Stúdentablaðið

Årgang

Stúdentablaðið - 01.12.1947, Side 16

Stúdentablaðið - 01.12.1947, Side 16
10 STÚDENTABLAÐ mikið námsefni hann komst með okkur, hve vel hann kunni þar að stikla á stóru og hve fundvís hann var á það, hvar feitt væri á stykkinu. Og þó verður hvorki yfirferðin né sjálft lærdómsefnið mér hugstæðast né eftir- tekjumest, þegar frá líður. Margur fróðleik- urinn gleymist, ef honum er ekki haldið við, — það fyrnist yfir kunnáttuna. En beztu kennslustundir Sigurðar Guðmundssonar eru eins konar vakningasamkomur, þar sem menn endurfæðast til nýs skilnings á andlegum verðmætum, til nýrrar nautnar á skáldlegri fegurð, mönnum gefur sýnir, mönnum opnast nýir heimar. Allt verður að undrum og furðu- verkum, en undrunin er upphaf allrar vizku, sagði Platon. Allt verður háleitt og heilagt og nemendurnir gagnteknir líkum hugblæ og hrifnir tónlistaráheyrendur. Það er vakin ást á íslenzkri tungu og bókmenntum, virðing fyrir sköpunarmætti mannlegs anda, viðleitni til að brjóta efnin til mergjar af eigin ramm- leik. Áhrif þessarar mannræktar dvína ekki með förlandi minni nemendanna á námsefnin sjálf. Og efni skólaræðnanna er ekki grafið í gömlum skýrslum fyrir nemendum hans. Það er grafið inn í hugskot þeirra — og ekki síður þær ræðurnar, sem aldrei voru prentaðar og jafnvel ekki skrifaðar. Engan venginn vil ég halda því fram, að við höfum tamið okkur þá skyldurækt né öðlazt þá virðingu fyrir lífinu, lífsgildinu og mannlegum þroska, sem þarna var fyrir okkur brýnt. En hvar værum við nú stödd án þeirrar brýningar? — Sigurður skólameistari er að mínum dómi einn þeirra fáu gæfumanna, sem lent hafa á réttum stað í lífinu. Ég þykist vita, að sjálfur muni hann mér ósammála um þetta og telji sig hafa verið betur kominn á öðrum vett- vangi. Sízt vil ég draga í efa fjölhæfni hans eða hæfileika á öðrum sviðum. En slíkt er starf hans, að vandséð er, að það hefði getað orðið meira né betra í öðrum greinum. Og ef ég yrði einhvern tíma í eilífðinni kvaddur til þess vanda — sem guð forði mér frá — að leggja eitthvað til um næstu jarðvist manna, þá finnst mér nú, að Sigurður skóla- meistari yrði einn þeirra fáu, sem ég treysti mér ekki til að óska annarra ævispora en þeirra, sem gengin voru í þessu lífi. Og eink- um myndi ég ganga ríkt eftir því, að hann hlyti sama lífsförunaut. Frú Halldóra Ólafsdóttir hefur ekki aðeins verið manni sínum mikil og góð kona og alið honum mörg og mannvænleg börn. Ég leyfi mér einnig að fullyrða, að án hennar hefði hann ekki orðið sá skólamaður, sem raun ber vitni. Það getur ekki hjá því farið, að í slíku ævistarfi steðji að margs konar áhyggj- ur og erfiðleikar, sem hljóta stundum að leggjast þungt á jafn viðkvæman mann og samvizkusaman og Sigurð Guðmundsson. En ég veit, að á þeim stundum hefur frú Halldóra verið manni sínum styrkur og stoð, örvandi og aflgjafi. Það hefur jafnan staðið nokkur gustur af þessari hnarreistu og skörulegu konu. Sá gustur hefur feykt burt mörgum áhyggjuskýjum. Það er alls staðar heiðríkja, þar sem frú Halldóra fer. Og heiðríkjunni fylgir birta og varmi. Frú Halldóra hefur ekki átt minnstan þáttinn í því að gera Menntaskólann á Akureyri að því allsherjar- heimili nemenda, sem hann hefur jafnan verið, og skapa þann heimilisbrag, sem þar ríkir. Ávöxturinn af starfi skólameistarahjón- anna kemur fyrst og fremst fram í lífi þeirra nemenda, sem frá skóla þeirra koma, og enn mun hans gæta meðal niðja nemendanna í marga liðu. Og mér er spurn: Verður ævinni valið göfugra, lífrænna og ábyrgðarmeira starf en að móta mannlegt eðli, rækta hugi og hjörtu? I nafni Stúdentasambandsins leyfi ég mér að votta skólameistarahjónunum frá Akur- eyri þakkir og virðingu gamalla nemenda, ís- lenzkra stúdenta og allrar íslenzku þjóðar- innar fyrir mikið og frábært starf í þágu þjóðaruppeldis og íslenzkrar menningar — og árna þeim heilla um alla framtíð.

x

Stúdentablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Stúdentablaðið
https://timarit.is/publication/350

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.