Morgunblaðið - 25.06.2007, Blaðsíða 30
30 MÁNUDAGUR 25. JÚNÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ Þórdís fæddistá Akureyri 24.
júní 1944. Hún lést
á Líknardeild LSH
17. júní 2007. For-
eldrar hennar eru
Einar Jónsson, bak-
arameistari, f.
1909, d. 1994, og
Hólmfríður Sigurð-
ardóttir, húsmóðir,
f. 1920. Systir Þór-
dísar er Margrét f.
1950.
Þórdís giftist ár-
ið 1965 Ástvaldi
Guðmundssyni, rafeindavirkja-
meistara, f. 1941. Foreldrar hans
eru Álfheiður Ástvaldsdóttir,
verkakona, f. 1918, og Guð-
mundur Ársæll Guðmundsson,
skipstjóri, f. 1921, d. 2002. Fóst-
urfaðir hans var Jóhann Ólafs-
son, verkamaður, f. 1916, d.
1983. Börn Þórdísar og Ástvald-
ar eru: 1) Hólmar, viðskiptafræð-
ingur, f .1967, kvæntur Ólu
Björk Eggertsdóttur, sálfræð-
ingi, f. 1969. Börn þeirra eru
Orri Þór, f. 1994, og Birna
Hrund, f. 1995. 2) Álfheiður,
tannlæknir, f. 1970, gift Halldóri
Birni Halldórssyni, grafískum
hönnuði, f. 1971. Börn þeirra eru
Dagur, f. 2000, og
Egill Birnir, f.
2005. 3) Ásgeir, líf-
fræðingur, f. 1981,
í sambúð með Kar-
ólínu Einarsdóttur,
líffræðingi, f. 1980.
Dóttir hennar er
Lilja Hrönn Fjöln-
isdóttir, f. 2000.
Þórdís ólst upp á
Akureyri og lauk
landsprófi frá
Gagnfræðaskóla
Akureyrar 1960.
Hún fluttist til
Reykjavíkur árið 1965 og hóf
þar búskap með eftirlifandi eig-
inmanni sínum. Þau fluttust til
Sauðárkróks árið 1968 og ráku
þar verslunar- og þjónustufyr-
irtæki um tuttugu ára skeið.
Auk þess starfaði Þórdís hjá
Landssíma Íslands, Kaupfélagi
Skagfirðinga og Bæjarskrifstofu
Sauðárkróksbæjar. Árið 1988
fluttust þau aftur til Reykjavíkur
og vann Þórdís störf tengd
launa- og starfsmannamálum,
lengst af á Borgarspítalanum og
síðar á Landspítala – háskóla-
sjúkrahúsi. Síðustu árin starfaði
hún á skrifstofu starfsmanna-
mála LSH.
Elsku Þórdís mín.
Mig langar að minnast þín með
þessu litla ljóði Davíðs Stefánsson-
ar.
Við sjáum að dýrð á djúpið slær,
þó degi sé tekið að halla.
Það er eins og festingin færist nær,
og faðmi jörðina alla.
Svo djúp er þögnin við þína sæng,
að þar heyrast englar tala,
og einn þeirra blakar bleikum væng,
svo brjóst þitt fái svala.
Nú strýkur hann barm þinn blítt og
hljótt,
svo blaktir síðasti loginn.
En svo kemur dagur og sumarnótt,
og svanur á bláan voginn.
Guð blessi þig, vina mín.
Þín
mamma.
Elsku stóra systir mín er dáin!
Ó, hvað ég vildi óska að ég væri
ekki að skrifa þessa grein!
Það er svo stutt síðan við töl-
uðum um allt sem við ættum eftir
að gera saman.
Við höfum reyndar ekki búið í
nágrenni hvor við aðra í mörg ár,
en við töluðum saman í síma tvisvar
til þrisvar í viku og við töluðum
lengi! símareikningarnir okkar bera
þess merki! Við ræddum allt milli
himins og jarðar og við fylgdumst
með öllu sem gerðist í lífi hvor ann-
arrar, gleði og sorgum.
Eftir að krabbameinið greindist
fyrir fjórum mánuðum vissum við
að tíminn yrði styttri en við höfðum
haldið en við vissum ekki að hann
væri útrunninn. Við reyndum samt
að nýta tímann vel og okkur tókst
að hittast fjórum sinnum áður en
yfir lauk.
Í gegnum tíðina hefur mér oft
fundist að ég hafi haft ástæðu til að
syrgja og ég hef spurt almættið að
því af hverju lífið sé svo erfitt.
En kannski er bara allt í lagi að
syrgja, það sýnir að ég hef elskað
og hver vill vera án þess. Kannski
er bara allt í lagi að gráta því að
tárin eru dropar minninganna og ég
vil ekki vera án þeirra.
Smátt og smátt munu tár mín
þorna og eftir verða minningar um
stóru systur mína sem ég elskaði og
dáði. Ég mun sakna hennar en ég
mun líka hlakka til að hitta hana
aftur þegar þar að kemur.
Hjartans Dísa mín!
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfin úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þ.S.)
Yndislega fjölskylda, mamma,
Ástvaldur, Hólmar, Heiða og Ás-
geir, makar og börn. Guð gefi ykk-
ur styrk í sorginni og megi minn-
ingarnar vera ykkar ljós í
framtíðinni.
Margrét Einarsdóttir.
Tengdamóðir mín, Þórdís Einars-
dóttir er látin. Það var í maímánuði
fyrir 17 árum sem ég hitti Dísu í
fyrsta skipti. Þá kom ég að norðan
til að hitta nýju kærustuna mína
heima hjá foreldrum hennar. Vit-
anlega var Heiða of sein á staðinn
og mátti ég sitja einn með því prýð-
isfólki sem seinna meir urðu
tengdaforeldrar mínir. Setan sú
reyndist auðveld enda var mér þá
þegar, sem og alltaf upp frá því,
tekið sem einum úr fjölskyldunni
þeirra Dísu og Itta. 10 árum seinna
var Dísa orðin að ömmu Dísu á
okkar heimili og það var alltaf jafn
gaman að fá hana í heimsókn, hvort
sem það var meðan við bjuggum
vestur í bæ eða eftir að við fluttum
til Svíþjóðar. Þessi ár sem liðin eru
frá vordeginum 1990 hafa borið
fjöldamargt í skauti sér, jafnt
ánægju sem erfiði, en alltaf var
Dísa til taks ef á þurfti að halda.
Við fráfall mömmu árið 1995 var
Dísa mér mikil stoð. Hún tók ekki
yfir hlutverk mömmu en hafði ein-
stakt lag á að halda minningu henn-
ar á lofti, þrátt fyrir að þær hafi í
raun lítið þekkst. Hún bara vissi
alltaf hvað var rétt að segja við
hvaða tækifæri sem var.
Ósanngirni heimsins virðast eng-
in takmörk sett og ekki er hægt að
skilja hvernig það geti verið amma
Dísa sé dáin. Hún bjó yfir svo ein-
stökum hæfileikum til að láta öðru
fólki líða vel. Hrósyrðin og hvatn-
inguna skorti aldrei frá henni og
vandvirknin (og kannski smámuna-
semin) náði jafnt til mannlegra
samskipta sem og allra annarra
verka. Ömmubörnin hennar voru
henni öll jafn kær og það verður
engin leið að fylla það skarð sem nú
hefur verið höggvið í tilveru þeirra.
Alltaf var hún jafn jákvæð gagnvart
þeim og hvatti þau, jafnt sem okkur
hin, til dáða í hverju því sem við
tókum okkur fyrir hendur. Henni
óx ásmegin með hverju árinu sem
leið, hún var mikils metin í starfi
sínu hjá LSH og ég veit að þessi
ljúfa kona gat sýnt röggsemi og
dug þegar þess gerðist þörf.
Við Dísa vorum bæði Þingeying-
ar og Akureyringar og gátum sem
slík gert öllum Skagfirðingunum í
fjölskyldunni það ljóst hversu miklu
betra veðrið og gróðurfarið væri í
Eyjafirði og í sveitunum austan
hans. En þrátt fyrir gorgeirinn vor-
um við innst inni jafn ánægð með
að hafa hitt hvort sinn Skagfirðing-
inn og nutum þess jafn mikið að
kynnast þeirri lífsglöðu og hlátur-
mildu fjölskyldu sem við urðum
hluti af. Ég veit að Dísa leit á það
sem eitt stórt lukkuspor að giftast
Ástvaldi og það er sárt að vita að
hún skuli ekki hafa fengið að vera
lengur hjá Itta sínum.
Elsku amma Dísa, við söknum
þín meira en nokkur orð fá lýst, en
vita máttu að þú gafst okkur öllum
svo ótal margt sem við getum
stuðst við í lífsbaráttunni framund-
an. Heimsóknunum þínum á Rom-
ansvägen munum við aldrei gleyma
en allra mest eigum við þó eftir að
sakna þess að bara fá þig í kaffi til
að heyra þig segja okkur hversu
gott sé að vera til. Þú kunnir það
betur en flestir aðrir.
Þú trúðir því að eftir þetta líf
tæki eitthvað annað við og ég vona
sannarlega að nú hafir þú fengið
það staðfest fyrir víst. Þú varst vön
að hafa rétt fyrir þér.
Þinn tengdasonur,
Halldór Björn.
Elsku amma. þú varst okkur svo
kær og góð. Alltaf að fylgjast með
okkur og hjálpa okkur. Þér þótti
svo vænt um okkur.
Við bjuggum á Þórshöfn á
Langanesi fyrstu ár ævinnar. Alltaf
komuð þið afi keyrandi úr bænum
til að sjá okkur og vera með fjöl-
skyldunni. Vegalengdin kom ekki í
veg fyrir að þú kæmir að hitta litlu
ömmubörnin, hjálpa til með afmæli
eða fara í ferðalög með okkur.
Svo fluttum við í Kópavoginn og
gátum verið enn meira saman. Við
vorum að byrja í skóla og það var
gott að eiga ömmu sem alltaf hafði
tíma fyrir börnin sín. Okkur þótti
svo gaman að fara með þér í hús-
dýragarðinn, í sund, í ísbúðina eða
að tína ber á haustin. Það var líka
svo gaman þegar við hjóluðum til
ykkar afa í Mýrarselið og fengum
pönnukökur eða annað góðgæti. Og
oft komuð þið afi keyrandi með
poka úr bakaríinu og sátuð og
spjölluðuð frameftir degi. Þú vildir
alltaf vita hvað við værum að gera
og hvernig okkur liði.
Þegar ákveðið var að við flyttum
til Minnesota vorum við kvíðin og
leið. En þið afi ákváðuð að hjálpa
okkur með því að vera í húsinu okk-
ar á meðan við byggjum í útlönd-
um. Þvílíkur greiði! Við gátum kom-
ið heim á sumrin og verið í okkar
herbergjum, okkar hverfi og leikið
okkur við vini okkar, allt undir
verndarvæng ömmu. Þetta var okk-
ur ómetanlegt. Og þú komst líka
margar ferðir til Minnesota og við
gerðum svo margt þar saman. Vor-
um í sumarhúsi á slóðum indíána,
sigldum á Mississippi, veiddum í
vötnunum, fórum í golf, skoðuðum
söfnin, fórum í leikhúsin, keyrðum
til Chicago, fórum á strendurnar,
versluðum í mollunum og fleira og
fleira.
En nú vorum við flutt aftur heim
í Kópavoginn, þið afi komin í nýja
íbúð í nágrenninu sem þú varst bú-
in að láta hanna svo skemmtilega
og þið afi byrjuð að gera upp sum-
arbústað fyrir fjölskylduna. Við
hlökkuðum öll til enn meiri sam-
verustunda. Veikindunum tókst þú
af einstökum styrk og hélst bara
áfram að hugsa um okkur, styrkja
og ráðleggja.
Elsku amma okkar, við söknum
þín svo mikið. Við munum aldrei
gleyma þér. Takk fyrir allt.
Orri Þór og Birna Hrund.
Elsku Dísa mín. Ég á svo bágt
með að trúa að þú sért búin að
kveðja þennan heim. Að lögð skyldi
á þig þessi erfiða barátta sem lauk
með þessum sorglega hætti get ég
aldrei skilið. Enginn á skilið að
þurfa að kveðja með þessum hætti,
og síst þú sem varst svo indæl og
góð. Líf þitt eins og annarra ein-
kenndist af sorg og gleði. Þú sagðir
mér oft að lífsgangan væri ekki
þrautalaus og það væru ýmsir erf-
iðleikar sem maður þyrfti að yf-
irstíga og ákvarðanir sem maður
þyrfti taka sem maður vildi helst
ekki þurfa að gera. Einhvern veg-
inn hef ég á tilfinningunni að hinsta
kveðja þín hafi verið það erfiðasta
sem þú hefur þurft að gera í lífinu
og ég get ekki ímyndað mér þá
miklu sorg sem henni fylgdi. Að
upplifa þig kveðja manninn þinn
sem þú sagðir mér að væri stoð og
stytta þín í lífinu, börnin þín sem þú
varst svo stolt af og barnabörnin
þín sem þú færð ekki sjá vaxa úr
grasi var svo sársaukafullt að engin
orð fá því lýst. Ég minnist þín með
einlægu þakklæti. Þú varst mér
ekki bara sem móðir heldur ynd-
isleg vinkona sem ég leitaði oft til
og á öxl þinni var svo gott að gráta.
Við áttum margar yndislegar
stundir saman, stundir sem nú eru
dýrmætar minningar um þig. Ég
minnist þín sem ótrúlega skemmti-
legrar og kátrar konu sem var allt-
af mikið gaman að vera nálægt og
hlátrasköll í matarboðum þínum
voru svo tíð að það var eins og þau
væru bara til siðs. Ég minnist ótal-
margra frásagna þinna sem oft á
tíðum voru bráðfyndnar en sumar
líka grafalvarlegar. Ég man sér-
staklega eftir sögunni þinni af
sjálfri þér lítilli þegar þú dast niður
um vök á Pollinum á Akureyri í
einni af þínum mörgum skautaferð-
um. Af eigin rammleik tókst þér
með undraverðum hætti að krafla
þig upp á skörina aftur og koma
þér heim, ísköld og blaut. Kannski
lýsir þessi saga hversu ákveðin og
kröftug þú varst og hve mikil bar-
átta skein af þér. Þú vissir einhvern
veginn alltaf hvernig þú vildir hafa
hlutina. Smekkur þinn var stíl-
hreinn en samt hlýr, kannski svolít-
ið eins og þú sjálf sem alltaf varst
svo hlý en líka svo hrein og bein í
öllu sem þú tókst þér fyrir hendur.
Það var alltaf hægt að reiða sig á
þig og þú varst alltaf tilbúin til að
leggja hönd á plóg. Ást þín og um-
hyggja fyrir fólkinu í kringum þig
var mikil. Þú tókst okkur Lilju
Hrönn opnum örmum og umvafðir
okkur hlýju og ást og leist á Lilju
Hrönn sem eina af þínum eigin
barnabörnum. Frá fyrsta degi var
hún farin að kalla þig ömmu.
Stundirnar ykkar saman voru ófáar
og eru henni ómetanlegar. Elsku
hjartans Dísa mín, ég kveð þig með
sárum söknuði og þakklæti fyrir
allt.
Nú er komin kveðjustund,
klukka þín hætt er að tifa.
Kvödd þú varst á friðarfund,
fögur þín minning mun lifa.
(Karólína)
Þín tengdadóttir
Karólína.
Á örskotsstund flugu mér í hug
þau 45 ár sem ég hef þekkt mág-
konu mína, Þórdísi Einarsdóttur, er
ég frétti lát hennar hinn 17. júní sl.
Ekki er hægt að segja að við höfum
verið í fararbroddi aðdáenda hvor
annarrar fyrst í stað, hún með sínar
fastmótuðu fyrirmyndarskoðanir en
ég uppivöðslusamur unglingur af
’68-kynslóðinni. Það leið þó ekki á
löngu þar til breyting varð á þessu
og við urðum mestu mátar og ég
fór að bera mikla virðingu fyrir
Dísu, en svo var hún jafnan kölluð,
vegna framkomu hennar og mann-
kosta. Þær eru ófáar ánægjustund-
irnar sem ég og síðan við hjónin og
fjölskyldan öll höfum átt með þeim
Dísu og Itta og fjölskyldu við ótal-
mörg tækifæri síðustu áratugina og
geymd verða í minningunni. Það er
ótrúlegt til þess að vita að kona í
blóma lífsins sem lifað hefur heil-
brigðu lífi skuli hljóta þann dóm að
falla fyrir svo óvægnum sjúkdómi á
svo stuttum tíma. Sagt er að vegir
Guðs séu órannsakanlegir og víst er
það að þegar maður stendur
frammi fyrir slíku þá verður manni
orðfall og skilur ekki hvað almættið
ætlast til með þessu öllu. En víst er
að öll él birtir upp um síðir og aftur
kemur vor í dal, þó að væntanlega
sé í lengra lagi í það hjá Ástvaldi
bróður mínum og fjölskyldu hans
allri. Þið elskulega fólk megið þó
aldrei missa sjónar á ljósinu í hin-
um enda ganganna því þangað náið
þið þó dimmt sé nú í hugum ykkar.
Yndisleg manneskja er horfin á
braut og leyst þrautunum úr, kæru
vinir, og við hjónin og fjölskyldan
öll biðjum þann sem öllu lífi og
dauða ræður að senda ykkur þann
styrk sem gerir ykkur kleift að yf-
irstíga þennan mikla missi.
Ólafur H. Jóhannsson,
Alda Valgarðsdóttir.
Ég var á heimleið frá flugstöðinni
í Keflavík þegar Hólmar hringdi og
sagði mér að mamma hans, hún
Dísa væri dáin. Þrátt fyrir að ég
vissi að hún berðist við illvígan
sjúkdóm hvarflaði ekki að mér að
ég fengi aldrei að hitta hana aftur.
Með nokkrum fátæklegum orðum
vil ég kveðja hana og þakka fyrir
ánægjuleg kynni og vináttu.
Kynni okkar hjóna við Dísu og
Itta hófust fyrir tæpum 40 árum
þegar við bjuggum í sama húsi á
Skagfirðingabrautinni. Þau bjuggu
á efri hæðinni og höfðu sama inn-
gang og þvottahús og við. Þrátt fyr-
ir nána sambúð í rúmt ár kom aldr-
ei upp neinn ágreiningur eða
leiðindi. Samkomulagið gat ekki
verið betra. Þarna myndaðist kunn-
ingsskapur og vinátta sem ekki
dvínaði með árunum.
Það var ýmislegt brallað á Skag-
firðingabrautinni. Við höfðum spila-
kvöld og spiluðum þá vist. Á þess-
um tíma höfðum við ekki síma né
sjónvarp. Það þótti ekki tiltölumál á
þeim árum. En Dísa og Itti höfðu
þau tæki. Oft var okkur boðið að
horfa á áhugavert efni í sjónvarp-
inu. Eitt lítið atvik frá þessum tíma
gleymist aldrei. Ég var einn heima
þegar Dísa kallaði í mig og spurði
hvort ég vildi ekki horfa á ensku
knattspyrnuna. Ég var nýbúinn að
setja vatn í pott til að hita mér í te.
Ég stóðst ekki mátið og stökk upp
og gleymdi pottinum. Þegar nokkuð
var liðið á leikinn kom Dísa sposk á
svipinn til mín og spurði; Varst þú
nokkuð að elda, Ingimundur? Ég
spratt á fætur og mundi á svip-
stundu eftir hvað ég hafði verið að
gera. Lyktin sem gaus á móti mér
sagði mér allt um það sem hafði
gerst. Ekkert vatn fékk ég í te og
pottræfilinn varð aldrei brúklegur
eftir þetta. Oft höfum við hlegið að
þessu atviki og ýmsu öðru sem
gerðist á Skagfirðingabrautinni.
Við Ragnheiður fórum í okkar
fyrstu utanlandsferð með Dísu og
Itta eftir landsmótið 1971 sem var
mjög eftirminnileg.
Eftir að við fluttum af Króknum
gistum við oft hjá þeim þegar við
komum í heimsókn og oft var litið
inn til þeirra í Reykjavík eftir að
þau fluttu suður.
Við síðustu heimsókn þeirra í
Borgarnes virtist allt leika í lyndi
og engin merki um það sem koma
skyldi.
Dísa var yndisleg manneskja,
hreinskiptin og hlý og hugsaði vel
um fjölskyldu sína börn og barna-
börn.
Við Ragnheiður þökkum fyrir
ánægjuleg kynni og vináttu. Minn-
ingin um Dísu mun ekki gleymast.
Ragnheiður tekur það nærri sér að
geta ekki fylgt henni síðasta spölinn
en hún er nú stödd erlendis.
Ég bið góðan Guð að styrkja þig,
Itti minn, Hólmar, Heiðu, Ásgeir,
móður og tengdamóður og aðra
fjölskyldumeðlimi í sorg ykkar.
Ingimundur Ingimundarson.
Þórdís Einarsdóttir
Samúðar og
útfaraskreytingar
Bæjarhrauni 2 • sími 565 0300
Hafnarfirði
LEGSTEINAR
Steinsmiðjan MOSAIK
Hamarshöfða 4 • 110 Reykjavík
sími 587 1960 • www.mosaik.is
Fleiri minningargreinar um Þór-
dísi Einarsdóttur bíða birtingar og
munu birtast í blaðinu næstu daga.