Gripla - 01.01.1980, Page 31
26
GRIPLA
Svo vill þó til að nokkur sagnfræðileg vitneskja um velsku hetju-
öldina komst á bókfell. Til er á latínu ritlingur sem nefnist Historia
Brittonum, saminn af velskum munki um 829. Rit þetta breyttist mjög
í síðari gerðum, og var þar einkum að verki Nennius nokkur sem jók
það stórlega um miðbik 12. aldar. Frumgerð hefur varðveist í handriti
sem skráð er um 1100.1 Þetta er stutt ágrip af Bretlandssögu, frá því
að Brito nokkur stofnaði ríkið og allt fram á ofanverða 7. öld. Höf-
undur hefur verið lærður maður sem kunni að nota sér tímatalsrit á
latínu. Að lokum er frásögn af hinni ensku hertöku Norðimbralands.
Samkvæmt engilsaxnesku konungatali hófst þessi innrás árið 547.
Hefur höfundur bæklingsins haft eintak af konungatalinu undir hönd-
um og notar það til að ákvarða tímatal í síðasta kafla verks síns. Á
þessa beinagrind bætir hann síðan fræðum um Bretakonunga sem
börðust gegn innrásarmönnum. Nefnir hann fjóra konunga sem vörðust
hetjulega á síðustu áratugum 6. aldar. Allir eru þeir kunnir garpar í
velskum fomkvæðum: Urien ásamt sonum sínum, og Rhydderch, Gwal-
log og Morgan. En höfundurinn hefur einnig nokkurn fróðleik um skáld
þessa tímabils. Garpurinn Outigirn, sem er ókunnur ella, er hér talinn
helsti mótspyrnumaður gegn innrásarmönnum, og rétt á eftir er þess
getið að á þessum tíma (tunc) væru fimm skáld að yrkja: simul uno
tempore in poemate Brittanico claruerunt. Þau eru nefnd með nöfnum,
en aðeins tvö þeirra eru kunn af öðrum heimildum, Aneirin og Taliesin.
Hvorumtveggja er eignaður dálítill kveðskapur sem varðveittur er í
handritum frá 13. öld. Þessi skáldskapur er fornlegur að málfari, og
hann fjallar einmitt um hetjur hins glataða Norðurlands.
Sá sem samdi Historia Brittonum var gráðugri safnari en Ari, og
kunni sér ekki alltaf hóf í mati heimilda. Hann notaði fornar sagnir frá
írlandi og Wales jafnt sem enskar sögur um Hengest og Horsa. Hann
vissi að ættartölur voru mikilvæg undirstaða; og það sem hér skiptir
máli: hann taldi kvæðin vera sögulegar heimildir og reyndi að fella
þau inn í tímatalskerfi sitt.
Garpar þeir sem rómaðir eru í norrænum skáldskap voru aldrei
teknir með í söguritum sem hafa ákveðið tímatal. En til er norræn
heimild frá miðbiki 12. aldar þar sem taldir eru margir garpar. Ég á
að sjálfsögðu við Háttalykil sem eignaður er Rögnvaldi Kala Orkneyja-
1 Sjá D. Dumville, ‘The Corpus Christi “Nennius’”, Bidletin of the Board of
Celtic Studies xxv (1974), 369-79; ‘Nennius and the Historia Brittonum’, Studia
Celtica 10-11 (1975-6), 78-95.