Morgunblaðið - 12.10.2008, Side 6
6 SUNNUDAGUR 12. OKTÓBER 2008 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Eftir Helga Bjarnason
helgi@mbl.is
„ÞETTA var orðin spurningin um að
gera þetta eða hætta. Það var ann-
aðhvort – eða. Ef við hefðum ekki
byggt upp hefði orðið að draga
smám saman úr starfseminni,“ segir
Björn Sveinsson, hrossabóndi á
Varmalæk í Skagafirði. Björn og
sambýliskona hans, Magnea K. Guð-
mundsdóttir, hafa byggt glæsilega
aðstöðu fyrir hrossarækt sína og
ferðaþjónustu; hesthús og reiðhöll
sem þau nefna Hrímnishöllina.
„Ég var með lítið og gamalt hest-
hús og þurfti að breyta til. Aðstæður
eru orðnar gjörbreyttar frá því sem
áður var. Nú þarf að vera hægt að
temja allt árið. Við ákváðum að
byggja upp frá grunni,“ segir Björn.
Húsið reis á skömmum tíma. Fyrsta
skóflustungan var í lok september á
síðasta ári og húsið tekið í notkun í
júní. Fyrsta sölusýningin í húsinu
var síðan haldin á föstudaginn fyrir
Laufskálarétt í haust.
Í Hrímnishöllinni og á velli fyrir
utan hana er góð vinnuaðstaða til
tamninga og umhirðu hestanna. Þar
er einnig aðstaða til að taka á móti
ferðahópum. Björn tók á sínum tíma
þátt í að þróa vinsæla hestasýningu,
„Til fundar við íslenska hestinn“,
sem lengst af var á Vindheimamel-
um á sumrin. Nú hafa þau keypt
þessa sýningu og eiga nú möguleika
á að bjóða upp á hana í Hrímnishöll-
inni allt árið. Hestasýningarnar eru
aðeins dæmi um þá möguleika sem
Björn og Magnea sjá í Hrímnishöll-
inni og hyggjast þróa í framtíðinni.
Vill vera sjálfs síns herra
Bygging mannvirkis eins og
Hrímnishallarinnar er mikið átak
fyrir einstaklinga, eins og Björn og
Magneu. Þau undirbjuggu fram-
kvæmdina vel og unnu eins mikið í
henni sjálf og hægt var. „Maður fer
ekki út í svona framkvæmd nema
vera bjartsýnn og ákveðinn,“ segir
Björn og Magnea bætir við: „Við
höfðum óbilandi trú á því að við gæt-
um gert þetta. Við vorum svo heppin
að bankastofnun hér í Skagafirði
hafði trú á verkefninu og mikilvægi
þess fyrir Skagafjörð og vildi taka
þátt í því með okkur,“ segir Magnea.
Mikið er um að fjársterkir menn,
innlendir og erlendir, kaupi jarðir og
byggi upp aðstöðu, stundum í sam-
vinnu við hrossaræktendur og tamn-
ingamenn. Björn segir að slík sam-
vinna hafi sums staðar komið vel út
og verið til góðs fyrir sveitirnar en
telur að það henti sér ekki. „Ég held
að ég sé orðinn of gamall til að setja
mig í þannig stöðu. Ég þrífst á því að
vera sjálfs míns herra í hrossarækt-
inni. Þegar aðrir eru komnir með
meirihlutann ræður maður ekki
lengur. Það hlýtur að vera meira
hvetjandi fyrir okkur að láta rekst-
urinn ganga þegar við berum alla
ábyrgðina sjálf. Við stöndum og föll-
um með þessu,“ segir Björn.
Með góðan efnivið
Björn og Magnea segjast lítið hafa
orðið vör við samdrátt vegna efna-
hagslægðarinnar margumtöluðu.
„Ég er bara brattur. Við erum með
góðan efnivið og fullt af hrossum til
sölu. Það skiptir mestu máli að vera
með fyrsta flokks hross því góð
hross seljast alltaf en meðalhross og
léleg síður. Ég hef haft þá stefnu að
vera frekar með fáar hryssur en góð-
ar í uppeldinu. Mér finnst vera fram-
farir í hrossaræktinni hér,“ segir
Björn.
Hrossaræktin á Varmalæk stend-
ur á gömlum merg. Björn starfaði
með föður sínum, Sveini Jóhanns-
syni, frá unga aldri. „Pabbi var alltaf
með mörg hross. Ég byrjaði snemma
að rækta sjálfur,“ segir Björn.
„Það er stórkostlega skemmtilegt
að vinna við það sem manni finnst
skemmtilegt og sjá hvernig þetta
þróast. Það fylgir því spenna að æxla
saman mismunandi einstaklinga og
sjá hvað út úr því kemur. Heppnin
spilar þar líka mikið inn í,“ segir
Björn.
Möguleikar til framtíðar
Björn Sveinsson og Magnea Guðmundsdóttir á Varmalæk leggja allt undir til að
skapa sér góða aðstöðu til að sinna vinnunni sem jafnframt er aðaláhugamálið
Góð aðstaða Hrímnishöllin er ekki einungis hönnuð sem hesthús og reiðhöll heldur er þar hugsað fyrir móttöku
gesta. Þetta er vinnustaður Björns Sveinssonar hrossabónda.
Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
LAUFSKÁLARÉTTARHELGIN í
Skagafirði hefur sérstaka þýðingu í
huga Magneu Guðmundsdóttur og
Björns Sveinssonar. Ekki eingöngu
vegna þeirrar hátíðar hesta-
áhugafólks sem hún er, heldur
vegna þess að stóðréttirnar leiddu
þau saman.
Magnea er Vestfirðingur. Var
búsett á Flateyri þar sem hún var í
hreppsnefnd og síðar í bæjarstjórn
Ísafjarðarbæjar. Hún varð þjóð-
þekkt á einum sólarhring, sem odd-
viti, þegar snjóflóðin féllu á byggð-
ina á Flateyri haustið 1995.
Magnea er úr sveit og hefur allt-
af haft áhuga á hestum. Það var þó
að frumkvæði systur hennar sem
hún lagði land undir fót og fór í
Laufskálarétt haustið 2000. Þau
Björn rugluðu reytum saman árið
eftir þegar Magnea flutti að
Varmalæk.
Hestarnir
leiddu þau
saman
Saman Magnea Guðmundsdóttir og
Björn Sveinsson standa í stórræðum
á Varmalæk.
NAFN reiðhallarinnar á Varmalæk er til heiðurs miklum gæðingi sem tengist nafni Björns
Sveinssonar ávallt, Hrímni frá Hrafnagili.
Hugmyndin að höllin bæri nafn Hrímnis kom upp á byggingartímanum en Björn og
Magnea voru ekki sérstaklega að hugsa um það. Þau ákváðu heitið skömmu fyrir opnunina
í júní. „Ég taldi nafnið við hæfi. Þetta eru tveir tímamótaatburðir í mínu lífi, tilkoma
Hrímnis á sínum tíma og síðan Hrímnishallarinnar,“ segir Björn.
Hrímnir frá Hrafnagili var einn fegursti og mesti gæðingur Íslandssögunnar. Björn eign-
aðist Hrímni með föður sínum 1980 og síðar alfarið og þeir fylgdust að allt tíð, þangað til
Hrímnir var felldur á síðasta ári, 32 vetra. Ekki er þó langt á milli þeirra því hesturinn var
heygður undir húsveggnum á Varmalæk. „Hrímnir kom mér á framfæri sem hestamanni.
Það vissu allir áhugamenn um íslenska hestinn, hvar sem er í heiminum, hver Hrímnir var
og ég fékk stundum að fljóta með,“ segir Björn.
„Hrímnir kom mér á framfæri“
Eftir Guðna Einarsson
gudni@mbl.is
EINS og málum er komið er brýnt að leita eft-
ir láni og aðstoð hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum
(IMF), að mati Ólafs Ísleifssonar, hagfræðings
og kennara við Háskólann í Reykjavík. Hann
sat í framkvæmdastjórn sjóðsins á árunum
2002 til 2003.
Óski Ísland eftir aðstoð IMF gerir Ólafur
ráð fyrir að sérfræðingar frá sjóðnum muni að-
stoða við gerð efnahagsáætlunar sem hafi að
markmiði að leggja traustan grundvöll að stöð-
ugleika og endurreisn íslensks efnahagslífs.
Áætlunin muni fela í sér aðgerðir sem studdar
verði fé frá sjóðnum. Hugsanlega geti aðkoma
sjóðsins dregið fleiri lánveitendur að borðinu
sem telji sér kleift að lána hingað fé í krafti
þess að IMF geri það.
Sendinefndir IMF hafa framkvæmt árlega
skoðun á efnahagslífinu hér í samræmi við eft-
irlitshluverk sjóðsins. Óski Íslendingar eftir
láni IMF mun sjóðurinn koma hingað í öðru
hlutverki, það er sem lánveitandi og ráðgjafi.
Ólafur segir það sérstaklega
athyglisvert að í nýjustu
skýrslu sendinefndar IMF
frá því í júlí síðastliðnum
komi fram að langtíma-
horfur Íslendinga í efna-
hagsmálum séu „öfunds-
verðar“.
„Það er ljóst að sjóðurinn
telur hér mjög góðan grund-
völl til þess að byggja á,“
sagði Ólafur. „Ég geri ráð
fyrir að efnahagsáætlun sem yrði samin í sam-
vinnu við íslensk stjórnvöld tæki mið af þessu
áliti sjóðsins sem hann hefur lýst skýrt og
skorinort í mjög vandaðri skýrslu.“ Skýrslan
var nýlega rædd í framkvæmdastjórn IMF.
Ólafur telur að í fyrsta lagi muni IMF leggja
hér drög að nýrri stefnu í gjaldeyris- og pen-
ingamálum. Hún muni leysa af hólmi þá stefnu
sem fylgt hefur verið frá því 2001 með fljótandi
krónu og verðbólgumarkmiði. Sú tilraun hefur
mistekist að mati Ólafs líkt og hrun krónunnar
ber vitni um.
„Ný skipan í gjaldeyris- og peningamálum
þarf að vera studd raunhæfri stefnu í fjár-
málum ríkisins,“ sagði Ólafur. „Ég geri ekki
ráð fyrir að af hálfu sjóðsins verði af okkur
krafist annars en þess sem nauðsynlegt og
skynsamlegt er að gera við þessar aðstæður.
Auk þess geri ég ráð fyrir því að þessi áætlun,
studd lánsfé sjóðsins, geti laðað aðra að sem
þátttakendur í þessu verkefni. Niðurstaðan
gæti orðið sú að Íslendingar muni leggja
grundvöll að leið út úr þessum vanda í sam-
starfi við alþjóðlegar stofnanir og fleiri erlenda
aðila. Mér sýnist þetta vera í vændum. Slík
efnahagsáætlun fyrir Ísland gæti orðið fyr-
irmynd fyrir önnur lönd í okkar heimshluta
sem kynnu að rata í sambærilega stöðu.“
Ólafur telur að raunhæf áætlun um að rata
út úr efnahagsvandanum, studd lánsfé IMF og
fleiri, geti orðið fyrsta skrefið til þess að end-
urheimta traust á íslensku efnahagslífi.
„Ég tel víst að frumskilyrði af hálfu sjóðsins
og annarra verði að af hálfu ríkissjóðs verði að
fullu staðið við skuldbindingar sem hann hefur
stofnað til í útlöndum,“ sagði Ólafur.
Brýnt að leita eftir aðstoð IMF
Ólafur Ísleifsson hagfræðingur telur að verði leitað til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) muni fleiri lán-
veitendur koma að borðinu Líklega lagður grunnur að nýrri stefnu í gjaldeyris- og peningamálum
Ólafur Ísleifsson
hagfræðingur
Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
kom í árlega eftirlitsferð á liðnu sumri.
Í skýrslu hennar kom fram að
langtímahorfur Íslands í efnahagsmálum
væru öfundsverðar. Einnig að Seðlabanki
Íslands eigi áfram að fylgja aðhalds-
samri stefnu í peningamálum. Nauðsyn-
legt sé að efna fyrri loforð um end-
urbætur á Íbúðalánasjóði. Beita þurfi
aðhaldi í ríkisfjármálum. Ríki og sveit-
arfélög þurfi að hægja á mikilli aukningu
sem ráðgerð var í fjárfestingum hins op-
inbera. Bent er á að styrkja þurfi fjárlag-
arammann.
Sendinefndin benti á verulega áhættu-
þætti varðandi bankageirann. M.a. taldi
hún að styrkja þyrfti viðbragðsáætlun
vegna bankanna með því að veita Fjár-
málaeftirlitinu auknar lagaheimildir.
Bentu á áhættuna