Samvinnan - 01.10.1971, Side 55
Sigurður A. Magnússon:
Vinstristjórn og
vinstrasamstarf
Ég staðhæfði hér í blaðinu fyrir þremur
árum í grein um forsetakosningarnar (4.
hefti 1968), að úrslit þeirra gætu orðið
og hlytu að verða upphaf straumhvarfa
í íslenzkum stjórnmálum, undirrót nýrra
sjónarmiða. Þetta hefur með vissum hætti
rætzt. Úrslit alþingiskosninganna í vor
leiddu af sér meiri tilfærslu atkvæða og
þingsæta milli flokka en átt hefur sér
stað í marga áratugi; þau ollu raunveru-
legum vatnaskilum i íslenzkri pólitík. í
fyrsta sinn síðan 1927 tekur við völdum
alný ríkisstjórn (þ. e. a. s. enginn stjórn-
arflokkanna átti aðild að fráfarandi ríkis-
stjórn), og þarf varla að fara mörgum
orðum um, hve mikilsvert og afdrifaríkt
íslenzku stjórnmálalífi og þjóðlífi yfirieitt
það getur orðið, ef stjórnarflokkarnir þrír
reynast hafa heilindi og raunverulegan
vilja til að standa við málefnasamning
sinn og gerbreyta um stefnu i þjóðmála-
pólitíkinni.
FramboSsflokkurinn
Að mínu mati var merkilegasti liður
kosningabaráttunnar í vor tilkoma og
frammistaða Framboðsflokksins eða
„núllistanna" svonefndu. Hinum ungu og
gamansömu fulltrúum þessa nýja flokks
tókst mun betur en búast hefði mátt við
— með hliðsjón af örstuttum aðdraganda
framboðsins — að bregða upp mynd af
íslenzkri stjórnmálabaráttu: hentistefnu
og hræsni stjórnmálamannanna, innan-
tómu orðagjálfri þeirra og fáránlegum
hátíðleik. Þráttfyrir gerræði útvarpsráðs,
sem enn einusinni gerði sig bert að póli-
tískri valdníðslu með því að bægja Fram-
boðsflokknum frá einni af þremur kosn-
ingadagskrám sjónvarpsins, tókst „núll-
istum“ að vekja þvílíkan áhuga og eftir-
væntingu hjá almenningi, að ekki hefur
í annan tíma verið fylgzt af viðlíka
áfergju með kosningabaráttu hérlendis.
Þó flestum væri ugglaust ljóst, að hér var
einungis um að ræða grín og skopstæl-
ingu, var áhugi alþjóðar á frammistöðu
„núllista" ósvikinn, enda ollu þeir sjaldan
vonbrigðum. Það segir sína sögu að þeir
fengu samtals 2% greiddra atkvæða, og
kjörfylgi þeirra var greinilega úr öllum
áttum. Þó gömlu flokkarnir létu varð-
hunda sína í útvarpsráði beita Fram-
boðsflokkinn ofríki sem jaðraði við of-
sókn, þá var það honum einum að þakka,
að almenningur fékkst til að hlusta á
málflutning þeirra í útvarpi og sjónvarpi,
og ég er ekki í neinum vafa um, að óbein
áhrif „núllista" á kosningaúrslitin voru
miklu meiri en menn vilja vera láta. Þeir
fréttamenn Morgunblaðsins, sem starfa
hér fyrir norrænu fréttastofurnar NTB
og Ritzau, fullyrtu til dæmis að framboð
„núllista“ hefði verið frumhlaup og fí-
askó, og er það einungis til vitnis um
blinda húsbóndahollustu og pólitískan
barnaskap þessara vitringa.
Sigurvegararnir
Sennilega bjuggust hvorki Samtök
frjálslyndra og vinstrimanna, velunnarar
þeirra né andstæðingar við þeim úrslit-
um sem birtust við talningu atkvæða.
Sigur þessa nýja flokks var sögulegur,
ekki sízt þegar þess er gætt að forusta
hans er hvorki eins ný eða óspjölluð af
stjórnmálaþvarginu og látið var í veðri
vaka. En hann hafði sagt hinu gamla og
gerspillta valdakerfi og fjármálasukki
stríð á hendur, og varð það honum tví-
mælalaust til brautargengis. Hitt fer
varla milli mála, að meginrótin að sigri
flokksins var sú, að hann hafði mesta
möguleika á að fella „viðreisnarstjórn-
ina“. Með það í huga kusu margir stuðn-
ingsmenn annarra flokka Frjálslynda í
vor, þannig að fylgi þeirra kann í reynd-
inni að vera minna en niðurstöður kosn-
inganna gefa til kynna, þó óþarft sé að
vanmeta afleiðingar þess að flokksbönd
voru nú rofin í ríkara mæli en tíðkazt
hefur við alþingiskosningar.
Annar höfuðsigurvegari kosninganna
varð Alþýðubandalagið, sem vann upp
aftur tjónið sem hlauzt af brotthlaupi
þriggja þingmanna á liðnu kjörtíma-
bili. Sigur Alþýðubandalagsins var ó-
tvíræður og byggðist greinilega ekki
á stundarhagnaði, heldur tókst því að
virkja fylgi unga fólksins í meira mæli en
aðrir flokkar, og má þvi segja að það sé
á framtíðarvegi. Eftir að Sósíalistafélag
Reykjavíkur sleit tengsl sín við Alþýðu-
bandalagið, hefur það að mestu skafið
af sér kommúnistastimpilinn í augum
ungu kynslóðarinnar, þó Morgunblaðið,
Vísir, Alþýðublaðið og jafnvel Tíminn
reyni eftir mætti að halda lífi í grýlum
kalda stríðsins. Skrif Moggans um fortíð
Þjóðviljans og sumra forkólfa Alþýðu-
bandalagsins eru ekki sízt fróðleg með
hliðsjón af skrifum Morgunblaðsins á
uppgangstímum Hitlers og athöfnum ým-
issa helztu núverandi leiðtoga Sjálfstæð-
isflokksins á blómaskeiði nazismans.
Tap þriggja flokka
Aðrir flokkar en Samtök frjálslyndra og
Alþýðubandalagið töpuðu fylgi, og er ó-
hætt um það að straumurinn til vinstri
hefur sjaldan verið greinilegri síðustu
áratugina. Hrikalegast varð tap Alþýðu-
flokksins, sem hefur í 12 ára sambúð við
Sjálfstæðisflokkinn nánast týnt sínu eigin
andliti, og mundi ókunnugum áreiðan-
lega hafa veitzt erfitt að gera sér þess
grein, að formaður flokksins væri mál-
svari alþýðunnar í landinu þegar hann
kom fram í kosningabaráttunni. Alþýðu-
flokkurinn galt ekki einasta fádæma lé-
legrar forustu, duglítilla þingmanna og
ráðherra og óþarfrar íhaldsþjónkunar,
heldur voru forkólfar hans jafnvel ennþá
röskari en Sj álfstæðismenn í pólitískum
stöðuveitingum og valdníðslu, og hlaut
það fyrr en seinna að koma flokknum í
koll. Bitlingalýður Alþýðuflokksins er án
efa þyngsti baggi sem hann hefur bundið
sér og kynni að ríða kröftum hans að
fullu.
Framsóknarflokkurinn galt einnig um-
talsvert afhroð, tapaði 2y2% miðað við
úrslitin 1967, og er það vissulega íhugun-
arefni fyrir stærsta flokk stjórnarand-
stöðunnar í þrjú kjörtímabil. Ég hygg að
tvístígandi Framsóknarflokksins í ýmsum
veigamiklum málum hafi ráðið miklu um
úrslitin, en sennilega helgast þessi tvi-
stígandi af því að hann hefur innanborðs
sterk íhaldsöfl sem verða honum æ þyngri
í skauti eftir því sem hann sækir meir á
mið þéttbýlisins. Hér er kappnóg að hafa
einn íhaldsflokk og tími til kominn fyrir
Framsóknarflokkinn að taka upp ákveðna
og ómengaða vinstristefnu. Að öðrum
kosti á hann væntanlega enn eftir að
rýrna í roðinu.
Sjálfstæðisflokkurinn tapaði tiltölulega
minnstu fylgi, fór úr 37,5% árið 1967 niðrí
36,2%, sem er lægsta hlutfall hans í al-
þingiskosningum siðustu þrjá áratugi.
Hann er greinilega á hægu undanhaldi
þráttfyrir óhemju fjármagn og öflugan
blaðakost, enda er mannval hans á þingi
ekki beysið, og eru þó ungu mennirnir
sem settir eru á oddinn kannski enn síður
til þess fallnir að vekja tiltrú á málstaðn-
um. Þó Sjálfstæðisflokkurinn telji sig
vera „flokk allra stétta“, þá er hann vita-
skuld fyrst og siðast verkfæri og málsvari
peningavaldsins í landinu, enda fjár-
magnaður af því og hefur frá upphafi
gegnt hlutverki sem stangast óþyrmi-
lega á við nafn hans: hann hefur semsé
verið allra íslenzkra flokka fúsastur til
að lúta erlendu valdi og þjóna erlendum
hagsmunum, samanber frammistöðu hans
í herstöðvamálinu, sjónvarpsmálinu al-
ræmda og stóriðjumálum, að ógleymdum
málflutningi hans í landhelgismálinu
bæði 1958 og nú. Hvort sem það stafar af
einhverju ókunnu náttúrulögmáli eða
sálrænum veilum hlutaðeigandi manna,
þá hafa peningastéttirnar jafnan haft
ríka tilhneigingu til óþjóðlegrar afstöðu
í afdrifaríkum málum, sem bezt sannast
á athæfi Sjálfstæðisflokksins og mál-
gagna hans, en segja má að þessir aðilar
hafi tekið við og ræki nú það hlutverk
sem danska kaupmannavaldið á íslandi
gegndi fyrir eina tíð.
55