Skinfaxi

Árgangur

Skinfaxi - 01.12.1996, Blaðsíða 5

Skinfaxi - 01.12.1996, Blaðsíða 5
Enn á ný er aðventan orðin að staðreynd og jólin nálgast. Þetta tímabil í árinu hefur tekið á sig sérstakan blæ og yfirbragð. Mörgum finnst það ýti skammdegismyrkrinu til hliðar, skapi hlýju og ljós mitt í öllu myrkrinu þegar dagurinn er hvað stystur. Þetta tímabil í kirkjuárinu bendir á þann sem kemur, enda þýðir orðið aðventa, sem komið er úr latinu, koma. Og sá sem kemur kemur í allri hógværð, hann hefur ekki háreysti á strætum, og brákaðan reyrinn brýtur hann ekki. Um þann sem kemur til sinna manna hafði verið spáð nærri átta hundruð árum fyrir fæðingu hans. Þá flutti Jesaja spámaður fram orðin um hann er segja: „Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Hann skal kallast undraráðgjafi, guðhetja, eilífðarfriður, friðarhöfðingi. En einmitt þegar við svo mörg fögnum því að ljósið er að koma í heiminn, ljósið sem ýtir öllum skuggum frá, dimmdi um stund hjá ykkur, kæru vinir, sem kveðjið hann Bjarna hinstu kveðju. En einmitt sá sem kemur til sinna manna á aðventu vill taka í hönd ykkur nú sem endranær og leiða ykkur, okkur öll, inn í ljósið sitt. Hér má spyrja. Hefur nokkur tíma til þess að hugleiða komu Jesúbarnsins, boðskap hans um kærleikann, mitt í öllum jólaönnunum. Mega uppteknir íþróttamenn vera að því að hugleiða komu hans, hver hann er, sem boðar komu sína í heiminn á aðventu eða jólaföstunni eins og við áður fyrr nefndum aðventuna? Gefum við boðskapnum örlítinn tíma nú, eða á sjálfum jólunum? Göngum við til kirkju og tökum frá tíma fyrir hann, og hlýðum á boðskap hans í tónum og tali? Einhvern veginn er það nú þannig að allir þeir sem einu sinni leggja leið sína í kirkju á jólum, gera það aftur. Reyndar finnst mjög mörgum jólin ekki vera jól, nema hafa einhvern tíma um jólin átt stund í því húsi sem helgað er þeim sem kemur til sinna manna, á aðventu og jólum. Fleiri og fleiri virðast gera sér grein fyrir því, að einhvern tíma þurfum við að nema staðar, í hraða og spennu nútíma lífs. Jafnvel mjög góð kirkjusókn að undanförnu bendir til þess að fólk vilji nema staðar um stund, hugleiða hvað lífið er, hver sé tilgangur þess, mark og mið. Já, þrátt fyrir miklar annir viljum við öll innst inni nema staðar um stund, eiga með okkur sjálfum friðsæla stund. Já, jafnvel meistaraflokkur í einni grein íþrótta bað undirritaðan fyrir nokkrum misserum að koma og eiga með liðinu bænastund, stund hugleiðingar, fyrir einn leik. Það lið varð Islandsmeistari og bikarmeistari það árið. Slík beiðni ber vott um skilning á lífinu, tilgangi þess og markmiði. Félagsliðið þarf að stilla saman sína strengi og til þess að það náist þarf hið andlega að koma til, rétt eins hið ytra, líkamleg þjálfun í þessu tilfelli. Við öll þurfum að stilla saman okkar strengi, fjölskyldan, hjónin, börnin, til að ná settu marki. Einmitt það er svo ljúft að gera á þessari tíð, hinni blíðu tíð. Við eigum svo gott með að sameinast í bæn og flytja bænarorðin er segja: Kom blíða tíð, með bamsins frið. Kom blessuð stund með h'kn og grið. Kom hátíð æðst og heiminn gist. Kom helgust nótt með Drottin Krist. Ágætu íþróttamenn og aðrir félagar! Guð gefi ykkur helg og sönn jól. Vigfús Þór Árnason sóknarprestur í Grafarvogssókn UMFÍ Skinl'axi 5

x

Skinfaxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skinfaxi
https://timarit.is/publication/334

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.