Sjómannablaðið Víkingur - 01.02.1946, Blaðsíða 12
þiggja af náð. Hins er svo engin þörf, að aumka
sjómennina. Starf þeirra er karlmannlegt, og
sumir af þeim, svo sem fiskimennirnir á vél-
bátunum, hafa daglega með höndum störf, sem
eru fjölbreyttari en flestra annarra, og víst er
um það, að þó að sjómenn bölvi raunar vondu
veðri og válegum sjóum, mundu margir þeirra
una því frekar illa, ef aldrei gustaði svalt eða
gutlaði um þá — og ekki hreyfðist frekar það,
sem þeir stæðu á, heldur en þeir væru við verk
í sölum Alþingis, í skrifstofum Arnarhvols eða í
fjósi upp í Mosfellssveit.
★
Ég mun nú segja hér nokkrar sögur um sjó-
menn, en ekki get ég ábyrgzt, að þær séu allar
dagsannar. En þess ber að gæta, að jafnvel
saga, sem hefur aldrei gerzt, getur haft sitt
gildi, ef hún vekur athygli á einhverju því í
heimi veruleikans, sem er þess vert, að því sé
gaumur gefinn.
★
Eitt af mestu skáldum Norðmanna, Jónas Lie,
kvað sér stundum hafa liðið illa, þá er hann
var langdvölum frá sjó, enda var hann uppalinn
í hafnarbæ í Norður-Noregi, og þar umgekkst
hann mjög mikið sjómenn í bernsku og hafði
hið mesta yndi af því að heyra þá segja frá.
Eitt sinn bjó Lie alllangt uppi í fjalladal ein-
um á Ítalíu, og var hann mjög tekinn að langa
til að sjá hinn kvika flöt sjávar og heyra öldu-
gjálfur, þegar hann loks fór burt úr fjalla-
þrengslunum. Þá er hann svo kom þangað, sem
hann sá út á sjóinn, greip hann áköf löngun.
Það var aðeins örstuttur spölur til sjávarins,
og Lie stökk af stað og fór beinustu leið ofan í
fjöru. Þegar þangað kom, æddi hann fram í
flæðarmálið, fleygði sér þar niður og svalg sjó-
inn eins og þyrstur maður teygar hressandi
lindarvatn. Á eftir fannst honum líðanin betri
en hún hafði verið lengi.
Slík voru þau áhrif, sem Lie hafði orðið fyrir
í bernsku af hinum tilkomumikla og breytilega
sævi, og það getur því sízt talizt undarlegt, þó
að margir þeirra, sem eiga við hann ýmist gott
eða grátt gaman um langa ævi, verði honum
tengdir allsterkum böndum, enda er það svo, að
sumir sjómenn geta vart unað lífinu í landi,
þegar til lengdar lætur, þó að til séu þeir, sem
geta tekið undir með skáldinu og sagt: „Leið-
ur er mér sjávar sorti og súgandi bára ....“.
Ég þekki skipstjóra, sem orðinn er hálfsjötugur
en stjórnar ennþá skipi við fiskveiðar og afiar
vel, en þegar hann hefur verið nokkra daga í
landi, kennir hann margvíslegra kvilla, auk
þess sem fljótlega grípa hann leiðindi. En þeg-
ar hann svo hefur verið einn, tvo daga á sjó,
er svipurinn orðinn rólegur og hýr og öll
slæmska — eða svo til — rokin veg allrar ver-
aldar.
★
Eitt sinn leiddi ég gamlan mann og blindan
niður í fjöru. Ég var samtíða honum, þegar
ég var krakki, og við vorum mestu mátar. Mér
þótti það talsvert undarlegt, þegar hann bað
mig að leiða sig þetta, en samt gerði ég það
orðalaust. Þá er hann hafði staðið stundarkorn
frammi við flæðarmál og stuðzt fram á stafinn
sinn, sagði hann, og ég heyrði, að það var í
senn feginshr.eimur og klökkvi í röddinni:
— Maður guðs! Þetta er eins og englakvak,
ja, maður guðs!
Þessi gamli maður hafði stundað sjó meira
og minna á hverju ári frá því að hann var um
fermingu og þangað til hann varð blindur.
★
Ég hef heyrt sagt af gömlum formanni og
miklum aflamanni, sem fór sjóferð á árabát
með syni sínum, sem var orðinn formaður.
Gamli maðurinn var búinn að vera steinblindur
í nokkur ár, þegar hann fann upp á að fara
þessa sjóferð. Þetta var snemma vors, veður
gott, en þó nokkur gola, og vindbára gutlaði við
súðina. Hinn gamli formaður lagði eyrun við,
en allt í einu lyfti hann höfði og beindi blind-
um augunum að syni sínum. Svo sagði hann:
— Nú kvakar fiskur í hverri báru, og hér skal
leggja!
Þetta var mjög skammt undan landi, og hélt
sonurinn, að ekki væri nokkur branda skriðin
svona grunnt, þetta snemma á tíma. Hann lét
samt að orðum gamla mannsins, og reyndin
varð sú, að hlaðafli var á lóðina. Meðan á drætt-
inum stóð, sat gamli maðurinn og handlék fiska
og hafði við þá ýmis orð:
— Fallegur ert þú, greyið — og hvaðan
komstu? Neðan af Björgum kannski? ...........
Líka: — 0, stórt er á þér nefið, smánin, rétt
vanskapaður, tetrið, en kýldur er maginn, ekki
vantar það!
★
Ýmsum mun nú þykja furðu gegna, hve dug-
andi sjómenn létu sér það lítt fyrir brjósti
brenna að sigla opnum bátum langar leiðir í
allvondum veðrum. Útvegsbóndi í Fjörðum vest-
ur kallaði eitt sinn að vetrarlagi menn í há-
karlalegu. Var gengið snemma til hvílu, en síð-
an vaknað stuttu eftir miðnætti og hugað að
veðri. Bónda leizt það ekki sem tryggilegast, en
þótti stórum miður, ef hann yrði að hverfa frá
að fara í legu, þar sem líka sumir af hásetum
hans höfðu verið kallaðir alllangt að. Loks sagði
hann:
— Ég hugsa, að hann hvessi illa á suðvestan
upp úr birtingunni. En við förum samt. Það er
44
V I K I N G U R