Gripla - 01.01.1980, Page 35
30
GRIPLA
Blómatími velskra hirðkvæða hófst snemma á 12. öld og stóð allt
fram á ofanverða 13. öld. Þrjátíu og eitt skáld eru kunn að nafni, og
eitt eða fleiri kvæði varðveitt eftir hvern þeirra. Þessi skáld dvöldust
við höfðingjahirðir í ýmsum héruðum Wales. Á 11. öld var enn mikil
keppni milli ýmissa höfðingjaætta; ein ætt keppti við aðra um völd yfir
öllu Wales. En í upphafi 12. aldar hlutu þessir smákonungar að fást við
sameiginlegan óvin. Normannakonungar sem nú sátu á stóli Englands
höfðu reynt að sigra Wales með því að setja stórhöfðingja niður á
landamærum ríkisins, fá þeim miklar landeignir og víggirta kastala.
Árið 1136 hófst uppreisn í landinu. Foringi var Owain frá Gwynedd,
og ýmsir aðrir furstar studdu hann. Baráttan blossaði upp aftur og
aftur, uns síðasti velski höfðinginn féll árið 1282.
Þessir höfðingjar voru bæði ríkir og framgjarnir. Sumir þeirra voru
um stundar sakir í vináttu við enska konunga og mægðust jafnvel við
þá. En þeir mátu sjálfstæði sitt mikils og lögðu ávallt rækt við innlendar
venjur og menntir: einmitt þau efni sem skáldin höfðu í sinni vörslu.
Þetta var ný hetjuöld. ‘Höfðingjaskáldin’ sem svo eru nefnd ortu
hersöngva og angurljóð, helgikvæði og mansöngva. En umfram allt
horfðu þeir aftur til hinnar gömlu hetjualdar Norður-Bretlands. Þeir
skírskotuðu til Uriens konungs og annarra fornra garpa sem þeir
nefndu, ásamt skáldum þeirra. Aneirin og Taliesin koma þar við sögu
og einnig aðrir sem við vitum engin deili á, því að kvæði þeirra eru
glötuð. Höfðingjaskáldin notuðu orðaforða eldri skálda og stældu jafn-
vel efnisatriði og lýsingar.
Kveðskapur þessara tveggja fornskálda hefur verið gefinn út á prent
af Ifor Williams: Canu Taliesin (Cardiff, 1960), ensk þýðing eftir J. E.
Caerwyn Williams (Dublin, 1968); Canu Aneirin (Cardiff, 1938), ensk
þýðing eftir K. H. Jackson í The Gododdin (Edinburgh University
Press, 1969).
BT er safn af kvæðum ýmislegs efnis og frá ýmsum öldum. Sum
kvæðin eru guðrækileg, sum fjalla um stjórnmálaerjur á 10. öld. Inn á
milli eru 12 kvæði með sérstöku sniði sem skilja má frá öðrum. Öll
fjalla þau um hina bresku hetjuöld.
Garparnir Urien og sonur hans Owain koma fram í 9 kvæðum. Ríki
þeirra hét Rheged, geysimikið land sem náði frá Glasgow í norðri og
allt suður yfir Cumbriu og Lancashire. Feðgamir vörðu land sitt vel
gegn árásum Saxa, háðu miklar orrustur og höfðu lengi sigur.
Þrjú kvæði herma frá öðrum höfðingjum. Tvö eru lofsöngvar um