður bendir þó á, að meiri
hreyfing sé á loftinu hér á höfuð-
borgarsvæðinu en í Kaliforníu.
Vestra hafi loftið tilhneigingu til að
setjast í kyrrstöðu. Á hinn bóginn sé
talsverð loftmengun á höfuðborgar-
svæðinu sem sé sambærileg við það
sem gerist erlendis, mengun sem
geti haft áhrif á heilsu ungmenna.
„Ég sé ekkert sem mælir á móti
því að hér verði framkvæmd rann-
sókn af sama toga. Vegna þess að
slík athugun hefur aldrei verið gerð
getur maður hins vegar ekkert full-
yrt um heilsufarsáhrifin á Íslandi.
Nagladekkjamengun sem veldur
grófara ryki og tjörumengun er
heldur ekki jafn vel rannsökuð en
ljóst er að hún berst niður í lungun.“
Stjórnvöld á varðbergi
Ingimar Sigurðsson, skrifstofu-
stjóri hjá umhverfisráðuneytinu,
upplýsti í samtali við Morgunblaðið í
gær að Jónína Bjartmarz umhverf-
isráðherra myndi á næstunni kynna
nýjar niðurstöður svifryksnefndar,
sem hann hefur farið fyrir.
„Það er talið að allt að 60 til 70 pró-
sent svifryksmengunar megi rekja
til umferðar,“ segir Ingimar. „Um
sjö til átta prósent koma frá dísil- og
vinnuvélum, auk lítils magns frá
bremsuborðum. Afgangurinn á sér
svo náttúrulegar orsakir, á borð við
sjávarseltu sem kemur til okkar með
norðanáttinni og frá loftögnum sem
berast frá hálendinu.“
Hann segir að ætlunin sé að rann-
saka þessa samsetningu frekar og í
framhaldinu verði leitað leiða til að
draga úr mengun á höfuðborgar-
svæðinu. Hann segir til greina koma
að grípa til aðgerða til að draga úr
mengun en segir slík skref viðkvæm
og vill ekki tjá sig frekar um þau á
þessu stigi. Til að ná árangri sé þó
ljóst að aðgerðirnar þurfi að beinast
gegn umferðinni.
ESB og WHO stefna að minni
svifryksmengun í borgum
Ingimar upplýsir einnig að vel sé
fylgst með aðgerðum ESB í þá veru
að draga úr loftmenguninni.
„ESB hefur ákveðið að einbeita
sér að ögnum sem eru af korna-
stærðinni 2,5 míkrógrömm, í stað
þeirra sem eru um fjórum sinnum
stærri. Smærri agnirnar eru hættu-
legastar fyrir mannfólkið, þær
smjúga inn í smæstu loftvegi.
Við þurfum að fylgja Evrópu-
reglum samkvæmt EES-samningn-
um, sem ný loftgæðatilskipan yrði
hluti af. Þar sem um stórmál er að
ræða er vel fylgst með þessari vinnu
af hálfu íslenskra stjórnvalda.
Aðildarríki sambandsins munu
svo í framhaldinu setja sér áætlanir
um með hvaða hætti sé hægt að
draga úr þessari mengun. Hún er
fyrst og fremst vandamál í borgun-
um en þessi vinna hefur m.a. farið
fram yfir tilstuðlan Alþjóðaheil-
brigðisstofnunarinnar, WHO, sem á
aðild að stefnumótuninni.“
Aðspurður um hvort íslensk
stjórnvöld hyggist rannsaka áhrif
slíkra agna á heilsufar almennings
segir Ingimar það vera til athugun-
ar. Fyrst þurfi þó að rannsaka upp-
sprettur mengunarinnar betur.
Mengun frá bílaumferð
skemmir lungu barna
Morgunblaðið/RAX
Mengun Stjórnvöld eru nú með til skoðunar aðgerðir sem gætu dregið úr
mengun frá bílum. Ástæðan er sú hætta sem talin er stafa frá svifryki.
Viðamikil bandarísk rannsókn markar tímamót Enginn sambærileg rann-
sókn gerð á Íslandi Til athugunar að grípa til aðgerða til að draga úr mengun
Skaðvaldur Svifryk er sambland rykagna og lofttegunda. Það myndast einkum frá bílaumferð, sem fer sífellt vaxandi á höfuðborgarsvæðinu. Á mynd-
unum má sjá svifryk sem smogið hefur inna í allra smæstu loftvegi í lungunum. Það inniheldur óæskileg efnasambönd sem hafa skaðleg áhrif á líkamann,
svo sem niturdíoxíð, NO2, og brennisteinsdíoxíð, SO2, og Ósón. Þá virðast rykagnirnar sjálfar hafa óæskileg áhrif í smæstu loftvegum, vegna smæðar og
ertandi eiginleika, að sögn Sigurðar Þórs Sigurðarsonar lungnalæknis.
LÚÐVÍK Gústafsson, deild-
arstjóri hjá umhverfissviði
Reykjavíkurborgar, segir
magn svifryks við mæling-
arstöðina við Grensásveg í
Reykjavík hafa farið í 700
míkrógrömm á rúmmetra í lok
nóvember 2005, sem sé „al-
gjörlega óviðunandi“. Vind-
strengur frá Hvalfirði hafi síð-
an blásið menguninni á brott,
sem hafi verið ein sú mesta síðustu ár, og magnið
minnkað verulega.
„Þarna var um að ræða hæstu mældu gildi á til-
tekna tímaeiningu við Grensásveg,“ segir Lúðvík.
„Í fyrra voru 29 dagar þar sem mengunin fór yfir
heilsuverndarmörk við stöðina. Hún er samt hlut-
fallslega miklu minni en í Suður-Evrópu, svo ekki
sé talað um Kína.
Samkvæmt reglugerð umhverfisráðuneytisins,
sem er samhljóma reglum Evrópusambandsins,
hefur verið ákveðið að heilsuverndarmörk svif-
ryks fyrir árið 2010 verði 20 míkrógrömm, eða það
magn sem ekki er talið skaðlegt. Þetta er þó til
endurskoðunar, enda efasemdir um hvort þetta sé
nóg.
Verður að grípa til aðgerða
Það sem upp úr stendur er að heilsufarsáhrifin
af svifryksmengun hafa verið vanmetin. Nú er
jafnvel rætt um að reyna að uppræta svifryk af
kornastærðinni einn míkrómetri sem talið er jafn
skaðlegt og asbest.“
Asmasjúklingum hefur á undanförnum átum
verið ráðlagt að halda sig innandyra þegar meng-
unin hefur verið hvað mest á höfuðborgarsvæð-
inu. Lúðvík segir Norðmenn hafa lagt skatta á
notendur nagladekkja til að draga úr mengun í
Ósló og Svía hafa innleitt vegatolla í Stokkhólmi
til að draga úr umferðinni. Hann er þeirrar
hyggju að sveitarstjórnir og ríkisstjórnin verði að
fara að ákvæðum reglugerða um loftgæði, annað
væri lögbrot.
Lúðvík bætir því við að þótt svifryksmengunin
á höfuðborgarsvæðinu hafi náð hámarki fyrir
aldamótin 2000 – en síðan dalað vegna aukinnar
úrkomu – sé engu að síður talið fullvíst að hún
muni fara upp fyrir heilsufarsmörk árið 2010,
jafnvel fyrr. Því verði að grípa til aðgerða, ekki
muni fækka í bílaflotanum á næstunni og notkun
nagladekkja sé enn veruleg í höfuðborginni.
Mengunin „algjörlega óviðunandi“
Lúðvík Gústafsson
♦♦♦