Gripla - 01.01.1980, Blaðsíða 15
10
GRIPLA
og léti hann smíða dýrgripi handa dómkirkjunni.1 ‘Lét Lárentíus biskup
hann smíða kirkjunni á Hólum texta tvo, harla sæmilega, sem enn mega
sýnast á Hólum’,2 þ. e. upp úr miðri 14. öld þegar sagan var skrifuð.
Textasmíð þessi virðist hafa átt sér stað rétt fyrir andlát biskups 1330,
og svo mjög hefur höfundi sögunnar, síra Einari Hafliðasyni, þótt til
textanna koma, að hann nefnir þá aftur í annál sínum, Lögmannsannál,
og þá á þessa leið: ‘Lárentíus biskup lét smíða texta amaleraðan, og
annan uppdrifinn.’3 4 Þetta er vel þeginn fróðleikur og merkilegur vegna
þess að helst er svo að skilja að Eyjólfur gullsmiður hafi fengist við
smeltvinnu á Hólum, en smelt var einmitt mjög algengt á textaspjöld-
um þeim sem mest var í borið erlendis.
í máldögum miðalda er texta iðulega getið, oft athugasemdalaust, en
stundum á þann veg að augljóst er að þeir hafa verið kostulega búnir.
Texti búinn, textabúnaður með silfur, kemur margsinnis fyrir, einnig
texti með forgylltan kopar, eða með messing, tönn eða smelt, texta-
spjöld tvö af messing smeltd Glæsileg er textaeign Hóladómkirkju
1525: stór texti með silfurspjaldi forgylltur, amaleraður með víravirki,
og annar silfurtexti með forgylltu spjaldi, og enn tveir textar búnir með
hvítt silfur.5 Fróðlegt er að sjá að margar kirkjur áttu kodda (pulvina-
rium), til dæmis átti Hóladómkirkja tvo, ætlaða til að leggja textana á
og hlífa þannig dýrmætum búnaði utan á spjöldum þeirra.
Þessar glefsur úr íslenskum máldögum nægja til að vekja nokkra
hugmynd um að íburðarmiklir textar voru algengir hér á landi á mið-
öldum, bæði erlend listaverk og heimagerð. Flestir eru þessir prýðilegu
textar miðalda týndir og tröllum gefnir, og er það gamla sagan. Þó vill
svo ánægjulega til að frá Grund í Eyjafirði hafa varðveist tvö lítt
skemmd og forkunnargóð textaspjöld, eflaust bæði af sama textanum.
Eðlilegt er að beina hér að þeim nokkurri athygli. Ólafur timbur-
meistari Briem á Grund sendi spjöldin ásamt fleiri kjörgripum til Old-
1 Allt sem tekið er beint úr heimildum í þessari ritgerð er fært til nútíma staf-
setningar, enda skiptir gamall ritháttur ekki máli fyrir efni hennar.
2 Laurentius saga biskups. Arni Björnsson bjó til prentunar. Rit Handrita-
stofnunar íslands III. Reykjavík 1969, bls. 133.
3 G. Storm, Islandske Annaler indtil 1578. Christiania 1888, bls. 269.
4 Um þetta vísast til Fredrik B. Wallem, De islandske kirkers udstyr i tniddel-
alderen. Foreningen til norske fortidsmindesmærkers bevaring. Aarsberetning
1909, bls. 59.
5 ísl. fornbrs. IX, 295. Sjá einnig Kulturhistorisk leksikon for nordisk middel-
alder I, 120, undir Altarets kladsel.
1