Muninn

Árgangur

Muninn - 01.12.1964, Blaðsíða 6

Muninn - 01.12.1964, Blaðsíða 6
og stuðlum. Raunar ætti það að vera aug- ljósara en á þurfi að benda sem þó hefur oft verið gert að rím er algjört aukaatriði er gera skal út um gildi Ijóðs og barnaskap- ur einn að bíta sig í slíka hluti eins og ein- kennilega margir virðast haldnir af. En þessi eltingaleikur við aukaatriðin er að vísu síður en svo nýr af nálinni eins og áð- ur var minnzt á. Þegar meta skal ljóð kemur vitanlega fyrst og síðast til álita hversu skáldinu hafi tekizt að skapa trúverðuga mynd, hvort því hafi tekizt vel eða illa að túlka skynjun sína þannig að lesandinn fái notið. En hinsveg- ar er það skoðun mín að mörg ljóð öðlist aukið áhrifamagn við einhverskonar form- bindingu, rím eða a. m. k. stuðla; öðrum fer betur hið lausa form og verður vit- anlega ekki dregin þar nein markalína. En er það ekki einmitt hlutverk hjálpar- tækja sem ríms og stuðla, að magna ljóðið, gæða það auknu áhrifavaldi, meiri styrk? Sé slíkra hjálpartækja ekki þörf eiga þau engan rétt á sér og séu skáld að burðast með rím eingöngu þess sjálfs vegna er það aðeins til óþurftar. Skáldið verður að gera það upp við samvizku sína hverju sinni hvort vel fer á notkun hefðbundins forms eða ekki og haga vinnubrögðum sínum í samræmi við þær niðurstöður. í annan stað er aldrei of mikil áherzla á það lögð að formið er aukaatriði og fari skáldin að sinna því á kostnað innihaldsins er list þeirra feig, orðin hjóm eitt enda þótt það sé kannski í áferðarfögrum umbúðum. Það er alkunna hve þýðingarmiklu hlut- verki orðsins list hefur gegnt með íslenzkri þjóð frá fyrstu tíð; raunar hefur skáldskap- urinn verið þjóðinni á vissan hátt lífgjafi á þrengingartímum. Alltaf var það ljóðið sem sat í öndvegi þó vissulega höfum við ekki farið varhluta af list hins óbundna máls og getur þar að líta marga háa tinda bæði yngri og eldri bókmennta. En ljóðið hefur samt átt hjarta þjóðarinnar og mun eiga svo lengi sem hún er og heitir. En til að ljóðlistin fái haldið velli og blómgazt nægir ekki að upp rísi menn með snilligáfur á því sviði heldur verður einnig sá jarðvegur sem þjóðfélagið lætur skáldinu í té að vera nægi- lega frjór. Þjóðin gerir með réttu kröfur til skálda sinna; þá er þeim einnig heimilt að gera kröfur til fólksins. Annar aðilinn má ekki krefjast af hinum án þess að láta neitt í staðinn því þá verður listin ófrjó, skyld- ari þyrnum og þistlum en hinum fagra og safaríka gróðri jarðar. Það er staðreynd sem ekki verður neitað að staða 1 jóðlistar í þjóðlífinu hefur versn- að stórum og áhugi fyrir henni stórminnk- að á síðustu tímum. Þetta ætti að vera mönnum ljóst en þar fyrir er gagnslaust að viðhafa stóryrði og ásakanir; menn verða aðeins að glöggva sig á hverjar ástæðurnar eru og haga aðgerðum sínum samkvæmt þeim. Margir vilja kenna skáldunum um þetta; þau séu bögubósar einir. Þetta er auðvitað fjarstæða; að vísu eru ungu skáldin ærið misjöfn að gæðum, en kann bókmenntasag- an að greina frá nokkru tímabili þar sem lifað hafi snillingar einir? Mörg ungskáld- anna eru frumleg og djörf og leita ótrauð fyrir sér þrátt fyrir slæmar aðstæður. Ymsir vilja skella skuldinni vegna ofan- nefndrar óheillaþróunar á fólkið sjálft, það sé heimskara og sljórra en áður; þetta er líka rangt, sökin er ekki hjá fólkinu, a. m. k. ekki beinlínis. Ég held að orsakanna til slæmrar vígstöðu ljóðsins sé einkum að leita í hinum geysimiklu þjóðfélagsbreyt- ingum sem átt hafa sér stað hérlendis síð- ustu áratugi. Kannski er réttara að nefna byltingu en breytingu; þjóðfélagið hefur umsnúizt úr rótgrónu sveitaþjóðfélagi í rót- laust borgarþjóðfélag; af þessu stafar hið mikla los í þjóðlífinu sem mörgum er vax- andi áhyggjuefni og þetta los segir vitan- lega til sín í andlegu lífi og listum ekki síð- ur en annarsstaðar. Samhliða slitum fólks- ins við moldina og flutningi þess á mölina hafa nýjungarnar flætt yfir með slíkum 34 MUNINN

x

Muninn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Muninn
https://timarit.is/publication/429

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.