Kirkjuritið - 01.11.1958, Page 25
Kirkjuþáttur í útvarpinu.
Á aðalfundi Kirkjukórasambandsins 22. júní tók ég eftir
því, að einn fulltrúanna hafði árinu áður komið fram með
tillögu um kirkjuþátt í útvarpinu.
Hugmyndin með þeim þætti er sú, að efla sönglíf kirkju-
kóranna, æfa gömul og sígild sálmalög, kynna ný lög og
hvetja almenning til sálmasöngs.
Mér þótti mjög vænt um að sjá þessa tillögu fram komna.
Söngmálastjóri hefir unnið þrekvirki á sviði söngsins með
öflugu starfi kirkjukóranna. Og með sérstökum þætti i út-
varpinu fyrir sálmasöng, mundi útvarpið vinna göfugt, kær-
komið og blessunarríkt starf fyrir þjóðina.
En margt fleira kemur til greina í þessum þætti. Verk-
efnin eru ótæmandi. T. d. væri gott að tala við og við um
sjálfa messugjörðina, útskýra helgisiðina, svo að fólk viti,
hvað þeir tákna og njóti betur guðsþjónustunnar, sýna fram
á gildi kirkjugöngunnar, þá blessun, sem nútímamanninum
er að þátttöku í hinni sameiginlegu guðsþjónustu safnaðar-
ins, minnast á hlutverk starfsfólksins við kirkjurnar og hvern-
ig leikmenn eigi að verja af tíma sínum, hæfileikum og fjár-
munum til eflingar Guðsríkis á jörð, flytja innlendar og er-
lendar fréttir af kirkjulegu starfi til uppörvunar og hvatn-
ingar, ræða um það, sem efst er á baugi hverju sinni, fá stutt
vekjandi ávörp, andlega söngva og tónlist, sem ekki er flutt
í venjulegum guðsþjónustum. Þannig mætti lengi telja. Óþrjót-
andi verkefni blasa við. U. þ. b. 15 mín. þáttur vikulega
hefir brýnt erindi til þjóðarinnar og getur orðið lyftistöng
fyrir kirkjulífið í heild. I því sambandi má benda á þann
stuðning, sem þáttur Sigurðar Sigurðssonar er fyrir íþrótta-
hreyfinguna. Vonandi verður þess ekki langt að bíða, að við
fáum kirkjuþáttinn í dagskrá Ríkisútvarpsins.
Pétur Sigurgeirsson.