Fréttablaðið - 31.10.2009, Blaðsíða 22
22 31. október 2009 LAUGARDAGUR
Þú ert sagður hafa teygt þig um
of inn á pólitíska sviðið. Áttu að
vera þar?
„Já, að sjálfsögðu. Launafólk
á að hafa mikið um það að segja
á hverju þetta samfélag byggist.
Við erum hagsmunasamtök og það
verður ekkert pólitískara heldur
en hagsmunir fólks. Ég er í for-
svari fyrir 112 þúsund manns og
ber ábyrgð á að fylgja hagsmun-
um þeirra eftir. Mig varðar ekk-
ert um hverjir sitja í ríkisstjórn
og hvort það er hægri stjórn eða
vinstri stjórn. Það er samfella í
málflutningi Alþýðusambands-
ins óháð ríkisstjórnum og um leið
og við eigum samstarf við ríkis-
stjórnir leyfum við okkur að gagn-
rýna þær ef við teljum þær vera
að gera eitthvað sem er andstætt
hagsmunum okkar fólks. Hags-
munirnir breytast ekki eftir því
hvernig ríkisstjórn situr.“
Þú sætir gagnrýni frá vinstri væng
stjórnmálanna og innan úr verka-
lýðshreyfingunni en átt samleið
með atvinnurekendum. Er ekki
eitthvað rangt við það?
„Nei. En þetta kann að líta und-
arlega út. Þótt hagsmunir launa-
fólks og atvinnurekenda séu í
grundvallaratriðum ólíkir falla
þeir saman að mörgu leyti. Það
er til dæmis beggja hagur að örva
hagvöxtinn, byggja upp fyrirtæki
og fjölga störfum. Það urðu full-
komnar vanefndir af hálfu ríkis-
stjórnarinnar á stöðugleikasátt-
málanum og við því brást ég. Það
er mjög mikilvægt að stjórnvöld
standi við yfirlýsingar og loforð
og skuldbindandi samninga.“
Hvers vegna leggurðu þessa ofur-
áherslu á Helguvíkurálverið?
„Vegna þess að þær fram-
kvæmdir eru nú einu sinni for-
senda þjóðhagsáætlunar og fjár-
laga. Ríkisstjórnin lofaði að beita
sér ekki gegn þessu en gerði það
svo með ákvörðun umhverfisráð-
herra. Stjórnmálamenn hafa ekki
rétt til að snúa við eigin yfirlýs-
ingum og loforðum. Þannig vinna
menn í bananalýðveldum en ekki
í þroskuðum lýðræðisríkjum.
Stjórnvöld hafa gert fjárfestinga-
samning um álver í Helguvík og
við hann á að standa.
En um stóriðjuumræðuna get ég
hins vegar sagt að innan Alþýðu-
sambandsins vex þeirri skoðun
fylgi að það sé komið nóg og jafn-
vel of mikið af áli.“
Leggurðu þá ekki áherslu á álver
við Bakka?
„Ég legg mikla áherslu á
atvinnuuppbyggingu þar og tel
ýmis tækifæri til að byggja þar
upp framleiðslu sem þarf mikla
orku. Ég hef hins vegar efasemd-
ir um að það eigi endilega að vera
í áli. Nú er búið að opna þetta ferli
og hleypa fleirum að sem er mjög
mikilvægt. Það er rangt að veita
einu fyrirtæki einkaleyfi til að
velta fyrir sér hvað það ætlar að
gera í framtíðinni. Á meðan skoðar
enginn annar möguleikana. Þetta
sagði ég Alcoa.
Ég skil hins vegar félaga mína
á Húsavík að leggja áherslu á álið
því þeir hafa þurft að horfa upp á
innihaldslausa en yfirlýsingaríka
byggðastefnu til áratuga.“
Þú hefur gagnrýnt að vextirnir hafi
ekki lækkað eins og fjallað er um í
stöðugleikasáttmálanum. Þú veist
að ríkisstjórnin ræður ekki vöxtun-
um.
„Það er hárrétt en ríkisstjórn-
in ræður við þær aðstæður sem til
þurfti. Hún lenti í gíslingu eigin
flokka um Icesave-málið og er
ábyrg fyrir að hafa misst meiri-
hluta sinn á þingi í sumar. Það tók
hana fjórtán vikur að endurheimta
meirihlutann og þeim tíma sólund-
aði hún með þeim afleiðingum að
atvinnurekendur fengu í hendurn-
ar möguleika á að segja upp kjara-
samningum.“
Lýðræðið var að verki í þinginu,
ekki ertu á móti því?
„Nei. En þingræðið byggir á því
að ríkisstjórnir hafi meirihluta
og leggi sínar ákvarðanir fyrir
Alþingi til staðfestingar. Það er
skrítið þingræði þar sem ríkis-
stjórn missir meirihluta sinn og
til verður nýr meirihluti á þingi.
Það á frekar skylt við stjórnleysi
heldur en þingræði. En aðalatrið-
ið í þessu máli er að afleiðingin af
þessu varð sú að ekki voru tekn-
ar ákvarðanir sem þurfti að taka
og kjarasamningar voru í hættu.
Af því hafði ríkisstjórnin litlar
áhyggjur.“
Lætin voru í VG og umhverfisráð-
herrann er í VG, viltu þann flokk
úr ríkisstjórn?
„Nei, nei. Mér finnst Steingrím-
ur J. Sigfússon til dæmis hafa
staðið sig mjög vel. Hann er fylg-
inn sér og það er samfella í mál-
flutningi hans. VG og svo sem
Hreyfingin eru einu flokkarnir
sem ekki eru ábyrgir fyrir þeirri
þróun sem hér varð. Ísland er ríki
í greiðsluaðlögun og ástæðan fyrir
því að Alþjóðagjaldeyrissjóður-
inn er okkur nauðsynlegur er sú
að stjórnvöld hundsuðu í mörg ár
ráðgjöf erlendra sérfræðinga. Við
vorum á móti skattalækkununum
sem Davíð Oddsson og Halldór
Ásgrímsson réðust í og vöruðum
við að þær myndu leiða til óskapa.
Það endaði svo með því að alþjóða-
samfélagið treystir ekki íslenskum
stjórnvöldum og þess vegna þurf-
um við tilsjónarmann sem er auð-
vitað sárt fyrir stjórnmálamenn að
sætta sig við.“
Þú brást ókvæða við yfirlýsingu
ríkisstjórnarinnar frá í vikunni
um stöðugleikasáttmálann. Hvers
vegna?
„Af því að það vantaði í hana að
tiltekin deilumál yrðu dregin upp
og sett í viðræðufarveg.“
Eitt af því sem þú vilt ræða um við
stjórnvöld er að taka yfir rekstur
Atvinnuleysistryggingasjóðs. Er
það ekki bara frekja í þér?
„Við viljum fá að axla ábyrgð á
því að reka atvinnuleysistrygginga-
kerfið eins og við gerðum í fjörutíu
ár og teljum affarasælla að þjónusta
við atvinnulausa sé nær verkalýðs-
hreyfingunni. Hitt er svo annað mál
að ég get alveg viðurkennt að ég er
frekur gagnvart hagsmunum míns
fólks og ég er stoltur af því. Ég held
reyndar að ég hafi verið kjörinn í
þetta embætti af því að ég er frek-
ur um hagsmuni míns fólks.“
Ertu ekki svo frekur að þú viljir
stjórna landinu öllu?
„Nei, alls ekki, þá hefði ég boðið
mig fram í það.“
En þú talar nú stundum eins og þú
viljir stjórna landinu öllu?
„Þegar kemur að hagsmunum
minna félagsmanna þá leyfi ég
mér að gagnrýna ríkisstjórnina.
Það er alveg ljóst að hún hefur
meirihluta á þingi og getur farið
sínu fram alveg eins og hún vill.
Hún getur það þvert á skoðanir
forseta Alþýðusambandsins. En
ríkisstjórnin hefur sjálf sagt að
hún telji mikilvægt að eiga við
okkur gott samstarf og þá skul-
um við hafa það þannig.
Samstarf og samráð fela í sér
að maður deilir ábyrgðinni og
ákvörðuninni. Það kemur ekki til
álita að ríkisstjórnin fái verka-
lýðshreyfinguna til að deila með
sér ábyrgðinni án þess að deila
ákvörðuninni.“
Ég get alveg viðurkennt að ég
er frekur gagnvart hagsmunum
míns fólks.
Ég er frekur gagnvart
hagsmunum míns fólks
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins, hefur sætt gagnrýni úr ýmsum áttum síðustu daga. Hann lætur sér það í léttu
rúmi liggja og segir baráttuna fyrir hagsmunum ASÍ-félaga það eina sem skipti máli. Björn Þór Sigbjörnsson ræðir við Gylfa um
pólitíkina og stöðuna í samfélaginu.
➜ LENGI HJÁ ASÍ
Gylfi Arnbjörnsson hefur verið
forseti Alþýðusambandsins í eitt
ár. Samhliða gegnir hann starfi
framkvæmdastjóra ASÍ en hann
var ráðinn til þess starfs árið
2001. Gylfi lauk verslunarprófi frá
Samvinnuskólanum á Bifröst 1978
og meistaragráðu í hagfræði frá
Verslunarháskólanum í Kaup-
mannahöfn 1986.
Áður en hann varð fram-
kvæmdastjóri ASÍ var hann fram-
kvæmdastjóri Eignarhaldsfélags-
ins Alþýðubankinn, hagfræðingur
ASÍ og hagfræðingur Kjararann-
sóknarnefndar.
FORSETINN Gylfi Arnbjörnsson segist hafa efasemdir um að heppilegt sé að reisa álver á Bakka en vill að þar verði öflugur iðnað-
ur knúinn af orkunni í Þingeyjarsýslu. Hann segir að þeirri skoðun vaxi fylgi innan Alþýðusambandsins að nóg sé komið af áli.
FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM