Fálkinn


Fálkinn - 06.06.1962, Blaðsíða 14

Fálkinn - 06.06.1962, Blaðsíða 14
GEF ÞV MÉR ALLT SMÁSAGA EFTIR MÖGNU LÚÐVÍKS DÓTTUR — Skutlið ykkur inn í ylinn, stelpur. Það er kalt úti. Hann hélt opinni bílhurðinni, vissi um veldi sitt sem bíl- eigandi á þessu kalda kvöldi, vissi um eigið ágæti yfirleitt. Það speglaðist í brúnum augunum og kaldhæðnu brosinu, þegar hann virti þær fyrir sér, þar sem þær stóðu skjálf- andi á eyðilegri götunni í nöprum vetrarstorminum, sem feykti ryki og blaðarusli á undan sér og smaug gegnum þunnar flíkurnar. — Við misstum af strætó, útskýrði Lilla og steig upp í farartækið, en Alda kerti hnakkann og hélt af stað einsömul. Hún anzaði engu köllum þeirra, sem í bílnum voru. Hún bretti upp kragann á þunnri poplínkápunni og gróf hendurnar í vösunum. Henni var andstyggilega kalt, en ekki svo kalt samt, að hún færi að fara upp í bíl hjá þessum sjálfsánægðu strákbjánum, sem héldu, að þeir þyrftu ekki annað en kaupa bílskrjóð og klæðast skinnjakka eða ámóta skemmtilegri flík til þess að verða eftirsóknarverðir. Og þó fann hún til sterkrar einstæðingskenndar og þrá eftir félags- skap karlmanns, þrá eftir að vera eins og aðrar stúlkur. Hún fann, að hún var öðruvísi að því leyti, að hún gat ekki leikið sér að ástinni eða því sem fólk yfirleitt virtist kalla ást. Hún gat ekki farið heim í rúm fneð manni, sem hún hafði kannski aðeins þekkt eina kvöldstund, en þetta virtust vin- konur hennar ekki sjá neitt athugavert við. Nei, þær sáu þvert á móti eitthvað athugavert við hana. Og ef til vil var það rétt hjá þeim. Ef til vill höfðu allir rétt fyrir sér í þessu máli nema hún. Karlmenn mátu hana að minnsta kosti ekki fyrir þetta sjónarmið. Síður en svo. Þegar þeir höfðu þrefað við hana eitt kvöld og sáu að hún var ósveigjanleg á þessu sviði, urðu þeir reiðir og töluðu ekki við hana meir. En hún vissi, að þegar hún gæfist karlmanni, gæfi hún sig af lífi og sál. Hún gæti aldrei litið á þann mann sem sér óviðkom- andi eftir það. Hún var þreytt og dofin af kulda, þegar hún kom loks heim til sín, og klukkan var farin að halla í tvö. Hún ákvað, að þetta skyldi verða í seinasta sinn um langan tíma, sem hún léti Lillu fá sig til að vera á rúntinum heilt kvöld. ★ Það var allt í öngþveiti á skrifstofunni, þegar hún kom í vinnuna morguninn eftir. Hún átti raunar að vera við af- greiðsluna frammi í búðinni, en þegar mikið lá við, varð 14 FÁLKINN hún að hjálpa til á skrifstofunni. Það þurfti að ná mörgum vörusendingum úr tollinum, en fyrst þurfti að hlaupa með hin og þessi skjöl hingað og þangað, og hún virtist sjálf- kjörin til þess. Hún bannsöng heila halarófu af flutningavögnum sem aldrei virtust ætla að sniglast af götunni. Loks sá hún sér færi á að skjótast yfir og slapp naumlega hjá kranabifreið, sem kom út úr húsasundi. Hafnarstræti var leiðinlegur stað- ur, þegar fólk var að flýta sér. Hún tók eftir manni, sem kom á hraðri ferð á móti henni og stefndi á sama húsið og hún. Hann skar sig úr fjöldanum einhverra hluta vegna. Hún fór að hraða sér til þess að verða fyrri til að taka lyftuna upp á fjórðu hæð. En það var sama hvernig hún flýtti sér. Hann varð á undan henni inn úr dyrunum, og þegar hún kom sprengmóð inn í ganginn, var lyftan að renna af stað upp. Hún bölvaði hátt og hljóp af stað upp stigailn. Maður- inn í lyftunni fylgdist með ferðum hennar gegnum rimlana. Þetta var ein af þessum gamaldags járnhrúgum, sem virtust hanga saman af eintómum vana, en geta hrunið sundur þá og þegar. Öldu var sannarlega illa við að fara inn í þær, en stigarnir voru líka erfiðir. Hún var hætt að finna fyrir fót- unum, þegar hún var komin upp á þriðju hæð, en hljóp samt af stað upp næsta stiga. Þetta er sá seinasti, huggaði hún sjálfa sig með og renndi heiftaraugum til lyftunnar og far- þega hennar, sem stóð með hendur í vösum, meðan hún hljóp upp hvern stigann af öðrum. Þrepin urðu erfiðari við hvert fótmál. Hún fann til þyngsla í höfðinu og suðu fyrir eyrunum, þegar hún kom loks upp á ganginn þar sem skrif- stofan var, sem hún þurfti að skipta við. Hún hafði ómót- stæðilega löngun til að kasta sér niður á leðurklæddan bekk, sem var þarna í ganginum, en þá var lyftudyrunum hrundið upp og maðurinn kom út með miklu fasi og flýti. Óþreyttur hugsaði hún með fyrirlitningu, en ég skal samt verða á undan. Hún rauk af stað, en fann að hún slagaði til og henni sortn- aði fyrir augum. Hún var öll blýþung og henni fannst blóðið frosið í æðum sér, þegar hún kom til sjálfrar sín aftur. Hvar er ég, hugsaði hún og áræddi að opna annað augað lítillega. Hann stóð andspænis henni og hallaði sér upp að veggnum með hend- urnar í vösunum. Hann virti hana fyrir sér, þar sem hún lá á bekknum, sem skömmu áður hafði verið svo freistandi í hennar augum.

x

Fálkinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fálkinn
https://timarit.is/publication/351

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.