Fréttablaðið - 19.09.2009, Side 24

Fréttablaðið - 19.09.2009, Side 24
24 19. september 2009 LAUGARDAGUR F rumsýningu myndarinnar ber heppilega upp á ár mikilla hátíð- arhalda vegna Darwins, eins og kunnugt er eru 200 ár síðan hann kom í heiminn og 150 ár síðan höfuðrit hans, Uppruni tegund- anna, kom út. Af því tilefni hafa verið haldnar ráðstefnur um víða veröld, endalausar grein- ar skrifaðar um Darwin og fjallað um þróun- arkenninguna frá öllum mögulegum hliðum. Þess má einnig geta að í vikunni var opnuð miðstöð helguð Darwin í Náttúruvísindasafn- inu í London. Þróunarkenningin var sett fram í Uppruna tegundanna, hún gjörbylti vísindum heimsins og telst til grundvallaratriða í nútímalíffræði. Kvikmyndin Creation setur þó útkomu bókar- innar ekki í þungamiðju, þótt vissulega sé hún til umfjöllunar, heldur er það annars vegar dótturmissir Darwins og sorgin sem honum fylgir og hins vegar togstreita í hjónabandi Charles og konu hans, Emmu, vegna viðhorfs til trúarinnar, sem eru til meginumfjöllunar. Þróunarkenningunni, sem er óumdeild meðal vísindamanna, er þó enn hafnað af stór- um hluta Bandaríkjamanna, um fjörutíu pró- sent ef marka má kannanir. Þess vegna ætti það ef til vill ekki að koma á óvart að mynd- inni um manninn sem setti hana saman skuli ganga erfiðlega að fá dreifingu í mekka kvik- myndanna, Bandaríkjunum, en svo er það nú samt. Framleiðandi myndarinnar, Jeremy Thom- as, sem meðal annars framleiddi Óskarsverð- launamyndina Last Emperor, lét hafa eftir sér í vikunni að hann væri furðu lostinn yfir því að þessi viðhorf væru til 150 árum eftir að Uppruni tegundanna kom út. „Þetta er það sem við erum að kljást við, árið 2009, það er ótrúlegt,“ sagði hann. Harmur Darwins Handrit myndarinnar byggist á bókinni Ann- ie‘s box, eða kassi Annie, sem kom út árið 2001. Höfundur hennar, Randal Keynes, er afkomandi Darwins og var kveikjan að bók hans um forföður sinn askja sem hann fann með hlutum Annie þegar hann var að fara yfir skjöl og gögn Darwins sem geymd voru á heimili hans í Kent. Annie þessi lést einung- is tíu ára gömul, að því að talið er úr berklum. Hún var foreldrum sínum mikill harmdauði, Darwin lét hafa eftir sér að hún hefði verið í mestum metum meðal barna sinna. Þrátt fyrir það minntist hann aldrei á hana aftur, minn- ingin um hana var geymd í kassanum, sorg- in í sinninu. Bók Keynes, sem heitir fullu nafni Ann- ie‘s box: Charles Darwin, his Daughter and Human Evolution, eða Askja Annie: Charl- es Darwin, dóttir hans og þróun mannsins, er þannig ekki hefðbundin ævisaga um vís- indamanninn Darwin heldur dregur hún upp mynd af manninum, fjölskylduföðurnum og hugsuðinum og vakti athygli við útgáfu henn- ar árið 2001. Andstaða bókstafstrúarmanna Ekki er að undra að meginefni Creation sé mannlegt eðli, missir og sorg. Slíkt er umfjöll- unarefni ótal kvikmynda og flestar myndir á borð við Creation myndu fá dreifingu í Banda- ríkjunum skyldi maður halda. En sterk staða bókstafstrúarmanna þar í landi gerir það að verkum að myndin mætir andstöðu. „Andstað- an við þróunarkenninguna er stórt og mikið mál í Bandaríkjunum og á sér langa sögu,“ segir Einar Árnason, prófessor í líffræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur í þróunar- kenningunni. Gott dæmi um andstöðuna eru fræg réttarhöld sem kennd eru við kennar- ann John Scobes, sem var árið 1925 dæmdur fyrir að kenna þróunarkenninguna í skóla í Tennessee, á þeirri forsendu að hún stangað- ist á við lög ríkisins. Í þeim var kveðið á um að ekki mætti kenna neitt í skólum ríkisins sem hafnaði guðlegri sköpun mannsins. Málið var reyndar síðar fellt niður vegna formgalla. Andstæðingar þróunarkenningar eru oft nefndir sköpunarsinnar (creationists) vegna þess að þeir trúa að guð hafi skapað heiminn í þeirri mynd sem við þekkjum hann. Að sögn Einars er annarri hugmynd þó frekar haldið á lofti af bókstafstrúuðum um þessar mund- ir, svokallaðri hönnunarkenningu, „intellect- ual design“. „Sú hugmynd er í raun sköpun- arhyggja í nýju formi, hún gengur út á að það hljóti að vera hönnuður að eiginleikum líf- vera, þeir séu einfaldlega of fullkomnir til þess að hafa þróast með blindu náttúrulegu vali.“ Augu séu gjarnan tekin sem dæmi um þetta, þau séu svo fullkomin. Einar bendir hins vegar á að þetta standist ekki vísinda- lega skoðun, hægt sé að finna ótal millistig líffærisins auga. Samkvæmt greinum í erlendum dag- blöðum á borð við New York Times og The Guardian hefur tekist vel til við gerð Creat- ion. Hjónin Charles og Emma Darwin þykja sannfærandi í túlkun hjónanna Pauls Bett- anys og Jennifer Connelly. Á blaðamanna- fundi vegna sýningarinnar í Toronto kom fram að þau hefur lengi langað til að starfa saman, en þau giftust árið 2003. Þess má geta að þau kynntust við gerð myndarinn- ar A Beutiful Mind en tóku reyndar ekki saman fyrr en síðar. Hjónaband höfuðpersóna myndarinnar, Charles og Emmu, var farsælt en storma- samt. Þau þekktust vel áður en þau giftust enda voru þau náskyld, systkinabörn. Áður en þau fóru að draga sig saman hafði Darwin farið í sína frægu heimsreisu á könnunarskip- inu Beagle og gefið út frásagnir úr ferðinni. Hann var því þekktur maður þegar þau hófu tilhugalíf en illa farinn af veikindum sem lík- lega áttu orsakir sínar í streitu og álagi. Togstreita um trú Emma var mjög trúuð og gerði sér strax grein fyrir því að trúarhugmyndir hennar og Darwins gætu stangast á. Hann var alinn upp í trú blandinni skynsemi og rökhyggju. Eftir því sem vísindarannsóknum hans vatt fram urðu efasemdir trúnni yfirsterkari. En það var andlát dóttur hans sem varð til þess að hann gekk af trúnni. Þau hjónin tóku það gríðarlega nærri sér, hún leitaði huggun- ar í trúnni en hann gekk af henni og losnaði kannski við hömlur sem gerðu honum auð- veldara að reka smiðshöggið á höfuðkenningu sína. Átta árum eftir að Annie dó kom bókin Uppruni tegundanna út. Henni var strax gríð- arlega vel tekið, hugsuðir voru margir hverj- ir afar svekktir yfir því að hafa ekki komið auga sjálfir á þessa „einföldu“ og augljósu hugmynd sem þróunarkenningin er. Óumdeild vísindakenning Þróunarkenningin er hornsteinn nútíma líf- fræði og algjörlega óumdeild út frá vísinda- legu sjónarmiði. Þegar Darwin setti hana fram vantaði ýmislegt upp á vísindalegan rökstuðning kenningarinnar en síðari tíma uppgötvanir hafa styrkt hana í sessi og gert hana að kenningu í vísindalegum skilningi, sem þýðir að hún hefur staðist próf og er ekki lengur tilgáta – eins og andstæðingar hennar vilja gjarnan halda fram. Þess má geta að andstæðingar eru ekki fjölmennir í öðrum nálægum ríkjum en Bandaríkjunum. Viðhorfskönnun til kenn- ingarinnar sem gerð var fyrir nokkrum árum sýndi til dæmis að ríflega 80 prósent Íslendinga, Norðurlandabúa og Frakka aðhyllast hana. En aftur að myndinni. Samkvæmt heima- síðu hennar hefur þegar verið samið um dreifingu hennar víða um lönd, til að mynda á Norðurlöndum. Væntanlega verður hún tekin til sýninga í íslenskum kvikmynda- húsum einnig þó að það liggi ekki enn ljóst fyrir. Charles Darwin á hvíta tjaldinu ■ 1809: Charles Darwin fæðist 12. febrúar í Shrewsbury á Englandi, fimmti í röð sex barna læknisins og auðjöfursins Roberts Darwins og eiginkonu hans Susannah. ■ 1831: Þekkist boð um þátttöku í heimsreisu á skipinu HMS Beagle undir stjórn Roberts FitzRoy. Reis- an varir í fimm ár og Darwin safnar ótölulegum fjölda náttúrugripa, steingervinga og gerir athuganir sem nýtast honum til vísindastarf það sem eftir er ævinnar. ■ 1839: Giftist frænku sinni Emmu Hedgewood. Sama ár fæðist fyrsta barn þeirra en þeim hjónum varð tíu barna auðið. Tvö létust í frum- bernsku. Til þess var tekið hversu náin þau voru börnum sínum. ■ 1851: Annie dóttir hans deyr, líkast til úr berklum. ■ 1859: Uppruni tegundanna kemur út og vekur mikla athygli í heimi vísindanna og víðar. ■ 1865: Tékkneski munkurinn Greg- or Mendel gefur út rannsókn sína á erfðum, en mikilvægi hugmynda hans verðum lýðum ekki ljóst fyrir en í upphafi 20. Þegar það gerist styrkjast stoðir þróunarkenning- arinnar. ■ 1871: Bókin Uppruni mannsins kemur út en í henni tengir Darwin með ljósum hætti menn og apa saman sem vakti hneykslan margra. ■ 1882: Darwin deyr. ■ 1953: James D. Watson og Francis Crick uppgötva byggingu DNA sem gerir það mögulegt að rannsaka sameindalíffræði þróunar. ■ 2004: Bókin Uppruni tegundanna kemur út í íslenskri þýðingu í lærdómsritaflokki Hins íslenska bókmenntafélags. ■ 2009: Haldið upp á afmælisár Darwins með ýmsum hætti víða um heim. Íslendingar hafa ekki látið sitt eftir liggja, eins og lesa má lesa á netsíðunni www. darwin.hi.is. ➜ DARWIN Í 200 ÁR VÍSINDAMAÐUR AÐ STÖRFUM Darwin varði miklum tíma við rannsóknir á lífverum og náttúrugripum ýmiss konar. Hér er Paul Bettany í hlutverki vísindamannsins. HJÓNIN Jennifer Connelly og Paul Bettany við frumsýningu Creation í Toronto. Ný kvikmynd um Charles Darwin var heimsfrumsýnd í Toronto í vikunni. Höfundi þróunarkenningarinnar tekst enn að stuða bókstafs- trúarfólk, myndin fær ekki dreifingu í vígi þess, Banda- ríkjunum, út af umfjöllunar- efninu. Sigríður Björg Tómas- dóttir kynnti sér málið. Þróun lífsins* Darwin áttaði sig á að náttúrulegt val er óhjákvæmileg afleiðing þriggja staðreynda; breytileika á milli einstaklinga, því að hluti breytileikans erfist milli kynslóða og að æxlun er mishröð sem þýðir að einstaklingar eiga mismörg afkvæmi. Þessar staðreyndir eiga við allar tegundir. Fyrst auðlindir eru takmarkaðar og samkeppni á milli lífvera óumflýjanleg leiða þessar stað- reyndir til náttúrulegs vals. Náttúrulegt val er einföld vélræn útskýring á fjölbreytileika lífvera og aðlögun þeirra, þar sem óhjákvæmilegt er annað en valið verði gegn vanhæfum arfgerðum og fyrir hæfari. Afleiðingarnar eru þær að stofnar breytast og eiginleikar, eins og auga, verða betri til að sinna vissum störfum, aðlagast með öðrum orðum. Hinn burðarás þróunarkenningarinnar er skyldleiki lífvera. Darwin sýndi fram á að lífverur raðast í þróunartré, þar sem svipaðar tegundir eins og menn og apar sitja á nálægum greinum og að ólíkar tegundir eins og menn og svampar, lenda á greinum sem aðskiljast neðarlega í trénu fyrir langa löngu. *heimild: www.darwin.hi.is

x

Fréttablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.