Fálkinn


Fálkinn - 06.06.1962, Blaðsíða 15

Fálkinn - 06.06.1962, Blaðsíða 15
Hún reis upp. — Gaztu virkilega dröslað mér hérna upp á bekkinn, án þess að taka hendurnar úr vösunum? Hann virti hana fyrir sér eins og hverja aðra sjaldséða skepnu. Henni varð hugsað um hin rómantísku yfirlið fag- urra kvenna í skáldsögunum, sem hún las stundum. Þar tóku karlmennirnir þær varlega í fang sér og létu þær lykta af ilmvatni og veifuðu silkivasaklútunum fyrir framan and- lit þeirra. Á meðan lýstu þeir fegurð þeirra með háfleyg- um orðum. — Þú ættir ekki að hreyfa þig strax. Skipunartónninn espaði hana, en hún fann, að hún átti ekki um annað að velja en hlýða. Hún reyndi eftir beztu getu að sitja bein, og þegar hún krosslagði fæturna, gætti hún þess, að sokkarnir væru ekki snúnir. Henni virtist bregða fyrir glettnisglampa í augum hans, en varirnar voru saman- klemmdar, svo að henni gat hafa missýnzt. Hún leit á hann og var viss um að hún var ákveðin á svip — Ég þakka hjálpina. En nú er allt í lagi. — Jæja, það er ágætt. Og góðan bata. Hann leit fast á hana, og svo var hann farinn. Hún lét fallast upp að baki bekksins og stundi við, því að henni leið illa. Hún fann það nú, og henni fannst hún vera einmana, þegar hann var farinn. Skrítinn maður, hugsaði hún og minntist kímniglampans í augum hans. Hví fór hann strax? ★ Hún komst að raun um það nokkrum dögum seinna, að hann vann á skrifstofu í húsinu beint á móti glugganum, þar sem hún sat venjulega þegar lítið var að gera í búðinni. Og nokkrum sinnum leit hann upp í gluggann til hennar og kinkaði kolli, þegar hann átti leið um götuna. Hún fann, að hún var farin að 'eyða of miklum tíma í að horfa eftir honum og hugsa um hann. Og svo mættust þau aftur á götunni einn rigningardag. Þau voru ekki lengur ókunnar manneskjur. Þau höfðu horft hvort á annað gegnum glugga daglega í langan tíma og fundið eitthvað milt og blítt og dásamlegt verða til á milli þeirra. Nú er hún gekk við hlið hans og mætti augum hans, sem hún fékk aldrei nóg af að horfa í, fann hún til sterkrar löngunar til þess að koma við hann, snerta hann, finna hann fast upp við sig. Og hún sá, að löngun hans var hin sama. Þau reikuðu stefnulaust án annars markmiðs en þess að vera saman. Hún stakk hendinni í frakkavasa hans og fann hönd hans, heita, sterka hönd, sem gældi við hennar. Hún þrýsti sér upp að honum og fann hann upp við mjöðm sína, hvernig hann hreyfði sig, þegar hann gekk. Þau voru komin langt vestur í bæ, á einhverja dimma götu, þar sem hún hafði aldrei komið áður. Allt í einu stanzaði hann í skugg- anum af stóru húsi og stóð frammi fyrir henni. — Alda! Henni fannst nafn sitt fallegt, þegar hann nefndi það. — Ég hef aldrei verið eins heillaður af nokkurri konu og þér. Hann hneppti frá henni kápunni hægum, fumlausum hand- tökum og hún fann augu hans hvíla á sér, án þess að geta greint svipbrigði þeirra í dimmunni. Hún skalf meðan hún beið eftir honum. Og síðan hvíldi hún upp við hann, fann hann allan, hita hans og löngun, og ofsi hans skelfdi hana ekki, heldur vakti hana. Hún hreifst með hreyfingum hans. Hann ýtti henni hægt frá sér og virti hana fyrir sér og hún fann allt í einu tár á kinn sér. Hún fann sig alla á valdi hans algjörlega og skilyrðislaust, — í fyrsta sinn á valdi karlmanns. Framh. á bls. 40. FÁLKINN 15

x

Fálkinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fálkinn
https://timarit.is/publication/351

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.