Morgunblaðið - 12.10.2008, Side 30
30 SUNNUDAGUR 12. OKTÓBER 2008 MORGUNBLAÐIÐ
Eftir Guðna Th. Jóhannesson
N
ú fáiði að borga fyrir
þorskastríðin. Von-
andi frjósiði í hel í vet-
ur. Þið eigið það skilið,
helvítis þjófarnir ykk-
ar.“ Þessar bölbænir í tölvupósti til ís-
lensks fjölmiðils í vikunni lýsa því
kannski vel hvernig þeim Bretum,
sem lögðu sparifé sitt inn á Icesave-
reikning, líður þessa dagana. Þær
hótanir breskra ráðamanna að lög-
sækja íslenskra ríkið, svo ekki sé
minnst á beitingu laga sem eiga að
öllu jöfnu við um hryðjuverkamenn,
sýna líka þá hörku sem er hlaupin í
samskipti Íslands og Bretlands. Og
sannast sagna hafa þau ekki alltaf
verið vinsamleg.
Í ljósi þeirra efnahagshamfara sem
nú geysa er nærtækt að minnast
fyrst á kreppuna miklu og eftirköst
hennar á fjórða áratug síðustu aldar.
Íslendingar lentu þá í miklum
hremmingum og leituðu lánsfjár er-
lendis, meðal annars í London, há-
borg viðskiptanna í Evrópu á þeim
árum. En það skilaði litlu sem engu.
„Ríkisstjórn Íslands á enga aðstoð
skilið frá okkur,“ sögðu breskir dipló-
matar.
Svo kom stríðið og bjargaði efna-
hag Íslands. Við hernám Breta 1940
og varnarsamning við Bandaríkin ár-
ið eftir hvarf atvinnuleysi í landinu.
Íslendingar sigldu auk þess með fisk
til Bretlands, seldu hann þar dýru
verði því engin var samkeppnin, og
söfnuðu digrum sjóðum. Á sama tíma
voru breskir togarasjómenn, sem
höfðu sótt á Íslandsmið í um hálfa öld,
að berjast á vígvöllum stríðsins.
Þó ótrúlegt sé tókst Íslendingum
að sólunda stríðsgróðanum á nokkr-
um árum. Aftur var nauðsynlegt að
leita á náðir útlendinga, meðal annars
í London. Þeir voru þá til sem sögðu
að smáþjóðin í norðri mætti éta það
sem úti frýs. Einn embættismaðurinn
rifjaði upp að snemma í stríðinu hefði
verið ráðist á íslenskan togara á leið
til Bretlands, Íslendingar hefðu hótað
að hætta öllum siglingum og þeim
hefði aðeins snúist hugur þegar
breskir ráðamenn buðu enn hærra
verð fyrir aflann, nauðugir viljugir.
„Aðstoð til þeirra sem haga sér svona
er til einskis nýt,“ sagði hann. „Þeir
eru alls engir vinir í raun og græðgi
þeirra á sér engin takmörk.“
Íslendingar gátu vissulega bent á
að þeir færðu sínar fórnir í stríðinu.
Sjómenn létu lífið í árásum Þjóðverja,
fimmta hverjum togara var sökkt og
nær helmingi kaupskipaflotans.
Raunin var enda sú að íslenskir ráða-
menn voru bænheyrðir í þetta sinn.
Kalda stríðið var hafið og Íslendingar
og Bretar voru bandamenn í þeirri
baráttu. Sumarið 1949 fékk íslenska
ríkisstjórnin lán í London, fyrst allra
erlendra stjórna eftir stríðið.
Stuttu síðar nöguðu Bretar sig
kannski í handarbökin. Frá árinu
1901 höfðu Íslendingar búið við
samning Bretlands og Danmerkur
um þriggja sjómílna lögsögu um-
hverfis landið en nú hófst landhelg-
isbaráttan fyrir fullri alvöru. Árið
1952 lýstu íslensk stjórnvöld yfir fjög-
urra mílna landhelgi. Breskir útgerð-
armenn og sjómenn brugðust ókvæða
við og nutu þegjandi stuðnings ráða-
manna í London. Sett var lönd-
unarbann á ísfisk frá Íslandi og þær
efnahagsþvinganir hlutu að virka því
breski markaðurinn var afar mik-
ilvægur. Þegar bannið hafði verið í
gildi í nokkra mánuði skrifaði starfs-
maður Englandsbanka að „við erum
með kverkatak á Íslendingum (og
getum gengið af þeim dauðum áður
en langt um líður)“.
En þegar neyðin er stærst er
hjálpin næst. Íslenskir ráðamenn leit-
uðu nýrra markaða og fundu þann
mikilvægasta þar sem þess var
kannski síst að vænta því Sovétríkin
buðust til að kaupa sjávarafurðir fyrir
olíu og ýmsar vörur. Fyrst eftir stríð-
ið höfðu Sovétmenn átt í viðskiptum
við Íslendinga en hættu því snarlega
þegar kalda stríðið var komið í al-
gleyming og pólitískar ástæður réðu
líka mestu um það að þeir ákváðu að
taka upp þráðinn á nýjan leik. Vald-
hafar í Moskvu vildu auka áhrif sín
hér á landi og efla andstöðu við
Bandaríkin og NATO. Það skipti ís-
lenska ráðamenn þó litlu í hita leiks-
ins. Mest um vert var að lönd-
unarbannið beit ekki lengur og árið
1956 neyddust Bretar til að gefa eftir.
Næsta lota hófst tveimur árum síð-
ar þegar lögsagan var færð út í 12
mílur. Þá vissu breskir valdhafar af
biturri reynslu að löndunarbann
myndi litlu skila og því urðu þeir að
bregðast öðru vísi við. Sumarið 1958,
þegar útfærslan var í vændum, sagði
breski sendiherrann í Reykjavík vel
koma til greina að frysta allar eigur
Íslendinga í breskum bönkum. Svo
fór ekki en Bretar sendu herskip á
miðin til að verja togara sína og tókst
það sæmilega. Þeir gátu þó ekki beitt
öllu afli og það fór í taugarnar á sum-
um þeirra, til dæmis sendiherranum
hér sem lagði til að Gullfoss, flagg-
skip Íslendinga, yrði kyrrsettur næst
þegar hann kæmi í breska höfn, og
flugvélar Íslendinga sömuleiðis.
„Hvað lögfræðingarnir hafa að segja
um þetta má guð vita,“ bætti hann
við, „en ég vona bara að eins og sakir
standa þurfum við ekki að fara í öllu
eftir lagabókstafnum“.
Þessu fyrsta þorskastríði lauk árið
1961 með samningi bresku rík-
isstjórnarinnar og viðreisnarstjórn
Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks
sem kvað meðal annars á um það að
risi aftur ágreiningur um útfærslu
fiskveiðilögsögunnar mætti skjóta
honum til Alþjóðadómstólsins í Haag.
Bretar mátu þetta ákvæði mikils og
því urðu þeir bæði reiðir og undrandi
áratug síðar þegar ný ríkisstjórn á Ís-
landi ákvað að hunsa samninginn með
öllu. Forsvarsmenn viðreisnarflokk-
anna höfðu áður sagt að þannig hög-
uðu „siðaðar þjóðir“ sér ekki og
breskir embættismenn rifjuðu seinna
upp að þeir hefðu spurt sig í for-
undran: „Er ekki að marka orð og
gerða samninga við Íslendinga?“
Sagan hefur sýnt að Bretar hafa
ekki alltaf verið barnanna bestir í
samskiptum við önnur ríki og íslensk
stjórnvöld höfðu ýmislegt til síns
máls. En þannig hófst annað þorska-
stríðið árið 1972 þegar fiskveiði-
lögsagan var færð í 50 mílur. Aftur
komu herskip á miðin en í þetta sinn
beittu varðskipin klippunum frægu
þannig að leikurinn jafnaðist á mið-
unum. Sumir í breska stjórnkerfinu –
svo ekki sé minnst á togarakarlana –
vildu svara með því að hertaka og
jafnvel sökkva varðskipunum en
staða alþjóðamála leyfði það ekki.
Þróun hafréttar var Íslendingum í vil
og Bretar gátu ekki beitt öllu afli
gegn bandalagsþjóð í NATO. Aftur
urðu þeir að gefa eftir en náðu reynd-
ar málamiðlun um stundarsakir.
Staðan var svipuð í síðasta þorska-
stríðinu 1975-1976 þegar lögsagan
varð 200 mílur og breski sjóherinn
sigldi norður á bóginn eina ferðina
enn. Í þetta sinn kom til harkalegra
árekstra á miðunum og íslensk
stjórnvöld slitu stjórnmálasambandi
við Bretland. Þetta var og er eins-
dæmi í samskiptum tveggja NATO-
ríkja. Bretum gramdist auðvitað að
Íslendingar beittu „NATO-vopninu“
á þennan hátt en þeir urðu að játa sig
sigraða. Hernaðarmikilvægi Íslands
var það mikið.
Úthafsveiðar Breta liðu nær alveg
undir lok. Togarabæirnir Grimsby,
Hull og Fleetwood urðu ekki svipur
hjá sjón. Þessum lyktum hafa sumir í
Bretlandi ekki gleymt eins og nýliðn-
ir atburðir sýna. Hvort hefnd þeirra
verður sæt kemur í ljós.
Ljósmynd/Friðgeir Olgeirsson
Þorskastríð Freigátan Leander kemur öslandi upp að bakborðssíðu Þórs í þorskastríðinu vegna útfærslu landhelginnar í 200 mílur.
Vinaþjóðir?
Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
Mótmæli Íslendingar mótmæla atgangi Breta á Íslandsmiðum árið 1976 og segja þeim að koma sér heim til drottn-
ingar. Á skiltinu er mynd af breskri freigátu og varðskipinu Ægi, til að sýna stærðarmun skipanna.
Sagan hefur sýnt að
Bretar hafa ekki allt-
af verið barnanna
bestir í samskiptum
við önnur ríki
Samskipti Bretlands og Íslands á liðnum árum
Höfundur er lektor við
Háskólann í Reykjavík