Morgunblaðið - 25.09.2008, Síða 12

Morgunblaðið - 25.09.2008, Síða 12
12 FIMMTUDAGUR 25. SEPTEMBER 2008 MORGUNBLAÐIÐ FRÉTTIR FRÉTTASKÝRING Eftir Guðna Einarsson gudni@mbl.is VEL viðraði til kornræktar í sumar og horfur eru á að kornuppskera verði mjög góð. Víða var þurrt framan af sumri en nú hafa rigningar tafið þreskingu á Suðurlandi. Talið er víst að kornrækt muni aukast á komandi árum. „Hafi einhvern tíma verið hagstætt að rækta korn þá er það nú, þrátt fyrir hækkað áburð- arverð,“ sagði Ólafur Eggertsson, bóndi á Þor- valdseyri og formaður Landssambands korn- bænda. „Verð á kjarnfóðri og kornvöru hingað til lands hefur hækkað um nálægt 100% á einu ári. Við þær aðstæður er kornræktin góður val- kostur. Ég trúi því að innlend fóðuröflun eigi bara eftir að aukast ef verð á fóðurvörum verð- ur svona áfram.“ Jónatan Hermannsson, tilraunastjóri á Korpu og lektor við Landbúnaðarháskóla Ís- lands, sagði að í heild hafi sumarið verið korn- ræktinni gott. Tvö óveður síðsumars voru þó til óþurftar en mjög misjafnt hvernig þau komu niður. Fyrra veðrið, 29. ágúst, kom á akrana óskorna og olli skaða á vesturhelmingi lands- ins. Það síðara, aðfaranótt 17. september, fór yfir landið allt og olli víða tjóni. Jónatan sagði að þá hafi töluvert af korni verið komið í hús. Ingvar Björnsson, ráðunautur hjá Búgarði á Akureyri, sagði að kornvöxtur hafi verið mjög góður í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Hann taldi að byggi hafi verið sáð í 600–700 hektara í vor og áætlaði að aukningin væri 15–20% frá fyrra ári. Ingvar taldi að þetta kornár hafi ver- ið svipað og árið 2004 sem var afskaplega gott. Nokkuð af korni tapaðist í hvassviðri eftir miðjan september. Ingvar taldi að bændur á hans svæði hafi verið búnir að þreskja ríflega helminginn þegar veðrið brast á. Um þriðjung- urinn af því sem eftir stóð, besta korninu sem komið var lengst, tapaðist. Ýmist brotnuðu öx- in af stönglunum eða kornið slóst úr öxunum. Þrátt fyrir það er góð meðaluppskera komin í kornhlöðurnar, að mati Ingvars. Bændur í um- dæmi Búgarðs fá að meðaltali 4½–5 tonn af korni af hverjum hektara. Af bestu ökrunum fást yfir 6 tonn af þurru korni á hektara. Landsuppskeran hefur verið að meðaltali 3,2– 3,3 tonn. „Ég á von á að þetta aukist verulega á næstu árum,“ sagði Ingvar um kornræktina. Ólafur á Þorvaldseyri sagði að mikil bleytu- tíð í september hafi tafið þreskingu á Suður- landi. Svo mikið hefur rignt að síga þarf úr ökr- unum í einn til tvo daga svo hægt sé að fara um þá á þreskivélum. „Auðvitað sér á korninu, það hallar töluvert en fáum við blástur og þurrk í nokkra daga verður hægt að skrapa þetta upp að mestu leyti. Þetta er ekkert tapað,“ sagði Ólafur. Horfur á góðri kornuppskeru í ár  Bændur á Suðurlandi bíða þurrks til að geta þreskt kornið  Óveður eyðilagði um þriðjung korns sem var óþreskt fyrir norðan  Kornræktin er mjög hagstæð nú í ljósi nær 100% hækkunar á innfluttu fóðri Morgunblaðið/Helgi Bjarnason Akuryrkja Ólafur Eggertsson á Þorvaldseyri bíður nú eftir þurrki til að geta þreskt. Í HNOTSKURN »Vitað er að landnámsmenn fluttumeð sér korn til sáningar hingað til lands og ræktuðu bygg. »Mörg örnefni á borð við Akur, Akra-nes og Akureyri bera akuryrkju til forna vitni. Orðin „gerði“ og „tröð“ í ör- nefnum bera kornrækt einnig vitni. »Kornleifar hafa m.a. fundist viðfornleifauppgröft á Bergþórshvoli í Landeyjum og Gröf í Öræfum. »Talið er að kornuppskera hafi aldreiorðið mikil hér á öldum áður og korn var löngum dýr munaðarvara. Inn- flutningur korns jókst mjög eftir alda- mótin 1300 og verðið lækkaði. NEMENDUR allra 6. bekkja grunnskólanna á Akureyri fara í siglingu með trébátnum Húna II nú í haust, þar sem segja má að fram fari verkleg kennsla um lífið í hafinu auk þess sem þau eru frædd um fiskveiðar í gegnum tíðina. Krakkar úr Síðuskóla fór í gærmorgun í þessa þriggja klukkustunda kennslustund í nágrenni höfuðstaðar Norðurlands með skip- inu glæsilega, ásamt kennurum. Lengst til vinstri skoða Sól- dís og Daníel hauskúpu af höfrungi, sem Hreiðar Þór Valtýs- son fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun og Háskólanum á Akureyri sýndi þeim. Í ferðinni fá krakkarnir alltaf að veiða á stöng og smakka grillaðan fisk, sem flestir sporðrenndu með bestu lyst í gærmorgun. Á myndinni í miðjunni er Atli Rúnar stoltur með kola sem hann veiddi og það er Aldís Eir sem stendur við hlið hans. Til hægri kennir Elli P, Elís Pétur Sigurðsson, Thelmu Björk réttu handtökin með veiðistöngina. Ungur nemur, gamall temur um borð í Húna II Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson Verkleg líffræðikennsla úti á sjó ADHD, athyglisbrestur og ofvirkni, er mun flóknara ástand hjá fullorðnu fólki, sem greinist með sjúkdóminn, en hjá börnum. Þetta segir Grétar Sigurbergsson, geðlæknir og réttar- geðlæknir. Hann er meðal fyrirles- ara á ráðstefnu um ADHD sem hald- in er á Hilton-hóteli í dag og á morgun. Mikill áhugi er á ráðstefn- unni og hafa um 500 manns skráð sig á hana. Fyrirlesarar eru bæði inn- lendir og erlendir. Grétar kynntist ADHD eftir að hann fór að læra réttargeðlæknis- fræði fyrir um fimmtán árum. Hann tók við stöðu yfirlæknis á Sogni og fór í sambandi við það að vinna í fangelsum og lesa sér til um fangels- islækningar. „Þá las ég meðal ann- ars í greinum að helmingur karla í fangelsum í Svíþjóð og Bandaríkj- unum væru með ADHD,“ segir hann. Eftir að hann fræddist meira um ADHD hjá fullorðnum komst hann að því að sumir sjúklinga hans reyndust vera með ADHD og voru það gjarnan þeir sem glímdu við mestu erfiðleikana. Grétar segir að mun erfiðara sé að greina ADHD hjá fullorðnu fólki. Þá séu líka yfirleitt komnar til fylgi- raskanir eða sjúkdómar sem bætast ofan á ADHD. Fullorðið fólk með sjúkdóminn sé margfalt líklegra en aðrir til að lenda í vímuefnaneyslu og fá alvarlega þunglyndis- og kvíða- sjúkdóma. Þetta geri m.a. að verkum að erfitt sé að greina sjúkdóminn. Alhliða meðferð er veitt við ADHD. Bæði við sjúkdómnum sjálf- um og við ýmsum fylgikvillum hans, svo sem vímuefnameðferð og sálræn meðferð hjá þeim sem þjást af kvíða eða þunglyndi. Grétar leggur áherslu á að ekki sé allt sem tengist ADHD neikvætt. „ADHD er ástand sem getur bætt lífsgæði fólks, sérstaklega ef það er meðhöndlað,“ segir hann. Fólk með ADHD sé oft afburða fólk í sam- félaginu sem njóti vinsælda. Það þyki skemmtilegt, enda fljótt að hugsa og hugmyndaríkt. „Margir af mikilmennum sögunnar eru taldir hafa verið ofvirkir og þess vegna stórtækir og djarfir og fá hugmyndir sem aðrir fá ekki.“ elva@mbl.is Fullorðnir eru líka ofvirkir Fjölsótt ráðstefna um ADHD hefst í dag Eftir Andra Karl andri@mbl.is „ÞETTA er miklu meira en við bjuggumst við,“ segir Magnús Hans Magnússon, annar eigenda Hvera- orku ehf., en fyrirtækið hefur staðið fyrir borun til að ná upp heitu vatni í Hveravík við norðanverðan Stein- grímsfjörð. „Við höfum verið að bora þarna undanfarnar vikur með hléum og það er búið að bora niður á 312,5 metra dýpi. Við vitum að holan gefur í það minnsta 40–50 lítra á sekúndu af heitu vatni. Vatnið er núna komið í um 76° en búið er að dæla miklu magni af köldu vatni niður í holuna þannig að hún á eftir að hitna heil- mikið.“ Hitaveita á Hólmavík draumur Holan var skáboruð og var ætlunin að skera jarðhitasprunguna ekki dýpra en í um 270–300 metrum. Árni Kópsson boraði holuna, með jarð- bornum Jökli, og verkefnisstjóri af hálfu Íslenskra orkurannsókna var Haukur Jóhannesson. „Þetta lítur vel út og hefur gengið alveg eftir for- skrift Hauks,“ segir Magnús en tek- ur fram að dælt verði upp úr holunni í þessari viku, og þá komi í ljós hversu heit hún raunverulega er. Magnús segir draum sinn og Gunnars Jóhannssonar, hins eiganda Hveraorku, vera að koma hitaveitu til Hólmavíkur. „En við erum ekki farn- ir að ræða við neina forsvarsmenn, til dæmis Strandabyggðar. Við fengum verkfræðistofu til að spá fyrir okkur í vatnsþörf Hólmavíkur og hún er áætluð 15 lítrar á sekúndu.“ Ásdís Leifsdóttir, sveitarstjóri í Strandabyggð, segist áhugasöm um verkefnið en það hafi ekki verið rætt innan sveitarstjórnar. Kostnaðurinn skipti mestu máli, segir hún og tekur fram að Hólmvíkingar greiði ekki svo mikið meira fyrir heita vatnið en höf- uðborgarbúar. Hún reiknar með við- ræðum á næstu vikum. Nóg af heitu vatni í Hveravík Hveravík Borinn Jökull hefur verið fundvís á heitt vatn á svæðinu.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.