Morgunblaðið - 07.02.2007, Side 20
heilsa
20 MIÐVIKUDAGUR 7. FEBRÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ
Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur
khk@mbl.is
Það er ótrúlega algengt aðfólk með sykursýki fari útaf sporinu með stjórn sínaá blóðsykrinum og þá sér-
staklega unglingar. Þá þarf fólk að-
stoð við að koma sér aftur á rétt ról,
því þegar blóðsykurstjórnun hjá
sykursjúkum er ekki í lagi, þá líður
fólki ekki vel. Þá er líka mikil hætta
á að fylgikvillar komi fram, bæði í
stóræðakerfinu og smáæðakerfinu,
sem og taugakvillar,“ segir Linda
Hrönn Eggertsdóttir sem á síðasta
ári opnaði Hjúkrunarfræðiráðgjöf-
ina Bris sem ætluð er sykursjúkum.
Linda Hrönn er hjúkrunarfræð-
ingur með klíníska sérþekkingu á
sykursýki og vann í tvö ár á göngu-
deild sykursjúkra á Landspítala –
háskólasjúkrahúsi. Áður hafði Linda
starfað á heilsugæslunni Sólvangi
Hafnarfirði í 6 ár og var þar með
móttöku fyrir sykursjúka. Auk þess
hefur hún reynt á eigin skinni hvað
það er að vera sykursjúk, því í rúm-
lega þrjátíu ár hefur hún lifað með
þessum sjúkdómi og er á insúlín-
dælumeðferð. Fyrir vikið hefur hún
skilning á því hvernig það er að lifa
með langvinnan sjúkdóm.
Afneitun og reiði algeng
„Ég stofnaði þessa ráðgjöf fyrst
og fremst vegna þess að ég fann að
þörfin var mikil. Ég tek á móti syk-
ursjúkum á öllum aldri, börnum og
fullorðnum og bæði þeim sem eru
með tegund 1 sykursýki og tegund 2
sykursýki. Ég tek líka á móti þeim
sem eru með skert sykurþol, sem er
oft undanfari sykursýki. Þeir sem
eru nýgreindir með sykursýki fara í
gegnum ákveðið sorgarferli en því
fylgir reiði, afneitun og depurð. Þeg-
ar viðkomandi hefur náð að vinna sig
í gegnum sorgarferlið nær hann
lokastiginu sem er þá að sætta sig
við staðreyndir. Sykursjúkir geta
farið oftar en einu sinni í gegnum
þetta ferli á lífsleiðinni. Þeir sem eru
sykursjúkir eiga líka á hættu að
verða þunglyndir og þess vegna er
mjög áríðandi að þeir hugsi vel um
sjálfa sig, stundi hreyfingu daglega
og að mataræðið sé í lagi. Ég reyni
að hjálpa fólki með að ná betri tök-
um á lífi sínu og sykursýkinni. Ég
kenni líka fólki hvernig á að bregð-
ast við ákveðnum aðstæðum, eins og
skyndilegri hækkun blóðsykurs,
sem getur til dæmis gerst ef insúl-
índælan hjá fólki dettur úr sam-
bandi.“
Ekki með skeiðklukku á lofti
Linda Hrönn segir það vera mjög
einstaklingsbundið hvað og hvernig
eitthvað hefur áhrif á blóðsykurinn.
„Þess vegna legg ég áherslu á að
hafa mína ráðgjöf einstaklingsmið-
aða og ég legg mikla áherslu á að
gefa mér góðan tíma og fara vel í
saumana með hverjum og einum. Ég
er ekki með skeiðklukkuna á lofti.
Ég tek hverjum og einum eins og
hann er og ég vil að fólki líði vel hjá
mér. Það kemur hingað í rólegheit-
um og við spjöllum saman og finnum
leiðir til að bæta málin. Það er heil-
mikið átak að gera lífsstílsbreyt-
ingar og ég fylgi fólki eftir meðan á
þeirri vinnu stendur. Það dugar ekki
að henda bæklingum í fólk og segja:
Þetta máttu borða en ekki þetta.“
Missti sjálf alla stjórn
Hún segir eftirspurnina eftir ráð-
gjöf vera mikla og marga sækja
þjónustu hennar. „Hingað getur
hver sem er komið, án allra skilyrða.
Ég greini ekki sykursýki hjá fólki,
það gera læknarnir, en ég get aftur á
móti mælt blóðsykur hjá fólki og
fylgst með hvar það stendur og ég
stilli insúlínskammta þess í sam-
hengi við það.“
Linda Hrönn segir að áríðandi sé
fyrir sykursjúka að hafa sem flest í
lífi sínu í jafnvægi. „Allt álag og öll
streita hækkar blóðsykur hjá sykur-
sjúkum. Þeir mega eiginlega ekki
verða reiðir. Þetta getur verið mjög
erfitt fyrir til dæmis unglinga með
sykursýki sem eru í bullandi upp-
reisn og mótþróa. Unglingum hættir
sérstaklega til að missa tökin á syk-
urstjórninni. Ég missti sjálf alla
stjórn þegar ég var unglingur. Ung-
lingar með sykursýki fara gjarnan í
afneitun, enda eiga þeir alveg nóg
með að finna sjálfa sig, þó þeir þurfi
ekki líka að takast á við langvinnan
sjúkdóm. Unglingar eru líka oft
ósáttir við sýnileika sjúkdómsins
sem felst í insúlíndælunni. En þó er
dælan miklu skárri kostur en það að
þurfa að sprauta sig nokkrum sinn-
um á dag. Dælan er á stærð við síma
sem hægt er að hafa í vasanum eða
hengja á buxnastrenginn og hún er
tengd með snúru undir húðina.“
5.000 sykursjúkir á Íslandi
„Mér sjálfri fannst tilkoma dæl-
unnar rosalegur léttir, en ég þurfti
að sprauta mig sex sinnum á dag.
Núna þarf ég aðeins að skipta um
nál og insúlínhylki í dælunni á
þriggja daga fresti. Dælan gefur
mér hraðvirkt insúlín í smá skömmt-
um á 5 mínútna fresti, rétt eins og
eðlilegur briskirtill gerir hjá heil-
brigðu fólki.“
Linda Hrönn segir sykursýki al-
varlegan og mjög flókinn sjúkdóm
sem geti haft hræðilegar afleiðingar
ef fólk sinnir sjálfu sér ekki eins og
því ber. „En ef það gerir það þá er
hægt að lifa þokkalega eðlilegu lífi,
þó það sé kannski aldrei auðvelt.
Sykursýki hefur áhrif á lífið og lífið
hefur áhrif á sykursýkina.“
Á Íslandi eru um 5.000 manns með
sykursýki, en sykursýki greinist í
fólki á öllum aldri. Yngsta barnið
sem er í ráðgjöf hjá Lindu Hrönn er
þriggja ára. Aðstandendur sykur-
sjúkra skipta miklu máli í lífi þeirra,
sérstaklega hjá börnum.
Linda Hrönn segir sykursjúka
ekki vera sjúklinga. „Ég á mér
draum um að sjá eitt stórt batterí ut-
an við spítalastarfsemina, þar sem
væri teymi lækna, sálfræðinga,
hjúkrunarfræðinga, næringarfræð-
inga og fleiri aðila. Kannski er stofan
mín fyrsta skrefið í þá áttina.“
Bætt líðan með betri blóðsykri
Morgunblaðið/G.Rúnar
Ráðgjöf Linda Hrönn mundar pennann til að mæla blóðsykur hjá einum þeirra sem leitað hafa til hennar.
www.bris.is
Tegund 2 sykursýki leggst fyrst og
fremst á fullorðna sem hafa oft
sterka ættarsögu um sykursýki.
Sjúkdómsmyndin er þannig að
virkni insúlínsins er ekki eðlileg hjá
þessum einstaklingum. Frumur lík-
amans verða ónæmar fyrir því in-
súlíni sem brisið framleiðir sem er
ekki fullgert og þar af leiðandi nýt-
ist það mjög illa. Flestir þessara
einstaklinga eru auk þess með
truflun á efnaskiptum blóðfitu og
með háan blóðþrýsting. Þetta lík-
amsástand hefur fengið samheitið
efnaskiptavilla á íslensku. Með-
ferðin felst í lyfjagjöf í töfluformi.
Lyfin hafa mismunandi áhrif til
blóðsykurlækkunar, en oft er einn-
ig þörf fyrir blóðfitu- og blóðþrýst-
ingslækkandi lyf. Með tímanum
þurfa oftast einstaklingar með teg-
und 2 sykursýki einnig að fá insúl-
ín, þar sem brisið þreytist á því að
framleiða of mikið insúlínmagn.
Tegund 2
sykursýki
Tegund 1 sykursýki leggst aðallega
á ungt fólk (<35 ára) sem er ekki
með sterka ættarsögu um sykur-
sýki. Sjúkdómurinn stafar af því að
ónæmiskerfið ræðst á betafrum-
urnar og eyðileggur þær. Þar af
leiðandi flokkast þessi sjúkdómur
undir sjálfsofnæmissjúkdóma. Af-
leiðingin af eyðileggingu beta-
frumnanna verður insúlínskortur
og með tímanum hættir insúl-
ínframleiðslan alveg. Fundist hafa
gen í frumum einstaklinga sem fá
tegund 1 sykusýki sem gera þá
næmari fyrir því að fá sjúkdóminn,
sem talið er að brjótist síðan út ef
viðkomandi fær t.d. veirusýkingu
sem kveikir á ónæmiskerfi lík-
amans. Lyfjameðferðin felst í því að
gefið er insúlín í fitulag húðar.
Tegund 1
sykursýki
Sumir skammast sín fyrir að gráta. Þeir ættu að snar-hætta því. Bæði er afskaplega heilbrigt að gráta –rétt eins og að hlæja – og svo ku það víst vera gott
stjórnunartæki, sem eru góðar fréttir fyrir suma(r).
Norska Aftonbladet fjallaði nýlega um þetta fyrirbrigði,
tárin sem renna niður kinnarnar, og áhrif þeirra á líðan
fólks og samskipti. Niðurstöðurnar voru ánægjulegar en
mishvetjandi.
Þannig er heilbrigður grátur hluti af ósjálfráðum við-
brögðum líkamans. Þegar manneskja upplifir eitthvað
sorglegt, verður fyrir missi eða finnur fyrir vanlíðan eru
viðbrögð líkamans nánast sjálfvirk og lúta ekki vilja-
styrknum. Sviti sprettur fram, blóðþrýstingur hækkar,
augasteinarnir stækka og framleiðsla tárakirtlanna eykst.
Stundum grátum við eins og bestíur og getum ekki hætt
en líður á eftir eins og við höfum verið hvítskúruð að innan
– okkur er létt. Þegar gráturinn hefur síðan hljóðnað byrj-
ar heilinn að skrá, greina og leita lausna á því hvernig ráða
megi fram úr vandanum eða sorginni sem kallaði fram tár-
in. En það er ekki bara lífsreynsla sem fær tárin til þess að
renna. Vonbrigði yfir að ná ekki settu marki geta gert það
líka sem og reiði vegna óréttlætis.
Jon Monsen, professor í sálfræði, segir í viðtali við Aft-
enposten að gráturinn sé nauðsynlegur fyrir okkur til þess
að þroskast sem manneskjur. „Grátur getur verið ólíkrar
gerðar. Við stjórnum ekki hinum náttúrulega en hinum
geta flestir stjórnað og gera það þá markvisst. Þeir
stjórna og fá sitt fram með tárunum og það er ekki heil-
brigt. Svo eru til manneskjur sem aldrei gráta. Þær hafa
lært að útiloka sorgina, en oftast fylgja aðrar tilfinningar
þá líka með. Oftast eru slíkir einstaklingar sér ekki nægi-
lega meðvitandi um tillfinningar sínar og í ófullnægjandi
samskiptum við aðra.“
Blaðið hefur þá eftir þróunarsálfræðingnum Leif Edw-
ard Ottesen Kennair að konur gráti almennt fimm sinnum
oftar en menn og að meðaltali einu sinni í viku samkvæmt
rannsókn nokkurri. Konur grípa einnig oftar til táranna
sem stjórntækis þegar þær vilja ná fram sínu frekar en að
sýna reiði. Það telur Ottesen Kennair reyndar geta verið
klókindi, þær viti sem er að það þýðir lítið að berja í borðið
hjá forstjóranum finnist þeim þær órétti beittar á vinnu-
stað. „Gráturinn er öflugri til þess að tjá óánægju sína og
konur nota hann til þess að miðla reiði sinni. Hann er tákn
um að viðkomandi þarfnist hjálpar og stuðnings.“
Gráttu – það er heilbrigt
Reuters
Grátur Þegar manneskja upplifir eitthvað sorglegt,
verður fyrir missi eða finnur fyrir vanlíðan eru við-
brögð líkamans nánast sjálfvirk.
NÚ getur tedrykkjufólk heldur betur glaðst við þau vísindalegu tíðindi að
allt bendi til þess að tedrykkja vinni gegn streitu. Frá þessu er sagt á vef-
miðli The New York Times. Þó svo að slökun og tedrykkja hafi farið saman
í árhundruð hafa vísindalegar rannsóknir ekki fyrr verið gerðar til að
ganga úr skugga um þetta samhengi. Rannsóknir hafa hingað til aðallega
verið gerðar á dýrum en nýjustu rannsóknir á fólki benda til að eitthvert
sannleikskorn sé í þessu. Í rannsókninni kom í ljós að fullorðnir karlmenn
sem drukku svart te fjórum sinnum á dag í sex vikur, voru hvorki meira né
minna stressaðir en þeir sem drukku koffeinblöndu. En það voru merki um
að hinir fyrrnefndu væru fljótari að róa sig niður eftir stressáreitið. Þeir
sem tóku þátt í rannsókninni voru settir í stressandi aðstöðu og á meðan
var blóðþrýstingur þeirra mældur, hormónastarfsemi og aðrir streituþætt-
ir. Hópurinn sem drakk teið hafði mælanlega minna af cortisol stresshorm-
óni í blóði sínu klukkustund síðar. Fyrri rannsóknir sem gerðar hafa verið
á dýrum benda að einhverju leyti til róandi áhrifa í tei, en þó eru sannanir
enn af skornum skammti. En fyrrnefnd rannsókn á fólki hefur, þó í litlum
mæli sé, bent í þá átt að tedrykkja dragi úr streitu.
Reuters
Tedrykkja Þessar japönsku konur læra að drekka te að breskum sið.
Te gegn streitu