Vikan - 28.01.1965, Blaðsíða 29
Hún gekk alveg upp að honum. Sitt hvoru megin við hásæti hans
stóðu hinir hryllilegu ráðgjafar hans, stóri og litli Geldingur með tign-
armerki sín, kústinra og spjótið með dauðum hundi og Jean gráskegg-
ur með skeggið sitt og vendi'na, tignarmerki fyrrverandi skólastjóra
í Navarre.
Trjábotn var ennþá óaðfinnanlega klæddur með geysimikinn hatt
með tveimur fjöðrum.
Angelique hét honum Því, að færa honum á hverjum mánuði eða
láta færa honum sömu upphæð, og hún lofaði, að ekkert skyldi skorta
á borð hans. Þess i stað óskaði hún að fá að lifa frjáls sínu nýja lifi.
Hún krafðist Þess einnig að betlurunum yrði skipað að rýma svæðið
í kringum matsölu ,,hennar“.
Hún sá á svip Trjábotns að loksins hafði hún hagað sér á réttan hátt
og hann taldi réttlætinu íullnægt.
Þegar hún yfirgaf hann, hneigði hún sig djúpt fyrir honum.
1663 notaði Angelique sér neydda hvild föstunnar til að gera það,
sem hún hafði lengi ætlað sér.
1 fyrsta lagi skipti hún um bústað. Henni hafði aldrei fallið við þetta
hverfi í skuggum Chatelet. I hinu skemmtilega Marais hverfi fann
hún þrjú aðlaðandi herbergi, sem henni virtist höll.
Þetta nýja húsnæði var í rue des France-Burgeois, skammt frá rue
Vieille-du-Temple. Á tímum Hinriks IV hafði einhver fjármálamaður
byrjað að byggja þar stórhýsi úr múrsteinum og höggnu hleðslugrjóti.
Síðar varð hann gjaldþrota, ef til vill vegna stríðsins eða vegna eigin
vafasamra viðskipta, og gat ekki lokið verkinu. Aðeins hliðið heim að
byggingunni hafði verið fullgert. Lítil gömul kona, sem var eigandi
hússins, bjó annarsvegar í hliðboganum. Hún leigði Angelique hinn
helminginn á viðunanlegu verði.
Á neðri hæðinni var lítill gangur, sem lá inn í eldhús og sæmilegt
lítið herbergi, sem Angelique hafði fyrir sjálfa sig. Stóra herbergið
uppi ætlaði hún börnunum, sem fluttu inn í það ásamt fóstru sinni,
Barbe, sem hafði gengið úr þjónustu Maitre Bourjus til að verða barn-
fóstra og þjónustustúlka „Madame Morens“, sem var það nafn sem
Angelique hafði ákveðið að taka upp. Ef til vill yrði hún einhvern-
timann fær um að bæta framan við það virðulegu forskeyti. Þannig
myndu drengirnir hennar bera nafn föður síns, de Morens. Og seinna
ætlaði hún að reyna að afla þeim stöðu hans, ef ekki eignanna, sem
höfðu verið gerðar upptækar.
Vonir hennar voru fjöllunum hærri. Peningar geta allt. Hafði hún
ekki þegar eignazt heimili út af fyrir sig?
Barbe hafði yfirgefið veitingastofuna með engri eftirsjá. Henni fannst
ekkert gaman að matarsulli og var aðeins ánægð, þegar hún var hjá
„börnunum sínum". Hún hafði nú, um skeið, hugsað eingöngu um
þau. 1 hennar stað hafði Angelique ráðið tvær eldhússtúlkur og eld-
húsdreng. Þá var starfslið Le Coq Hardy orðið allgott, með Rosine,
sem var orðin fersk og lífleg þjónustustúlka, Flipot sem eldhúsdreng
og Linot, sem sá um skemmtun viðskiptavinanna og seldi þeim sæl-
gæti.
I rue des Franc-Burgeois myndu Barbe og börnin njóta kyrrðar-
innar.
Kvöldið, sem þau fluttu, hætti Angelique aldrei að hlaupa upp og
ofan stigana í æsingunni. Það var ekki mikið um húsgögn, rúm í hvoru
herbergi, lítil flet fyrir börnin, tvö borð, þrír stólar og ferköntuð
plusssessa til að sitja á. En eldurinn dansaði í arninum og stóra her-
bergið var hlýlegt, angandi af pönnukökum. Þannig var flutningunum
fagnað. x
Hundurinn Patou dillaði skottinu og litla þjónustustúlkan Javotte
brosti við Florimond, sem brosti á móti.
Því Angelique hafði farið til Neuille til að ná I fyrrverandi þjón-
ingarfélaga Cantors og Florimond. Þegar hún ákvað að setjast að í
rue des Franc-Burgeois hafði henni flogið í hug, að þau þyrftu á
varðhundi að halda. Maraishverfið var einangrað og hættulegt á nótt-
unni, með þessum stóru auðu flötum og görðum, sem aðskildu íbúð-
arhúsin. Angelique treysti að visu vörn Trjábotns, en i myrkrinu gátu
þjófarnir gert mistök. Og þá flaug henni í hug mynd litlu stúlkunnar,
sem drengirnir hennar áttu örugglega líf sitt að launa og hundsins, sem
hafði fóstrað Florimond og veitt honum húsaskjól, þegar honum reið
mest á.
Fósturmóðirin þekkti hana ekki vel, því Angelique var með grímuna
sína og kom í leiguvagni. Fyrir hæfilega fjárupphæð var konan ekk-
ert nema brosmildin og lét stúlkuna frá sér með glöðu geði, þótt hún
væri frænka hennar, og hundinn lika. Angelique óttaðist örlítið við-
brögð Florimonds, en koma þessarra tveggja sálufélaga hans virtist
ekki rifja upp nema þægilegar minningar. En Angelique sjálf fékk
kökk í hálsinn, þegar hún horfði á Javotte og Patou og minntist Flori-
monds í hundahúsinu.
Þetta kvöld hafði hún verið bruðlunarsöm. Hún hafði keypt leik-
föng. Ekki þessi pappahús og leikfangahesta, sem hægt var að fá
fyrir fáein sous á Pont-Neuf. Hún keypti leikföng, sem sögð voru fram-
leidd í Nurnberg, sterklegan og fallegan fereykisvagn með fjórum
brúðum, þrjá litla glerhunda og fílabeinsblístru, og handa Cantor sér-
staklega keypti hún málað tréegg, sem innihélt mörg önnur smærri.
Þegar hún horfði á litlu fjölskylduna sína, sagði hún við Barbe:
— Barbe, einn góðan veðurdag fara þessir tveir ungu herramenn
í háskólann í Mont-Parnasse og svo kynnum við þá við hirðina.
Og Barbe sló saman lófunum og sagði:
— Já, við skulum gera það, Madame.
E'inmitt í sama bili fór dauðahróparinn eftir götunni:
— Vaknið, þið sem sofið í rúmum ykkar, biðjið til guðs fyrir hinum
dauðu.
Angelique þaut reiðilega að glugganum og hellti úr vatnsfötu yfir
höfuð hans.
Annað verk Angelique var að breyta skiltinu yfir matstofu Le Coq
Hardy og skýra hana upp með tilliti til órangursins, og kalla hana
Rauðu grímuna, eftir rauðu grimunni, sem hún var venjulega með i
veitingasalnum. Svo var mikil framagirni ungu konunnar, að henni
nægði ekki að hafa járnskilti hangandi úti við götuna, heldur vildi
hún fá málað skilti til að setja yfir inngöngudyrnar.
Dag nokkurn, þegar -hún var að koma heim frá markaðinum, nam
hún allt í einu staðar fyrir framan járnsmíðaverkstæðið. Á skiltinu
var mynd af gömlum hermanni með hvítt skegg. Hann bar hjálminn
sinn upp að vörunum eins og til að drekka úr honum. Hann hafði
lagt frá sér lensuna, sem glitraði á.
— En þetta er gamli Guillaume, hrópaði hún.
Hún þaut inn á verkstæðið og fékk þar að vita, að þetta meistara-
stykki yfir dyrunum var eftir málara að nafni Gontran de Sancé,
sem bjó í Faubourg Saint-Marcel.
Hjarta Angelique barðist, þegar hún þaut til heimilisfangsins, sem
henni hafði verið gefið. Á þriðju hæð i íburðarlausu húsi, opnaði lítil,
brosandi og rjóð ung kona dyrnar. I stofunni fann Angelique Gontran
við trönurnar, milli málverka sinna og áhalda. Hann reykti pípu og var
að mála lítinn, nakinn erkiengil eftir fárra mánaða barni, sem lá á
bláu teppi. Hún hóf máls á því að tala um skilti járnsmiðsins, án þess
að taka af sér grímuna. Svo tók hún hana af sér, hló og sýndi sig.
Hún hafði á tilfinningunni, að Gontran væri raunverulega glaður yfir
því að sjá hana aftur. Hann var stöðugt að likjast föður þeirra meir
og meir, setti hendurnar á hnén eins og hann, þegar hann hlustaði. Hann
sagði Angelique, að hann hefði lokið prófum og gifst dóttur læriföður
sins, Van Ossel.
— E’n þú hefur tekið niður fyrir þig! hrópaði Angelique.
— Hvað um þig? Ef að mér hefur skilist rétt, ertu veitingakona í
krá, og hellir í glös fyrir fólk, sem er áreiðanlega mun lægra sett en ég.
Eftir andartaksþögn hélt hann áfram:
— Og þú komst þjótandi til að hitta mig, án þess að hika eða
skammast þín fyrir að vera systir mín. Hefðirðu flýtt þér á sama hátt
til að skýra núverandi stöðu þína fyrir Raymond, sem nýlega hefur
verið skipaður skriftafaðir drottningarmóðurinnar, eða systur okkar
Marie-Agnés, sem er einkaþjónustustúllca hjá drottningunni og leikur
hóru í Louvre, samkvæmt lögmáli hirðarinnar, eða jafnvel til Alberts
hins unga, sem er hestasveinn hjá de Rochant markgreifa?
Angelique viðurkenndi að hún hefði ekki fylgzt mjög vel með fjöl-
skyldu sinni. Hún spurði, hvað hefði orðið af Denis.
— Hann er í hernum. Pabbi er stóránægður. Að lokum er de Sancé
kominn í þjónustu konungsins. Jean-Marie er í skóla. Það getur verið,
að Raymond geti fengið styrk frá kirkjunni handa honum, þvi hánn
er í mjög nánu sambandi við skriftaföður konungsins, sem sér um
styrkveitingarnar. Ætli það endi ekki með því, að við eigum biskup
í fjölskyldunni ?
—• Finnst þér ekki, að við séum skrýtinn hópur? spurði Angelique
og kinkaði kolli.
— Það er hægt að finna de Sancé hvar sem er í virðingastiganum.
Hortense vælir og væflast einhversstaðar með þessum lögfræðings-
eiginmanni sínum. Þau hafa mikil sambönd, en þau lifa nízkulega. Þau
hafa verið að kaupa skrifstofu sína aftur og aftur og hafa ekki fengið
grænan eyri frá ríkinu í næstum fjögur ár.
— Heimsækirðu þau stundum?
— Já. Líka Raymond og hin. Ekkert þeirra er sérlega hrifið af að
sjá mig. En þau vilja gjarnan láta mála mynd af sér, öll með tölu.
Angelique hikaði aðeins:
— Og.... þegar þið hittist.... talið þið nokkurntíman um mig?
— Aldrei! sagði málarinn rámur. — Minningarnar, sem bundnar
eru við þig, eru of hræðilegar. Þetta var reiðarslag, sem skall á hjörtum
okkar allra. Sem betur fer vita fáir, að þú varst systir okkar — þú,
eiginkona galdramannsins, sem var brenndur á Place de Gréve.
En meðan hann talaði tók hann um hönd hennar og lagði hana
milli sinna, með málningarslettum og öróttar eftir sýrur. Hann að-
skildi fingur hennar og snerti lófann, sem bar merki eldamennskunnar,
og lagði hann blíðlega að kinn sinni á sama hátt og hann var vanur
þegar þau voru bæði börn....
Ángelique fann svo mikið til í hálsinum, að hún hélt að hún myndi
fara að gráta. En hún hafði ekki grátið svo lengi, að hún gat það ekki
nú. Siðustu tár hennar höfðu runnið löngu fyrir dauða Joffrey. Hún
hafði misst hæfileikann. Hún dró að sér höndina og sagði næstum fá-
lega, um leið og hún leit á strigann, sem hallaðist upp að veggjunum
allt i kringum hana.
— Þú gerir fallegar myndir, Gontran.
— Já, og þó halda aðalsmennirnir áfram að lítilsvirða mig og
burgeisarnir að sýna mér hroka vegna Þess að ég geri þessa fallegu
hluti með höndum mínum.
— Vildu þeir fremur, að þú gerðir það með fótunum? Og hvers
vegna ætti meðhöndlun sverðs að vera minna litillækkandi en með-
höndlun pensla?
Hann hristi höfuðið og brosbirta færðist yfir andlit hans. Hjóna-
bandið hafði gert hann glaðari og málhreyfari.
— Litla systir, ég er fullur af sjálfstrausti. Dag nokkurn förum við
til hirðarinnar og þaðan til Versala. Kóngurinn kallar á listamenn í
sívaxandi mælikvarða. Ég mun mála loftin, og ég mun mála myndir af
prinsum og prinsessum, og konungurinn mun segja við mig: — Þér
gerið fallega hluti, Monsieur. Og við þig segir hann: — Madame, þér
eruð fegursta kona í Versölum.
Þau skellihlógu bæði tvö.
69. KAFLI
1 hauströkkrinu gekk Angelique eftir Pont-Neuf, hún hafði komið
til að kaupa blóm og notaði sér tækifærið til að ganga búð úr búð.
Hún nam staðar fyrir framan pall Stóra Matthieus og hjartað stökk
kollhnís í brjósti hennar. Stóri Matthieu var að draga tönn úr manni,
sem kraup fyrir framan hann. Munnur sjúklingsins var opinn og af-
Framhald á bls 45.