Veðrið - 01.09.1956, Blaðsíða 7
Aðrar skemmdir.
Bryggjur löskuðust í Keflavík, Hrísey, Grímsey, Reyðarfirði og Neskaupstað.
Bdtar sukku, fuku eða rak á land á Húsavík, í Grímsey, Bæ og Stóru-Vík í Tré-
kyllisvík, Ffatey á Skjálfanda, Reyðarfirði og Brekkuþorpi í Mjóafirði. Vélbát-
urinn Frosti frá Vestmannaeyjum strandaði á Landeyjasandi, en menn björg-
uðust og báturinn náðist síðar út. Nokkrir bílar fuku og skemmdust.
Vatnsflóð af völdum úrkomu og leysingar ollu miklu tjóni. í Reykjavík urðu
skemmdir á 130 íbúðum. 50 fjár drukknaði eða króknaði í fjárhúsi á Brenni-
stöðum í Flókadal, 23 gemlingar á Skeggsstöðum í Svartárdal, 4 kindur á Efri-
Mýrum' í Austur-Húnavatnssýslu, 14 ær, eitt hross og einn nautgripur fórst á
Borgareyri í Mjóafirði, er vatnsflóð tók peningshús út á sjó. Símabilanir urðu
vegna flóða hjá Ferjukoti í Borgarfirði. Brú tók af Skálm, og brúin á Klifandi
skemmdist, göngubrú tók af Hörgá og Svartá í Lýtingsstaðahreppi. í því flóði
týndist einnig hestur. Skriður tepptu Hvalfjarðarveg. Aurskriða skemmdi gróður-
lendi í Vik í Mýrdal. Þykkvibær var umflotinn vatni, og mikið flóð var í Hvítá
í Árnessýslu, en olli ekki teljandi tjóni. Stormurinn braut á nokkrum stöðum
símastaura og rafmagnsstaura, m. a. í Húnavatnssýslu, Skagafirði, Svarfaðardal,
á Hólsfjöllum og Tjörnesi.
Að undanskildu því slysi, sem varð, er Hólmaborg fórst, og áður er getið, urðu
ekki teljandi slys á fólki þrátt fvrir þau ósköp, sem á gengu. í Neskaupstað
skarst þó maður í andliti af rúðubrotum, og vöggubarn á Daðastöðum í Aðal-
dal brenndist á hálsi, þegar rúðubrot þeytti á það lampaglasi.
Þrumur og eldingar eru fremur fátíðar hér á landi, sem betur fer. Þó kemur
fyrir, að þær valda tjóni.
Svo bar við að kveldi liins 11. des. 1955, að tvö göt komu á gluggarúður í
vinnustofu Jóns Þorleifssonar listmálara að Blátúni í Reykjavik, án þess að
vitað væri um orsök. Úti var mikið regn og austan-stormur, en hvorki heyrðust
þrumur né sást Ijósagangur. Um kl. hálfellefu um kvöldið heyrðist liins vegar
allmikill hvellur frá vinnustofunni, og var þegar gáð að, hvað væri á seyði.
Gluggi mikill er á þaki og norðurvegg stofunnar. Á þakglugganum blasti við
15 cm vítt og nærri kringlótt gat, og var rúðan nokkuð sprungin út frá því.
Annað gat, heldur minna, var á veggglugganum, um 150 cm neðar. Gólfið var
allt stráð smáum glerbrotum og glerflísum, sem báru greinileg merki þess, að
þær höfðu orðið fyrir miklum og snöggum hita.
Sennilegt er, að hér hafi kúluelding eða urðarmáni verið að verki. Hefur
eldingin annað hvort komið inn um annað gatið og farið út um hitt eða tvær
kúlur hafa komið jafnhliða inn um gluggann. Ekki er til þess vitað, að neins
staðar hafi orðið vart við þrumur eða eldingar annars staðar á landinu þetta kvöld.
J■ Ey.
4.3