Gripla - 01.01.1980, Side 93
88
GRIPLA
vandabundinn Eiríki rauða, að hann hafi tekið hann til sín, og verður
þá að hafa í huga, að Eiríkur hafði þremur árum áður orðið sekur á
Þórsnessþingi, en raunar er ekki tekið fram hvort hann hafi verið
dæmdur sekur skógarmaður eða í þriggja ára útlegð, og má vera að
þeir sem þessar frásagnir skráðu hafi gert ráð fyrir að hann hafi verið
þrjá vetur á Grænlandi í sekt sinni og laus úr sekt þegar hann kom
heim til íslands aftur. En allt um það höfðu engar sættir tekist með
honum og Þorgestlingum, og mátti sá maður sem tók við honum til
vetursetu þess vegna búast við fjandskap þeirra sem áttu harma sinna
að hefna á Eiríki.
I Landnámu eru ekki raktar ættir frá Ingólfi hinum sterka Ánasyni
á Hólmslátri, en getið er um afkomendur Þorvalds bróður hans, og er
texti Hauksbókar þar fyllri en Sturlubókar og e. t. v. aukinn eftir ættar-
töluriti Brands príors hins fróða. í Hauksbók segir að son ‘Þorvalds
var Þorleifur, faðir Halldórs . . .’ Þorleifur Þorvaldsson er einnig
nefndur í Sturlubók, og segir þar að hann hafi búið á Hólmslátri.25
Ingólfur hinn sterki, sonur ‘Ána Ávaldssonar öngt í brjósti’, er hálf-
gerður vandræðagemlingur. í Sturlubók segir að hann ‘nam land inn frá
Laxá til Skraumuhlaupsár og bjó á Hólmslátri; hans bróðir var Þor-
valdur, faðir Þorleifs er þar (/;. e. á Hólmslátri) bjó síðan.’ í Hauksbók
segir hinsvegar að ‘Ingólfur hinn sterki og Þorvaldur, synir Ána Ávalds-
sonar öngt í brjósti, námu land inn frá Laxá til Skrámuhlaupsár og bjó
á Hólmslátri.’ Þar er hins vegar ekki tekið fram hvar Þorleifur Þorvalds-
son hafi búið, og ekki verður ráðið af textanum hvort eintölumyndin
‘bjó’ eigi fremur við Ingólf en Þorvald. Jón Jóhannesson og Jakob
Benediktsson eru sammála um að eintölumyndin ‘bjó’ sýni, að Þorvaldi
hafi verið skotið inn í texta Hauksbókar.26 En hugsanleg skýring væri
einnig að nafn hafi fallið niður á eftir ‘bjó’ í texta Hauksbókar: og bjó
Ingólfur (eða Þorvaldur) á Hólmslátri. Ýmsir hafa látið sér detta í hug,
að Ingólfur á Hólmslátri væri sami maður og Ingólfur hinn sterki sonur
Þórólfs sparrar, landnámsmanns að Hvallátrum, sem er getið í 131.
kapítula Sturlubókar, 103. kapítula Hauksbókar og 44. kapítula Mela-
bókar.27 Ef Ingólfur Þórólfsson hefur verið til annars staðar en á bókum
hefði Eiríkur rauði tímans vegna getað verið samtímamaður barnabarna
25 ísl. fornr. I, 135-37.
26 Jón Jóhannesson, Gerðir Landnámabókar, Reykjavík 1941, bls. 192-93; Isl.
fornr. I, 135, nmgr. 5.
27 Gerðir Landnámabókar, 193; Isl. fornr. I, 136, nmgr. 1.