Fálkinn


Fálkinn - 20.06.1966, Qupperneq 10

Fálkinn - 20.06.1966, Qupperneq 10
VIÐ VERÐUM AÐ FIKRA OKKUR ÁFRAM OG LÆRA — segir Steindór Hjörleifsson. dagskrárstjóri lista- og skemmtideildar íslenzka sjónvarps- ins. texti: Steinunn S. Briem TIL skamms tíma hefur sjónvarp talizt til háskalegri orða í íslenzkri tungu. Um leið og einhverjum verður á að lauma því út úr sér má búast við alvarlegum afleiðingum, deilum, handalögmáli, jafnvel algerum vinslitum. f afstöðu sinni til þess skiptast menn í tvo flokka hvorn öðrum ofstækis- fyllri. Það er annað hvort með eða móti, ekkert þar á milli. Annað hvort verður það til þess að greiða vorri fornfrægu menningu rothöggið eða hefja hana á æðra og fullkomnara stig (alþjóðlegir straumar o. s. frv.). „Imbakassi", segja and- stæðingarnir. „Nútímalegt menningartæki," segja þeir með- mæltu. En nú eru breytingar í vændum. Við förum að geta talað um sjónvarp án þess að lenda í hörkurifrildi um Viet-Nam og amerískan áróður í leiðinni. Bandaríska sjónvarpið í Kefla- vík er nefnilega ekki eina sjónvarpið í heiminum, þótt merki- legt megi virðast. Það er líka til brezkt sjónvarp og sænskt sjónvarp, þýzkt sjónvarp og ítalskt sjónvarp, danskt, franskt, finnskt og hvaðeina. Já, og meira að segja rússneskt sjónvarp. Ógurlega vinsælt í Sovétríkjunum. Og bráðum verður til islenzkt sjónvarp. Þar erum við komin að kjarna málsins. Það hlýtur að vera óhætt að tala um íslenzkt sjónvarp í blíðu og bróðerni. Þjóðernislegt sjónvarp. Kannski getum við lesið handritin okkar í sjónvarpinu ef við fáum þau heim. Og hugs- ið ykkur bara sjónvarpaðar eldhúsumræður. Við höfum margs til að hlakka. JÆJA, þeir vinna baki brotnu meirihluta sólarhringsins uppi á Laugavegi 176 að koma þessu í gang fyrir næsta ár. Það bergmálar allt af hamarshöggum, og maður veður gegnum naglahrúgurnar til að komast í trygga höfn inni á skrifstofunum. Þar starfa deildirnar tvær: lista- og skemmti- deildin og frétta- og fræðsludeildin. Án efa verður vandaverk að skipta réttilega með sér störfum í þeim deildum. Við skulum segja, að fræðslan sé stundum skemmtileg, en ekki eingöngu fræðandi. Heyrir hún þá undir skemmtideildina? Og margt sem viðkemur listum er tvímælalaust fræðandi. Hvað segir fræðsludeildin við því? En það er nóg búið að æsa sig upp út af sjónvarpi hér á landi, að dagskrárstjórarnir fari ekki líka í hár saman. Sr. Emil er ekki við þessa stundina, svo að við getum ekki spurt hann, en sem vígður kennimaður hlýtur hann að auðsýna kristilegan kærleik í samskiptum við meðbræður sína. „Náið samstarf," segir Steindór, hinn dagskrárstjórinn. Þ. e. a. s. Steindór Hjörleifsson, fyrrverandi bankastarfsmaður en fræg- astur fyrir afrek sín á leiklistarsviðinu. „Já, já, náið samstarf,“ áréttar hann. „Upphaflega var því skipt í þessar tvær deildir, en við eigum eftir að sjá hvaða fyrirkomulag hentar bezt.“ HANN situr við stórt skrifborð með himinháa stafla af svör- uðum og ósvöruðum bréfum fyrir framan sig. Hann lít- ur út eins og hann væri að leika skrifstofumann og tækist upp í túlkuninni. Eins og hann væri raunverulegur skrifstofu- maður, alls ekki leikari. Það mun vera hástig listarinnar. Maður verður að trúa á persónuna í því umhverfi sem hún er. „Við erum bjartsýnir á framtíðina,“ segir hann. Þannig enda menn oft viðtöl, en hann snýr því við. Það er reyndar afar jákvæð byrjun. Næst fær hann þá frumlegu spurningu hvernig honum lítist á þessa nýju atvinnu sína. „O, ágætlega,“ svarar hann. „Að vísu duga menn nú yfir- leitt ekki lengi í svona starfi — þeir dveljast á taugahælum milli þess sem þeir vinna. En maður þarf ekki að binda sig til lífstíðar. Það er gaman að prófa eitthvað nýtt og sjá hvernig gengur. Þetta er því miður að mestu leyti skrifborðs- starf enn sem komið er, og ég veit ekki leiðinlegra, en það 10 FÁLKINN

x

Fálkinn

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fálkinn
https://timarit.is/publication/351

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.