Morgunblaðið - 28.01.2007, Page 16
16 SUNNUDAGUR 28. JANÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ
KONUR Í ÍÞRÓTTUM
Á
sthildur Helgadóttir, fyrirliði
landsliðsins í knattspyrnu,
heyrir til fámennum hópi ís-
lenskra kvenna sem hafa at-
vinnu af íþrótt sinni. Hún hefur und-
anfarin ár leikið með sænska liðinu
Malmö FF.
Raunar er ekki víst með framhaldið
hjá Ásthildi en hún er að hugsa sinn
gang þessa dagana. „Ég átti mitt
besta tímabil á ferlinum í fyrra, varð
þriðja markahæst í sænsku deildinni
sem er að mínu mati sú besta í heimi.
Þannig að ég hef náð mjög langt. Ég
er hins vegar orðin þrítug og þarf að
velta því mjög alvarlega fyrir mér
hvort tímabært sé að ég snúi mér að
öðru. Fótboltinn hefur alltaf haft for-
gang en nú stend ég frammi fyrir
þeirri bláköldu staðreynd að ég fæ
hærri laun sem verkfræðingur en sem
atvinnumaður í knattspyrnu. Maður
þarf að eiga fyrir salti í grautinn.“
Þessi orð segja allt sem segja þarf
um veruleikann sem íslenskar knatt-
spyrnukonur búa við. Þrjátíu ár eru
ekki hár aldur í sparkheimi karlanna
en á þeim aldri eru flestar konur bún-
ar að leggja skóna á hilluna. Hér
heima er Ásthildur síðasti móhík-
aninn. „Minn árgangur, 1976, var
mjög sterkur, bæði hjá Breiðabliki og
á landinu öllu en nú eru allar hættar,
nema ég. Fyrir því eru auðvitað ýms-
ar ástæður en peningar spila þar
stóra rullu. Eins barneignir.“
Fremstu sparkkarlar heims þéna
vel og Ásthildur staðfestir að kon-
urnar standi þeim langt að baki. „Við
fáum ekki neinar sjö milljónir á viku,“
segir hún glottandi, „en það er hægt
að lifa af þessu. Það er út af fyrir sig
áfangasigur. Vinsældir kvennaknatt-
spyrnu fara þó stöðugt vaxandi og
hver veit hvernig staðan í launamál-
unum verður eftir nokkur ár.“
Ásthildur hóf að æfa knattspyrnu
hjá Breiðabliki tíu ára en óvíða er
kvennastarf öflugra í knattspyrnunni.
Hún fékk því góða hvatningu frá upp-
hafi, bæði heima og hjá félaginu sínu.
„Ég veit ekki hvort stuðningurinn
hefði verið meiri hefði ég verið strák-
ur en efast um það.“
Fyrsta fyrirmynd Ásthildar var
þjálfarinn hennar, Erla Rafnsdóttir,
en uppáhaldsleikmennirnir á þessum
tíma voru karlar, Ásgeir Sigurvinsson
og Michel Platini. „Þetta hefur breyst
með auknum sýnileika kvennaknatt-
spyrnu. Á síðustu árum höfum við í
landsliðinu a.m.k. fundið fyrir því að
við erum fyrirmyndir og í uppáhaldi
hjá ungum stúlkum í fótboltanum.“
Ásthildur kveðst oft hafa heyrt þær
raddir gegnum tíðina að ekki sé kven-
legt að stunda knattspyrnu. „Bless-
aður vertu. Það var líka útbreidd
skoðun að allar knattspyrnukonur
væru lesbíur,“ segir hún og hristir
höfuðið yfir fáránleikanum. „Sem bet-
ur fer hefur þetta breyst mikið enda
getur umræða aldrei orðið vitræn á
þessum nótum. Stelpur fara í fótbolta
af því að þeim þykir það skemmtilegt.
Alveg eins og strákar.“
Árangur kvennalandsliðsins hefur
verið til eftirbreytni á umliðnum ár-
um og Ásthildur finnur fyrir því að
áhugi almennings hafi aukist. „Inn í
það spilar líka auglýsingaherferð sem
við stóðum fyrir á sínum tíma og vakti
mikla athygli. Áður en við fórum út í
hana var aðsókn að landsleikjum
dræm, kannski 500 manns og það
voru aðallega aðstandendur leik-
manna. Maður þekkti nánast alla í
stúkunni,“ rifjar Ásthildur upp hlæj-
andi. „Þetta hefur breyst mikið.
Áhorfendametið er að ég held í kring-
um 3.000 manns. Í síðustu und-
ankeppni slepptum við auglýsing-
unum og þá dró aftur úr aðsókn en
hún var samt meiri en áður en við fór-
um út í herferðina.“
Ásthildur segir að það geri kannski
ekki allir sér grein fyrir því en í ís-
lenska kvennalandsliðinu séu leik-
menn á heimsmælikvarða. „Við höfum
verið nálægt því að tryggja okkur
sæti í úrslitakeppni á stórmóti og von-
umst til að ná því markmiði á næstu
árum.“
Hún segir að það yrðu straumhvörf
fyrir liðið. Þátttaka í stórmóti myndi
örugglega ekki vekja minni áhuga hjá
þjóðinni en þátttaka handboltalands-
liðsins á heimsmeistaramótinu þessa
dagana. „Kvennaknattspyrna er vin-
sælli íþrótt en karlahandbolti í heim-
inum og ég er ekki í vafa um að þjóðin
myndi styðja dyggilega við bakið á
okkur í slíkri keppni. Er það ekki eðli
Íslendinga að sameinast þegar á þarf
að halda?“
Ásthildur er bjartsýn fyrir hönd
kvenna í íþróttum á Íslandi, ekki síst í
knattspyrnunni. Iðkendum hefur
fjölgað gríðarlega, aðstaðan batnað
og getustigið hækkað jafnt og þétt.
„Það er orðið sjálfsagður hlutur að
vera stelpa í fótbolta og þannig á það
að vera. Auðvitað má alltaf gera bet-
ur. Ég vil m.a. sjá meiri umfjöllun í
fjölmiðlum um konur í íþróttum.
Kannski er þetta þó að koma, a.m.k.
var í fyrsta sinn sjónvarpað frá útileik
landsliðsins í fyrra.“
KONUR HÆTTA FYRR
Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Á skotskónum Ásthildur Helgadóttir
fagnar marki í landsleik.
F
áar íslenskar konur hafa náð lengra á
íþróttasviðinu en Ragnheiður Runólfs-
dóttir, sundkona frá Akranesi, en hún
er ein þriggja kvenna sem kjörin hefur
verið íþróttamaður ársins. Það gerðist árið
1991, ári áður en Ragnheiður hætti keppni. Því
fer þó fjarri að hún hafi sagt skilið við sundið,
því hún gegnir nú starfi yfirþjálfara hjá Sund-
félagi Akraness.
Ragnheiður lærði ung að synda og kveðst í
fyrstu hafa litið á sundlaugina sem leiksvæði.
„Ég átti heima rétt hjá sundlauginni og hinum
megin við bakkann var fjaran. Ég var þarna
öllum stundum,“ rifjar hún upp. „Það var svo
Helgi Hannesson, Helgi sund, eins og hann er
alltaf kallaður, sem veiddi mig upp úr lauginni
og stakk upp á því að ég færi að keppa. Helgi
er einstakur maður og er ennþá í góðu sam-
bandi við okkur þótt hann sé hættur að vinna.“
Ragnheiður lagði stund á margar íþróttir í
æsku, eins og algengt var á þeim tíma. Í dag er
sérhæfingin yfirleitt meiri. „Allir vinirnir voru
líka í íþróttum, af báðum kynjum. Í ein-
staklingsíþróttunum, eins og sundinu, æfðu
strákar og stelpur saman hér á Skaganum og
gera enn. Það voru gerðar sömu kröfur til allra
og ég upplifði aldrei neina mismunun. Það á
jafnt við um sundið þá og í dag.“
Ragnheiður er yngst fimm systkina og var
dyggilega hvött af fjölskyldunni allan sinn
keppnisferil. „Pabbi er að vísu sjómaður og gat
fyrir vikið ekki sótt mörg mót en mamma var
mjög dugleg að ferðast með mér. Stuðning-
urinn var ekki bara af andlegum toga heldur
líka fjárhagslegum þegar leið á ferilinn en það
er dýrt að vera keppnismaður í fremstu röð.
Foreldrar mínir studdu mig með glöðu geði og
fyrir þann stuðning fæ ég seint fullþakkað.“
Akranes er mikill íþróttabær og Ragnheiður
segir mikla stemningu fyrir því að standa sig
vel. „Fólk fylgdist alla tíð vel með mér og
spurði mig spjörunum úr þegar það hitti mig
úti í búð eða á götu. Ég fann líka að börnin litu
upp til mín. Það var mikil hvatning.“
Ragnheiður flutti til Keflavíkur til að æfa
fyrir Ólympíuleikana í Seoul 1988 og æfði þá
með fremsta sundmanni þjóðarinnar á þeim
tíma, Eðvarð Þór Eðvarðssyni. Síðar bjó hún
og æfði í Kanada og Bandaríkjunum, þar sem
hún stundaði háskólanám. Á öllum þessum
stöðum æfðu karlar og konur saman og hvöttu
hvert annað til dáða. „Þjálfarinn minn síðustu
árin í Bandaríkjunum, sem er frá Suður-
Afríku, lagði mikla áherslu á jafnrétti, en ég
velti þessum málum aldrei fyrir mér. Ég upp-
lifði aldrei annað en ég hefði sömu möguleika á
því að ná árangri og karlarnir sem voru að æfa
með mér. Ég lærði snemma að gera miklar
kröfur til mín og markmiðin voru skýr.“
Enginn skortur á konum
Ragnheiður segir að verið sé að móta starfs-
reglur fyrir Sundfélag Akraness og þar sé
jafnrétti leitt til öndvegis. „Annars þurfum við
ekki að kvarta undan skorti á konum hjá þessu
félagi. Af sjö stjórnarmönnum eru sex konur
og allir þjálfararnir eru konur. Ég held hins
vegar að þetta sé frekar óvenjulegt. Hjá sund-
félögunum í Reykjavík sjá karlar mestmegnis
um þjálfunina.“
Ragnheiður kveðst ekki hafa einhlíta skýr-
ingu á þessu kvennaveldi í sundinu á Akranesi
en gerir ráð fyrir að mæður iðkenda sýni sund-
inu meiri áhuga en feðurnir. „Eins og allir vita
snýst lífið um knattspyrnu hérna á Skaganum
og ég hygg að feðurnir séu duglegri að gefa
kost á sér til starfa á þeim vettvangi. Þeir eru
samt mjög duglegir að styðja við bakið á börn-
um sínum í sundinu líka.“
Hvað sundið varðar segir Ragnheiður
vinnutímann tvímælalaust fæla fólk frá þjálf-
un. „Ég fer af stað klukkan fimm á morgnana
og er með æfingu frá klukkan hálfsex til hálf-
átta, áður en krakkarnir mæta í skólann. Síðan
byrja ég aftur klukkan eitt og er fram á kvöld.
Þetta er ekki fjölskylduvænt nema maður hafi
börnin bara með sér.“
Ragnheiður segir að stúlknaliðið á Skag-
anum hafi lengi verið sterkt en drengirnir séu
jafnt og þétt að vinna á. Hún segir gaman að
fylgjast með því hvað kynin vinni vel saman.
„Það er alltaf einhver sem heldur uppi stemn-
ingunni og dregur vagninn og það skiptir engu
máli hvort það er strákur eða stelpa. Ég sé
heldur ekki betur en jafnrétti sé í hávegum
haft. Þannig fórum við í óvissuferð í sum-
arbústað nýlega og það voru strákarnir sem
þrifu bústaðinn – óumbeðnir.“
Aðspurð hvort árangur hennar og síðar Kol-
brúnar Ýrar Kristjánsdóttur gæti hafa leitt til
aukins sundáhuga meðal stúlkna á Akranesi
kveðst hún aldrei hafa hugleitt það. „Mínar
fyrirmyndir voru karlar, Ingi Þór Jónsson og
Ingólfur Gissurarson sem drógu vagninn
hérna og bjuggu til sterk lið. Líka Guðjón Guð-
mundsson sem kjörinn var íþróttamaður árs-
ins á sínum tíma. Þessir menn gerðu mikið fyr-
ir sundíþróttina. Það má vel vera að árangur
okkar Kolbrúnar Ýrar hafi hvatt stúlkur til
dáða en um það er vont fyrir mig að dæma.“
Iðkendur hjá Sundfélagi Akraness eru um
150 á aldrinum 6 til 23 ára og skiptast þeir
jafnt milli kynja. Ragnheiður starfrækir einnig
sundskóla með um 100 börnum.
Sjálf á Ragnheiður þrjú börn, 12, 5 og 3 ára.
Það elsta fæddist tveimur árum eftir að hún
hætti keppni enda segir hún erfitt fyrir konur í
afreksíþróttum að gera hlé á ferli sínum vegna
barneigna. „Það fer mikill tími í íþróttina og
fólk þarf að halda sér í mjög góðri þjálfun.
Fyrir vikið er sjaldgæft að konur eignist börn
meðan á ferlinum stendur. Ég þekki þó dæmi
þess.“
Ragnheiður kveðst heldur ekki í vafa um að
barneignir geri það að verkum að konur hætti
keppni yfirleitt fyrr en karlar.
Björt framtíð
Þegar horft er á heildarmyndina er Ragn-
heiður þeirrar skoðunar að staða kvenna-
íþrótta sé sterk á Íslandi um þessar mundir.
„Hlutur kvenna í íþróttum er alltaf að aukast.
Við stöndum vel að vígi í sundinu og svo hefur
verið gaman að fylgjast með því hvað knatt-
spyrnan er að eflast. Það er ekki síst landslið-
inu að þakka en það hefur náð frábærum ár-
angri á vellinum og verið duglegt að vekja á
sér athygli, m.a. með alveg kostulegum auglýs-
ingum. Ég er sannfærð um að þetta er jákvætt
fyrir ímyndina. Nefna má fleiri öflugar grein-
ar, s.s. handknattleik, frjálsar íþróttir og bad-
minton, eins og við sáum um síðustu helgi.
Loks virðist markvisst starf innan ÍSÍ vera að
skila sér.“
Um leið og Ragnheiður vill hlut kynsystra
sinna í íþróttum sem mestan hnykkir hún á því
að dæma verði fólk fyrst og síðast á eigin verð-
leikum. „Það er nauðsynlegt að jöfn tækifæri
séu fyrir hendi. Ég er samt alin þannig upp að
mér hefur alltaf fundist ég eiga að komast
áfram á eigin verðleikum en ekki bara vegna
þess að ég er kona.“
ÖLL SUND OPIN
Morgunblaiðð/RAX
Á bakkanum Enda þótt Ragnheiður Runólfs-
dóttir sé hætt keppni hefur hún ekki sagt
skilið við sundíþróttina. Hún er nú þjálfari.
H
lutur kvenna í kjöri Sam-
taka íþróttafréttamanna
á íþróttamanni ársins
hefur verið rýr gegnum
tíðina en í ríflega fimmtíu ára
sögu kjörsins hafa aðeins þrjár
konur hrósað sigri, Sigríður Sig-
urðardóttir handknattleikskona
(1964), Ragnheiður Runólfsdóttir
sundkona (1991) og Vala Flosa-
dóttir stangarstökkvari (2000).
Ólafur Rafnsson segir þetta
umhugsunarefni. Hann bendir þó
á að fjölmargar aðrar konur hafi
náð framúrskarandi árangri í
íþróttum gegnum árin og hefðu
verið vel að þessum titli komnar.
„Fyrirmyndirnar eru til staðar,
glæsilegar íþróttakonur í
fremstu röð.“
Ragnheiður Runólfsdóttir tek-
ur undir að vissulega sé hlutfallið
konum í óhag. „Það má hins veg-
ar ekki gleyma því að það er
lengri hefð fyrir því að karlar stundi flestar íþróttagreinar og séu í
fremstu röð. Ef við lítum á það hverjir hafa verið að fara með sigur
af hólmi í kjörinu undanfarin ár sjáum við að það eru menn sem allir
hafa atvinnu af sinni íþrótt, Ólafur Stefánsson, Eiður Smári Guð-
johnsen og Guðjón Valur Sigurðsson. Það eru ekki margar íslenskar
konur atvinnumenn í íþróttum. Við þetta er erfitt að keppa.“
Ragnheiður kveðst fyrst hafa velt því fyrir sér að hún ætti mögu-
leika á því að vera kjörin íþróttamaður ársins þegar kollegi hennar
og æfingafélagi, Eðvarð Þór Eðvarðsson, hampaði titlinum árið
1986. „Þá hugsaði ég með mér, fyrst hann getur þetta hlýt ég að geta
það líka ef ég legg mig alla fram.“
Ragnheiður vill ekki sjá kjörinu skipt í tvennt, íþróttakarl ársins
og íþróttakonu ársins. „Það yrði stórt skref aftur á bak. Auðvitað
eigum við að leggja sömu mælistikuna á alla íþróttamenn. Ef kon-
urnar yrðu teknar út úr þessu og kjörnar sér værum við ekki að tala
um jafnrétti, heldur sérréttindi. Það vilja konur ekki.“
Ásthildur Helgadóttir sér heldur ekki ástæðu til að aðgreina karla
og konur í kjörinu. Hún vill sjá hlut kvenna meiri en á brattann sé að
sækja. „Það eru fleiri karlar í fremstu röð en konur. Hlutur kvenna í
tíu efstu sætum kjörsins hefur þó verið að vaxa. En það segir sig
sjálft að það er erfitt að keppa við menn eins og Eið Smára Guðjohn-
sen sem náð hefur mjög langt í vinsælustu íþrótt í heimi.“
Ásthildur sér þó vel fyrir sér að knattspyrnukona nái kjöri í nán-
ustu framtíð. „Við eigum konur í fremstu röð í heiminum og það
kæmi mér ekki á óvart ef knattspyrnukona hlyti titilinn í bráð.“
ÞRJÁR KONUR
Á HÁLFRI ÖLD
Best Ragnheiður Runólfsdóttir
með viðurkenningu sína sem
íþróttamaður ársins 1991.
Morgunblaðið/RAX