Heima er bezt - 01.03.1973, Side 35
Halldór Laxness: Af skáldum.
Rvik 1972. Menningarsjóður.
Hér hefir Hannes Pétursson valið og safnað 20 greinum og ritgerð-
um eftir Halldór Laxness um íslenzk skáld, eldri og yngri. Eru
greinar þessar skrifaðar á löngum tíma, hin elzta 1927 en hin
yngsta 1963. Flestar greinanna eru skrifaðar við tiltekin tækifæri,
afmæli, dánardægur eða ritdómar um nýjar bækur skáldanna.
Undantekningar frá því eru þó greinarnar um Jónas Hallgrímsson
og Hallgrím Pétursson. Er hin síðarnefnda lengsta og veigamesta
ritgerðin, enda komið víða við, en vitanlega hlýtur margt í skoð-
unum höfundar að orka tvímælis. Annað mál er, að staðhæfingar
hans og kenningar vekja til umhugsunar og skerpa tvímælalaust
skilning manna á hinu ágæta verki Passíusálmunum, og lífi Hall-
gríms og skáldskap, og er það höfuðgildi ritgerðarinnar. Líkt má
segja um hinar greinarnar, að þær gefa innsýn í verk höfundanna,
enda þótt lýsingarorð Laxness um þá flesta séu höfð í hástigi, og
auðsénn sé vinarhugur hans til þeirra. En bezt verður myndin þó
af Laxness sjálfum og viðhorfi hans til skáldbræðra sinna og skáld-
skapar á löngum tíma ævi hans. Allar eru greinarnar skemmtilegar
aflestrar eins og annað frá penna Nobelsskáldsins og gott að hafa
þær þarna á einum stað.
Óskar Stefánsson frá Kaldbak: Úr lífi smalans.
Akureyri 1972. Útg. Skjaldborg.
Hér segir gamall bóndi frá ýmsum þáttum ævi sinnar, en tíðrædd-
ast verður honum um æskuminningarnar og dýrin, þótt hann
einnig komi víðar við um búskap og ferðalög. Frásögnin er látlaus,
einföld og innileg á góðu, íslenzku alþýðumáli, sem margt mætti
læra af. Ber hún vitni manni, sem lifir í nánu samlífi við náttúr-
una, bæði dauða og lifandi, og ann íslenzkri mold og öllu, sem
hrærist í kringum hann. Hann er gæddur þeim næmleika náttúru-
barnsins, að skynja veðrabrigði og aðra duttlunga náttúrunnar,
er draumspakur og athugull í bezta lagi. Þetta er hlýleg bók og
ánægjuleg aflestrar hverjum þeim, sem skynjar náttúruna um-
hverfis sig með samúð, og hinum getur hún kennt að unna nátt-
úrunni, dýrum og dauðum hlutum.
Bragi Sigurjónsson: l’áskasnjór.
Akureyri 1972. Bókaútg. Skjaldborg.
Þessi nýja ljóðabók Braga er hin sjötta í röðinni, og má það kalla
vel af sér vikið, af manni hlöðnum störfum, að vinna slíkt í hjá-
verkum. Hún er um margt ólík fyrri bókum höf., hún er bjartari
og Ijóðrænni, og orð og hagmælska hefir aldrei leikið honum svo
á tungu. í kvæðunum fléttast saman á haglegan hátt bjartsýni
æskunnar og íhygli hins roskna og reynda manns. Ýmsum mun
koma einkennilega fyrir sjónir um mann, sem svo mjög hefir
staðið í orrahríð landsmálanna og Bragi, að þar skuli ekki vera að
finna ádeilu- eða baráttuljóð, svo að heitið geti. Sýnir það gjörla
með hve mikilli alúð hann ræktar akur listar sinnar, og hefir
haldið þeim unaðsreit sínum fjarri kulda og harki landsmálanna
og hins daglega argafass. Fjölbreytni í háttum og leikni í meðferð
þeirra er mikil, og hann bregður sér jafnvel yfir í hið órímaða
ljóðform og ferst það vel úr hendi. Allmörg kvæði eru með blæ
þjóðvísunnar, og er þar slegið á nýjan streng. Margt er af snjöll-
um náttúrulýsingum, sviphreinum og sólroðnum, enda óskar höf.
sér að deyja inn í fegurð landsins, sem engan kann að undra að
loknum lestri bókarinnar og þess innileika, sem kemur þar fram
gagnvart náttúru landsins. Það er tilgangslaust að tína upp ein-
stök kvæði eða tilvitnanir, enda þótt ekki séu öll kvæðin jafngóð,
en í heild einkennist bókin af birtu og yl, og hefði raunar fremur
átt skilið heitið Páskasól en Páskasnjór, því að venjulega stafar
kaldri birtu af snjónum, þótt um páska sé. Mér virðist lífsskoðun
höf. koma fram í þessu erindi:
Aldrei skulu ill völd
yndisbyggð týna.
Eftir veður ísköld
skal ætíð skína
morgundýrð margföld.
Gunnar Gunnarsson: Heiðaharmur.
Rvík 1972. Almenna bókafélagið.
Þetta er 3. bindið í hinni handhægu og snotru útgáfu AB af sögum
Gunnars Gunnarsson. Heiðaharmur er ein hinna yngstu skáldsagna
hans og fjallar um eyðingu og síðasta viðnám fólksins á heiða-
byggðum Austurlands, eða nánar tiltekið Vopnafjarðarheiðum. —
Munu kunnugir þekkja þar svipmyndir af fólki og atburðum, þótt
fært sé í skáldlegan búning, og þótt viðhorf lesandans séu ef til vill
önnur, hlýtur hann að fyllast samúð og virðingu með viðnáms-
fólkinu. Vera má, að Heiðaharmur verði ekki talinn til mestu
sagna Gunnars, en engu að síður hefir hann skapað þar ógleym-
anlegar persónur, eins og t. d. feðginin á Bjargi, Brand og Bjarg-
föstu, auk margra annarra, sem minna koma við sögu. Og hvort
sem menn samþykkja viðhorf höf. til eyðingar heiðabyggðanna
eða ekki, hljóta þeir að hrífast af festu hans og tryggð við fornar
dyggðir, er það út af fyrir sig þörf hugvekja á þeim upplausnar-
tímum, sem nú standa yfir. Og ef til vill kemur viðhorf höf. til
íslenzks þjóðernis og þess, sem bezt er í íslenzkri þjóðarsál, hvergi
betur fram í sögum hans en hér. Og ekki spillir hið þróttmikla
tungutak, þar sem hvert orð er sem meitlað úr íslenzkri öræfa-
náttúru.
Ingólfur Kristjánsson: Dagur og ár.
Rvík 1972. Almeima bókafélagið.
Þetta er geðþekk ljóðabók. Kvæðin stutt og bregða upp skyndi-
myndum, sem snerta lesandann og hann virðir fyrir sér með
ánægju. Stundum sendir höf. frá sér beinskeyttar örvar, sem hæfa
í mark, þótt broddur þeirra sé ef til vill ekki sár, enda er höf. miklu
fremur ljóðrænt skáld en ádeilusmiður. Allmjög ber á söknuði hins
horfna og yfirleitt er höf. alvörumaður. Stundum bregður fyrir
vonleysi, eða öllu heldur honum virðist tilveran tilgangslaus, en
undirstraumur ljóðanna er þó bjartsýni. Þótt hin erlendu blóm
kali í næðingum vorsins, er höf. ljóst, að jörð öll endurfæðist með
nýju vori. Ingólfur kann vel til ríms, þótt hann noti mest órímaða
formið, sem er skaði. Við fljótan lestur finnst mér mest um kvæðin
Vordraumur og ljóð. Ingólfur hefir sýnt með þessari bók, sem
raunar var áður kunnugt, að hann er meðal hinna hugþekkustu
yngri skálda vorra. St. Std.