Heima er bezt - 01.04.1988, Blaðsíða 27
kvæntist hann bróðurdóttur Sesseliu, sem hét Guðrún.
Pabbi fæddist síðan 1852, og síðar áttu þau Ásmund, Þór-
arin og Sesseliu, sem var yngst. Afi dó frá þeim ungum
1866, þá var pabbi tæplega 14 ára, en þá voru eldri
bræðurnir farnir að heiman og vinnuhjúalaust, svo að hann
varð að taka við öllu.
Eftirfarandi sögu sagði pabbi mér: Hann var sendur í
göngur upp að Hofteigi, þvi að þá var siður að reka haga-
lömb og geldfé þ.e. sauði og geldar ær upp á Jökuldal. Þar
eru góðir hagar. Margir Úttungumenn voru komnir saman
í Hofteigi, og áttu þeir að ganga Jökuldalsheiði daginn
eftir. Þetta var á sunnudegi. Þá held ég að séra Þorvaldur
Ásgeirsson hafi verið þar prestur. Þeir sátu á rúmum í
baðstofunni en prestur gekk um gólf, fer hann nú að tala
um það, að það sé nú vit að senda 14 ára unglinga upp á
Jökuldalsheiði. Pabbi, sem var fljótur að reiðast, ætlar að
þjóta upp og verða vondur, en nágranni hans kippti í
buxurnar og segir: „Ja, ekkjan í Gunnhildargerði hafði nú
ekki nema fyrirvinnuna sína að senda í göngurnar“. Þá
þagnaði prestur og gekk út, en pabbi hét því, að hann skyldi
ekki verða eftirbátur þeirra karlanna.
Pabbi giftist mömmu 1882 og hafði verið fyrirvinna
heimilisins frá því afi dó 1866, og alllöngu áður en hann
gifti sig hafði hann alveg tekið við búinu. Það eru eftirmæli
um pabba bæði í Óðni og Austra eftir nágranna hans, Jón
Jónsson á Nefbjarnarstöðum. Ég held það sé ofsögum sagt,
sem segir þar að pabbi hafi reist baðstofuna og öll útihús á
einu ári. Ég held það hafi verið alveg ómögulegt.
Pabbi var kannski ekki neinn sérstakur smiður, en hann
tindaði samt allar hrífurnar, en ég held hann hafi fengið
bakkaljáinn annars staðar, en þó var hann stundum að
dunda við það. Það var margt, sem hann gerði í smiðjunni.
Allt var slegið með orfi og ljá, það lét pabbi vinnu-
mennina og kaupamenn gera. Hann sló aldrei sjálfur, þoldi
það ekki fyrir gigt eftir að ég man eftir mér. Þó byrjaði hann
æfinlega sláttinn sjálfur og sló þá kraga kringum bæinn.
Þetta var eiginlega siður.
Pabbi var þrekmenni mikið og fór allar kaupstaðarferðir
sjálfur. Á haustin lét hann náttúrlega alltaf vinnumennina
reka fé til Seyðisfjarðar og lóga því. Það voru bara sauðir,
því að hagalömbin voru fóðruð, þau voru svo lítil, þó var
einhverju af þeim lógað heima svo sem 2-3 í kæfu.
Lambakjöt var aldrei saltað, það var að vísu borðað en
þótti svo rýrt, að það var ekkert notað að ráði. Saltkjötið var
af sauðum og geldum rollum.
Pabbi var heilsutæpur seinni árin, og vann þá við að
lagfæra og dytta að og sjá um húsin. Hann var eiginlega
útslitinn fyrir aldur fram, og það er líklegast að veikindi
hans hafi stafað af því. En engu að síður fór hann allar
lestaferðir og bar baggana af túninu á bakinu upp í
hlöðurnar. Hann bar þá í stiga upp í kúa- og hestahlöðuna.
Það var þrekvirki. Ég man eftir því, þegar hann var orðinn
lasinn, að hann lét okkur setja baggana upp á þúfu, þar
settist hann undir þá. En áður var hann vanur að slengja
þeim upp á herðarnar.
Pabbi vann ekki innanhússtörf önnur en gera við amboð
og þessháttar. Verkaskiptingin milli kynjanna var skýr. Ég
Hl'ONIN
BiiJ!UiJ!Lrr«i3an
■Tif íJLULiíi áíiliiiG
6UE55U
Legsteinn Gunnhildargerðishjóna, Guðrúnar og Sigmundar.
afsagði að þjóna nokkrum manni, nema pabba og Sigfúsi
bróður mínum, hann var svo ungur. En þá var siður að
draga plöggin af körlunum og hafa til sokkana þeirra
brotna á hæl, svo að þeir gætu komist í þá, þegar þeir kæmu
frá fénu.
Pabbi minn var á undan í mörgu, þó að hann væri ekki
menntaður. Hann hafði reynslu og náttúrugreind. Hann
var svo fljótur að reikna í huganum, að enginn hafði roð við
honum. En hann skrifaði lítið. Auðvitað skrifaði hann
nafnið sitt, en hann hafði venjulega mann til að skrifa fyrir
sig. Systur mínar gerðu það seinna, og við yngri systkinin
eftir að við lærðum að skrifa. Pabbi hafði aldrei gengið í
skóla, hann hafði aldrei tíma til þess. Ég átti skrifað
sveitakvæði eftir Þórarin, yngri bróður hans, það brann hjá
mér á Bergstaðastræti 70. Ég átti stóra krukku, sem ég
geymdi ýmislegt í, sem pabbi hafði gefið mér, eins og til
dæmis uppskriftir af búinu, þegar hann tók við. Þetta
brann allt. Þórarinn var yngstur bræðranna og hann vildi
allt fyrir hann gera. Þórarinn dó ungur.
Á tímabili var ósköp um það, að fólk færi til Ameríku.
Það þorði enginn að koma til pabba og „agentera“ fyrir
slíkum ferðum. Hann var á móti Ameríkuferðum. Og ég
fann að hann hafði skömm á séra Jóni Bjarnasyni frá
Dvergasteini, sem „agenteraði“ afskaplega mikið og fór til
Ameríku og varð mætur maður. En pabba fannst þetta vera
landráð og það hvarflaði aldrei að honum að fara. En mig
langaði til að fara til Ameríku, þegar ég var krakki. En það
voru engin efni til, og ég ekki nógu dugleg til að drífa mig,
þegar ég varð eldri. Enda gilti það allt að einu.
Heima er bezt 135